Morgunblaðið - 07.07.1981, Blaðsíða 36

Morgunblaðið - 07.07.1981, Blaðsíða 36
36 MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 7. JÚLl 1981 Pálmi Þórðarson - Minningarorð Fæddur 12. september 1931. Dáinn 27. júní 1981. A gullbjörtum sumardegi stend- ur Pálmi Þórðar, æskuvinur minn, á tröppunum hjá mér, baðaður sólarljósinu og sumarblíðunni. Þetta var í fyrrasumar og hann kominn yfir hafið hingað heim til að vitja sinna nánustu og hverfa til landsins síns, sem hann alltaf þráði, þó auðnan byggði honum aðsetur í annarri heimsálfu. Og þegar hann gengur inn, fylgir sólin honum og okkur hlýn- ar um hjartarætur í návist mannsins. Hann kemur svona — hann Pálmi — án þess að gera boð á undan sér og öllum finnst eins og hann hafi aldrei farið. Og þó hann hefði farið, þá var aldrei nema steinsnar til hans. Pálmi Þórðarson vék aldrei frá neinum, sem borið hafði gæfu til að verða vináttu hans aðnjótandi. Hann var alltaf hjá okkur, öll þessi ár, sem hann var búsettur vestur í Ameríku og er það enn, þó hann hafi nú, langt um aldur fram, fallið fyrir manninum með ljáinn. Og þarna stendur hann, baðaður Islandssólinni fyrir réttu ári og spyr mig, hvort við eigum ekki að koma og líta til hennar mömmu minnar, sem er að berjast við dauðann á spítala. Hún er þungt haldin og öllum er Ijóst að stutt er eftir. Hún kemst æ sjaldnar til meðvitundar. Pálmi lýtur yfir hana og kyssir hana á vangann. Hún opnar augun og skynjar ekki aðeins sólskinið í návist mannsins, heldur Iíka manninn sjálfan — Pálma. Og skæru bláu augun hennar Ijóma í brosinu. „Pálmi minn. Mikið er ég fegin að þú komst.“ Og Pálmi býður henni að sækja sig heim í fjarlæg gósenlönd, handan við hafið, þar sem háin er slegin fjórum sinnum í mánuði. Þau voru alltaf miklir mátar, hún mamma mín og hann Pálmi, enda var hún mannþekkjari og sá fljótt hvern mann fólk hafði að geyma. Og þarna sem þau hlógu og gerðu að gamni sínu fannst mér eins og dauðanum hefði verið bægt frá um stundarsakir. Þetta var í síðasta sinn, sem ég sá mömmu mína brosa. Þarna kvaddi Pálmi, sem átti lífið framundan, móður mína, sem hafði lokið sínu lífshlaupi. Síðan er aðeins eitt ár. Pálmi Þórðarson hefði orðið fimmtugur í haust og leit stór- huga til framtíðarinnar eins og hans var háttur. Allt líf hans virtist eins og snúast að miklu leyti um það að búa í haginn fyrir aðra, gera mönnum greiða, gleðja fólk og hjálpa þeim sem voru hjálparþurfi. Vera einhvern veg- inn alltaf til taks þegar á þurfti að halda. Mannkostir Pálma Þórðarsonar voru satt að segja slíkir að þeir gleymast ekki, þó það sé ógert látið að festa það á blað. Hvergi hefur mér um dagana þótt betra að koma en á heimili þeirra Pálma og Ernu og fjögurra yndislegra dætra í Camp-Hill, þar sem blíða og barnalán sat í fyrirrúmi. Því verður ekki með orðum lýst hvílíkur harmur hlýtur að ríkja á því heimili, þegar Pálma nýtur ekki lengur við. Já, öllum er Pálmi harmdauði, en mig skortir orð til að lýsa hluttekningu minni í harmi for- eldra hans, Þórðar og Geirlaugar, og annarra hans nánustu hérna heima. Megi Guð og gæfan veita þeim styrk í raunum sínum. A mínu heimili eigum við um sárt að binda. Með Pálma sé ég á bak mínum besta vini. Og þó finnst mér enn, að ég hafi síðast séð