Morgunblaðið - 19.12.1990, Blaðsíða 32
32
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 19. DESEMBER 1990
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 19. DESEMBER 1990
33
pitrgmmMaliií
Útgefandi
Framkvæmdastjóri
Ritstjórar
Aðstoðarritstjóri
Fulltrúarritstjóra
Fréttastjórar
Árvakur, Reykjavík
Haraldur Sveinsson.
Matthías Johannessen,
Styrmir Gunnarsson.
Björn Bjarnason.
Þorbjörn Guðmundsson,
Björn Jóhannsson,
Árni Jörgensen.
Freysteinn Jóhannsson,
Magnús Finnsson,
Sigtryggur Sigtryggsson,
Ágúst Ingi Jónsson.
Ritstjórn og skrifstofur: Aðalstræti 6, sími 691100. Auglýsingar: Aðal-
stræti 6, sími 691111. Afgreiðsla: Kringlan 1, sími 691122. Áskriftar-
gjald 1100 kr. á mánuði innanlands. f lausasolu 100 kr. eintakið.
Fijálsræði
í olíuviðskiptum
Alþýðubandalagið í Reykjavík:
Birting telur að þátt-
töku sinni í framboði
Grlista hafi verið hafnað
Formaður kjörnefndar Alþýðubandalagsins í Reykjavík segist
vonast til að deilum um framkvæmd forvals G-listans í Reykjavík
fyrir alþingiskosningarnar hafi lokið eftir að félagsfundur ABR
samþykkti tillögu um að forvalið verði opið öllum flokksbundnum
alþýðubandalagsmönnum í Reykjavík. Hingað til hefur þátttaka í
forvali verið bundin við félagsmenn í ABR. Forsvarsmenn Birtingar
telja þessa niðurstöðu hins vegar óviðunandi og þýði að þátttöku
Birtingar í framboði því sem ABR hyggist standa fyrir, hafi verið
hafnað. Þeir íhuga meðal annars að krefjast þess að miðstjórn AI-
þýðubandalagsins verði kölluð saman vegna málsins. Birting hafði
m.a. gert kröfu um að forvalið yrði opið fyrir óflokksbundna stuðn-
ingsmenn Alþýðubandalagsins.
Morgunblaðið/Þorkell
Sigurbjörg Gísladóttir formaður ABR og Hallur Páll Jónsson formað-
ur kjörnefndar ABR á fréttamannafundi í gær.
Viðskipti með bílabensín hafa
verið gefin fijáls. Ríkis-
valdið hefur sleppt hendi sinni
af innkaupunum og olíufélögun-
um er ekki lengur skylt að
kaupa bensín frá Sovétríkjun-
um. Með þessari ákvörðun Jóns
Sigurðssonar viðskiptaráðherra
sem tekur gildi um áramótin er
stigið merkilegt skref til fijáls-
ræðis í viðskiptum. Raunar
hefði átt að stíga það fyrir löngu
en upplausnin í Sovétríkjunum
og sú staðreynd að samkomulag
náðist ekki við Sovétmenn um
bensínverð auk þess sem þeir
standa ekki við gerða viðskipta-
samninga á öðrum sviðum við
okkur knúði að lokum til þessar-
ar ákvörðunar.
Eðlilegt framhald hennar er,
að olíufélögin hefji samkeppni
sín á milli og stundi hana með
sama hætti og aðrir innflytjend-
ur. Það á að afnema sameigin-
lega verðjöfnun olíufélaganna
og móta stefnu út úr því kerfi
sem nú gildir. Olíufélögin hafa
hvert og eitt verið að styrkja
innviði sína að undanförnu með
því að auka hlutafé sitt. Þau
eru vel í stakk búin til að tak-
ast á við verkefni sín á nýjum
forsendum og fá auk þess
nokkra aðlögun að breytíngun-
um, þar sem viðskipti með gas-
olíu og svartolíu eru enn samn-
ingsbundin við Sovétríkin.
