Morgunblaðið - 10.11.1985, Blaðsíða 29

Morgunblaðið - 10.11.1985, Blaðsíða 29
28 MORGUNBLAÐID, SUNNUDAGUR10. NÓVEMBER1985 MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR10. NÓVEMBER1985 29 JHnrgmj Útgefandi tWfafeife Árvakur, Reykjavík Framkvæmdastjóri Haraldur Sveinsson. Ritstjórar Matthías Johannessen, StyrmirGunnarsson. Aöstoöarritstjóri Björn Bjarnason. Fulltrúar ritstjóra Þorbjörn Guömundsson, Björn Jóhannsson, Árni Jörgensen. Fréttastjórar Freysteinn Jóhannsson, Magnús Finnsson, Sigtryggur Sigtryggsson, Ágúst Ingi Jónsson. Auglýsingastjóri Baldvin Jónsson. Ritstjórn og skrifstofur: Aöalstræti 6, sími 10100. Auglýsingar: Aöalstræti 6, sími 22480. Afgreiðsla: Kringlan 1,s:mi 83033. Áskrift- argjald 400 kr. á mánuöi innanlands. í lausasölu 35 kr. eintakiö. Snögg afgreiðsla á Sovétmönnum að var ánægjulegt að fylgj- ast með því á dögunum, hve snarlega Albert Guðmundsson, iðnaðarráðherra, afgreiddi til- raunir Sovétmanna til þess að ná fótfestu í íslenzku atvinnu- lífi. Strax að loknum viðræðu- fundi í iðnaðarráðuneytinu lá það ljóst fyrir, að þetta hafði verið fyrsti og síðasti fundurinn um þetta mál. Þetta er fagnað- arefni. Mikilva:gt var að Sovét- menn gerðu sér grein fyrir því, að ekkert hik væri á íslenzkum stjórnvöldum, engin tilhneiging til að kanna málið frekar. Það er líka ljóst, að þeir Stálfélags- menn höfðu ekkert frumkvæði að því að tala við Sovétmenn. Þvert á móti er Morgunblaðinu kunnugt um, að framan af fengu þeir einungis vitneskju um, að erlendur aðili hafði áhuga á samstarfi við þá en ekki hvaða erlendi aðili það væri. Þetta pukur segir nokkra sögu um raunveruleg áform Sovétmanna í þessari furðulegu og klaufa- legu tilraun þeirra til þess að komast inn í atvinnulíf okkar. Eftir stendur hins vegar sú athyglisverða staðreynd, að þeir reyndu. Og aðferðir þeirra til þess vekja upp ýmsar spurning- ar. Þeir fengu íslenzkt fyrir- tæki, sem haft hefur einhver viðskipti við Sovétríkin til þess að hafa milligöngu um samtöl á milli þeirra og Stálfélagsins. Hvað kom til? Hvers vegna sneru Sovétmenn sér ekki sjálf- ir beint til Stálfélagsins eða iðnaðarráðuneytisins og lýstu áhuga sínum við þessa aðila? Hvers vegna notfærðu þeir sér milligöngu íslenzks fyrirtækis, sem aldrei hefur komið nálægt stórrekstri sem þessum? Hafa Sovétmenn gert tilraun til að nota sér milligöngu annarra íslenzkra fyrirtækja í svipuðum tilgangi? Þessar og fleiri spurningar hljóta óhjákvæmilega að vakna vegna þessarar viðleitni Sovét- manna til þess að verða aðilar að stóru fyrirtæki í íslenzku atvinnulífi. Talsmenn Sovétvið- skipta hér á íslandi hafa oft haldið því fram, að ástæðulaust væri að hafa grunsemdir í garð Sovétmanna í sambandi við viðskipti þeirra við okkur og talið þá menn ofstækisfulla í andstöðu við Sovétmenn, sem hafa varað við of miklum við- skiptum við þá. Hvað segja þessir sömu menn nú um til- raunir Sovétmanna til þess að verða þátttakendur í byggingu stáliðjuvers á íslandi? Auðvitað er það staðreynd, að Sovétmenn beita viðskiptum í pólitískum tilgangi. Þeir vilja selja okkur alla þá olíu, sem þeir geta fengið okkur til að kaupa vegna þess, að þeir vilja að við verðum háðir þeim um olíuinnflutning. Þeir tímar hafa komið á undanförnum árum, að erfitt hefði verið fyrir okkur íslendinga að fá keypta olíu á almennum markaði vegna þess, að þegar skortur var á olíu hugsuðu menn fyrst og fremst um fasta viðskiptavini sína, en við íslendingar höfum verið fastir viðskiptavinir Sovét- manna í hátt