hann í gær og að ekki sé nema steinsnar til hans. Heimkoma hans verður önnur nú en áður, en þó er ég viss um eitt, minningin um hann Pálma Þórðar víkur ekki frá þeim sem einu sinni báru gæfu til að kynn- ast honum. Og sjálfur yrði ég ekkert hissa, þó hann stæði hér aftur einhvern tíma á tröppunum hjá mér baðaður í sólarbirtunni og færandi heim allt það, sem gerir lífið þess vert að lifa þvi. Flosi Ólafsson Nokkru fyrir stríð voru tveir litlir brókarlallar að leik á bryggj- unni í Borgarnesi. Yngri sveinn- inn, kaupstaðarbúinn, var að kenna þeim eldri, sveitadrengn- um, að veiða kola og massadóna. Þetta var Pálmi Þórðarson að kenna undirrituðum grundvallar- reglur veiðimannsins. Eg var þá í kaupstaðarferð með foreldrum mínum en á meðan við drengirnir lékum okkur nutu for- eldrar mínir gestrisni og höfð- ingskapar foreldra Pálma, þeirra kaupfélagsstjórahjóna Þórðar Pálmasonar og Geirlaugar Jóns- dóttur. Þessi fyrstu kynni okkar frænd- anna entust æ síðar og holl ráð Pálma þarna á bryggjusporðinum í Borgarnesi voru ekki þau síðustu mér til handa. Pálmi átti því ekki langt að sækja gestrisni og höfðingslund og stóð eiginkona hans, Erna Armannsdóttir, þétt við hlið hans þar sem í öðru. Eftir að þau fluttu til Bandaríkjanna nutum við hjón- in gestrisni þeirra og glaðværðar hvað eftir annað og þá var ekki alltaf tjaldað til einnar nætur. í helgum fræðum er þannig komist að orði: Guð elskar glaðan gjafara. Mér finnst að þessi orð eigi hér vel heima. Síðastliðið sumar var Pálmi hér á ferð sem oftar með eiginkonu sinni og dætrum fjórum. í blíðskaparveðri var farið til Þingvalla og var gengið upp á gjárbarminn til þess að sýna dætrunum hið stórbrotna lands- lag. Var þá Drekkingarhylur í sjónmáli og þar sem Pálmi segir frá því hvernig standi á nafngift- inni brá skugga á andlit hans er hann minntist þess ógæfufólks er þar lét lífið. En skugginn var ekki lengi við völd enda var það háttur Pálma að líta ævinlega á björtu hliðarnar í lifinu en draga strik yfir þær dökku. Pálmi lést í Bandaríkjunum 26. f.m. Er hann kenndi þess meins er dró hann svo snöggt til dauða var hann að sinna skyldustörfum í þágu íslensks fiskiðnaðar en þeim skyldustörfum hafði hann sinnt um langt árabil farsællega. Nú er silfurþráðurinn slitinn og gullskálin brotin, eftir er skilið duftið eitt hið jarðneska duft er hverfur til jarðarinnar. En andinn er farinn til Guðs sem gaf hann. En minningin um góðan dreng höfðinglundaðan geymist. Eg votta eiginkonu hans, börn- um, öldruðum foreldrum og systr- um dýpstu samúð mína. Friðrik Eiríksson í dag er jarðsettur Pálmi Þórð- arson, sonur heiðurshjónanna Þórðar Pálmasonar, fyrrverandi kaupfélagsstjóra í Borgarnesi og konu hans, Geirlaugar Jónsdóttur. Pálmi fæddist í Vik í Mýrdal 12. september 1931 og átti því skammt eftir í fimmtugasta ald- ursárið, þegar hann lést á Massa- chusetts General Hospital í Bost- on laugardaginn 27. júní sl. Pálmi eyddi æskuárunum í Borgarnesi, fór síðan til Reykja- víkur í skóla og hélt þar næst út á vinnumarkaðinn, ungur að árum. Hann stundaði ýmis störf, setti m.a. upp skyrtuþvottahús í Reykjavík og var i allmörg ár í millilandasiglingum á skipum Sambandsins. Arið 1959 settist Pálmi aftur á skólabekk og tók að stunda