Rökin fyrir viðskiptunum við
Sovétríkin hafa einkum verið
þau, að með því að kaupa af
þeim olíu værum við að búa í
haginn fyrir sölu á íslenskum
afurðum þangað. Þessi rök eiga
ekki lengur við. Þá hefur verið
sagt, að alltaf hafi mátt treysta
Sovétmönnum og afgreiðslum
frá þeim. Er ástæða til að efast
um að sú skoðun eigi lengur
rétt á sér. Formleg ástæða slit-
anna á samningaviðræðunum
um bensínkaup var sú, að sam-
komulag náðist ekki um verð.
Þá hafa Sovétmenn átt í erfið-
leikum með að uppfylla gæða-
kröfur.
Fyrir áratug eða svo voru
miklar umræður um það, hvort
íslendingar ættu að gerast aðil-
ar að Alþjóða orkumálastofnun-
inni, sem hefur meðal annars
það hlutverk að fylgjast með
eldsneytisbirgðum aðildarland-
anna og sjá til þess að þær
endist að minnsta kosti í 90
daga. Umdeild niðurstaða varð
sú, að við ættum ekki að taka
þátt í störfum stofnunarinnar
og var hún meðal annars rakin
til afstöðu Sovétmanna. Við
breyttar aðstæður þarf ekki
aðeins að huga að olíuviðskipt-
unum sjálfum heldur einnig því,
hvort við þurfum að gæta hags-
muna okkar með aðild að þess-
ari alþjóðastofnun eða annars
konar baktryggingu.
Glæsilegur
árangur
Sigrúnar
Sigrún Eðvaldsdóttir fiðlu-
leikari náði glæsilegum
árangri með því að hljóta þriðja
sætið í alþjóðlegri keppni fiðlu-
leikara, sem er kennd við
finnska tónskáldið Sibelíus. í
hinni hörðu samkeppni sem ríkir
á þessu sviði nær enginn jafn
langt og þetta án þess að hafa
í senn mikla listræna hæfileika
og þrótt til að nýta þá.
Arangur Sigrúnar er einnig
mikil viðurkenning fyrir íslenskt
tónlistarlíf og sýnir að hér hljóta
menn þá tónlistarmenntun er
dugar til mikilla afreka. Góð
undirstaða og metnaðarfull
kennsla eru hér óhjákvæmilegar
forsendur.
Tónlistarmenntun hér hefur
að verulegu leyti byggst á fram-
taki og dugnaði einstaklinga.
Tónlistarskólarnir eru að
nokkru leyti einkaskólar, þar
sem nemendur verða að greiða
há skólagjöld til að njóta þar
kennslu. Með Sinfóníuhljóm-
sveit æskunnar sem hóf starf
sitt fyrir frumkvæði og dugnað
Pauls Zukofskys hefur ungum
hljóðfæraleikurum verið skap-
aður vettvangur, þar sem tekist
er á við hin erfiðustu viðfangs-
efni með ströngum kröfum.
Framganga Sigrúnar Eð-
valdsdóttur í samkeppni við full-
trúa frá miklu fjölmennari og
auðugri þjóðum ætti að vera
okkur hvatning til að hlú enn
betur að tónmenntun. Astæðu-
laust er að hverfa frá þeim hefð-
um sem hafa skapast og byggj-
ast á framtaki einstaklinga í
tónlistarlífinu. Hins vegar á
skólakerfið að koma til móts við
eðlilegar kröfur og stuðla að
sem fjölbreyttustum kynnum
ungs fólks af tónlist. Einhæfni
í tónlistarvali útvarpsstöðva
stuðlar því miður ekki að fjöl-
skrúðugum kynnum af tónlist.
