Helgarpósturinn - 21.08.1986, Blaðsíða 15

Helgarpósturinn - 21.08.1986, Blaðsíða 15
SlSffl HP SPÁIR I HVAÐ RÆDUR MESTU UM VAL FÓLKS Á ÍBUÐARH ÚSNÆÐI Mikil hreyfing hefur veriö á fasteignamark- adnum í sumar, en framboðid engan veginn annað eftirspurn. Greinilega munu margir halda aö sér höndum þar til hin nýju lán Hús- nœðisstofnunar komast í gagnið um næstu mánaðamót; þótt enn sé óljóst hvenœr þau koma til útborgunar. En hvaða þœttir skyldu einkum hafa áhrifá val fólks á íbáðarhúsnœði, hvort það kýs nýtt húsnœði eða gamalt, Breiðholtið eða Ping- holtin, bárujárn eða steinsteypu?Er valið e.t.v. kynslóðabundið að einhverju leyti? Hér hafa tekjur að sjálfsögðu sitt að segja, svo og lána- fyrirkomulagið. Við báðum nokkra reykvíska fasteignasala að velta vöngum yfir þessu, svo og hugsanlegum áhrifum nýju húsnœðislán- anna, þá Hall Pál Jónsson hjá Kaupþingi, Þór- ólf Halldórsson hjá Eignamiðluninni, Kolbein Bjarnason hjá Fasteignamiðstöðinni og Þor- stein Broddason hjá Grund. Hallur Páll var ekki í nokkrum vafa um að það færi að einhverju leyti eftir aldri hvort menn veldu nýtt húsnæði eða gamalt. ,,'68 kynslóðin svokallaða hefur gengið með þær grillur að vilja búa í einhverju gömlu og huggulegu, með sál, eins og sagt er,“ segir hann. ,,Þeir sem yngri eru virðast fremur vilja fara i eitthvað nýrra og betra. Það er svo margt annað sem fylgir þeim tíðaranda, öðru vísi lífs- skoðanir að mörgu leyti. Svo hefur ákveðinn hópur fólks farið út í miklar endurbætur á gömlu húsnæði en lent í bölvuðu basli vegna þess að slíkt getur orðið mjög dýrt. Fóik hefur kannski ekki gert sér grein fyrir því í rómantík- inni hvað þetta kostaði. SPURNING UM STÍL OG VERÐMÆTAMAT Þá taldi Hallur Páll ekki ólíklegt að sókn yngra fólks, segjum undir þrítugu, í nýtt eða nýlegt húsnæði stafaði að einhverju leyti af því að það hefði sjálft alist upp í slíku húsnæði. Fleiri af þeim sem nú eru milli þrítugs og fer- tugs hefðu aftur á móti kynnst bæði eldra hús- næði og nýju í uppvexti sínum, fæðst inn í gamalt hverfi og flust síðan i nýtt með foreldr- um sínum. „Þeir sem ólust upp í nýrri hverfum telja það eðlilegar kröfur að komast í eitthvað svipað húsnæði, ekki lélegra, en þeir sem eru t.d. aldir upp í gamla Skuggahverfinu eins og ég finnst slíkt húsnæði bara allt í lagi," segir Hallur. Þá taldi hann að verðmætamat fólks gæti verið svo margs konar þegar það væri að velja sér húsnæði: ,,Ég hef rekið mig á að býsna margir sem kaupa tiltölulega nýlegar eignir, segjum tíu ára gamlar, kalli allar innréttingar gamalt rusl, fleygi þeim út og kaupi nýjar. Þótt þessir hlutir séu vel nothæfir þá teljast þeir æði lélegir í augum þessa tiltekna fólks. Það segir sitt um verðmætamat þess. Sumir byggja umgjörð um líf sitt, einhvern kassa með alls konar græjum og parketi á gólf- um. En aðrir huga meira að staðsetningunni og umhverfinu sem slíku, vilja miklu heldur búa í þröngri hliðargötu í Þingholtunum held- ur en uppi í Breiðholti þótt þar sé hægt að fá miklu betri íbúð fyrir sömu upphæð. Þetta er allt spurning um stíl og verðmætamat," segir Haliur Páll. YNGRA FÓLKIÐ ÓRÓMANTÍSKARA OG SKYNSAMARA Hinir fasteignasalarnir voru nokkuð sama sinnis. „Það er rétt að mjög algengt er að ungt fólk geti ekki