Morgunblaðið - 22.01.1980, Qupperneq 20
20
MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 22. JANÚAR 1980
Pltru Útgefandi mMsfoib hf. Árvakur, Reykjavík.
Framkvæmdastjóri Haraldur Sveinsson.
Ritstjórar Matthías Johannessen, Styrmir Gunnarsson.
Ritstjórnarfulltrúi Þorbjörn Guðmundsson.
Fréttastjóri Björn Jóhannsson.
Auglýsingastjóri Baldvin Jónsson.
Ritstjórn og skrifstofur: Aðalstræti 6, sími 10100. Auglýsingar: Aðalstræti 6, sími 22480. Afgreiðsla: Skeifunni 19, sími 83033.
Áskriftargjald 4.500,00 kr. á mánuði innanlands. í lausasölu 230
kr. eintakið.
Söguleg stund í
Dómkirkjunni
Það var söguleg stund í Dómkirkjunni á sunnudag, þegar kaþólskur
prestur steig í fyrsta skipti í stólinn í lútherskri kirkju í
höfuðborginni og fulltrúar fjögurra stærstu kirkjudeildanna,
þjóðkirkjunnar, rómversk-kaþólsku kirkjunnar, aðventista og hvítasunn-
umanna, sameinuðust um eftirminnilega guðsþjónustu, þar sem lúthersk-
ur prestur þjónaði fyrir altari, kaþólskur prédikaði, en fulltrúar hinna
safnaðanna tveggja lásu ritningarorð og bænir. Kirkjan var troðfull og
augljóst, að í raun og veru er það hismi, en ekki kjarni málsins, sem skilur
að kristna menn. Kaþólski presturinn sagði, að þeir sameinuðust í „föður
okkar allra". Og að sjálfsögðu einnig Kristi sjálfum, sem er grundvöllur-
inn. Áherzla var lögð á sameiningu og samstarf kristinna kirkjudeilda,
m.a. með skírskotun í Biflíuna og orð Krists sjálfs.
Þó að það hefði þótt óhugsandi fyrir nokkrum áratugum, hvað þá á
siðskiptaöld fyrir 400 árum, að slík alkirkjuleg guðsþjónusta yrði á Islandi
og miklu fremur viðeigandi að kristnir menn, kaþólskir og mótmælendur,
kölluðu hverjir aðra villutrúarmenn, væri hitt nú jafnóhugsandi, að
kristið fólk gæti ekki talað saman eða starfað saman í Kristi og „föður
okkar allra". Presturinn í Dómkirkjunni sagði: „Vér biðjum þig, Drottinn,
að dýpka skilning vorn á öllu sem varðar einingu kristinna manna, sem
eru dreifðir í þjónustu Guðs ríkis ... að inna af hendi þjónustu sem sé
samboðin Kristi ... að kristnir menn um víða veröld leiti í auðmýkt eftir
bræðralagi svo að eining kirkjunnar verði raunveruleg, Guði til dýrðar" —
og söfnuðurinn svaraði fullum rómi: „Gef að allir séum vér eitt“. Á þennan
einhug var áherzla lögð, svo og umburðarlyndi fyrir vitnisburði ólíkra
kirkjudeilda; umburðarlyndi kristinna manna fyrir skoðunum og reynslu
hver annars.
Ástæða er til að fagna samstarfi kristinna manna, eins og það birtist í
Dómkirkjunni á sunnudag, og rækta bróðurkærleika þeirra í milli. Hin
sögulega stund í Dómkirkjunni verður öllum ógleymanleg, sem þar voru.
Hún varðar veginn. Við ætlum að standa vörð um kristið samfélag á
íslandi og þeir eiga allir þakkir skilið, sem með þessu móti hafa stigið spor
til sameiningar, en ekki sundrungar — hvort sem þeir eru í Reykjavík,
Stykkishólmi eða annarsstaðar. Við það mun íslenzk kristni eflast — og
þá ekki sízt þjóðkirkjan — og ekki veitir af í næsta guðlausum heimi að
styrkja samstarf kristins fólks. Slíkt samstarf í anda kærleikans er
kristinn boðskapur í verki.