Á félagsfundi ABR á mánudags-
kvöld var ofangreind tillaga kjör-
nefndar samþykkt, og að jafnframt
fái Birting, Æskulýðsfylking Al-
þýðubandalagsins og starfshátta-
nefnd Alþýðubandalagsins að til-
nefna einn mann hvert til að starfa
með kjörnefnd að frágangi kjör-
skrár, framkvæmd forvalsins og
að gera tillögu um endanlega skip-
an framboðslistans. í forvalinu,
sem halda á 19. janúar nk. verður
raðað í 5 efstu sæti listans, en
niðurstaðan er þó ekki bindandi.
Hins vegar þarf 2/3 greiddra at-
kvæða. á fundi alþýðubandalags-
manna, sem rétt hafa til þátttöku
í forvalinu, til að breyta niðurstöð-
unni.
Á félagsfundinum á mánudag
lagði Birna Þórðardóttir til að þau
atriði yrðu felld út úr forvalsregl-
unum, sem færa forvalið út fyrir
ABR, en sú tillaga var felld með
45 atkvæðum gegn 25.
- Stórtskref
Hallur Páll Jónsson formaður
kjörnefndar sagði þessa samþykkt
félagsfundarins þýða, að alþýðu-
bandalagsmenn í Birtingu og
Æskulýðsfylkingunni hefðu nú
sömu möguleika og aðrir flokks-
menn að hafa áhrif á framboðslist-
ann. Með þessu hefði Alþýðu-
bandalagið í Reykjavík stigið mjög
stórt skref til sátta milli flokks-
manna í Reykjavík, og vonir stæðu
til að þetta yrði til að ljúka deilum
um form framboðsins þannig að
hægt sé að snúa sér að málefna-
vinnu fyrir kosningarnar.
Á félagsfundi ABR um miðjan
nóvember var ákveðið að hafa lok-
að forval fyrir G-listann í
Reykjavík. Það taldi Birting bijóta
gegn þeim hugmyndum, sem sér-
stök starfsháttanefnd, sem kosin
var af miðstjórn Alþýðubandalags-
ins, hefði sett fram. Meginatriðin
í þeim hugmyndum væru að starfs-
hópur alþýðubandalagsfélaganna
þriggja í Reykjavík sæi um fram-
boð G-listans, og fram færi skoð-
anakönnun allra stuðningsmanna
Alþýðubandalagsins.
Kjartan Valgarðsson formaður
Birtingar sagði að undanfarið
hefðu átt sér stað viðræður um
fyrirkomulag forvalsins með for-
ustumönnum Alþýðubandalagsins,
ABR, fulltrúum úr starfshátta-
nefnd og fleirum, nú síðast um
helgina. Þar hefði Birting lagt höf-
uðáherslu á þijú atriði. í fyrsta
lagi opið prófkjör eða forval flokks-
manna og stuðningsmanna Al-
þýðubandalagsins. í öðru lagi að
skýr málefnagrundvöllur lægi fyrir
þegar forval færi fram sem stydd-
ist við þá stefnu flokksins sem fram
kæmi í stjórnmálaályktun aðal-
fundar miðstjórnar á Akureyri í
nóvember. í þriðja lagi að jafnræði
yrði með félögunum þremur í
Reykjavík við forvalið, þ.e. að kjör-
nefnd yrði sameiginleg og félögin
þijú héldu forvalið sameiginlega.
Tekið hefði verið vel í þetta, í við-
ræðum við Svavar Gestsson
menntamálaráðherra og fleiri, og
settar fram tillögur sem gengu í
þessa átt.
„Ollu þessu er nú hafnað af
ABR. Við vorum til viðræðu um
að falla frá kröfunni um opið forv-
al, en binda þátttökurétt við aðild
að Alþýðubandalagsfélagi en að
því var heldur ekki gengið. Og
mér finnst alveg furðulegt að form-
aður ABR skuli telja það sérstakt
örlæti að flokksbundnir félags-
menn í Reykjavík fái að kjósa í
þessu forvali,“ sagði Kjartan.
