Morgunblaðið - 09.09.1982, Blaðsíða 13

Morgunblaðið - 09.09.1982, Blaðsíða 13
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 9. SEPTEMBER 1982 13 Ljóðin er þutu um þitt blóð Fimmtugasta áritíð Jóhanns Jónssonar Bókmenntir Jóhann Hjálmarsson . Skömmu eftir að Rainer Maria Rilke (1875-1926) birti á prenti Dúínóelegíur sínar, eitt mesta ljóð aldarinnar, orti helsjúkt íslenskt skáld í Þýskalandi eitt eftirminni- legasta og fegursta ljóð íslenskrar tungu. Ég á við Söknuð eftir Jóhann Jónsson, en á þessum dögum eru liðin fimmtíu ár síðan hann lést í Leipzig. Fæddur var Jóhann á Staðastað á Snæfellsnesi 12. sept- ember 18%, en alinn upp í Ólafsvík. Söknuður er eitt þeirra ljóða sem marka tímamót í skáldskap, sam- bærilegt við Sorg Jóhanns Sigur- jónssonar og Tímann og vatnið eftir Stein Steinarr. Fátt bendir til þess að það muni fyrnast með nýrri kynslóð, en hátíðleiki þess er kannski dálítið fjarri okkar óskáldlegu tímum. Söknuður höfðar að minnasta kosti til þeirra sem nú eru miðaldra og eldri og grunur minn er sá að yngra fólk muni finna í ljóðinu hið sama og aðrir hafa tal- ið því til ágætis. Þetta ljóð lýsir ekki einungis reynslu heillar mannsævi heldur er það ort af snilld sem er mjög sjaldgæf. Slík snilld er aðeins gefin stórskáldum. Að vísu má greina það sem koma skal í ýmsum ljóðum Jóhanns Jónssonar: Landslagi, Vindi um nótt og ef til vill fleiri ljóðum. Ég minntist á Rilke í upphafi. Kannski hefur Jóhann Jónsson les- ið Dúínóelegíurnar, að minnsta kosti má segja að þrotlaus brunnur undursamleikans, sál lostin skiln- ingi og vængjablik svífandi engla minni á Rilke. En sé um áhrif að ræða eru þau óveruleg. Söknuður Jóhanns Jónssonar er fyrst og fremst hans ljóð, dæmi um líf hans og uppruna. Um leið höfðar það til allra manna eins og hin bestu ljóð. Orðið hvar er mörgum sinnum endurtekið í Söknuði: Hvar! Ó hvar? Er glatad ei glaUA? C.ikflir ei einu um hið liðna, hvort grófu það ár eða eilífð? (Inn þú mér heldur um stund, að megi ég muna, minning, hrópandi rödd, ó dvel! Dagarnir sem hafa glatað lit sín- um, blekkingin heilaga, koma aftur þegar eirðarlaus eyrun heyra söngl sem minnir á hausthljóð vindsins og söng sálaðrar móður úr sjávar- hljóðinu í fjarska. Hið lífsþreytta skáld sem vegna reynslu sinnar og menntunar veit að allt er hverfult og undrið sjálft drukknað í æði múgs og glaums skynjar sem snöggvast eilíf verðmæti lífsins, það sem ekki glatast þrátt fyrir allt. Halldór Laxness skrifar í grein um tvö þingeysk skáld: „Það er ekki lof að segja um mann að hann sé stórskáld, miklu oftar hið sama og segja að hann hafi ratað í meiri raunir en aðrir menn, eða a.m.k. mætt þeirri reynslu sem ekki sé Jóhann Jónsson hægt að mæla með við nokkurn mann.“ Halldór segir um Jóhann: „Hugur hans dvaldist í hæð þar sem rúm- helgi lífsins verður aðeins skynjuð í tónstefjum, fyrirmyndum og yrkis- efnum og allar niðurstöður ákvarð- ast af fagurfræðilegum lögmálum einsog i grísku örlagadrama." Þess skal getið að það var Hall- dór Laxness sem sá um útgáfu á Kvæðum Jóhanns Jónssonar og rit- gerðum (1952). Þegar sá sem þetta ritar var að brjótast undan því ofríki sem ís- lensk skólaljóð og lestrarbækur beittu börn og unglinga var það opinberun að kynnast ljóðum Jó- hanns Jónssonar. Að vísu freistuðu þau mín ekki til að fara að yrkja með svipuðum hætti og hann, en hér var fundinn sá alhreini tónn ljóðræns skáldskapar sem leitað hafði verið að. Og það var unnt að halda áfram þaðan sem Jóhann Jónsson setti punktinn. Kantötutónleikar Tónlist Jón Asgeirsson Hallgrímskirkju hefur bæst nýr starfskraftur, orgelleikarinn Hörður Áskelsson, sem eftir frá- bæran árangur í tónlistarnámi í Þýskalandi og eins árs starf þar er kominn heim til íslands og með miklum áhuga kallar til sín fólk með þá trú að efla megi iðkun tón- listar í kirkjunni. Ekki er skortur á verkefnum því trúlega á engin stofnun mannlegs samfélags eins stóran og dýrlegan sjóð, sem kirkjan á í tónlist frá öllum tímum. í Matteusarguð- spjalli er sagt frá meyjunum tíu „er tóku lampa sína og fóru út til móts við brúðgumann. En fimm þeirra voru fávísar og fimm hyggnar; því að hinar fávísu tóku lampa sína, en tóku enga olíu með sér. En hinar hyggnu tóku olíu í kerum sínum ásamt lömpum sín- um.