Morgunblaðið - 09.06.1991, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 09.06.1991, Blaðsíða 4
4 C MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 9. JÚNÍ 1991 Skjaldarmerki ' Colon-ættarinnar í Genova. Bjálkinn og sljörnurnar að ofan til vinstri eru skjaldarmerki Bonde-ættarinnar í Norðfirði. Kristófer Kólumbus. Enginn deilir um dáðir hans en ættir og uppruni eru enn á reiki. eftir Valgeir Guðjónsson ÞAÐ hefur löngum fylgt þeim, sem minna mega sín, að halda á lofti frændskap, kunningsskap, og hvers konar tengslum við þá sem meiri þykja. Viðkomandi vill með þessu móti láta í það skína að hann sé nú kannski ekki alveg jafn lítilmótlegur og í fljótu bragði virðist. Við Islendingar þekkjum þetta vel. Öll höfum við einhvern timann brugðið okkur í líki hins drýgindalega Dengsa, sem þekkir þennan eða hinn og jafnvel báða tvo og við liggjum ekkert á því ef svo ber undir. En málið fær nýja vídd þegar heilu þjóðirnar taka að beita þessari aðferð. Þjóðarstoltið, sem hverri þjóð er svo lífsnauð- synlegt getur tekið á sig broslega mynd þegar heil þjóð flaggar venslum við stórmenni heimsins, eins og til að undirstrika eigið ágæti. Skemmst er að minnast þeirrar stórfréttar að Rónald Reagan væri raunverulega úr Skagafirðinum. Þá gátu ýmsir þanið bijóst og sperrt sitt stél í fullvissu þess, að ýmsar eigindir hins vestur- heimska stórmennis væru þeim sjálf- um í blóð bornar. Við hin, sem ekki skörtum skagfirskum uppruna, hirt- um síðan molana af borðum höfð- ingjanna og íslenska þjóðin gladdist innilega yfír þessari hlutdeild sinni í valdamesta manni heims. Sem bet- ur fer finnst okkur þetta líka svol- ítið fyndið og gerum að þessu grín, en undir niðri kitlar frændsemin hégómataug lítillar þjóðar. Ónnur saga segir að Soffía Lóren sé íslensk, en það er önnur saga og vonandi sönn. Ef svo ber við að stúlka af þing- eyskum ættum er kjörin „Ungfrú brosmild“ vestur í Winnipeg eða pilt- ur, sem á íslenskan langafa, lætur að sér kveða í efnafræðinámi við Háskólann í Norður-Dakota, er gjarnan skrifuð um það lítil grein í eitthvert dagblaðið og við lesendur tökum greinina sem enn eina sönn- unina á ágæti hins íslenska stofns. En við erum ekki ein um svona lag- að. Frændur okkar Norðmenn kunna líka þessa list. Þeir geta bent á frægt fólk af norsku bergi brotið, svo sem George Washington og lausaleiks- barnið Marilyn Monroe, sem ku hafa átt norskan föður. Og Norðmenn geta betur. Ekki aðeins var Leifur Eiríksson af norskum ættum heldur líka maðurinn, sem endurfann Am- eríku 500 árum síðar og varð fræg- astur allra landkönnuða, Kristófer Kólumbus. Ekki slæmt það! Dularfullur uppruni Kristófer Kólumbus talaði aldrei um ætt sína og upruna né heldur hvar og hvenær hann væri fæddur. Margar tilgátur hafa verið settar fram um þetta og nær tylft þjóð- landa hefur verið nefnd sem hugsan- legt föðurland mannsins. Italir hafa verið fyrirferðarmiklir á þessu sviði, en ýmsum hefur þótt að sannleiks- ást sumra hinna ítölsku fræðimanna hafi þurft að láta í minni pokann fyrir ákafanum við að eigna sér Kólumbus. Eitt helsta vopn útlendinganna er það, að eftir Kristófer Kólumbus liggur ekki eitt skrifað orð í ítölsku, jafnvel ekki í bréfum til ítalskra aðila, heldur ritaði hann á latínu. Norskir grúskarar hafa leitt að því getum að Kólumbus hafi verið af gamalli norskri konungaætt, sem rakin hefur verið allt fram til ársins 115 fyrir Krists burð. Til þessarar ættar teljast ýmsir gamlir konungar á Vindlandi svo sem Þorri, sá sem Þorramánuður er kenndur við, kon- ungar í Uppsöium og á Vermalandi, svo og jarlar á Mæri og í Orkneyj- um. Ætt þessi ber nafnið Bonde og ættaróðal þeirra var í Norðfirði á Mæri, á milli Bergen og Álasunds. Pólitískir sviptivindar Árið 1440 afsalaði Karl Knutson Bonde sér konungdómi í Svíþjóð í hendur Kristjáns I. I framhaldi af þeim tíðindum varð frændi konungs, Dominicus nokkur Bonde að bregða búi, vegna hins ótrygga stjórnmála- ástands og náinna tengsla við hinn fyrrverandi þjóðhöfðingja. Hann flutti suður á Ítalíu, til Genova, keypti þar hús og bjó næstu 8 árin í nágrenni við borgarhlið það sem kallað er Olivella. Hertoginn af Genova skipaði hann gæslumann Olivella-hliðs árið 1447. Hinn fyrr- verandi konungur og frændi hans, Knut Knutson Bonde var ekki alveg að baki dottinn því árið 1448 endur- heimti hann ríki