Morgunblaðið - 09.09.1982, Blaðsíða 39

Morgunblaðið - 09.09.1982, Blaðsíða 39
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 9. SEPTEMBER 1982 39 Hjörtur Gunnars- son — Minning Faeddur 30. júlí 1911 Dáinn 1. september 1982 Ég ólst upp til tíu ára aldurs í húsi Hjartar Gunnarssonar í Keflavík, þar sem foreldrar mínir stofnuðu heimili fyrst á sjötta áratugnum. Ég var eina barnið í húsinu. Kannski var það þess vegna, að ég gaf mig talsvert að fullorðna fólkinu, og það stendur margt skýrar í huga mér en krakkarnir í nágrenninu. Þau Hjörtur og frú Magnea voru merkilegur hluti af tilverunni og gott að snuddast kringum þau. Stundum fór ég í heimsókn upp á loft til þeirra, þar sem mér var ákaflega vel tekið, næstum eins og ég væri fullorðinn. Hjörtur talaði ýmislegt við mig, sem gaman var að hlusta á. Hann var léttur í máli og ávallt vingjarnlegur. Þegar Hjörtur varð sjötugur fyrir rúmu ári, lagði ég lítinn trúnað á það; hann var miklu yngri að sjá og heyra, og alvarleg heilsubilun breytti því í engu. ÖIl kynni okkar til hins síðasta voru á eina lund, að bjart er yfir þeim. Það er sárt að kveðja þennan drengskapar- mann, en huggun rík, að eiga að- eins fagrar og hlýjar minningar. Hjörtur var sonur Gunnars Árnasonar, sem var kaupmaður og skósmiður í Keflavík, en kona hans var Hólmfríður Hjartardótt- ir. Synir þeirra voru tveir: Jó- hannes, fluttist til Hafnarfjarðar, var kaupmaður þar en lézt á góð- um aldri, og Hjörtur, bjó til ævi- loka í húsi föður síns á Áðalgötu 6 og starfaði lengst hjá Olíufélaginu hf. Kona Hjartar, sem lifir mann sinn, er Magnea Magnúsdóttir úr Höfnum. Þau voru alla tíð einhuga hjón, bæði gegnum súrt og sætt. Nokkur síðustu ár hefur Magnea átt við vanheilsu að stríða, en það var auðséð, hvernig Hjörtur var óþreytandi að liðsinna henni. Það var tvisvar í sumar, að við Hjörtur hittumst. Eitt kvöldið vorum við systkinin að gróður- setja nokkur tré, þegar hann átti leið framhjá. Við settumst úti á garðvegg og áttum langt tal sam- an. Hann var nýlega kominn af sjúkrahúsi eftir hættulegt áfall. En þess sáust lítil merki, hann var glaður og æðrulaus að vanda. Mér verður hugsað til orða Tómasar a Kempis: Sæll er sá, sem hefur dauðastund sína ávallt fyrir hug- skotssjónum. Og kvöld nokkurt fyrir skömmu kom Hjörtur aftur heim til mín. Við fórum að tala um sumarið og fuglana. Það var einhver heiðríkja yfir þessu spjalli, sem varð seinasti fundur okkar. Nú er að þakka löng og farsæl kynni við fjölskyldu mína, sem hófust þegar amma mín fór ráðs- kona til Gunnars Árnasonar fyrir fjörutíu og fimm árum, eftir lát frú Hólmfríðar. Ég minnist margs, sem vel var gert. Ég bið Drottin að blessa minningu Hjart- ar og styrkja Magneu konu hans. Við fjölskyldan vottum henni innilega samúð okkar. Sigurður Ragnarsson Þann 1. september andaðist Hjörtur Gunnarsson á heimili sínu, Aðalgötu 6, Keflavík. Þar hófst æfiskeið Hjartar, þar lifði hann því og þar voru endalokin. Hjörtur fæddist þann 30. júlí 1911. Foreldrar hans voru hjónin Hólmfríður Hjartardóttir frá Skorhaga í Kjós og Gunnar J. Árnason, skósmiður og kaupmað- ur frá Hvalsnesi. Einn eldri bróð- ur átti Hjörtur, Jóhannes