á fjórða áratug. Auðvitað er það staðreynd, að Sovétmenn hafa haft áhuga á að komast inn í virkjanafram- kvæmdir okkar til þess að geta flutt hingað hóp sérfræðinga í tengslum við þær framkvæmd- ir, sem búið gætu um sig hér. Auðvitað er það staðreynd, að Sovétmenn hafa haft áhuga á að taka hér upp fast áætlunar- flug milli íslands og annarra landa og hafa hreyft þeim möguleika einmitt þegar verst hefur árað hjá Flugleiðum til þess að ná fótfestu í sam- göngum okkar íslendinga. í viðskiptaráðuneytinu og í sölusamtökum sjávarútvegsins hafa menn verið alltof blindir á þessa viðleitni Sovétmanna og tekið illa aðvörunum Morg- unblaðsins um það, sem að baki hefur búið. Stálfélagsmálið ætti hins vegar að sannfæra þessa sömu menn um það, hvað fyrir Sovétmönnum vakir. Að því leyti til kann það að hafa orðið til góðs. Tímabært er orðið að við tökum samskipti okkar við Sovétríkin upp til endurskoðun- ar. I fyrsta lagi skiptir máli, að dreifa olíukaupunum enn betur en gert hefur verið. í öðru lagi er það orðið mikið álitamál, hvort það borgar sig að selja allan þann fisk til Sovétríkj- anna, sem þangað fer nú. í þriðja lagi er það fáránlegt að láta Sovétmenn komast upp með alla þá starfsemi, sem þeir hafa með höndum hér á sama tíma og hendur okkar sendi- ráðsstarfsmanna í Moskvu eru bundnar að verulegu leyti. Æskilegt væri að utanríkisráð- herra tæki þessi mál til með- ferðar á næstu vikum og mán- uðum. Iðnaðarráðherrann hefur sýnt, að andstaða hans við við- skiptasamninginn við Sovét- menn á sínum tíma, sem varð til þess að fyrri ríkisstjórn missti stuðning hans og annars þingmanns Sjálfstæðisflokks var á málefnalegum forsend- umn byggð og að hann gerir sér glögga grein fyrir því, sem hér er í húfi. REYKJAVÍKURBRÉF laugardagur 9. nóvember Afnám mannréttinda Mannfólkið er ein- kennilegt. Það rýkur upp til handa og fóta og er gagntekið, al- tekið eða heltek- ið af einhverjum ákveðnum málum sem fylla huga þess um stundarsakir. Síðan fellur á dúna- logn. Það er ekki lengur í tízku að hafa áhuga á viðkomandi málum, ný umræðu- efni þrýsta sér inn í þjóðfélagið eftir einhverjum lögmálum sem enginn skilur og enginn virðist geta staðizt. Þannig voru mannréttindamál — og þá ekki sízt meðferðin á andlegum risum í Sovét- ríkjunum — helzta umræðuefni manna fyrir nokkrum árum, nú hefur þetta umræðuefni koðnað niður. Fáir tala um örlög þeirra sem lenda á geðveikrahæl- um eða í Gúlaginu í Sovétríkjunum. Bezti bandamaður stjórnenda þar er gleymskan. Sovésk stjórnvöld hafa leikið sér með tímann eins og dýratemjarar að ljónum eða tígrisdýrum. Hann virðist hafa allt í hendi sér fólkstemjarinn á leiksviðinu austantjalds. Jafnvel Afgan- istan er ekki á dagskrá — og þá allra sízt hjá þeim sem ávallt þenja sig út þegar mannréttindi eru á dagskrá ann- ars staðar en í kommúnistaríkjunum. Fyrir nokkrum árum ætlaði allt vit- laust að verða út af E1 Salvador. Þar voru bara góð öfl og vönd. Síðan kom í ljós að vondu öflin voru ekki eins vond og góðu öflin héldu fram og góðu öflin voru ekki eins góð og þau höfðu fullyrt. Nú er reynt að koma í veg fyrir að E1 Salvador verði sú púðurtunna sem að var stefnt. Þá var það Nikaragúa. Þar voru góðu öflin allsráðandi en illu and- arnir útlægir. Reagan, sem hvorki er eins heilagur og aðdáendur vilja vera láta né eins djöfullegur og andstæðingar hans fullyrða, vinnur að því öllum árum að reyna að eyðileggja góðu öflin í Nikaragúa, að sögn vinstri manna. Nú blasir við að góðu öflin í Nikaragúa eru