Kjarnar - 01.09.1950, Page 54
Vinur minn Sherlock Holmes var lengi að ná sér eftir
það erfiði, sem hann varð að þola vorið 1892; hinar flóknu
rannsóknir, sem hann hélt fyrir hönd „Holland-Sumatra“
félagsins og hinir miklu glæpir baróns Maupertuis eru
efni í langa sögu. En allt þetta gaf Sherlock Holmes
færi á að sýna hvílíkur snillingur hann var að koma upp
glæpum. í dagbók minni sé ég, að það hefur verið 14.
apríl, sem ég fékk símskeyti frá Lyon þess efnis, að
Holmes lægi sjúkur á gistihúsinu Dulong. Daginn eftir
var ég kominn til Lyon og gladdist að sjá, að sýkin virtist
ekki hættuleg. Þá tvo mánuði, sem hann hafði haldið
rannsóknirnar, hafði hann unnið stöðugt 15 tíma á dag,
og hafði sú þrælkun tekið á hans stálhrausta skrokk.
Þrátt fyrir alla hans sigurvinninga og þrátt fyrir að
hann var frægur orðinn um alla Evrópu, þjáðist hann
samt af megnasta þunglyndi. Þótt hann hefði leyst þann
hnút, sem sameinað lögreglulið þriggja stórþjóða hafði
orðið að gefast upp við, og þótt hann hefði afhjúpað og
komið upp um slægustu fjárglæframenn í Evrópu,
gat þó ekkert af þessu orðið til þess að létta sálarbyrði
hans. Vinur minn þarfnaðist umfram allt hvíldar, og
vissi ég að hann gat ekki notið hennar nema með því
52
Kjarnar — Nr. 13