Aldrei lofað opnu prófkjöri
Sigurbjörg Gísladóttir formaður
ABR sagði á fréttamannafundi í
gær að ýmislegt hefði verið gert
til að koma til móts við óskir Birt-
ingar. Hins vegar væri rétt, að
ekki væri gengið að kröfu um opið
prófkjör þar sem enginn vilji hefði
reynst vera fyrir því innan ABR.
Það hefði heldur aldrei verið gefinn
neinn ádráttur um opið prófkjör.
Þegar Sigurbjörg var spurð
hvort ekki hefði verið hægt að
miða þátttöku í forvalinu við aðild
yfirlýstra stuðningsmanna Alþýðu-
bandalagsins innan Alþýðubanda-
lagsfélaga, þótt þeir væru ekki
flokksbundnir, sagði hún að það
væri ekki réttlátt gagnvart þeim
stuðningsmönnum flokksins sem
hvorki væru flokks- né félags-
bundnir.
Haft var eftir Svavari Gestssyni
menntamálaráðherra í DV í gær,
að ef menn væru í Birtingu væru
menn sjálfkrafa í Alþýðubandalag-
inu þar sem Birting væri alþýðu-
bandalagsfélag. Sigurbjörg var
ekki sammála þessari túlkun á
fréttamannafundinum, en sagði að
Birting hefði heimild til að skrá
félagsmenn í Alþýðubandalagið.
Kjartan Valgarðsson sagði að lög
Birtingar væru þannig að félagið
væri bæði opið flokksmönnum og
óflokksbundnum mönnum. Það
þýddi hins vegar um leið að gengju
birtingarmenn í aðra stjórnmála-
flokka væru þeir um leið að ganga
úr Birtingu.
Kjartan sagði það vera eindreg-
inn vilja flokksmanna Alþýðu-
bandalagsins út um allt land, að
samstaða náist í Reykjavík, enda
hafi framboð flokksins þar mikla
þýðingu fyrir landið allt. Birting
hefði krafist þess að stofnað yrði
kjördæmisráð í Reykjavík en því
hefði ekki verið sinnt, og miðstjórn
flokksins hefði heykst á að taka á
málinu á síðasta fundi. „Hins veg-
ar setti miðstjórnin traust sitt á
starfsháttanefndina og fól henni
ótakmarkað umboð til að leysa
málið. Árangurinn af starfi nefnd-
arinnar er nákvæmlega enginn og
þar með hljótum við að íhuga þann
möguleika að krefjast miðstjórnar-
fundar um málið, fyrir utan það
að biðja um fund með þingflokki
flokksins og skýra þar okkar sjón-
armið,“ sagði Kjartan.
Sigurbjörg sagði aðspurð að hún
teldi starfsháttanefndina ekki hafa
komið fram með mótaðar tillögur
heldur einungis ábendingar.
Alþýðubandalagið í Reykjavík
er langstærsta flokksfélag Álþýðu-
bandalagsins, með um 1.200
skráða meðlimi að sögn Sigur-
bjargar Gisladóttur. í forva.linu
verður miðað við félagaskrá AI-
þýðubandalagsins eins og hún
verður 9. janúar.
Hallgrímskirkja:
Jólatónleikar Mótettukórsins í kvöld
JÓLATÓNLEIKAR Mótettukórs
Hallgrímskirkju verða haldnir í
kirkjunni í kvöld, miðvikudag-
inn 19. desember klukkan 20.30.
Á tónleikunum verða flutt þrjú
verk, Magnificat og Jólasagan
eftir Heinrich Schiitz og ein-
söngskantatan Jauchzet Gott
eftir J. S. Bach. Auk kórsins
taka fjórir einssöngvarar, þau
Marta Halldórsdóttir, sópran,
Guðrún Finnbjarnardóttir,alt,
Gunnar Guðbjörnsson, tenór, og
Sigurður Steingrímsson, bassi,
þátt í flutningi verkanna
þriggja. Með söngvurunum leik-
ur hljómsveit sem samanstendur
af tveimur trompettum, tveimur
blokkflautum, þremur básúnum,
fagotti, strengjum og orgeli.