kaup- mann í Hafnarfirði, sem fæddur var 1903 en lést 1951. Eftirlifandi eiginkona Hjartar er Magnea Magnúsdóttir frá Höfnum. Þeim hjónum varð ekki barna auðið. Hjörtur ók vörubifreið fyrir eig- in reikning frá 1928—1946, en frá 1946 þar til á 70 ára afmæli sínu á sl. ári starfaði hann hjá Olíufélag- inu hf. á Keflavíkurflugvelli við afgreiðslustörf og fleira varðandi flugumferð. Við, gamlir samstarfsmenn Hjörsa, en svo var hann ávallt kallaður í okkar hópi, viljum ekki alveg láta hann liggja óbættan hjá garði nú, er hann hefur haft þessi síðustu vistaskipti. Því viljum við hér og nú þakka honum fyrir liðna tíð og óska honum fararheilla. Mönnum verður það alltaf á, þegar einn úr hópnum kveður, að litast um og finna þann andblæ og þá stemningu, sem viðkomandi skildi eftir sig. Svo fer og með okkur nú. Við finnum það nú betur en fyrr að umhverfi okkar er fá- tækara eftir. En margur atburð- urinn mun geymast í minni okkar, sem vissulega mun verma og lífga upp þær stundir, sem fram undan eru. Hjörsi var þeim góðu kostum búinn að taka tilveruna ekki allt of alvarlega, hann var hrókur alls fagnaðar, glettinn og kíminn og húmoristi í besta lagi. Það var aldrei nein lognmolla eða deyfð í kringum hann. Þessa söknuðum við og fleira, þegar hann hætti störfum fyrir aldurs sakir á sl. ári, en heimsóknir hans síðar, sem þó voru of fáar finnst okkur nú á kveðjustund, voru ávallt fagnað- arefni, því lítt var rætt um eiginn hag eða vanda, heldur hitt haft í hávegum að finna hinar björtu og kátlegu hliðar á hverju máli. Sem að líkum lætur með mann eins og Hjörsa, kom hann sér vel við okkur, samstarfsmenn sína, og viðskiptamenn fyrirtækisins. Hann rækti störf sín með ágætum og lét aldrei á sér bilbug finna, þrátt fyrir heilsufarslegt áfall fyrir nokkrum árum. Hans stóra lán í lífinu var vafalaust hans kona Magnea, en segja má að þau hafi borið hvort annað á höndum sér. Hún fyrr, en hann síðar eftir að hún missti heilsuna fyrir nokkrum árum. Nú á kveðjustund viljum við þakka ógleymanlegar samveru- stundir í blíðu og stríðu. Við erum þess fullvissir, að nú sé hann að gantast við Lykla-Pétur og ekki hætta á öðru en þar hafi honum verið vel tekið. í þeim sölum mun vissulega verða líflegra en fyrr og þar munum við hittast á nýjan leik og taka upp þráðinn, þar sem frá var horfið. Við vottum eftirlifandi eigin- konu og öðrum vandamönnum okkar dýpstu samúð. Gamlir starfsfélagar hjá Olíufélaginu hf. Pálmar Isólfsson — Minning „Ekki vildi ég þurfa að dvelja hér lengi án þess að geta unnið," sagði Pálmar einhvern tíma í leikhléi, en eins og vinir og kunn- ingjar hans vissu varð Pálmar að sætta sig við nokkur slík hlé síð- ustu árin og dvelja á sjúkrahús- um. Varla var þó Pálmar kominn yfir þröskuldinn heima hjá sér, frá þessum sjúkrahúslegum, þegar síminn hringdi og ef fæturnir gátu borið grannan líkama hans var Pálmar kominn af stað til ein- hvers þeirra mörgu sem biðu hans, því hendur og heyrn héldu sinni einstæðu næmni fram á seinasta síðdegi æfinnar. Hæfileikinn til að laða fram tón úr hljóðfæri var Pálmari gefinn í svo ríkum mæli að sjaldgæft verður að teljast, þar var Pálmar listamaður, og