Maðurinn lifir ekki af efnahagsmálum einum saman, allra sízt hér á
íslandi, þar sem allir hafa nóg að bíta og brenna og einkum er rifizt um
skiptingu „kökunnar". í mörgum öðrum löndum ríkir aftur á móti
hörmung og hungursneyð. Þar hafa kristnir menn mikið starf að vinna —
og þar hafa þeir sameinazt í kærleiksboðskap Krists. Vonandi verður það
samstarf eflt.
Andúðin á
Sovét magnast
Jimmy Carter Bandaríkjaforseti hefur á ótvíræðan hátt sett fram þá
skoðun sína, að bandarískir íþróttamenn skuli ekki taka þátt í
Olympíuleikunum í Moskvu hafi Sovétmenn ekki kvatt herlið sitt
heim frá Afganistan innan fjögurra vikna. Þessi skoðun forsetans nýtur
stuðnings um 80% bandarísku þjóðarinnar að því er skoðanakannanir
herma og helsti keppinautur Jimrny Carters, flokksbróðir hans Edward
Kennedy, styður sjónarmið forsetans í þessu máii.
Það yrði mikið áfall fyrir Sovétríkin, ef ekkert yrði úr Olympíuleikunum
í Moskvu næsta sumar eða þeir færu þannig fram að íþróttamenn frá
mörgum löndum tækju ekki þátt í þeim. Andstaðan gegn þátttöku er ekki
bundin við Bandaríkin ein. Þrjú Arabaríki hafa þegar tilkynnt, að þau
muni ekki eiga fulltrúa í Moskvu og Saudi-Arabar hafa tekið sér fyrir
hendur að berjast gegn þátttöku almennt meðai Araba. Þá hefur breska
r:'kisstjórnin látið í ljós mikla andúð á því, að íþróttamenn frá Bretlandi
fari til Moskvu og beitt sér fyrir umræðum um málið á vettvangi
Atlantshafsbandalagsins. Ríkisstjórnir Ástralíu, Kanada og Egyptalands
hafa lýst stuðningi við sjónarmið Bandaríkjaforseta.
Eftir að Sovétmenn höfðu beitt neitunarvaldi sínu í öryggisráði
Sameinuðu þjóðanna til að koma í veg fyrir, að samþykkt væri tillaga um
að allt erlent herlið yrði skilyrðislaust kallað út úr Afganistan, var tillaga
um sama efni flutt á allsherjarþinginu, þar sem ekki er unnt að beita
neitunarvaldi. Við atkvæðagreiðslu um málið létu fulltrúar frá 140 ríkjum
í Ijós álit sitt. 104 fordæmdu innrás Sovétríkjanna með því að krefjast
þess, að Rauði herinn hyrfi á brott, átján voru á móti og átján sátu hjá.
Þessi atkvæðagreiðsla er eitt mesta áfall, sem Sovétríkin hafa orðið fyrir
á þessum vettvangi frá því að Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar.
Viðbrögð manna um allan heim við yfirgangi og valdbeitingu
Sovétríkjanna í Afganistan sýna, að loksins virðist það vera að komast til
skila, hvers konar ofbeldisöfl ráða þar ferðinni. Afstaðan til Olympíuleik-
anna og atkvæðagreiðslan í Sameinuðu þjóðunum eru mótmæli gegn
einræði og harðstjórn, ofbeldi og heimsvaldastefnu. Sovétríkin hafa verið
sett á bekk með þeim ríkjum, er skipað hefur verið í skammarkrókinn í
samfélagi þjóðanna. Og var sannarlega tími til þess kominn, að þau hlytu
þar þann sess, sem þeim hæfir.