verkfræðinám í San Fran- cisco í Kaliforníu. Um vorið 1962 samdist svo um að Pálmi kæmi til starfa um þriggja mánaða skeið hjá fisksölu- fyrirtæki Sambandsins, sem þá var til húsa í litlu og ófullkomnu húsnæði austan Susquehanna- árinnar í útborg Harrisburg í Pennsylvaníuríki. Hann var að bíða eftir pappírum að heiman til að geta haldið áfram náminu í Kaliforníu. Síðan hafa liðið 19 ár, Pálmi kvæntist Ernu Ármannsdóttur í desembermánuði 1961. Þau bjuggu sér lítið en notalegt heimili í leiguhúsnæði í Harrisburg. Ein- hver dráttur varð á pappírunum að heiman. Nóg var að starfa hjá fyrirtækinu og þau Pálmi og Erna kunnu vel við sig í Pennsylvaníu. Mánuðirnir þrír urðu að 19 ára starfi. í fyrstu vann Pálmi við erfiðar aðstæður á lyftara í frystigeymsl- um fyrirtækisins. Með auknum umsvifum jókst síðan starf hans og ábyrgð þannig að seinustu 10 árin var hann einn af aðstoðar- framkvæmdastjórum fyrirtækis- ins á sviði flutninga og vörudreif- ingar. Hluti af starfi Pálma var þá að sjá um losun frystiskipanna frá íslandi og dreifingu fisksins frá skipshlið til móttakenda víðs veg- ar um Bandaríkin. Hver skips- koma krafðist 2ja til 4ra daga ferðar til Gloucester eða New Bedford í Nýja-Englandi og var þá ekki spurt um lengd vinnutíma eða hver dagurinn væri. í slíka ferð fór Pálmi sunnudaginn 7. júní sl., kátur og glaður að vanda. Við komuna til flugvallarins í Boston þá um eftirmiðdaginn fékk hann alvarlegt heilablóðfall, sem leiddi til andláts hans laugardaginn 27. júní eftir mikla baráttu, sem oft virtist tvísýn. Þessir dagar voru erfiðir fyrir Ernu, konu Pálma, en hún dvaldist við hlið manns síns ásamt tveimur elztu dætrunum, þar til yfir lauk. Sá hópur manna, sem starfar við sölu íslenzkra sjávarafurða á erlendum mörkuðum, er ótrúlega fámennur. Sjálfsagt eru þeir fáir, sem gera sér grein fyrir því hvers konar reynsla og sérþekking er nauðsynleg til þess að geta sinnt slíkum störfum að gagni. Eftir 19 ára starf hafði Pálmi öðlast dýr- mæta reynslu og kynnst miklum fjölda viðskiptavina. Hann var sínu fyrirtæki dyggur og trúr starfsmaður og jafnframt ákafur talsmaður fyrir Island. Skarð hef- ur nú verið höggvið í hinn fá- menna hóp íslenzkra fisksölu- manna. Fyrirtækinu óx smám saman fiskur um hrygg og flutti í full- komnara húsnæði vestan árinnar. Þau Pálmi og Erna fluttust líka búferlum frá Harrisburg og yfir á vesturbakkann í stærra og hag- kvæmara húsnæði. Pálmi var einkar laghentur og hafði yndi af því að endurbæta húsið sitt. Fyrst innréttaði hann . kjallarann og kom sér m.a. upp framköllunar- herbergi fyrir ljósmyndir, en hann var góður ljósmyndari og hafði gaman af að framkalla og stækka sínar eigin myndir. Nýlega hafði hann svo lokið við að smíða fallegar svalir við húsið. Þar naut Pálmi sín vel við útigrillið sitt í góðu veðri og góðra vina hópi. Pálmi var mikill bjartsýnismað- ur, velviljaður og greiðvikinn svo af bar. Hann sá góðu hliðarnar á fólki og talaði ekki illa um aðra. Heimili þeirra Pálma og Ernu stóð jafnan opið og voru gesta- komur tíðar. Pálmi hafði ánægju af að vera gestgjafi og var hrókur alls fagnaðar. Hann var þegar farinn að hlakka til að halda upp á fimmtugsafmælið í haust. Við Pálmi höfum verið nánir samstarfsmenn í 6 ár og þekkst