farin að banna mannréttindi miskunn- arlaust og í allra augsýn. Ekkert prent- frelsi, ekkert málfrelsi. Engin mann- réttindi. Áhuginn er að minnka á Nik- aragúa. Menn hafa ekki áhuga á nema algóðum eða alvondum öflum. Og þá er að snúa sér til Suður- Afríku. Mannréttindabrot í Sudur-Afríku Nú virðast ekki vera til nein vond öfl nema þar. í Suður-Afríku eru öll vond öfl heimsins saman komin á einum stað. Sameinuðu þjóðirnar hafa samþykkt það í einfaldri atkvæðagreiðslu og það var einfalt mál. Um það eru allir sam- mála, jafnvel Gorbasjeff og Reagan, svo það þarf ekki frekari vitna við. Gengur jafnvel svo langt að menn telja að illskan í Suður-Afríku sé smitandi. Þeir lista- menn sem þangað koma, og jafnvel þeir sem reyna að skemmta svörtu fólki, eru útskúfaðir, þeir hljóta að hafa tekið sjúkdóminn. Samt er vitað að í Suður- Afríku eru bæði góð öfl og ill. Þar eru til góðir svertingjar og vondir hvítir menn. Þar eru einnig til góðir hvítir menn og vondir svertingjar. Þar er Alan Paton og þar er Nadine Gordimer. Þau ' hafa skrifað af þvílíkri nærfærni og skilningi um land sitt og þjóð að aðdáun vekur. Þau hafa öðrum fremur bent á illu öflin í Suður-Afríku; þau sem stjórna landinu; þau sem telja sig vera guðsútvalda þjóð. En það er tvískinn- ungur að halda því fram að hvergi séu ill öfl nema í Suður-Afríku, né kyn- þáttahatur né mannúðarleysi. Fulltrúar alls þessa eru í flestum löndum. Þeir stjórna einnig mörgum löndum, t.a.m. öllum ríkjum kommúnismans. Þeir sem ætla að refsa Suður-Afríku sérstaklega verða einnig að refsa öðrum einræðisríkjum, t.a.m. í Afríku og Suð- ur-Ameríku, svo að ekki sé nú talað um kommúnistaríkin. Þar er mannúðin fyrir borð. Þar er illskan og hatrið mikið afl. Þar er skírskotað til lágra hvata. Það er einnig gert í mörgum vestrænum ríkjum. Við þurfum ekki að fara út fyrir landsteinana til að horfa á fordóma, tvískinnung og takmarkanir mannsins í allri sinni nekt. Við erum ekki einu sinni laus við hatur. Kærleikurinn eins og Kristur boðaði hann er sízt af öllu aðals- merki okkar samtíðar. Jafnvel við erum í glerhúsi, hvað þá um margar þjóðir aðrar, herskárri. Nadine Gordimer hefur verið sískrif- andi frá því hún var 15 ára, að eigin sögn. Samt hefur hún ekki verið sett í neitt gúlag. Hún er ekki heldur á geð- veikrahæli. Hún er ekki einu sinni land- flótta í Bandaríkjunum eins og Solz- henitsyn. Hafa menn íhugað það? Sjálf hefur Nadine Gordimer sagt að margar sagna hennar hefðu vel getað sprottið úr öðru umhverfi en hennar eigin. Annað í sögum hennar gæti einungis verið runnið úr suður-afrískum jarðvegi, þar sem litarháttur manna tryggir einum völd en öðrum auðmýkt. Slíku ástandi getur enginn mælt bót. Það er viður- styggð. En horfum ekki af hundaþúfu á Suður-Afríku. Horfum af háum sjónar- hóli. Lítum yfir heimsbyggðina alla, og hvað blasir þá við augum? Hvað segja menn um þá svívirðilegu styrjöld og úthelling blóðs sem tíðkast hefur á landamærum múhameðstrúarmanna í Iran og írak? Þar er fólki fórnað á altari hatursins. Á altari fordóma. Á altari mannúðarleysis. Allt fyrir brjálaða stjórnendur eins og Komeini og Kadd- affi sem einskis svífast til að tryggja sér völd. Er ekki ástæða til að hætta öllum samskiptum við þessi ríki? Eða þá sem afnámu mannréttindin í Nik- aragúa. Eða þá sem frömdu innrásina í Afganistan. Mörgum hefði jafnvel þótt ástæða til að hætta öllum viðskiptum við Bandaríkin meðan á Viet-Nam stríð- inu stóð. Engum datt það samt í hug því allir vissu að þá mundu