sitt. Dominicus flutti aftur heim til Noregs og sett- ist að á ættaróðali Bonde-ættarinnar í Norðfirði. Hann stóð þá á þrítugu og var ógiftur, en féll von bráðar fyrir Súsönnu Roos, en Roos-ættin var tigin sænsk aðalsætt með heil- blátt konungablóð í æðum. Þeim hjónum fæddist árið 1451 sonur, sem var vatni ausinn og skírðu Kristófer Bonde. En refskák stjórnmálanna og valdabarátta konunganna hélt áfram og Knut Knutson Bonde varð um þessar mundir að afsala sér völdum á ný í Noregi. Dominicus frændi hans áleit það tryggast að halda til Italíu á ný, en kona hans og frum- burðurinn Kristófer urðu eftir í Norðfirði. Fjölskyldufaðirinn gekk nú til sinna fyrri starfa við gæslu borgarhliðsins, en hækkaði fljótlega í tign og varð skattheimtumaður páfastóls á Norðurlöndum. Hin nýja staða krafðist tíðra ferðalaga um norðlægar slóðir og þeim Bonde- hjónunum fæddist árið 1461 sonur- inn Bartólómeus. Ekki er vitað með vissu hvenær Súsanna og synirnir tveir fluttust til Genúa, en fyrsta ritaða heimildin um Kristófer er frá árinu 1470, þegar hann var orðinn 19 ára gamall. Þá fékk hann föður sinn lausan úr varðhaldi gegn trygg- ingu og naut aðstoðar föðurbróður síns og nágranna fjölskýldunnar, Antons Bonde. Bonde verður Colonus Þegar hér var komið sögu hafði Dominicus Bonde breytt ættarnafni sínu og lagað það að staðháttum með beinni þýðingu. Bonde, sem að sjálfsögðu þýðir bóndi, varð að Col- onus, sem þýðir bóndi á latínu. Eft- ir sem áður hélt hann skjaldarmerki Bonde-ættarinnar, bjálka með þrem- ur stjörnum, sem varð þar með hluti skjaldarmerkis Colonusanna. Nafnið var ýmist skrifað Colonus eða Colon, en þar sem Colon(us) var óþekkt nafn í Genova, en hinsvegar fjöldinn allur af Colombo-um varð nafnið að endingu Colombo eða Kólumbus. Hinn ungi Kristófer fór snemma til sjós og leiðir hans lágu víða, og árið 1477 kom hann til Islands. Ein þjóðsagan segir að þar hafi hann heyrt sögur um dularfullt land í vestri og fengið hugmyndina, sem hann gerði að veruleika 15 árum síðar eins og frægt var. En Aifons V Portúgalskonungur hafði þegar árið 1471 í samvinnu við Kristján I Danakonung sent skip í könnunarferð til Nyfundnalands og jafnvel allt suður til hins núver- andi Maine-fylkis. Ferð þessi þótti hinsvegar lítils verð, því eftir litlu var að slægjast í landi, sem virtist með öllu óbyggt og það var ekki fyrr en rúmum 100 árum síðar að menn rákust á skjöl þessa efnis suð- ur í Portúgal. Með í þessum leið- angri var Diðrik Pining, sem síðar varð illa þokkaður hirðstjóri á ís- landi. Langt norður í óvissuna Leiðangurinn sem_ Kristófer Kól- umbus kom með til íslands lét ekki staðar numið þar, en hélt áfram í vesturátt. Úr skrifum Kólumbusár hafa menn ráðið að leiðangurinn hafi náð allt til Devon-eyjar í Lanc- aster-sundi, en þar hefst hin svokall- aða norðvesturleið, sem Roald Amundsen tókst fyrstum manna að sigla í gegnum 400 árum síðar. Auðvitað var Kólumbus óafvitandi um það að þetta land var hluti af því sama landi og hann sigldi fram á 15 árum síðar. Hann vissi reyndar aldrei að hann hefði komið til Ámer- íku, því hann hélt sig hafa komist alla leið til Asíu og í þeirri trú gaf hann upp öndina á uppstigningardag 1506 eftir alls fjóra leiðangra vestur um haf. Hvort Kólumbus fékk tækifæri til að skoða Skálholtskortið svonefnda veit auðvitað enginn, en þótt fólk suður í Evrópu hafi ekki vitað af hinum miklu löndum í vestri fyrir 500 árum síðan, vissu það hins veg- ar vel upplýstir íslendingar. En þeir höfðu hvorki skip né tækifæri til að sannreyna hinar fornu sagnir. Brennandi spurningar en fátt um svör Spurningunni um það hvort Kristófer Kólumbus hafi verið norsk- ur eða af einhveiju öðru þjóðerni verður sjálfsagt seint svarað með óyggjandi hætti. Til þess hafa alltof margar tilgátur verið settar fram og of margir vilja eigna sér mikil- mennið. En sé Kólumbus norskur þykir okkur íslendingum það svo sannarlega ekki verra og það spillir sannarlega ekki fyrir að norskt kon- ungablóð er með í spilinu. Við hér á skerinu eigum nefnilega flest hægt með að rekja ættir okkar til norskra konunga og auðvitað er það bara eftir öðru að það var Kristófer frændi, sem fann aftur landið sem Leifur langafi sigldi fram á fyrir bráðum 1000 árum. Og hvað ætli Rónald af Svaðastaðakyninu finnist um það?

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.