Morgunblaðið - 28.11.1984, Page 45
MORGUNBLADIÐ, MIÐVIKUDAGUR 28. NÓVEMBER 1984
miklum dugnaði í því félagi allt til
æviloka, en hann dó 31. mars 1982.
Auðheyrt var á Hönnu að mikið
ástríki hafði verið með þeim hjón-
um og heimilið þeirra til fyrir-
myndar, þar sem hver heimilis-
maður hugsaði um það fyrst og
fremst að sýna fyllstu tillitssemi í
stóru og smáu. Heimilið var þeirra
fjöregg, sem varð að varðveita.
Veita slík heimili mikla blessun.
Þau hjón áttu mikið og gott
plötusafn og þegar færi gafst
undu þau við að hlusta á úrvals
listamenn.
Þau áttu barnaláni að fagna,
eignuðust 5 börn, öll mesta mynd-
arfólk. Þau eru Fjölnir, skólastjóri
Tónlistarskólans í Kópavogi,
Anna Kristín kennari í Reykjavík,
Elín kennari í Danmörku, Sigríður
forstöðukona dagheimilis í Breið-
holti og Árni Erlendur viðskipta-
fræðingur í Reykjavík.
Það vakti fljótt athygli mína,
hve fólkið hennar Hönnu lét sér
annt um hana á spítalanum. Ekk-
ert kvöld leið án þess að fleiri eða
færri ættingjar vitjuðu hennar
ekki. Garnan var að finna slíka
ræktarsemi.
Um leið og ég þakka þessari
glöðu og góðu konu stutta, en
ógleymanlega samleið, sendi ég
börnum hennar innilegar samúð-
arkveðjur og vona að minningin
um góða móður verði þeim ávallt
að leiðarljósi.
í Guðs friði.
Hulda Á. Stefánsdóttir
I dag verður Hanna Guðjóns-
dóttir til moldar borin. Hún fædd-
ist í Hafnarfirði árið 1904, dóttir
Kristínar Ólafsdóttur og Guðjóns
Jónssonar; var sjöunda barn
þeirra hjóna af níu sem þau eign-
uðust alls. Foreldrar Hönnu voru
bæði ættuð undan Eyjafjöllum,
voru fyrst 1 vinnumennsku í
Stóru-Mörk en fluttust aldamóta-
árið suður á Seltjarnarnes. Þau
rötuðu þannig þá leið sem mörgu
fátæku fólki var fyrirhugað á
þessum umbrotatímum, sneru
baki við armóði sveitarinnar í
tvísýnni von um betri afkomu „á
mölinni". Afkoma þessarar stóru
fjölskyldu var því ótryggari sem
heimilisfaðirinn var heilsuvelli að
sama skapi reyndi meira á dugnað
móðurinnar, Kristínar, og atfylgi
systkinanna, einkum hinna yngri
sem dvöldust í heimahúsi meðan
hin eldri voru að heiman að leita
sér lífsbjargar til sjós eða lands.
Hanna sleit barnsskónum í
Hafnarfirði fram að sjö ára aldri;
þá fluttist fjölskyldan til Reykja-
víkur og þar ól Hanna aldur sinn
alla tíð síðan. Hún varð með tím-
anum Reykvíkingur í húð og hár,
gerðist virkur þátttakandi í lífi
þessa bæjar sem var óðum að
breytast úr frumstæðu sjávar- og
verslunarplássi i eitthvað sem
líktist nútímalegri borg. En þó
Hanna væri þannig ósvikin borg-
arkona átti Eyjafjallasveitin ætið
sterk ítök í henni. Þegar hún var
upp komin leitaði hún gjarnan á
sumrin með börn sin smá til ætt-
ingja í Stóru-Mörk; þar átti hún
víst athvarf og skjól fyrir hávaða
heimsins, einkum þegar börnin
voru að vaxa úr grasi. Og á elliár-
um var henni fátt kærara en halda
á glöðum sumardegi á foreldra-
slóðir og virða fyrir sér hið fágæta
málverk náttúrunnar sem forðum
blés skáldinu í brjóst „Gunnars-
hólma".
í æsku naut Hanna ekki annarr-
ar skólamenntunar en tilskilinnar
barnafræðslu (i Miðbæjarskólan-
um). Þegar á unglingsárum fór
hún að vinna fyrir sér, í Isafold-
arprentsmiðju og síðan í hljóð-
færaverslun. Fátæk alþýðustúlka
átti ekki margra kosta völ í upp-
hafi þessarar aldar til að rækta
hæfileika sína. Það varð Hönnu
þvi mikið lán að komast á barns-
aldri í kynni við lítið orgel sem
eldri systir hennar hafði eignast
og hún fékk lítils háttar tilsögn
hjá. „Þá fór ég að blómstra," var
hún vön að segja síðar. í tvö ár,
eftir tólf ára aldur, sótti hún tíma
í orgelleik hjá Þórði Sigtryggs-
syni, æskuvini Erlendar í Unu-
húsi. Upp frá þessu varð tónlistin
henni ástríða sem hún helgaði
hverja stund er hún mátti.