“ Ekki er þörf á að rekja þessa líkingu frekar en til hennar er vitnað vegna þess að ef Herði tekst að byggja upp glæsilegt tónlist- arstarf í Hallgrímssókn mun hann sem hyggnu meyjarnar eiga nóg ljósmeti er Hallgrímskirkja verður vígð fullgerð. Á kantötutónleikum í Hallgrímskirkju sl. sunnudag voru fluttar tvær kantötur eftir Bach. Báðar kantöturnar voru sungnar af ungum þýskum söngv- ara, Andreas Schmidt að nafni, og var söngur hans hreint út sagt frábær og verður fróðlegt að fylgj- ast með þessum pilti og heyra hann eftir nokkur ár. Hörður fékk til samstarfs við sig litla hljómsveit undir leiðsögn Rutar Ingólfsdóttur. Þröngt hús- næði kapellunnar hefur trúlega valdið því hversu hljómsveitin var helst til of sterk, sérstaklega bassaraddirnar sem trúlega er erf- itt að stilla til jafnvægis við tón- létt hljóðfæri efri raddanna. Ný- stofnaður Mótettukór Hallgríms- kirkju söng einn kóral í lok fyrri kantötunnar. Kórinn er enn fá- liðaður en hljómaði fallega og verður spennandi að fylgjast með vexti og viðgangi hans á næstu ár- um. Hörður Áskelsson er vel mennt- aður tónlistarmaður og í upphafi starfs hans verður ekki annað séð en vænta megi mikils af honum í framtíðinni. Jón Ásgeirsson Stökur og kvæði Bókmenntir Erlendur Jónsson Björn Jónsson: BYMBÖGUR. 112 bls. Útg.: Björn Jónsson. Sú var tíðin að Vestur-ís- lendingar voru manna ötul- astir að yrkja ljóð og senda frá sér bækur. Sá tími er að vísu liðinn. En þó kemur enn fyrir að þeir láta frá sér heyra. Höfundur þessarar bókar er kynntur í kápuaug- lýsingu. Fæddur er hann og uppalinn á íslandi en hefur verið búsettur vestanhafs í áratugi, læknir að atvinnu. Hann hefur eins og margur landinn ort vísur um það sem á hugann hefur leitað hverju sinni, líklega sér til hugar- hægðar fremur en til lofs og frægðar. Samfelld kvæði eru að vísu í bók þessari. En fer- skeytlur eru þar líka margar og að mínum dómi hitta þær betur í mark en kvæðin. Góður þótti sá hagyrðingur fyrrum sem gat kastað fram vísu um hversdagsleg efni, að því er virtist fyrirhafnarlaust. Björn Jónsson og gaman í bland við alvöruna eins og hagyrðinga er háttur þegar þau mál ber á góma, samanber eftirfarandi vísu — sem er nú raunar tekin upp úr kvæði sem ber heitið llm ástar- stig og þesskonar: Orðaröð skyldi vera sem næst mæltu máli. Hvaðeina, sem hnikað var til vegna ríms eða ljóðstafa, þótti spilla. Björn Jónsson er fundvís á hugmyndir og hreinskilinn. Og hann er ódeigur að segja meiningu sína. En hann meiri hugkvæmnismaður en hag- yrðingur. Sjálfur víkur hann að því í eftirfarandi stöku að hugmynd og bragfræði renni ekki endilega eftir sama far- vegi: Betra er aó hrúga upp hugsunum sé heimspekilega téð, en ganga með botninn úr buxunum, bragfræðilega séð. Mörg efni leita á hugann, hnyttnar athugasemdir um lífið og tilveruna, sjálfan sig og umhverfið. Oftast held ég þó að það sé ástin sem verði Birni Jónssyni að yrkisefni. Er þá gjarnan brugðið á glens Lofnarvaldi ég lúta má er lít ég faldaskessu á hvaða aldri, að heita má. Hvað mun valda þessu? Að skrifa ljóðabréf var á tímabili eftirlæti hagyrðinga. Hér er birtur hluti af ljóða- bréfi og ber yfirskriftina Atómljóð. Það er gagnorð hugleiðing um þá tegund skáldskapar. Atómskáldskap- urinn er nú löngu hættur að halda vöku fyrir unnendum ríms og ljóðstafa. Þeir óttuð- ust að hann gengi af hefð- bundinni, íslenskri ljóðlist dauðri, þar með talinni fer- skeytlunni. Sá ótti reyndist ástæðulaus. Ferskeytlan hef- ur ekki hvikað frá fyrri landa- mærum, eins og gerst má marka af þessari bók. Hún er enn ort — í einrúmi, á ferða- lögum, í samkvæmum. Og í fjarlægum löndum! Erlendur Jónsson Staögreiösluverö: 260 lítra 400 lítra Kr. 9.900. Kr. 11-990. Philips Þú getur reitt þig á Philips frystikistur., Þegar þú kaupir frystikistu er það til geymslu á matvælum um lengri tíma. Hun verður þvíað vera traust og endingargóð. Þar kemur Philips til móts við þig með frystikistur, sem hægt er að reiða sig á. Philips frystikistur eru klæddar hömruöu áli. Philips frystikistur gefa til kynna með sérstöku aðvörunarljósi, ef frostið fer niður fyrir 15°. Philips frystikistur hafa lykillæsingu. Philips frystikistum fylgja 2—3 lausar grindur. Philips frystikistur hafa Ijós í loki. Philips frystikistur fást í stærðunum 260 I. — 400 I. Philips viðgeröarþjónustu getur þú treyst. Þú kaupir Philips fyrir framtíðina. heimilistæki hf HAFNABSTRÆTI 3 - 20455 - SÆTÚN 8 - 15655

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.