Morgunblaðið - 10.06.1980, Síða 12

Morgunblaðið - 10.06.1980, Síða 12
12 MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 10. JÚNÍ1980 Ottó A. Michelsen forstjóri — Sextugur Ottó A. Michelsen, forstjóri IBM á íslandi, er sextugur í dag, 10. júní. Áður fyrr voru sextíu ár hár aldur, en ef marka má af Ottó hefur það breytzt til hins betra, svo að um munar. Maðurinn er kvikur, sístarfandi af fullum þrótti, og heilsan í bezta lagi. Hárið er að vísu farið að grána lítillega, en slíkt fer ekki mjög eftir aldri. Ottó er fæddur og uppalinn á Sauðárkróki. Foreldrar hans voru hjónin Jörgen Franch Michelsen, úrsmiður, og Guðrún Pálsdóttir. Ungur hleypti hann djarfur heim- draganum, og sigldi utan til náms í því fagi, sem síðar gerði hann vel þekktan um land allt. Hann hóf nám í skrifvélavirkjun í Þýzka- landi skömmu fyrir seinustu heimsstyrjöld, og lauk því þar og í Danmörku á styrjaldarárunum. Heim kom hann svo fljótt, sem unnt var, og hóf að starfa í fagi sínu. Ottó ávann sér fljótlega mikið traust sem vandvirkur, nákvæmur og sannur fagmaður. Þessir kostir voru honum eðlis- lægir, en einnig gerði hann sér ljóst frá upphafi, að ekkert tæki er betra en sú þjónusta, sem það fær. Enn þann dag hefur hann ekki slakað hársbreidd frá þessu sjón- armiði sínu. Árið 1946 stofnaði Ottó fyrir- tækið Skrifstofuvélar utan um starfsemi sína, og breytti því í hlutafélag 1961, en er ásamt fjölskyldu sinni aðaleigandi þess. Árið 1950 gerðist Ottó umboðs- maður fyrir IBM, og um það leyti koma til íslands fyrstu skýrsluvél- arnar, sem voru undanfari nútíma tölva. Tvö önnur fyrirtæki stofnaði Ottó einnig utan um hina ört vaxandi starfsemi, innflutnings- fyrirtækið Ottó A. Michelsen hf. og Skýrsluvinnslu Ottó A. Mich- elsen. Þetta fyrirkomulag hélzt þar til snemma árs 1967, að IBM stofnsetti hér eigið útibú, IBM á íslandi. Þá tók Ottó við forstjóra- starfi þess, en hélt jafnframt áfram starfi stjórnarformanns Skrifstofuvéla hf, sem ennfremur tók þá yfir innflutningsverzlun- ina. Bæði hafa þessi fyrirtæki dafnað og eflzt, þannig að nú vinna samtals á annað hundrað manns undir stjórn Ottós hjá þessum tveim fyrirtækjum, IBM á Islandi, og Skrifstofuvélum hf. Sá, sem þessar línur ritar, réðist til starfa fyrir Ottó hjá Skrif- stofuvélum hf. fyrir rúmum 13 árum síðan. Það er gott að vinna fyrir Ottó, og samstarfið hefur verið með þeim ágætum, að ekki verður á betra kosið. Hann hefur gefið mér stór og dýrmæt tæki- færi, sem erfitt er að meta að verðleikum, og vil ég nota þetta tækifæri til að færa honum inni- legt þakklæti mitt. Ottó hefur ríka ábyrgðartilfinn- ingu, hann er kröfuharður til starfsmanna sinna um heiðar- leika, trúmennsku og að menn leggi sig fram við hvaðeina, sem þeir taka sér fyrir hendur, en mestar kröfur gerir hann til sjálfs sín. Ottó er dagfarsprúður maður og hlýr í viðmóti, en ekki er hann skaplaus. Þó hefi ég ekki séð hann bregða skapi, svo mikil er sjálfs- stjórnin. Hann getur verið fastur fyrir, þegar honum býður svo, og lætur þá ekki hlut sinn fyrir neinum, en hann kann engu síður að virða vilja annarra og er lipur í samvinnu. Ottó er mikill Sauðkræklingur, mikill Skagfirðingur og mikill íslendingur. Hann ann landi sínu og þjóð, og er hreykinn af að vera Skagfirðingur, eins og þeim hættir mörgum til. Römm taug tengir hann Sauðárkróki enn í dag, þar á hann lítið hús, sem hann leitar títt í sér til hvíldar og friðar frá erilsömum störfum. Hestamaður er hann, eins og sannur Skagfirð- ingur, bregður sér oft á bak, og hirðir sína hesta sjálfur í félagi við góðan vin. Ottó getur brugðið á leik, og tekið upp gamla siði, svo sem að mæta við opnun á kjörstað með tvo til reiðar, enda árrisull daglega. Reglumaður er hann á vín og reykingar, en