Morgunblaðið - 08.12.1982, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - 08.12.1982, Blaðsíða 17
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 8. DESEMBER 1982 íslendingar voru sagnaritarar allra norrænna þjóða á 13. öld Sagði dr. Bjarni Guðnason er kynnt var 18. bindi fornritaútgáfunnar, Danakonungasögur Hið íslenska fornritafélag hefur gefið út Danakonungasögur, og er það átjánda bindi íslenskra fornrita, sem félagið gefur út. í þessu bindi, sem er númer XXXV í heildarútgáfu Fornritafélagsins, er að finna Skjöldungasögu, Knýtlingasögu og ritkorn eitt, er nefnist Agrip af sögu Danakonunga. Þetta bindi er mikið að vöxtum, eða alls um 575 blaðsiður að stærð, með 200 blaðsíðna formála, sögutextum, skýring- um, nafnaskrám, ættaskrám, kortum og myndum, eins og venja er í íslenskum fornritum. Dr. Bjarni Guðnason prófessor hefur gefið út þetta bindi. Ljósm: Emilía Bj. Björnsdóttir. Á blaðamannafundi í gær, þar sem kynnt var 18. bindi í útgáfu Hins íslenska fornritafélags á íslenskum fornritum, Danakonungasögur. Á myndinni eru, talið frá vinstri: Brynjólfur Bjarnason frá Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar, Jóhannes Nordal forseti Fornritafélagsins, Bjarni Guðnason, sem séð hefur um útgáfuna, Jakob Benediktsson útgáfustjóri og Andrés Björnsson í stjórn Fornritafélagsins. Fornritafélagið var stofnað árið 1928, og starfaði með mikl- um krafti framan af. Síðar dró þó úr starfsemi j)ess, einkum eft- ir fráfall Jóns Ásbjörnssonar, er var fyrsti forseti félagsins og frumkvöðull að stofnuninni. Á síðustu árum hefur svo nýju lífi verið hleypt í hið virðulega félag, og hefur verið unnið mikið starf í að ljósprenta og gefa út fyrri bindi fornritanna, sem voru upp- seld. Þá var árið 1979 gefin út sérstök hátíðaútgáfa af Heims- kringlu Snorra Sturlusonar í til- efni 800 ára afmælis hans. Nú er svo aftur hafin útgáfa nýrra rita, Danakonungasögur eru fyrstar, og á næsta ári mun koma út Fagurskinna, sem hefur að geyma sögur Noregskonunga. Jóhannes Nordal er nú forseti Fornritafélagsins, en aðrir í stjórn eru þeir Andrés Björns- son, Baldvin Tryggvason, Jónas Kristjánsson og Ottarr Möller. Aðalumboð fyrir útgáfubækur félagsins hefur Bókaverslun Sig- fúsar Eymundssonar haft frá upphafi. Á blaðamannafundi í gær í til- efni útgáfunnar, sagði dr. Bjarni Guðnason, að mikilvægt væri, þótt það vildi oft gleymast, að á miðöldum rituðu íslendingar ekki aðeins sína eigin sögu og Norðmanna, heldur urðu þeir í bókstaflegum skilningi sagnarit- arar norrænna þjóða. Þannig skráðu þeir á öndverðri 13. öld sögur Danakonunga, Orkney- inga, Færeyinga, Grænlendinga og Svía, og sagði Bjarni ekki annað tímabil hafa verið grósku- meira í íslenskri sagnaritun. „Það er eitt merkilegasta atriðið í menningarsögu Islendinga, hvernig þeim tókst að skapa sér þennan sess,“ sagði Bjarni. Á blaðamannafundinum í gær kom fram, að Danakonungasögur hafa aldrei verið gefnar út fyrr á íslandi, og bætir þetta bindi ís- lenskra fornrita úr þeirri vönt- un. Skjöldungasaga segir frá Skjöldungum, hinum fornu Danakonungum, og er því for- söguleg saga, en Knýtlingasaga, sem hermir frá Knýtlingum og er að líkindum kennd við Knút ríka, gerist á sögulegum tíma, en saman mynda þær óslitna sögu Danakonunga úr grárri forn- eskju til loka 12. aldar. Þær skipa því sama sess í sögu Dana og Heimskringla í sögu Norð- manna. Skjöldungasaga er ekki lengur til í heilu líki, en menjum henn- ar bregður fyrir á gömlum bók- um og er leitast við í útgáfunni að fella söguna saman í eina heild, eftir því sem kostur er. Ein helsta leif hennar er í ritum Arngríms lærða, og er á latínu, og fylgir þá með þýðing. Þessi útgáfa Skjöldungasögu er frum- raun, og þrátt fyrir óvissu, sem slíkri endursköpun hlýtur að fylgja, þá er óhætt að fullyrða, að hér er um bókmenntalegan viðburð að ræða, því að Skjöld- ungasaga er forn, frá því um 1200 og er tímamótaverk í íslenzkum miðaldabókmenntum. Hins vegar hefur Knýtlinga- saga komist heil til skila, þegar frá er tekið upphaf hennar. Mik- ill ágreiningur hefur ríkt meðal fræðimanna um heimildir henn- ar og hvernig hún hafi orðið til, og er reynt að greiða úr því efni eftir mætti í formála. Kappkostað er að skýra, hvers vegna Islendingar tóku sér fyrir hendur að skrifa Danakonunga- sögur, og varpar útgáfan ljósi á miklu nánari menningartengsl við Dani en menn hafa fram að þessu gert sér grein fyrir. Þess