ís- lenskir tónlistarmenn jafnt og er- lendir höfðu fyrir löngu sett Pálmar á stall sem slíkan. Góður tónstillari lifir fyrst og fremst í verkum sem enga möguleika hafa til langra lífdaga og eru verk þessi furðu fljót að breytast í afskræm- ingu ef stöðug endurfæðing verður ekki. Þó veit ég, að þegar Pálmari tókst að skapa í hljóðfærið sál, mátti mikið á hana reyna áður en hún yfirgaf hljóðfærið. Góður tónstillari lifir einnig í minningu þeirra sem nutu verka hans og skildu þau og margir áttu tóninn í slaghörpunni sinni Pálmari að þakka, og margar hörpur munu sjálfsagt þegja í dag, þegar Pálm- ar er til moldar borinn, eða að þær syngja honum lof og þökk í þögulli reisn. Ekki ætla ég að reyna að koma fyrir nánari lýsingu á Pálmari í þessum kveðjuorðum. Heldur ekki að rifja upp kunna ættartölu hans, sem siður er þegar menn kveðja þennan heim. Ég var þess aldrei var að Pálmar tæki sína annars ágætu frændur fram yfir annað fólk í lifenda lífi og þykir mér ólíklegt að hann kærði sig um að þeim tengslum væri sérlega hampað nú þegar hann er allur. Líklegt þykir mér að Pálmar hafi haft galla einhverja, svona rétt eins og við hin, en það er hans mál og skaparans og ekki vil ég blanda mér í það. Þá ósk fékk Pálmar uppfyllta að þurfa ekki að dvelja hér lengi óvinnufær, og staðreynd er að ekki þýðir að hringja oftar í 13214 og biðja Pálmar að koma og stemma. Tónn hans er horfinn hér úr heimi, en minningin um verk hans mun lifa með tónlistarmönnum og vinum hans meðan minni okkar endist. Ari Þorsteins- son — Minning Fæddur 11. maí 1897 Dáinn 1. september 1982 Þeim fækkar nú óðum íslend- ingunum, sem fæddust fyrir alda- mótin og fengu að fylgjast með þeirri ótrúlegu lífskjarabreytingu, sem átt hefur sér stað á Islandi frá aldamótum til þessa dags. Ari fæddist í Úthlíð í Biskupstungum 11. maí 1897. Hann var sonur þeirra hjóna Þorsteins Jónssonar og Arnheiðar Magnúsdóttur, sem var systir þess víðkunna stór- bónda Böðvars á Laugarvatni. Um aldamótin fluttust þau hjónin að Eyvindartungu í Laugardal og þar átti Ari sín bernskuár í dalnum Ijúfa í austurátt, ásamt stórum systkinahóp. Um fermingu réðst Ari að Haga í Biskupstungum og tók þá þegar að vinna fyrir sér. Hann var ekki gamall þegar hann gekk á sauðskinnsskóm með kæfu- belginn á bakinu alla leið til Þor- lákshafnar til þess að stunda sjó- inn og vinna í verinu. Slík voru lífskjör fjölda ungra manna í sveitinni þá. Lýsingar Ara á að- búnaði í verinu og hvernig vinnu- brögðum var háttað í þá daga voru svo ótrúlegar, að ekki mundi þýða að reyna að segja ungu fólki frá því í dag. Þegar Ari var um tvítugt flyst hann alfarinn til Reykjavíkur. Hugur hans stóð ekki til sveita- búskapar. Eftir komuna til Reykjavíkur stundaði hann marg- skonar vinnu, en aðallega bygg- ingavinnu hjá Bergsteini Jóhann- essyni, sem var giftur Ragnhildi, móðursystur Ara. í Reykjavík bjó Ari ávallt með móður sinni og var hún búsett hjá honum allt til dauðadags, 1957. Hún hafði flust til Reykjavíkur eftir lát manns síns, sem lést árið 1919. Eftir nokkurra ára dvöl í Reykjavík keypti Ari sér vörubíl og hóf akstur sem sjálfstæður at- vinnurekandi. Nokkrum árum