þykir gott að fá sér korn og korn í nefið með öðrum, og kann lagið á að skapa viðeigandi stemmningu, svo að úr verður athöfn. Ottó A. Michelsen er hugsjón- amaður, og er oft hestslengd á undan sinni samtíð. Með braut- ryðjandastarfi sínu í tölvuvæð- ingu íslands hefur hann markað sín dýpstu spor, sem almennt sjást, og mun nafn hans lengi verða tengt þessari nýju tækni. Hann var framsýnn, þekkti sinn vitjunartíma, og lagði meira að sér til að flytja þessa tækni til íslands en menn órar fyrir. Tölvu- tæknin á eftir að breyta lífi manna meir og á skemmri tíma en iðnbyltingin gerði á sínum tíma. Athafnaþrá Ottós fær ekki fulla útrás við erilsamt brauðstrit. Hann er ekki síður hugsjóna- maður í félagsmálum, sérstaklega kirkjumálum, mannúðarmálum og menntunarmálum. Hann er for- maður stjórnar Hjálparstofnunar kirkjunnar, safnaðarfulltrúi Bústaðasafnaðar, á sæti í fram- kvæmdaráði Stjórnunarfélags Is- lands, í stjórn Verzlunarráðs íslands, og í stjórn Hjartaverndar, svo að aðeins fá dæmi séu nefnd um þau mörgu og margvíslegu svið, sem hann starfar að. Bústaðakirkja er eitt af hans uppáhalds málefnum. Hann var formaður kirkjubyggingarnefnd- ar, þegar kirkjan var í smíðum, auk margra annarra trúnaðar- og félagsstarfa í söfnuðinum. Ekki nægðu þessi ábyrgðarstörf, því mörg kvöld, eftir fullan vinnudag, og margar helgar tók hann til hendinni við mörg þau verk, sem óunnin voru í byggingunni, oft í hópi góðra vina, en stundum einn. Ottó er mikill gæfumaður. Hann á góða og glæsilega, skag- firzka konu, Gyðu Jónsdóttur, og hefur hún búið fjölskyldu þeirra hlýtt og notalegt heimili. Þau hjón eiga fjögur mannvænleg börn, tvíburana Kjartan og Óttar, og dæturnar Helgu og Geirlaugu. Þrjú eldri börnin eru flutt að heiman, en hið yngsta, „stóri sólargeislinn," dvelur enn í föð- urgarði, og veitir foreldrum sínum ómældan yl og hlýju. Öll eru börnin við nám, ýmist erlendis eða hérlendis. Tvö börn átti Ottó fyrir giftingu, Helgu, búsetta í Þýzka- landi, og Theodór, kerfisfræðing, sem rekur sjálfstæða starfsemi í fagi sínu hér. Ottó heldur daginn í dag há- tíðlegan með reisn, eins og sönnum Skagfirðingi sæmir. Úr fjarlægð sendi ég honum og fjöl- skyldu hans hjartanlegar ham- ingjuóskir á þessum merkisdegi í lífi þeirra, og árna þeim velfarn- aðar á komandi áratugum. Sigurður Gunnarsson. Sá er beztur kostur tímamóta, að þau skerpa hugsun, þegar litið er til baka og það skoðað, sem gerir þau sérstök. Þetta þekkjum við frá merkisdögum þjóðar, og ekki er slíkt síður ofarlega í huga, þegar staldrað er við á tímamót- um þeirra einstaklinga, sem sterkar hafa snert manns eigin sögu en algengt er. Þegar vinur minn, Ottó Michel- sen fyllir sex tugi ára, er því eðlilegt að myndir liðinna ára, þar sem hann er í öndvegi eða nærri því, gerist býsna áleitnar. En sá er kostur þeirra, að áleitni þeirra er mér mjög ljúf, þar sem þær laða fram í huga atburði, sem ég vil ekki láta liggja í þagnargildi eða gleyma. Það þekkja þeir, sem þau húsin byggja, að stigar tengja hæðir, að misjafnlega drepur fólk niður fæti. Eru sumir harla þungstígir, svo að í öllu marrar, meðan aðrir rétt nota þrep til að gera sér flugið léttara. Áldrei hef ég vitað Ottó vera þungstígan, og þó má rekja spor hans harla víða. Og það sem meira er um vert, að sporin hans leiða ætíð að þeim málum og verkefnum, sem heill fylgir og ágæt þykja í augum allra þeirra, sem ekki setja glapgler sér fyrir augu. Fundum okkar bar saman fyrir þó nokkuð mörgum árum. Þá þóttu verkefnin, sem hann var að kynna á íslandi býsna merkileg og starfssagan hans væri ekki ófor- vitnilegt verkefni söguglöggum manni til að færa til bókar. Hann hafði sem sé útvíkkað svo verksvið sitt, að í staðinn fyrir það að ganga með verkfæratösku