íslendingar éta það sem úti frýs. Við erum ekki síður tækifærissinnuð en aðrar þjóðir. Við erum ekki barnanna bezt, það er mis- skilningur, blekking, óskhyggja þegar bezt lætur. Þeir sem nú boða algjört samskiptabann á Suður-Afríku hefðu aldrei þorað að ganga fram fyrir skjöldu og krefjast slíks banns á Sovétríkin og stjórnendur Gúlagsins. En hver er munurinn? Við á Morgunblaðinu höfum aldrei verið þeirrar skoðunar að íslend- ingar ættu ekki að hafa góð og mikilvæg viðskipti við Sovétríkin án tillits til stjórnarfars. Okkur hefur aldrei dottið í hug að það ætti að refsa þeim lista- mönnum sem hafa sótt kommúnistarík- in heim. I Eþíópíu lifa valdhafar í vel- lystingum praktuglega, sóa og spenna fjármunum fólksins í hergögn og valda- brölt meðan þúsundirnar svelta heilu hungri. Hverjum dytti í hug að bann- færa þann listamann sem tæki upp á því að syngja fyrir Eþíópíumenn undir slíkum kringumstæðum? Varla nokkr- um heilvita manni. Þarna blasir tví- skinningurinn við í allri sinni dapurlegu dýrð. Samt hefur hungrið í Eþíópíu hreyft við samvizku okkar meir en önnur harmsefni í heiminum. Mannskepnan er undarlegt fyrirbrigði og dómgreindarleysi hennar virðast engin takmörk sett. Ringulreiðin og tvískinnungurinn aftur á móti í algleym- ingi. Menn ættu bara að þakka guði fyrir að þurfa ekki að búa í þessum geggjuðu löndum þar sem íbúunum er stjórnað af miklu miskunnarleysi, mannréttindi eru í lágmarki og mannúð ekki í tízku. Hvað sem hver segir er áreiðanlega þakkarefni að þurfa til að mynda ekki að búa í Suður-Afríku. Það hlýtur að valda hverjum siðferðilega þroskuðum manni miklu hugarangri að vera þar í forréttindahópnum. Vel getur verið að náttúran refsi slíku fólki með því að láta það endurfæðast sem svertingja í næsta lífi, hver veit? Eða hvað segja menn um mannrétt- indin í Sovétríkjunum? Nadine Gordimer hefur sagt í at- hyglisverðu sjónvarpssamtali að hún lýsi því sem hún þekki úr umhverfi sínu. Ritskoðendurnir ætlist til þess að hún afsaki gerðir suður-afrísku ríkisstjórn- arinnar. En hún segir: Ég er rithöfund- ur, ég er ekki áróðursmeistari. Það er ekki hægt að ætlast til þess af rithöfundi að hann leiti jafnvægis þar sem ekkert jafnvægi er að finna og það er ekkert jafnvægi í suður-afrísku þjóðfélagi. Ég get ekki búið til jafnvægi sem er ekki fyrir hendi. Ég get einungis lýst því jafnvægisleysi sem er í umhverfi mínu. En hvað um jafnvægið í Sovétríkjun- um. Við skulum ekki hafa mörg orð um það. Ein ástæðan fyrir tvískinnungnum í heiminum er að sjálfsögðu sú að menn nenna ekki að vera að tönnlast á því sama sí og æ. Áróðursmeistarar komm- únismans græða stórlega á þessum leiða. Fá stundum að halda því fram í friði að þegnar þeirra búi við jafnvægi sem er í raun og veru ekki burðugra en tíðk- ast í Suður-Afríku. Okkur kemur það sjálfsagt ekki míkið við. Við berum ekki ábyrgð á kommúnismanum í öðrum löndum. Við viljum einungis ekki flytja hann inn. En við viljum flytja ýmislegt annað inn frá þessum löndum. Og við viljum hafa tækifæri til að flytja afurðir okkar út til þeirra. Við höfum átt góð viðskipti við Sovétríkin. Við eigum að halda þeim áfram og efla þau svo fram- arlega sem ráðstjórnin reynir ekki að ná tangarhaldi á okkur í gegnum þessi viðskipti en slíkt er algengt eins og kunngt er. Mannréttindin í Sovétríkjunum Við skulum ekki gleyma því að Ronald Reagan þarf að ræða við Mikhael Gor- basjeff um stóralvarleg mannréttinda- brot í Sovétríkjunum þegar þeir hittast 19. og 20. nóvember nk. Samt