hugsað sér að flytja í gamalt hús- næði,“ segir Pórólfur Halldórsson. „Frávikin eru bara þau að fólk vill fara heim í átthagana, vill flytjast aftur í bernskuhverfið sitt, sækist eftir eldra húsnæði á þeim forsendum. Mér finnst yngra fólkið heldur ekki eins rómantískt að tiltölu og fólk á fertugsaldrinum, sækist ekki eftir uppruna sínum í jafn ríkum mæli. Þá sagði Þórólfur að þeir sem væru aldir upp í Breiðholtinu vildu margir halda sig áfram við það hverfi. „Svo eru aftur á móti ýmsar fóbíur í gangi,“ bætir hann við. „Sumir segjast aldrei ætla að flytjast upp í Breiðholt. Þá segir maður sem svo að þar búi nú þrjátiu þúsund manns og liki bara ágætlega. Svo lætur fólk sig kannski hafa það, eins og það kallar það, og líkar svo bara alveg stórvel, finnst Breiðholtið sannkallað sómahverfi.“ „Kannski má segja sem svo að það fólk sem velur íbúðir í eldri hverfum eins og Þingholt- unum búi yfir vissum listrænum sveiflum," segir Kolbeinn Bjarnason. „Framboðið skiptir líka máli í þessu samhengi. En sem betur fer er smekkur manna misjafn." Þorsteinn Broddason segir að ekkert fari á milli mála að eftirspurn eftir eldra húsnæði hafi minnkað jafnt og þétt á síðastliðnum ár- um. „Ég hef rekið mig á að ungt fólk vill yfir- leitt yngra húsnæði: steinsteypu," segir Þor- steinn. „Og ekki nóg með það. Margir þeirra sem keyptu timburhúsnæði milli '70 og ’80 vilja gjarnan fara í nýtt. Það er visst afturhvarf til þess sem feður þeirra og mæður sóttust eftir á sínum tírna." Því telur Þorsteinn að þessi viðhorfsbreyt- ing, að velja fremur nýlegt húsnæði en gamalt, sé fremur almenn en kynslóðabundin. „Fólk milli tvítugs og þrítugs og svo aftur þessi svo- kallaða '68 kynslóð hefur óhemju ólík lífsvið- horf,“ segir hann. „Yngra fólkið er miklu meira efnishyggjufólk, kannski bara skynsamara. Þetta er kynslóð stereótækjanna og mynd- bandanna en ég fæ þó ekki betur séð en marg- ir af minni kynslóð séu orðnir að stereó- og myndbandafólki. Þeir hafa tekið sneggri stakkaskiptum en maður hefði reiknað með. HÓFLEGA RÚMGOTT TIL HVUNNDAGSLÍFS Við nánari umhugsun sannfærðist Þorsteinn um að skynsemin væri í uppsveiflu. „Menn eru ekki eins ruglaðir og áður,“ segir hann. „Þeir asnast ekki lengur til að kaupa hálfónýt bárujárnshús, og jafnframt hefur því fólki mjög fækkað sem vill búa á þrjú, fjögur hundr- uð fermetrum. Nú felast stöðutáknin greini- lega í einhverju öðru en að búa stórt. Menn hugsa almennt meira um praktísku hliðarnar á húsnæðinu. Fólk vill húsnæði sem hentar því hversdagslega, en hugsar minna um hvernig það geti haldið sig á stórhátíðum. Menn hafa því í auknum mæli kastað nostalgíunni fyrir róða, og hætt að hugsa um stofur undir ferm- ingarveislur. Fólk vill bara fá allt hóflega rúm- gott til hvunndagslífs. Það er orðið skynsam- ara, m.a. vegna þess að það veit að það þarf að borga fyrir hvert einasta hæti sem það kaupir, tryggt í bak og fyrir.