lengur. Samskipti fjölskyldna okkar hafa að sjálfsögðu verið allnáin á þessum 6 árum í okkar fámennu Islendingabyggð við Harrisburg. Við munum sakna góðs drengs en jafnframt minnast margra góðra stunda með miklu þakklæti. Fyrir hönd Iceiand Seafood Corporation, þess fyrirtækis sem Pálmi helgaði starfskrafta sína í 19 ár, vil ég færa honum einlægar þakkir. Við hjónin vottum Ernu og dætrunum fjórum, Þórði, syni Pálma, sem búsettur er á Akur- eyri, svo og öldruðum foreldrum hans og öðrum ættingjum innilega samúð og biðjum þeim blessunar Guðs. Guðjón B. ólafsson Jónas Hallgrímsson skáld líkir mannsævinni við sumarsólina: „Bláa vegu brosfögur sól gengur glöðu skini.“ Sem hendi væri veifað er ævin öll, og þá dregur fyrir sólu. Ég var á ferð í Bandaríkjunum fyrir réttum tveim mánuðum og átti þess kost að dvelja nokkra daga á heimili míns ágæta vinar Pálma Þórðarsonar frá Borgarnesi. Er nema eðlilegt að ég rétt trúi því að slík séu umskiptin að í dag séum við að kveðja hann hinstu kveðju. Það er svo langt frá að með eðlilegum hætti mætti segja að hans dagur væri að kveldi kominn. Sú staðreynd blasir samt við. Það var snemma á laugardagsmorgni í míö8 góðu veðri að stór vörubíll rennur í hlað, á pallinum voru tré og minni plöntur. Pálmi var ekki alveg sáttur við brekkuna sunnan undir húsinu. Nú átti að bæta úr og tókum við til hendinni og gróðursettum. Seinna um daginn þegar verkinu var lokið segir hann: Nú skuluð þið koma aftur eftir svona eitt ár eða svo þá verður þetta orðið að fallegum lundi. Það var hans unun að fegra og betrumbæta. Pálmi hlaut gleði af starfi sínu vegna þess að hann vann það af fullri trúmennsku. Lífshamingja — sú gyðja getur verið með ýmsum svip, og mat manna á hvað sé hamingja furðu- lega ólík. Auður, frægð, völd, mannvirðingar er allt talið til lífshamingju, og getur líka verið það, en hvað er hamingja ef ekki góður lífsförunautur, góð börn og gott heimili. Eiginkona Pálma, Erna Ármannsdóttir, var mjög samhent manni sínum um að gera heimilið þeirra í Harrisburg að góðu og gestrisnu heimili, já þar ríkti svo sannarlega höfðingskap- ur og greiðvikni til þeirra sem þau þekktu. Pálmi eignaðist dreng utan hjónabands, Þórð, sem bú- settur er á Akureyri, og nú fyrir fáum dögum fékk bréf í hendurnar upp á það að hann væri útlærður skipasmiður. Og þá eru það dæt- urnar í heimahúsum, Anna, Inga, Helga og Lísa, perlurnar hans pabba síns. Pálmi var fæddur í Vík í Mýrdal 12. september 1931 og var stutt í merkisafmælið hans. Foreldrar hans voru Geirlaug Jónsdóttir og Þórður Pálmason kaupfélagsstjóri lengst af í Borgarnesi. Það má segja að stuttu eftir fermingu hafi Pálmi farið að hugsa til brottferð- ar úr heimahúsum. Fór í skóla á vetrum og á sumrin í vinnu. Eftir það kom hann aðeins sem gestur í Borgarnes. Um 1950 var hann háseti á hinum ýmsu skipum Sambands- ins. Seinna liggur leiðin til Banda- ríkjanna, fyrst á skóla þar og síðar í atvinnu hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga í hinni miklu fiskiverksmiðju í Harrisburg í Pennsylvaníu. Þar var hann einn af yfirmönnum fyrirtækisins og búinn að vinna þar í tæpa tvo áratugi. Hann var einmitt í Bost- on, til að taka á móti skipi að heiman þegar hann óvænt og skyndilega fann