eru Gor- basjeff og utanríkisráðherra hans taldir afar geðugir menn og koma vel fyrir. Þeir eigi jafnvel eftir að dáleiða að- dáendur sína á vesturlöndum upp úr skónum. En hver var göfugmannlegast- ur og fríðastur alira kommúnistaleið- toga annar en Josef Stalín! Gleymum því ekki í vímunni. Við þekkjum Andrei Sakharov og sögu hans. En hann er einungis tákngerving- ur, einn frægur maður sem stendur upp úr og vitnar um örlög þúsunda annarra sem eiga við sama böl að búa. Vitnar um stalínisma í Sovét. En hvað um Sjaranskí, 37 ára gyðing sem hefur verið að taka út tíu ára hegningu í þrælabúð- um í Úral vegna þess hann sóttist eftir frelsi sem heitir á rússnesku „svik, njósnir og andsovézk áróðursstarfsemi", eða Lagle Parek sem er 44 ára, óskaði þess eins að Eistar kappkostuðu að halda einkennum sínum en bar auk þess lofs- yrði á Lech Walesa. Hún hlaut níu ára refsivist í þrælabúðum fyrir áróðurs- starfsemi. Éða Jegor Volkof sem hefur eytt átján árum af 58 sem hann hefur lifað á geðveikrahæli nálægt kínversku landamærunum vegna þess hann stóð fyrir verkfallstilraunum 1967 meðal samverkamanna sinna í byggingariðn- aði. Eða önnu Sjerdkova sem er 58 ára hvítasunnumaður og hefur verið á geð- veikrahæli í Tasjkent frá 1973 vegna óleyfilegra afskipta af trúarbrögðum eins og það heitir á tungu Dostojevskis. Þannig getum við haldið áfram. Við getum fyllt þessa opnu í Morgunblaðinu einungis með nöfnum fórnardýra „mannúðarinnar" í Sovétríkjunum, jafn- vel 128 síður af Morgunblaðinu ef menn hefðu áhuga á. Kaupmannasamtökin og Alþýðusamband íslands ættu að kynna sér þessi nöfn, næst þegar Donkíkóti leggur upp í hernað gegn heimsku og hörmungum í fjarlægum löndum. Og hvernig væri að leiðtogar íslenskra laun- þega kæmu við í Afganistan, þegar þeir skreppa til Suður-Afríku á næstunni? Þúsundir mannslífa í veði Að lokum er ástæða til að vekja at- hygli á forystugrein Heilbrigðismála, tímarits Krabbameinsfélags íslands en það er vandaðasta alþýðlegt tímarit í sinni grein sem hér er gefið út. Greinina skrifar forstjóri Krabbameinsfélagsins, dr. G. Snorri Ingimarsson læknir, og fjallar hún um lungnakrabbamein og tóbakseitrið. Hún er svohljóðandi: „Okkur stendur ógn af krabbameini. Enginn kemst hjá því að kynnast beint eða óbeint þeim hörmungum sem þessi sjúkdómur veldur. Flest kjósum við að loka augunum og leita á vit gleymskunn- ar. Einhver annar verður að takast á við vandann. En hvað gerir þú lesandi minn ef þér er falið að hafast eitthvað að sem máli skiptir til að berja á þessum sjúkdómi? Þú leggst undir feld og hugsar ráð þitt. Þú sérð að vandamálið er stórt. Rúmlega 700 Islendingar kynnast krabbameini í líkama sínum á ári hverju. Hnípnir vandamenn og vinir skipta þúsundum. — Og vandinn er mikill. Það er við slægan óvin að etja og þú þekkir ekki lögmál hans. Eða hvað? Þekkir þú ekki eina orsök og þá sem mest munar um? Þér hleypur kapp í kinn undir feldinum. Neysla tóbaks veldur allt að þriðjungi krabbameina. Það munar um minna. Aftur er um að ræða hundruð sjúklinga og þúsundir vandamanna. En nú snýst málið um að firra þá kynnum við krabbameinið. Þessi uppgötvun þín gerir þig samábyrgan. Þú mátt ekki sofna undir feldinum. Nú höfum við verk að vinna. En hvað hefur verið gert í málinu fram að þessu? spyrð þú. Merkileg tíð- indi hafa gerst. Alþingi samþykkti ný lög um tóbaksvarnir á Islandi og þau öðluðust gildi um síðustu áramót. Hvað með það? heyrist í þér undan feldinum. Þar með hafa heilbrigðisyfirvöld tekið af