Konsertmeistari er Rut Ingólf-
dóttir og Hörður Áskelsson er
stjórandi.
Hörður Áskelsson sagði í stuttu
spjalli við Morgunblaðið að lítið
hefði verið leikið af verkum
Heinrichs Schútz fyrr en á seinni
árum. „Nafn hans og Bachs eru
engu að síður tvö stærstu nöfnin
í sögu kirkjutónlistarinnar, einkan-
lega mótmælandatrúar,“ sagði
Hörður. „Hann var mikill tónlistar-
maður, tónskáld og stjórnandi í
Þýskalandi, en lærði á Ítalíu þaðan
sem hann flutti með sér ítalskan
stíl norður í álfu. Hafði þetta
ómæld og ómetanleg áhrif á sögu
kirkjutónlistar og tónlistar al-
mennt.
Mótettukór Hallgrímskirkju.
Aðalverkið sem við flytjum eftir
Schútz er Jólasagan eða jólaguð-
spjallið sem flutt verður á móðurt-
ungu hans, þýsku. Verkið er afar
leikrænt. í því er sögumaður, sem
syngur guðspjallið, auk annarra
einsöngvara og kórs sem fara með
ýmis hlutverk í verkinu. Má þar
nefna hirðingjana á Betlehemsvöll-
um, sem þriggja radda kór alt-
radda syngur, vitringana, sem
þriggja radda kór tenóra syngur,
æðstu prestana, sem íjögurra
radda kór bassaradda syngur,
Heródes konung, sem Sigurður
Steingrímsson syngur, og engla
sem kórinn syngur. Einsöng meðal
englanna syngur Marta Halldórs-
dóttir.
Einnig má nefna hljóðfæraskip-
an í verkinu sem notuð er til að
ná fram einstaka persónueinkenn-
um viðkomandi aðila, blokkflautu-
leikur tengist til að mynda hirðun-
um og básúnurnar eru notaðar til
að undirstrika vald eða visku æðstu
prestanna."
Guðrún Finnbjarnardóttir og
Sigurður Steingrímsson, einsöngv-
arar, sögðu að annað verk Schútz
á tónleikunum væri samið fyrir
fimm hópa tónlistarfólks einsöng-
skór, tvo söngkóra, strengaraddir
og básúnutríó.„Verkið er lofsöngur
Maríu til drottins eftir að hún hef-
ur fengið þær fréttir að hún sé
með með barni,“ segir Guðrún og
bætir við að verkið sé einfalt en
fallegt og grípandi. Verkið, sem
ber heitið Magnificat, er sungið á
latínu.
Magnificatið hefur ekki verið
fluttt áður á Islandi en Jólasagan
hefur aðeins einu sinni áður verið
flutt hér á landi, af Passíukórnum
á Akureyri.
Þriðja verkið á tónleikum Mót-
ettukórsins er einsöngskantatan
Jauchzet Gott eftir J.S. Bach.
Kantatan byggir á Davíðssálmi og
er skrifuð sem eins konar konsert
fyrir sópran, trompett og strengi.
Einleikarar í kantötunni eru As-
geir Steingrímsson, Rut Ingólfs-
dóttir og Unnur María Ingólfsdótt-
ir.
Einsöngvarar á tónleikum Mót-
ettukórsins eru allir ungir að árum.
Marta Halldórsdóttir, sem meðal
annars syngur einsöngskantötuna,
er við nám í Múnchen í Þýskalandi
og Gunnar Guðbjörnsson starfar í
Lundúnum. Hafa þau getið sér
einkar gott orð fyrir frammistöðu
sína á tónleikum. Guðrún Finn-
bjarnardóttir og Sigurður Steingr-
ímsson eru bæði við nám í Söng-
skólanum í Reykjavík.