til þess sjúkdóms, sem batt endi á líf hans. Ég þakka Pálma vini mínum fyrir góða samveru í lífinu. Ég sendi öllum ástvinum hans mínar innilegustu samúðarkveðj- ur. Höskuldur Skagfjörð Hann Pálmi Þórðarson hefir yfirgefið Hótel Jörð. Hinir gest- irnir eru ringlaðir, sorgmæddir og ruglaðir. Heimur þeirra án Pálma verður aldrei samur. Ég held, að skrifa megi ævi þessa góða og litríka drengs í þrjú megintímabil: Fyrstu 15 árin var hann í föðurhúsum í faðmi góðrar og sterkrar fjölskyldu. Næstu 15 árin voru umbrotaár. Flestum þeirra var eytt í Reykjavík við nám, vinnu og atvinnurekstur. Farið var til sjós og siglt um heimsins höf; til Ameríku í leit að frekari menntun, svo var stofnað fyrirtæki í Reykjavík. Á mörgu var byrjað, en ekki allt klárað. Á þessum árum kynntist Pálmi fjölda fólks og myndaði vináttu- bönd, sem entust út lífið. Síðasta tímabilinu, sem spannar tæplega 20 ár, eyddi Pálmi svo hér í henni Ameríku og þar lágu leiðir okkar saman. Hann var nýgiftur Ernu og þau komu með elztu dótturina, nokkurra mánaða gamla, með sér. Nú var stofnað heimili og byrjaði fjölskyldufaðir- inn Pálmi að mótast. Þrjár dætur í viðbót bættust í hópinn, og foreldrarnir bjuggu þeim gott heimili. Pálmi setti á stofn rausn- arbú, ef svo má að orði komast, enda átti hann ekki langt að sækja myndarskapinn. Gestrisni þeirra hjónanna var hlý og einlæg og nutu hennar fjöldamargir. Fyrstu árin í Ameríku voru ekki alltaf dans á rósum. Erfiðleikar alls konar herjuðu á og óvissa ríkti, en Pálmi þróaði smám saman með sér festu og þraut- seigju, sem hann hafði ef til vill skort fyrr í lífi sínu. Einnig var hann gæddur ýmsum góðum hæfi- leikum, sem gerðu lífsgönguna auðveldari. Hann tók sjálfan sig ekki of hátíðlega, var almennt bjartsýnn á lífið og tilveruna og siðast en ekki sízt hafði hann hæfileika til að njóta þess, sem lífið hefir upp á að bjóða. Af nógu er að taka, þegar rifjaðar eru upp skemmtilegar stundir heima hjá Pálma og Ernu. Þar skorti aldrei góðan félagsskap, góðan mat og góðan drykk. Samband Pálma við ísland var alla tíð sterkt. Það var samt eins konar „haltu mér, slepptu mér“- samband. Það var sífellt verið að hugsa og tala um það, sem gerast var á ættarhólmanum. Þangað voru skipulagðar ferðir í fríum: jólaferðir, sumarferðir, laxveiði- ferðir, fjallaferðir, ferðir til að láta skíra og ferma o.s.frv. Nú hafði Island tekið á sig nýja mynd. Það var orðið hinn stóri, villti heimur. Það var þar, sem allt gerðist. Þar var óvissan og freist- ingarnar. Þar komst rót á sálina. Á hinn bóginn þýddi Ameríka heimili, festa, vinna, öryggi og ró. Pálmi gat Ííklega aldrei, frekar en margir aðrir í hans sporum, gert upp við sig, hvort hann vildi frekar vera á íslandi eða í Amer- íku. Hann reyndi, og honum tókst, að tileinka sér og njóta þess bezta, sem þessir tveir heimar höfðu upp á að bjóða. Og svo leið tíminn og núna þarf hann ekki lengur að velja. Eg og fjölskylda mín höfum orðið ríkari af samvistum okkar og vináttu við Pálma, konu hans og börn. Við munum ávallt geyma minninguna um góðan dreng og tryggan. Á þessum sorgardegi vottum við Ernu og börnunum, foreldrum Pálma og öðrum ætt- ingjum dýpstu samúð. bórir S. Gröndal

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.