Árvekni alls almennings á Vesturlöndum gegn þeirri staðfestu ógn, sem
frá Sovétríkjunum stafar, er forsenda þess, að þannig verði um hnútana
búið í varnarmálum, að Kremlverja sé ekki freistað. Innrásin í Afganistan
sýnir, að Sovétmenn hika ekki við að storka öllum heiminum með hervaldi
sínu. Þessari ögrun verður að svara með svo eftirminnilegum hætti, að
ofbeldismennirnir hugsi sig um að minnsta kosti tvisvar, áður en þeir
lyfta hramminum næst.
Helgi Hálfdanarson:
Orðarækt
Upp úr áramótunum stakk ég
nokkrum línum í blað, þar sem
ég minntist á orðin „hitastig" og
„hitahæð" og hugtökin að baki
þeim. Vilhjálmur Þór Kjartans-
son svaraði mér tvívegis; hið
síðara sinn með fallegri mál-
efnagrein í Morgunblaðinu 15.
þ.m.
Ég er Vilhjálmi þakklátur
fyrir að taka því vel að víkja
broslegri deilu um svo augljóst
mál sem árafjölda í tug til
nytsamlegra umræðuefnis, þar
sem er fræðilegt orðafar um
raungreinar. Og ég tek undir ósk
hans um að fleiri segi þar álit
sitt.
Vilhjálmur bendir á, að í
orðabókum megi finna orðinu
„hitastig" þá merkingu, sem ég
taldi betur borgið í orðinu „hita-
hæð“ eða einungis „hiti“. Þetta
varðar að vísu ekki efnið í
greinum mínum, þar sem ég
notaði „hitastig" í ótvíræðri
merkingu í þeim báðum. En af
þessum sökum virðist mér Vil-
hjálmur hlynntur því að segja
„gráða“ fremur en „(hita)stig“
um mæli-einingu á hita, enda
þótt hann telji það fara fyrir
brjóstið á „málhreinsunar-
mönnum", hverjir sem það nú
eru.
Þegar fræðimál á í hlut,
hrökkva orðabækur einatt
skammt, svo sem vonlegt er, því
lengi hefur margt verið á reiki í
þessum efnum. Hér má til dæm-
is benda á, að orðið „varmi", sem
við nefndum báðir, er í Blön-
dals-orðabók þýtt með danska
orðinu „Varme", sem Freysteinn
þýðir í sinni orðabók (1926)
meðal annars með báðum orðun-
um „varmi" og „hiti“; enda hefur
munur þeirra orða til skamms
tíma fremur tekið til stílgildis
en merkingar.
Nú fer því fjarri, að ég amist
við orðinu „gráða" vegna þess að
það sé af erlendum toga. Ég tel
einmitt, að raungreinar hljóti af
brýnni nauðsyn að nota mikinn
sæg af tökuorðum, og „gráða" er
ágætt tökuorð. Hins vegar er
uppruna-merking þess ná-
kvæmlega hin sama og merking
íslenzka orðsins „stig,“ og nauð-
syn á tökuorði er engin. Það
mætti því hlálegt kallast að
velja fremur erlenda orðið, og
það gegn málvenju, í því skyni
einu að geta látið hið íslenzka
orð gegna að þarflausu öðru
hlutverki, sem því hæfir verr;
þar er það beinlínis villandi, eins
og dæmi sanna.
Raunar kannast ég ekki við, að
„gráða" hafi verið mikið notað
orð nema þá í flatarmálsfræði.
Um hita-mælieiningu hefur
„stig“ hins vegar verið haft öðru
fremur í háa herrans tíð. Mál-
snillingurinn Magnús Grímsson
notar „stig“ en ekki „gráða" í
þýðingu sinni á Eðlisfræði
Fischers, sem Bókmenntafélagið
gaf út árið 1852. Og það orð
hefur að undanförnu látið vel í
eyrum útvarpshlustenda marg-
oft á degi hverjum áratugum
saman. Og aldrei minnist ég þess
að hafa heyrt tíu stiga hita
kallaðan „tíu gráðna hitastig". í
orðabókum er, sem fyrr segir,
margt á reiki. En um danska
orðið „Grad“ hefur Freysteinn
(1926); stig, mælistig, hitastig;
ekki gráða; og Sig. O. Bogason
(1976); stig, mælistig, ekki gráða.