“ Fasteignasalarnir töldu að fyrirkomulag húsnæðismálalánanna stýrði beinlínis vali for- gangshópsins svokallaða, þ.e. þeirra sem nú eru að kaupa í fyrsta sinn. „Þetta unga fólk getur í raun bara keypt nýtt húsnæði, segir Kolbeinn Bjarnason, „vegna þess að þegar maður kaupir slíkt húsnæði er eitthvað borgað við undirskrift kaupsamnings, en síðan yfirtekur byggingaverktakinn vænt- anlegt húsnæðislán og maður þarf ekki að setja á það nákvæma dagsetningu. En við kaup á eldra húsnæði þarf alltaf að tilkynna dagsetningu á kauptilboðinu og nákvæma upphæð." Þá sagðist Kolbeinn ekki öfunda starfsfólk Húsnæðisstofnunar þessa dagana. Það þyrfti að vera í forsvari fyrir stjórnmálamennina sem ráða bæði afgreiðsluhraða og upphæðum lán- anna en hefur enn ekki gefið starfsfólki stofn- unarinnar nákvæmar upplýsingar þar að lút- andi. NÝ LÁN: NÝTT HÚSNÆÐI „Já, lánakjörin hafa breyst mjög til batnaðar að undanförnu,” segir Hallur Páll. „Þeir sem keyptu fyrir nokkrum árum fengu tiltölulega mjög lág lán, t.d. 250 þúsund til kaupa á gam- alli kjallaraholu. I dag geta þeir sem njóta fullra réttinda fengið heila milljón til kaupa á gömlu húsnæði. Kaupi þeir í nýbyggingu fá þeir rúmlega eina og hálfa milljón. Greiðslu- tíminn hefur líka verið lengdur upp í fjörutíu ár. Hér er um algjöra byltingu að ræða. Því hef- ur margt ungt fólk í dag möguleika á því að spara í tvö ár eða svo, og byrja svo búskap ann- að hvort í stóru og rúmgóðu eldra húsnæði eða jafnvel nýju.“ Þá sögðu fasteignasalarnir að húsnæði hefði hækkað nokkuð að undanförnu sökum mikill- ar eftirspurnar, en þeir treystu sér ekki til að spá í það hvort það ætti eftir að hækka veru- lega þegar nýju húsnæðislánin kæmust í gagn- ið. En þeir töldu líklegt að mjög margir í for- gangshópnum myndu hoppa yfir tveggja, þriggja herbergja íbúðirnar yfir í stærra hús- næði. Þá vona þeir í lengstu lög að framboðið aukist til muna með haustinu, nú sé það baga- lega lítið. „Stundum er erfitt eða ógerlegt að verða við óskum fólks,“ segir Þórólfur. „Ég hef t.d. orðið var við það undanfarin misseri að fólk er farið að sækja aftur i stórfjölskylduna, börnin flytja inn með foreldrum sínum með sín börn, og þá leitar það eftir tveimur, þremur íbúðum í sama húsinu. Ég sé ekki betur en þetta sé vísir að aft- urhvarfi til stórfjölskydunnar gömlu. Og þetta er fólk af öllu tagi, síður en svo úr einum þjóð- félgashópi öðrum fremur." KVENFÓLKIÐ RÆÐUR MEIRU Talandi um þjóðfélagshópa sagði Þórólfur að þá stýrði fjárhagurinn oft húsnæðisvalinu meira en löngunin: „Fossvogurinn er t.d. dýr, þriggja herbergja íbúð þar kostar hálfri milljón meira heldur en jafnstór ibúð uppi í Breiðholti. Þarna er auðvitað augljós skýring á því hvers vegna ungt fólk sem er að koma undir sig fót- unum fer frekar í Breiðholtið en Fossvoginn. Þarna er það bara spurningin um peninga sem ræður. Ég er líka klár á því að peningarnir ráða því oft að fólk flyst í Þingholtin og Skugga- hver.fið. Þar eru kjallarar og ris sem eru merkj- anlega ódýrari heldur en annars staðar. Því er ljóst að langanir fólks ráða ekki alltaf mestu við val þess á íbúðarhúsnæði.” En hvort kynið skyldi nú hafa meira að segja við húsnæðisvalið? Þorsteinn Broddason er ekki í nokkrum vafa um það: „Kvenfólkið, al- veg tvímælalaust. Þetta segir okkur bara hvernig kynjaskiptingin er yfirleitt. Það eru konurnar sem áfram annast börnin og hugsa um heimilið sem slíkt. Aftur á móti ákveða karlarnir frekar hvaða bíltegund á að kaupa.“ eftir Jóhönnu Sveinsdótturi HELGARPÓSTURINN 15

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.