skarið. Tóbaksvarningur er banvæn neysluvara og nú merktur i samræmi við það. Þessi aðgerð hefur mælst misjafnlega fyrir. Innanlands höfum við skipst á skoðunum um kosti og galla slíkrar löggjafar. I hjarta okkar erum við þó sannfærð um að heilsunni er betur borgið án tóbaksneyslu. Erlendis er annað upp á teningnum. Island er allt í einu í fararbroddi með aðgerðir gegn þessari farsótt ávanans sem árlega sviptir milljónir jarðarbúa heilsu og lífi. Við erum talin eiga betri möguleika en nokkur önnur þjóð að losna undan þessu oki. Þar fylgjast að smæð þjóðarinnar og góð menntun hennar. Þegar kaldar staðreyndir liggja fyrir tökum við tillit til skynseminnar. Við stöndum saman þegar á reynir. Við sköpum fordæmi. Gott fordæmi. En er björninn þá ekki unninn? heyr- ist í þér undan feldinum. ónei! Nú komum við að vandamálinu okkar. Það eru miklir hagsmunir í veði fyrir aðra. Tóbaksframleiðendur hafa illan bifur á tiltæki Islendinga. Mjög illan. Neyt- endamarkaðurinn hér er óverulegur og framleiðendur munar ekki hót um hann. Þá munar heldur ekki um að gefa tóbak út á þetta sker til að viðhalda neyslunni. Er nú ekki heldur barnalegt að óttast þetta? — heyrist undan feldinum. Ja, hver eru viðbrögðin? Nú flæða inn á íslenskan markað ódýrar sígarettur sem á nokkrum mánuðum hafa orðið sölu- hæstar. Allt í einu eru reykingar orðnar ódýrari óhollusta en fyrir ári. Þessar sígarettur eru jafnvel seldar undir vöru- heitum sem enginn kannast við utan myrkviða Afríku. Þannig reyna tóbaks- framleiðendur að gera lítið úr áhrifum löggjafarinnar svo að aðrar þjóðir fari ekki að fordæmi okkar. Og enn eigum við undir högg að sækja. Nú heyrast raddir um að rétt sé að ríkið sleppi því taki sem það hefur haft á dreifingu og sölu tóbaks. Þrátt fyrir nýbreytnina yrðu ríkissjóði tryggð- ar óskertar tekjur af tóbaksneyslu í landinu. Með því að einblína aðeins á stundarhagsmuni ríkissjóðs firra menn sig þeirri ábyrgð að horfa á vandamálið í heild sinni. Engin ákvæði eru til um lágmarksverð tóbaks. Ef sömu markaðs- lögmál eiga að gilda um tóbaksvörur og aðrar neysluvörur, hvað varðar sölu og dreifingu, má búast við að þær verði boðnar á tilboðsverði og þá helst þar sem unga kynslóðin leggur leið sína. Augljóst er hvað af því leiðir. Islensk þjóð mun ekki fitna af viðskiptum sínum við tób- aksframleiðendur og bandamenn þeirra. Einnig er ljóst að gróði ríkissjóðs mun rýrna þegar að afborgunum kemur. I grein hér í blaðinu lesum við að á fimmta þúsund Islendingar muni látast af völdum reykinga á næstu 15 árum. Hvað heldur þú að það kosti ríkissjóð að hjálpa þessu fólki við að deyja? Er ekki mál að linni? Þú sérð að það er tímabært að þú komir undan feldinum. Við eigum verk að vinna." Við skulum öll koma undan feldinum og ganga til liðs við Krabbameinsfélag íslands í baráttunni við tóbaksneyzlu. Og — er farið eftir nýju tóbakslögunum á veitinga- og vinnustöðum? í Sudur-Afríku eru öll vond öfl heimsins saman komin á einum stad. Sameinuðu þjóðimar hafa samþykkt það í einfaldri at- kvæðagreiðslu og það var ein- falt mál. Um það eru allir sam- mála, jafnvel Gorbasjeff og Reagan, svo það þarf ekki frekari vitna við. Gengur jafnvel svo langt að menn telja að illskan í Suður- Afríku sé smit- andi. Þeir lista- menn sem þang- að koma, og jafn- vel þeir sem reyna að skemmta svörtu fólki, eru útskúf- aðir, þeir hljóta að hafa tekið sjúkdóminn. Samt er vitað að í Suður-Afríku eru bæði góð öfl og ill.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.