Um þýska orðið „Grad“ segir Jón
Ófeigsson (1935): stig, mælistig;
ekki gráða; „20 Grad Kálte, 20
stiga kuldi" stendur þar. í hinni
nýju útgáfu Freysteins-orðabók-
ar (1957) standa bæði orðin, stig
og gráða. Og í orðabók Þórhalls
Þorgilssonar (1953) segir m.a.
um franska orðið „degré“:
gráður, stig (20 degrés de froid:
20 stiga kuldi). Um orðið „gráða"
segir Árni Böðvarsson meðal
annars: mælieining, stig. Og í
Blöndals-orðabók fær „gráða"
merki, sem þýðir: „udenlandsk
Laaneord, alm. í daglig Tale, is. í
Byerne; ikke anerkendt í Skrift-
sprog“; og þar er vísað á orðið
„stig“. En um „stig“ í eðlisfræði
segir Árni: „eining til að mæla
hitamismun (misstór eftir mæli-
kerfum)“.
Það er ljóst, að hringl með
fræðiorð getur verið mjög baga-
legt, og ber að forðast það eins
og heitan eld í lengstu lög. Og þó
liggur það í hlutarins eðli, að þar
verður allt að vera til sífelldrar
endurskoðunar, svo að mál fylgi
sem bezt þörfum hvers tíma.
En þá kem ég að því, sem ég
vildi öðru fremur brýna í þetta
sinn, og það er nauðsyn þess, að
fræðimenn ýmissa greina og
sérfræðingar um íslenzkt mál
taki höndum saman til orða-
ræktar, vinni hvorir með öðrum
að þróun íslenzks sérfræðimáls,
leggist á eitt um lausn þess
vanda að gera íslenzka tungu
hlutgenga á öllum sviðum
nútíma-fræða. En ef vel skal til
takast, þurfa fræðimenn að geta
leitað vitneskju og ráða til ein-
hverrar einnar stofnunar, sem
hefði slíkum skyldum að gegna.
Nú vill svo til, að fyrir nokkr-
um árum var skiguð opinber
sérfræðinga-nefnd, Islenzk mál-
nefnd, sem meðal annars var
ætlað að sinna slíku kynningar-
og leiðbeiningar-starfi. En sá
hængur var á, að blessuðum
stjórnvöldunum láðist að sjá
henni fyrir afli þeirra hluta sem
gera skal. Nefnd þessi hefur frá
upphafi verið í fjársvelti og þess
vegna hlotið örlög Kröfluvirkj-
unar, sem stendur albúin hinum
beztu tækjum, en aðgerðalaus að
kalla, vegna þess að aflið, sem
nýta skyldi til starfsins, lætur á
sér standa.
Þó er sá munur á, þar sem
íslenzk málnefnd á í hlut, að
ekki þarf annað til úrbóta en
skilning ráðamanna á þeirri
menningarnauðsyn, sem þar er
svo hrapallega vanrækt.
Vonzkuyeður á loðnumiðunum
VONZKUVEÐUR hefur verið á loðnumiðunum úti af Vestfjörðum síðan á
föstudagskvöld og enginn afli fengist. Mikill floti loðnuskipa og togara liggur nú í vari
undir Grænuhlíð og inni á fjörðum vestra. Heildaraflinn er nú orðinn um 66 þúsund
lestir og hafa því 2/3 hlutar þess afla fengizt, sem leyft hefur verið að veiða nú.
Meðfylgjandi mynd er tekin í Vestmannaeyjum er fyrstu loðnunni á vertíðinni var
landað þar í lok síðustu viku. (Ljósm. Sigurgeir).