Mannanna börn eru merkileg en
sum eru óneitanlega merkilegri en
önnur. Við fráfall Hönnu tengda-
móður verður mér hugsað til þess
hve hún var í raun einstæð mann-
eskja. Mér verður starsýnt á
þrennt í fari hennar: Lífsgleðina,
listhneigðina og manngæskuna.
Þetta þrennt var svo samslungið
persónuleika hennar að eitt verður
naumast aðgreint frá öðru. Þetta
er til marks um hve Hanna var
óvanalega heilsteypt manneskja.
Ég kynntist Hönnu ekki fyrr en
hún var komin nálægt fimmtugu
— og fannst mér hún þó vera
langtum yngri en aldurinn sagði
til um. A.m.k. minntist ég þá ekki
að hafa heyrt konu gefa sig hlátr-
inum jafn skilyrðislaust á vald.
Þessi rika gleði orkaði einstaklega
heillandi á sveitamann, kannski
vegna þess að hún var algjör and-
hverfa píetískrar arfleifðar í ís-
lenskri sveitamenningu. Við nán-
ari kynni komst ég að raun um að
i hlátrinum káta hennar Hönnu
birtist það sem setti öðru fremur
mark á lífsviðhorf hennar — gleð-
in að vera til, að deila með öðrum,
að ganga heils hugar til verks.
Þetta viðhorf eyddi með nokkrum
hætti mörkunum milli hins
skuldbundna og frjálsa i verkinu:
Hún gekk jafnan að þvi að hlífðar-
lausri atorku sem leitaði ekki um-
bunar í öðru en sjálfri fram-
kvæmdinni. Lífsþróttur þessarar
fingerðu konu var með ólíkindum
enda afköst hennar eftir þvi. Lífið
var henni dýrmætara en svo að
hún léti stundarkorn líða hjá án
þess að það öðlaðist augljósan til-
gang, hvort sem hún tókst ein á
við verkið eða deildi þvi með öðr-
um. Þessi lífsorka entist Hönnu
fram undir hið síðasta þótt lang-
varandi sjúkleiki væri á undan
genginn. Eg sé hana fyrir mér þar
sem hún sat fyrir fáeinum vikum
á rúmstokknum heima við að auka
listilegum sporum i veggteppi:
Henni er þorrinn þróttur til að
hlæja en hún lofsyngur lífið i
verkinu.
Það var ekki sist í listiðkun og
listneyslu sem Hanna veitti lifs-
gleði sinni útrás. Þráin eftir hinu
fagra gerði hana að alhliða list-
neytenda og fjölhæfum listtúlk-
anda. Og á strjálum stundum sem
gáfust frá heimilisstörfum og pi-
anókennslu urðu til af hendi henn-
ar sérstæð og hugmyndarík lista-
verk eins og nokkur veggteppi
bera vitni um. Eftir þeim hefur
verið sóst til kynningar og hefur
eitt þeirra verið sýnt á alþjóðlegri
sýningu.
Manni verður spurn hvaðan
Hönnu kom þessi óforbetranlega
listaárátta en verður fátt um svör.
Hún settist ung við orgelið og sið-
an píanóið sem hún kenndi á i sex
áratugi, varð snemma eftirsóttur
þátttakandi í tónlistarlífi borgar-
innar og gerðist heimagangur i
Unuhúsi, þeirri kostulegu lista-
akademíu. Erlend dáði hún öðrum
mönnum framar. Þegar hún svo
kynntist starfsbróður Erlendar,
Stefáni, og gekk að eiga hann, þá
var ekki að sökum að spyrja:
Hanna hafði hitt þar fyrir mann
sem var enginn eftirbátur hennar
i listnautninni. Heimili þeirra
varð fljótlega griðastaður þeirrar
tónlistarmenningar sem var
smám saman að skjóta rótum i
höfuðborginni. Það hýsti jafn-
framt verk eftir nokkra ágætustu
listmálara og myndhöggvara
landsins, verk sem þau Hanna og
Stefán sóttust eftir áður en þau
höfðu hlotið viðurkenningu sam-
félagsins og voru orðin álitleg
söluvara í augum broddborgar-
anna. í sameiginlegri þjónustu
þeirra hjóna við listina hélt
Hanna þannig áfram að blómstra.