sína eða þregða henni á hjól sitt, er hann hélt af einni skrifstofunni til annarrar til að gera við ritvélar og líta eftir þeim, þá var hann farinn að kynna hér tæki, sem þóttu harla ótrúleg, enda fengu þau heitin rafmagnsheilar eða eitt- hvað enn annað furðulegra. En hvort sem Ottó var með skrúfjárn- ið sitt í hendinni hér áður fyrr að gera skrifstofufólki verk sín auð- veldari eða að kynna flókin tæki og koma þeim á framfæri, var hann ætíð hinn sami. Eldmóður æskumannsins hefur ekki yfirgef- ið hann. Og sporin voru alltaf jafn fislétt. Það þykir sumum hæfa að gera lítið úr því, sem þeir kalla „ung- mennafélags rómantík" og kenna við aldamótin síðustu og áratug- ina þar á eftir og finnst mér það einkennilegt. Var einkennið sterk ættjarðarást og fullur hugur til þess að vinna landi sínu og þjóð gagn. Hefur þeim líka mörgum tekizt það ágæta vel. Ottó hefur varðveitt hugsjón sína óspillta. Kemur það að vísu á stundum fyrir, að hann hristir höfuðið yfir því, sem honum finnst alveg furðulegt, þegar hann mætir tóm- læti og finnst lítið gert úr því, sem hann er sannfærður um að horfir til bóta, en slíkt kemur þó aldrei inn hjá honum uppgjafartón eða vonleysisvíli. Hann tekur aðeins þeim mun fastar á sjálfur, sem honum finnst aðrir vera að slaka á. Og efst er ætíð sú hugsun hans að vinna landi sínu og þjóð eitthvert það gagn, sem nú þegar bætir hag og gerir landið betra fyrir komandi kynslóðir. En á einu sviði hafa leiðir okkar legið þéttast saman. Því kynntist ég snemma, að Ottó talar ekki að óhugsuðu máli og stendur síðan ótrauður við það, sem hann ákveð- ur. Þá var ég á biskupsstofu að vinna að æskulýðsmálum, en hann var í sama húsi að byggja upp IBM á íslandi. Var þá árið 1963 ákveðið, að Reykvíkingar skyldu fá fleiri presta en verið hafði. Beindi ég þegar sjónum mínum í austurbæinn og vildi vera prestur í Bústaðasókn frekar en annars staðar. Þar átti Ottó heima og á enn í Litlagerðinu, sem er einhver snyrtilegasta gatan í borginni, þótt ekki hafi hún unnið til verðlauna. Og þar sem kapp mitt var nokkuð um að ná kosningu, spurði ég Ottó á ganginum einu sinni, hvort hann gæti hugsað sér að styðja mig. Eg gleymi því aldrei, hversu mér fannst langt líða frá því ég bar upp spurningu þar til hann svaraði. Var ég farinn að sársjá eftir því að hafa haft orð á þessu og ætlaði að fara að slá á léttari strengi til að bjarga báðum frá leiðindum. En þá kom svarið: „Jú, það get ég vel hugsað mér. Já, ég skal styðja þig, en það máttu vita, að þá ætlast ég líka til nokkurs í staðinn". Síðan hafa leiðir legið saman, og það endur- gjald stuðnings, sem Ottó fór fram á, var einfaldlega það, að við leituðumst við að vinna það verk í söfnuðinum, sem væri í samræmi við köllun kirkju í alhliða þjón- ustu við söfnuðinn. Og ekki hygg ég það vera fjarri lagi eða karla- grobb eitt, þó að sagt sé á heiðursdegi Ottós, að nokkuð hafi áunnizt. Bústaðakirkja er fagurt hús. Ottó á ekki aðeins mörg handtökin í byggingunni. Hann var frá upp- hafi formaður byggingarnefndar, þar sem ég þjónaði einnig, og ekki verður tölu komið á fundina, sem við sátum með arkitektinum Helga Hjálmarssyni eftir að hann tók við verkinu úr hendi húsa- meistara ríkisins, Harðar Bjarna- sonar, sem í upphafi fól honum starfið og fylgdist með því. Þar var bæði unnið af ást á verkinu og góðum metnaði. Er það vel, þegar þetta fer saman, og þannig hefur það verið í þeim málum, sem Ottó gerir að sínum. Það væri óeðlilegt, ef jafnviljasterkir menn og kapp- samir og safnaðarfulltrúinn og presturinn hefðu alltaf verið á sama máli. Ætlaðist líka hvorugur til þess. En það er ekki sízt þakkarefni í dag, þegar litið er til baka yfir nokkuð langa sögu og að mínu mati merka, að hafa fengið að snúa bökum