skal getið, að fyrstu sagnaritar- ar Dana, Sveinn Ákason og Saxi, hafa sannanlega stuðst við munnlegar íslenskar frásagnir, ættartölur, bækur og kvæði, og í Knýtlingasögu eru sótt föng til danskra bóka, Saxa, helgisagna og annála. Danakonungasögur bæta til muna við þekkingu manna á vexti og viðgangi íslenskrar sagnaritunar, draga fram í dagsljósið hin nánu erlendu tengsl og skýra því frekar hina miklu hlutdeild íslendinga í söguritun við upphaf hennar á Norðurlöndum. Útgáfa Dana- konungasagnanna er því merkur áfangi ekki aðeins fyrir íslensk- ar bókmenntir heldur og fyrir danska og norræna menningar- sögu. Lennart Bodström, utanríkisrádherra Svía: Beitum harðari aðgerðum gegn erlendum kafbátum — fari þeir ólöglega inn í sænska landhelgi í framtíðinni — SVÍÞJÓÐ mun halda fast við hlutleysisstefnu sína. En við viljum ekki þvinga neina aðra þjóð til þess að taka upp sömu stefnu og okkar. Eg skil mjög vel áhuga íslendinga á þeim umræðum, sem fram hafa farið um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum. Kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd eru eitt af markmiðum sænsku stjórnarinnar og hún hefur beitt sér fyrir því, að um það yrði gert formlegt samkomulag. En Norðurlönd hafa engin kjarnorku- vopn nú og þurfa alls ekki á slíkum vopnum að halda. Enginn veit held- ur, hvar mörk kjamorkuvopnalauss svæðis ættu að vera. Þannig komst Lennart Bodström, utanríkisráð- herra Svíþjóðar, m.a. að orði á fundi með fréttamönnum að Hótel Sögu á mánudag, en hann er staddur hér á landi i kynnisferð. Bodström varð utanríkisráð- herra Svíþjóðar, er stjórnarskipt- in urðu þar í haust, en lengst af hefur hann verið forseti TBO, sem eru næststærstu hagsmunasam- tök Svíþjóðar með um einni millj- ón félaga. Á fundinum með frétta- mönnum á mánudag lýsti Bod- ström yfir nokkurri svartsýni með framvinduna í efnahagsmálum heimsins. Vesturlönd, sem byggju við markaðsbúskap, ættu við vax- andi atvinnuleysi að etja með minnkandi framleiðslu. Nú væru um 4% vinnufærra manna at- vinnulaus í Svíþjóð og því væri at- vinnuleysi þar mikið vandamál, enda þótt það væri þar minna en víða annars staðar á Vesturlönd- um. En efnahagskreppan væri einnig fyrir hendi í löndum Austur-Evrópu, þótt hún kæmi þar ekki sýnilega fram í atvinnu- leysi, heldur minnkandi fram- leiðslu og það í slíkum mæli, að vöruskorturinn blasti við öllum. Það væri fráleitt, að almenning- ur jafnt í austri sem vestri byggi við versnandi lífskjör, en aðeins á einu sviði — hernaðarsviðinu — ætti veruleg aukning sér stað. Sænski utanríkisráðherrann var spurður um kafbát þann, sem svo ákaft var leitað í sænskri landhelgi fyrr í haust, án þess að nokkur kafbátur fyndist og svar- aði þá: — Við vitum alls ekki, hvort þarna var nokkur kafbátur á ferðinni. Þarna var kannski að- eins um hræringar í sjónum að ræða. Þess vegna er það líka tii- gangslaust að vera með bolla- leggingar um, hvaðan kafbáturinn kann að hafa verið. Ég vona að sjálfsögðu, að ekki muni oftar til þess koma, að erlendir kafbátar Lennart Bodström, utanríkisráð- herra Svíþjóóar. Mynd þessi var tek- in á fréttamannafundinum á Hótel Sögu á mánudag. fari ólöglega inn í sænska lögsögu og við munum beita öllum tiltæk- um ráðum til þess að koma í veg fyrir, að sagan endurtaki sig. En ef svo færi, þá munum við beita miklu harðari aðgerðum gegn þeim en áður. Bodström sagðist hins vegar ekki álíta, að atvik það, er rússneskur kafbátur strandaði í sænskri landhelgi í október í fyrra, hefði orðið til þess að spilla varanlega sambúð Svíþjóðar og Sovétríkjanna. Þegar talinu var vikið að hern- aðarmætti Svía og framlögum þeirra til hermála, sagði Bod- ström: — Við verjum nú um 18 milljörðum sænskra króna til varnarmála og það er það verð, sem við verðum að greiða til þess að halda uppi hlutleysi okkar. Loks var Bodström spurður um kaup Svía á íslenzku lambakjöti, en hann kvaðst engu geta lofað um kaup Svía á því. Hann sagðist hins vegar gera sér fulla grein fyrir því, að þær þjóðir, sem keyptu mikið af iðnaðarvörum frá Svi- þjóð, yrðu líka að geta selt sínar framleiðsluvörur á erlendum mörkuðum og til þess yrðu Svíar að taka tillit. Það vakti athygli fréttamanna, að tveir Sovétmenn voru viðstadd- ir fréttamannafundinn og mun annar þeirra vera starfsmaður fréttastofunnar Novosti en hinn starfsmaður sovézka sendiráðsins á íslandi.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.