Hún lét sig ekki muna um að ala
fimm börn í heiminn; við uppeldi
þeirra lagði hún sömu alúð og
hvað annað sem hún tók sér fyrir
hendur. Og á henni sannaðist að
sá sem hefur mætur á hinu fagra
er líklegur til að leggja rækt við
hið góða.
AUir þeir mörgu sem höfðu náin
kynni af Hönnu, fyrr eða síðar,
trúi ég að hafi orðið aðnjótandi
manngæsku hennar. Hanna elsk-
aði náungann í verki og þurfti því
aldrei að bera kærleikann á torg.
Hún var umburðarlynd gagnvart
flestu öðru en mannlegri neyð,
hvort sem hún var sprottin af ein-
staklingsbundnum aðstæðum eða
þjóðfélagslegu ranglæti. Hjarta
hennar sló alla tíð í takt við hug-
sjón félagslegs réttlætis.
Nú þegar Hanna er öll er okkur,
sem vorum henni nákomin, efst í
huga hve lánsöm við höfum verið
að hafa átt hana að, sem móður,
ömmu eða tengdamóður. Með lífi
sínu og starfi hefur hún gefið
okkur gjöf sem ekki fyrnist. Því
fylgjum við henni til grafar full-
viss þess að aðrir munu upp skera
svo sem hún hefur til sáð.
Loftur Guttormsson
„Kennslan var alltaf mitt líf og
yndi,“ sagði Hanna Guðjónsdóttir,
píanóleikari, þegar hún átti að
baki meira en 60 ára starf í þágu
tónlistarinnar.
Hún kynntist orgeli tiu ára
gömul og þar með var stefnan tek-
in. Þó hún ætti ekki hljóðfæri var
hægt að bæta úr því með því að
teikna nótnaborð á borðplötu.
Þessi áhugi entist henni til hinsta
dags og var einkennandi í starfi
hennar ásamt glaðværð, sem hafði
45
góð áhrif á hugi ungra nemenda
og í hópi samkennara.
Hún stundaði fyrst nám í orgel-
leik hjá Þórði Sigtryggssyni um
tveggja ára skeið, síðan í píanóleik
hjá Niels Sögaard og Georg Kis,
mönnum, sem störfuðu hér
skamman tíma. Einnig lærði hún
söng hjá Valborgu Einarsson og
Sigurði Birkis. Fer svo tuttugu og
fjögurra ára gömul til Berlínar og
stundar nám í eitt ár hjá þekktum
píanó- og semballeikara, Fraulein
Kaufman eins og hún ávallt
nefndi hana. Að því loknu kennir
hún píanóleik, leikur undir með
söngvurum og syngur í kórum.
Hanna kenndi níu ár við Tón-
listarskóla Keflavíkur og i tíu ár
við Tónlistarskóla Kópavogs, lét
þar af störfum árið 1978.
Ég kynntist Hönnu ungur og
kom þá oft á menningarlegt heim-
ili hennar og Stefáns, eiginmanns
hennar. Þar var listin á dagskrá
og ræddir síðustu atburðir, sem
voru margir og merkilegir í byrj-
un sjötta áratugarins.
Nú, eftir tíu ára samstarf, er
mér ljóst, að hún var trú köllun
sinni og kenndi nemendum sínum
með hugarfari, sem er þeim gott
veganesi og skilur eftir góðar
minningar.
Kristinn Gestsson
^ : _ sntnmnnu DLUBOÐ
Juv rel / HVEITI 2 kg
w g? pRÍSGRJÓN llbs HRÍSGRJÓN 2lbs
10 gg BRÚN 'vffRÍSGRJÓN 12oz
Æl. htdds m SYKUR 2 kg
KEim KR YDD 6 TEGUNDIR í pk
ELDHÚSR ÚLL UR 4 RÚLLUR íþk
SALERNISPAPPÍR V&* 6 RÚLLURÍþk
...vöruverð í lágmarki
ATHYGLI skal vakin á því, að afmælis- og minp-
ingargreinar verða að berast blaðinu með góðum
fyrirvara. Þannig verður grein, sem birtast á í mið-
vikudagsblaði, að berast í síðasta lagi fyrir hádegi á
mánudag og hliðstætt með greinar aðra daga. í minn-
ingargreinum skal hinn látni ekki ávarpaður. Þess
skal einnig getið, af marggefnu tilefni, að frumort
ljóð um hinn látna eru ekki birt á minningarorðasíð-
um Morgunblaðsins. Handrit þurfa að vera vélrituð
og með góðu línubili.