Jólatónleikar Mótettukórsins
eru fyrstu tónleikar á dagskrá List-
vinafélags Hallgrímskirkju á 9.
starfsári þess sem hófst í byijun
aðventu. Þess má að lokum geta
að á undan og eftir tónleikunum
verður leikin aðventutónlist á
klukkuspil Hallgrímskirkju.
Sovétmenn vilja greiða
okkur um 100 millj. kr.
fyrir ull og lagmeti
Saltsíldin í háum verðflokki og því tvísýnt um kaup á henni
SOVÉTMENN leggja megin áherslu á að greiða á næstunni þær
vÖrur, sem íslendingar eru búnir að afhenda þeim, aðallega ull og
niðurlagðar sjávarafurðir, fyrir rúmar 2 milljónir Bandaríkjadala,
eða 110-115 milljónir króna, að sögn Ólafs Egilssonar sendiherra í
Moskvu.
Ólafur Egilsson gekk á fund Sit-
aryans, eins af varaforsætisráð-
herrum Sovétríkjanna, á fimmtu-
dag. Sitaryan sagði á fundinum að
óvíst væri hvort þau matvæli, sem
samið hafði verið um að Sovétmenn
keyptu af okkur í ár og eftir er
að afhenda þeim, gætu fallið inn í
nauðsynlegustu matvælakaup Sov-
étmanna, sem leggja yrði áherslu
á vegna þess matvælaskorts, sem
nú væri í Sovétríkjunum. íslenska
saltsíldin væri til dæmis í það háum
gæða'- og verðflokki að tvísýnt
væri hvort Sovétmenn keyptu
hana, eins og staðan væri núna.
Síldarútvegsnefnd vill hins vegar
að Sovétmenn standi við samninga
um að kaupa 50 þúsund tunnur af
saltsíld héðan á þessari vertíð fyrir
5,5 milljónir Bandaríkjadala, eða
um 300 milljónir króna.
Á fundi Ólafs Egilssonar og.Sit-
aryans var einnig rætt hvort lána-
fyrirgreiðsla gæti auðveldað
ákvarðanir Sovétmanna varðandi
vörukaup þeirra héðan. Sitaryan
tók jákvætt í þá hugmynd og áleit
að þá ætti að geta komið til sovésk
ábyrgð á endurgreiðslum. Hins
vegar þyrftu hlutaðeigandi aðilar
að fjalla nánar um þetta atriði áður
en lokaniðurstaða fengist í málinu.
Núverandi viðskiptabókun á milli
íslands og Sovétríkjanna gildir út
þetta ár en samningar um nýja
viðskiptabókun á milli landanna
fyrir næstu tvö ár hófust í
Reykjavík í haust og Sitaryan lagði
áherslu á að gengið yrði frá henni.
Hann sagði að enda þótt í vöru-
listum með bókuninni yrði ekki tek-
ið fram heildarmagn eða heildar-
verðmæti þeirra vara, sem Sovét-
menn keyptu af Islendingum á
næstu tveimur árum myndi tilvist
slíkrar- viðskiptabókunar styrkja
grundvöll viðskiptanna. Bókunin
gæti meðal annars greitt fyrir því
að stofnanir á vegum sovéska ríkis-
ins héldu áfram að kaupa vörur
af íslendingum á meðan um væri
að ræða miðstýrð innkaup til lands-
ins.
Á fundi Ólafs Egilssonar og Sit-
aryans kom einnig fram að þrátt
fyrir þá áherslu, sem Sovétmenn
leggja á kjöt- og kornkaup, er
hugsanlegt að á ríkisfjárlögum
Sovétríkjanna fyrir næsta ár verði
fjárveiting til kaupa á físki erlendis ’
frá.