saman og sjá þann árangur erfiðis, sem raun ber vitni. En Ottó var það ekki nóg að koma húsinu upp. Og fátt held ég hafi fært honum ríkulegri gleði en mega þjóna við altari kirkju sinnar. Sótti ég um leyfi til biskups fyrir Ottó að mega að- stoða við útdeilingu sakramentis- ins, og þar fylgir slík lotning fyrir helgri þjónustu, að allir hljóta að finna, sem líta. Og með árunum hefur sjóndeildarhringurinn stækkað og verkefnin aukizt. Þannig að það er ekki aðeins Bústaðakirkja, sem nýtur þjón- ustu Ottós Michelsen, heídur Reykjavíkurprófastsdæmið allt, þar sem hann hefur sífellt verið kallaður til ábyrgðarmeiri þjón- ustu, og nú síðast að vera formað- ur fyrir þeim sjóði, sem borgin leggur til styrktar kirkjubygging- um, og er hann sá fyrsti, sem þá forystu veitir úr hópi leikmanna. Þá má ekki gleyma því, að Ottó er formaður Hjálparstofnunar kirkjunnar, hinn annar sem gegn- ir því starfi, og þá afmælisgjöf færir hann kirkju sinni og þjóð, að þau hjónin hafa látið fé af hendi rakna til þess að gefa út orðalykil þeirrar Biblíu, sem nú er verið að vinna að þýðingu á. Ottó hefur víða komið við, og er hér aðeins drepið á fátt eitt, enda er hugur hans sterkur og þrekið takmarkalaust. Alls staðar gengur hann fram af kappi, hvort heldur er við að sinna hestum sínum ágætum eða mæta á sömu mínút- unni við dyr Laugardalslaugar. Hann hefur líka vel notið dugnað- ar síns og komizt vel áfram, eins og einu sinni var sagt. Kann hann vel að meta það, og þykist ég þó vita, að ekkert sé honum ríkulegra þakkarefni en heimili hans ágætt, þar sem hans góða kona, Gyða Jónsdóttir, hefur haldið vel log- andi á heimilisarninum, og fer saman á þeim stað barnalán og foreldralán. Um leið og ég þakka afmælis- barni í eigin nafni og fyrir hönd safnaðar hans og prófastsdæmis, vil ég láta þess getið, að Ottó tekur á móti sínum mörgu gestum í Súlnasal Hótel Sögu milli kl. 5 og 7 í dag. Er ekki að efa, að þar verður margt manna saman kom- ið, svo víða má rekja spor Ottós A. Michelsen. Gefi Guð honum heilsu góða, svo sem hann hefur notið og þá heill með hamingju, sem ríkast er þakkarefnið í dag. Til ham- ingju, kæri vinur. ólafur Skúlason Heimspekideild- arstúdentar: Kennslu í dönsku stefnt í voða MBL: hefur borizt eftirfarandi frá stjórn Félags stúdenta í heimspekideild Háskóla íslands: „Stjórn Félags stúdenta í Heim- spekideild mótmælir harðlega vinnubrögðum meirihluta Há- skólaráðs við umfjöllun um sam- þykkt deildarráðs Heimspeki- deildar varðandi lektorsstöðu í dönsku. Ástæður mótmælanna eru einkum þessar: 1. Samþykkt Háskólaráðs um að auglýsa stöðuna gengur þvert á tillögu deildarráðs Heimspeki- deildar, sem samþykkt var með 7 samhljóða atkvæðum kennara og fulltrúa stúdenta, og studdist m.a. við álitsgerð lögfræðings Haskól- ans. 2. Með auglýsingu stöðunnar nú í maílok er kennslu í dönsku næsta vetur stefnt í voða, þar eð tvær af þremur föstum stöðum í greininni verða þá lausar og nýir kennarar koma ekki til starfa fyrr en við upphaf haustmisseris. Þegar ofangreindar aðstæður eru hafðar í huga, er erfitt að sjá, hvaða ástæður hafa legið að baki ákvörðun Háskólaráðs." VÖTN OG VEIÐI Silungsvötn á Suður- og Vesturlandi Landssamband veiðifé- laga hefur gefið út bækl- inginn „Vötn og veiði". Fjallar hann um silungs- vötn á Suður- og Vestur- landi, en þörf hefur verið á slíkum upplýsingum í bók sem þessari. í bókinni er kort af hverju veiðivatni ásamt ýmsum upplýsingum, svo sem um sölustaði veiði- leyfa, fisk-tegunda, tjald- stæði o.fl. Formálsorð eru á íslensku, norsku og ensku. Ætlunin er að dreifa bækl- ingnum til sölu í bókabúðir, einnig mun Landssam- bandið senda hann í póstkröfu til þeirra sem þess óska.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.