seinna keypti hann fólksbifreiðar og hóf að stunda leigubifreiða- akstur á BSR og vann við það þar til hann hætti störfum fyrir um það bil 20 árum. Ari var farsæll í starfi og vinsæll meðal starfsfé- laga sinna. Þeir voru ekki fáir bíl- stjórarnir á BSR sem sóttu til hans holl ráð. í sambandi við starfið kynntist Ari mörgum mönnum í þjóðfélaginu, og einn af þeim var meistari Kjarval. Kjarval náði ekki sálufélagi við alla menn en hann náði því með Ara. Hann valdi Ara sem einn af fáum bílstjórum, sem hann vildi hafa með sér þegar hann var að mála. Þær voru óteljandi sumar- næturnar sem þeir voru saman úti í guðsgrænni náttúrunni. Kjarval málaði og Ari beið. Á einum af- mælisdegi Ara færði Kjarval hon- um stóra mynd af honum sem hann kvaðst hafa málað eftir minni. Slík var vinátta þeirra. Frá því ég fyrst man eftir mér á heimili foreldra minna var Ari partur af heimilislífinu, en hann og Magnús bróðir hans, sem báðir voru ókvæntir, voru í fæði hjá móður minni árum saman og Magnús alveg til loka æfi sinnar. Oft voru umræðurnar við matar- borðið fjörugar og bar þar margt á góma, en aðallega pólitík. Þeir Magnús og Ari voru miklir sjálfstæðismenn. Þeir trúðu á frjálst framtak og frelsi og fram- tak einstaklingsins. Þeir töldu að vinnan göfgaði manninn og hver og einn ætti fyrst og fremst að gera kröfur til sjálfs sín en ekki ríkisins, og töldu að allur sósíal- ismi og afskipti ríkisins af athöfn- um manna væru af hinu illa. Ég er forsjóninni að eilífu þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast slíkum bræðrum sem Magnúsi og Ara og verða fyrir þroskandi áhrifum af þeim. Eftir að Ári hætti störfum lifði hann rólegu lífi og bjó lengst af í Garðarstræti 14. Ávallt átti hann annað heimili hjá móður minni, Sesselju, fyrst í Vonarstræti 8 en síðan á Hávallagötu 22. þar kom hann næstum daglega, meðan hann var ferðafær. Þegar Ari hætti störfum hafði hann lítið ferðast um landið. Hann hafði stundað vinnu sína af slíkri elju og dugnaði að hann hafði ekki gef- ið sér tíma til þess. Þá tókum við upp á þvi að ferðast um ísland og skoða landið, bæði byggðir og óbyggðir. Einnig fórum við saman til Bretlands, Frakklands og Spán- ar. Ari naut þessara ferðalaga í ríkum mæli. Hann var góður ferðafélagi. Þegar við nú kveðjum Ara finnst okkur tvíburabræðrunum og fjölskyldum okkar góður vinur horfinn á braut. Börnum okkar fannst Ari ekki bara vera Ari frændi, heldur líka Ari afi hjá henni ömmu Sellu. Með þessum fátæklegu orðum kveð ég elsku- legan frænda minn, og bið algóðan Guð að taka hann í náðarfaðm sinn og veita honum eilífan frið. Haukur Clausen t Móöir okkar, SISELÍA SIGURDARDÓTTIR frá Hrlsey, Akurgerói 10, Akurayri, verður jarðsungin frá Akraneskirkju, föstudaginn 10. sept., kl. 2. Fyrir hönd ættingja Isabella Baldursdóttir, Hulda Baldursdóttir. t Þökkum innilega auösynda samúö og vinarhug vlö andlát og útför eigimanns mins, sonar, fööur, tengdafööur og afa, INGIMARS INGIMARSSONAR, Valgeröur Siguróardóttir, Siguröur Ingimarsson, Sólveig Jónsdóttir, Inga Geröur Ingimarsdóttir, Elín Magnúsdóttir, og barnabörn. Ragnar Björnsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.