Sitaryan hvatti til bjartsýni og
sagði að enda þótt gjaldeyrisskort-
ur skapaði Sovétmönnum þrönga
stöðu núna ætti hann ekki að verða
til þess að viðskipti íslendinga og
Sovétmanna koðnuðu niður. Ein-
stakir útflytjendur yrðu að leggja
meiri vinnu í viðskiptin en áður,
þar sem einföld viðskipti við sovésk
stjórnvöld yrðu einungis leiðbein-
andi. Nú þegar hefði það áhrif á
afstöðu stjórnvalda til innkaupa að
margir nýir aðilar í Sovétríkjunum
hefðu fengið umráð yfir gjaldeyri.
Ef ekki getur orðið um frekari
kaup Sovétmanna að ræða á vörum *
héðan gegn beinum greiðslum verð-
ur kannað rækilega á næstiinni
hvaða möguleika Iánafyrirgreiðsla
getur skapað en Landsbankinn hef-
ur verið í bréfaskiptum við Ut-
anríkisviðskiptabanka Sovétríkj-
anna um bankafyrirgreiðslu til að
auðvelda frekari viðskipti. Einnig
hefur Björn Tryggvason, aðstoðar-
bankastjóri Seðlabankans, beitt sér
fyrir lausn á þessum málum.
Hvalur í kjötborðinu
Morgunblaðið/Þorkell
HEIL hnísa hefur verið í kjötborð-
inu í versluninni Nýi kjöt og fisk-
ur á Seljabraut 54 undanfarna
daga. Að sögn kjötiðnaðarmanns
flæktist hvalurinn í netum og
keypti verslunin hann á fískmark-
aði. Hann var hafður til sýnis í
versluninni enda komu mörg börn
úr hverfinu gagngert til að skoða
hann þar. Enginn sýndi þó áhuga
á að kaupa hnísuna í hálfu eða
heilu á tilboðsverði, enda er þetta
60-70 kg skepna, 1,60 metrar á
lengd. í dag verður hnísan hins
vegar verkuð og kjötið selt nýtt,
saltað og reykt.
Hjálparstofnun kirkjunnar:
8 milljónir hafa safnast
LANDSSÖFNUN Hjálparstofnunar kirkjunnar Brauð handa hungr-
uðum heimi stendur nú sem hæst og höfðu í gær, þriðjudag, safn-
ast um 8 milljónir króna. Er það um 1,5 milljónum króna nieira en
á sama tíma í fyrra. Álíka margir hafa notfært sér gíróseðlana
núna og á sama tíma í fyrra, eða tæplega fimm þúsund manns, en
meðalupphæð framlaganna er heldur hærri í ár en þau stærstu
allt upp í 60 þúsund krónur.
Þá er sala á friðarkertum í full-
um gangi en þau eru 'seld úr bíl í
Austurstræti í Reykjavík, í Kirkju-
görðum Reykjavíkur um helgina
og _við ýmsa stórmarkaði.
Á laugardag verða söfnunarbílar
staðsettir á Akratoi'gi á Akranesi
milli kl. 13 og 17 og í göngugöt-
unni á Akureyri á opnunartíma
verslana. Er hægt að skila söfnun-
arbaukum í bílana eða beint í banka
og sparisjóði. Þá verður safnaðar-
heimili á Akranesi opið milli kl. 20
og 23 á laugardagskvöldið og mun
sönghópurinn Sólarmegin syngja
þar.
Við guðsþjónustur í kirkjum
landsins á Þorláksmessu, sunnudag
verður víða tekið við söfnunarbauk-
um. Skrifstofa Hjálparstofnunar á
Tjarnargötu 10 verður opin á laug-
ardag 22. desember frá kl. 13 og
17 og hægt er einnig að koma
framlögum til skila í bílinn í Aust-
urstræti og í Kirkjuhúsinu við
Kirkjuhvol í Reykjavík. Þá verður
skrifstofa Hjálparstofnunar opin á
aðfangadag fyrir hádegi.
(Fréttatilkynning:)