Morgunblaðið - 06.03.1994, Blaðsíða 42
42
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 6. MARZ 1994
Bíómynd um
Smillu; Heeg (til
hægri) ræðir við
Bille August.
eftir Arnald Indriðason
FÁIR ef nokkrir norrænir rithöfundar hafa vakið eins
mikla athygli um heiminn í seinni tíð og danski rithöfundur-
inn Peter Hoeg með spennusögu sinni Lesið í snjóinn eða
„Fröken Smillas fornemmelse for sne“. Bókin hefur verið
þýdd á fjölda tungumála og kom m.a. út í Bandaríkjunum
sl. haust og hlaut afbragðsgóðadóma.„Lesið í snjóinn er
engri spennusögu lík,“ sagði í bókadómi vikuritsins „News-
week“, og þar stóð að skáldsagan væri svo ánægjuleg lesn-
ing að furðu sætti að höfundurinn skyldi aldrei hafa skrif-
að spennusögu áður.
Skrifað í snjóinn; Peter H»eg.
Hoeg vissi ekki til þess sjálfur að
hann hefði skrifað trylli fyrr en
fólk fór að segja honum það.
„Það eina sem ég vissi var að
ég var að skrifa um ráðgátu,“
er haft eftir honum. Lesið í snjóinn, sem
kemur út hjá Máli og menningu í þessum
mánuði í þýðingu Eyglóar Guðmundsdótt-
ur, segir frá Smillu Qaavigaaq Jaspersen,
hálfgrænlenskri og hálfdanskri 37 ára gam-
alli konu sem kallar sig „pappírsgrænlend-
ing“ og er jökla- og stærðfræðingur. Engin
er henni fremri í að kanna jökla og lesa í
snjóinn og sá hæfileiki kemur að góðum
notum þegar lítill sex ára grænlenskur
'drengur, sem býr í sama stigagangi og hún
í Kaupmannahöfn, fellur ofan af þaki pakk-
húss og deyr.
Lögreglan er þess fullviss að drengurinn
hefur dottið ofan af þakinu — fótspor hans
í snjónum sýna það. En Smilla þekkir snjó-
inn. Hún veit að drengurinn var lofthrædd-
ur og hún getur lesið úr sporum hans í
snjónum; þau voru stigin of hratt, í ótta
en ekki leik. Einhver var á eftir honum.
Lögreglan neitar að rannsaka málið frekar
svo Smilla, ásamt hæglátum vélvirkja í
blokkinni, tekur það í sínar hendur. Þau
jrnða. saman brotum gátunnar sem gerð eru
úr dauða, græðgi og svikum og fyrr en
varir er Smilla komin um borð í rannsóknar-
skip á leið til Grænlands þar sem hún fínn-
ur svarið við gátunni og óvænt endalok.
Öllum sem skrifað hafa um Lesið í snjó-
inn ber saman um að aðalpersónan, Smilla,
sé einstök í sinni röð og einhver skemmtileg-
asta kvenpersóna sem skálduð hefur verið
í langan tíma. Móðir hennar var grænlensk-
ur veiðimaður sem dró bráðina heim í búið
eins og hver annar karlmaður. Faðir henn-
ar var danskur læknir sem fluttist til Græn-
lands til að vinna við rannsóknir en hvarf
þaðan aftur þegar Smilla var þriggja ára.
Fjórum árum síðar var hún nauðbeygð til
að flytja til hans þegar móðir hennar lést
og sem hálfur
Grænlendingur
hefur henni alltaf
liðið eins og utan-
garðsmanni f Dan-
mörku. Snjór eru
hennar ær og kýr,
hún þekkir ís og
snjó eins og per-
sónur Johns le
Carré þekkja dul-
málslykla og tíma-
sprengjur, eins og
einn gagnrýnand-
inn komst að orði. Engin er betri en hún
að lesa í snjóinn. Hún hatar eldamennsku,
hefur ánægju af fötum og hélt daglega
uppá sjálfstæði sitt þar til lítill, óhijálegur
drengur flutti í blokkina hennar og vingað-
ist við hana. Og dó.
Peter Heeg er 36 ára gamall Dani og
ævintýramaður. Hann hefur magisterspróf
í bókmenntum en áður en hann settist nið-
ur við skriftir tók hann sér margt fyrir
hendur; dans og leiklist, fjallgöngur, skylm-
ingar og siglingar. Hann gerir mikið af því
að flakka um heiminn en býr í Kaupmanna-
höfn ásamt kenískri konu sinni og barni.
Engan hefur hann síma og hann segist láta
sér nægja að skila af sér tveimur síðum á
dag, handskrifuðum. „Fyrir tíum árum var
ég ekki jafnhæglátur og ég er nú,“ er haft
eftir honum. „Eg vissi allan tímann þegar
ég byijaði á einhveiju nýju að það væri
aðeins tímabundið og brátt tæki eitthvað
annað við. Þá tilfínningu hef ég ekki leng-
ur. Eitt af því sem
fylgdi skrifunum
var friðsemd."
Danski leikstjór-
inn Bille August
(Pelli sigursæli,
Hús andanna) ætlar
að kvikmynda Lesið
í snjóinn og það
verður hans fyrsta
spennumynd rétt
eins og sagan er
fyrsta spennusaga
Hoegs, sem áður
hefur aðeins sent frá sér eina skáldsögu
og eitt smásagnasafn. Hoeg hefur verið líkt
við fjöldann allan af rithöfundum og jafn-
vel leikstjórum ævintýramynda eins og Ste-
ven Spielberg. Aðrir segja að hann sé sam-
bland af Jules Verne og áðumefndum John
le Carré. Smillu sjálfri hefur verið lýst sem
einhverskonar sambland af Mata Hari og
Indiana Jones.
En hvaðan er bók Hoegs um Smillu
sprottin? „Sagan kom til mín í draumi,“
segir höfundurinn, „og ég verð að taka það
fram að þetta er í fyrsta sinn sem ég fer
Danski rithöfundurinn Peter
Hoeg vekur heimsathygli fyrir
spennusögu um grænlenskætt-
aða konu sem ber sérstakt
skynbragð á snjó
eftir draumi. Mig dreymdi Grænland, að
ég yrði að skrifa spennusögu þar sem Græn-
land væri þungamiðjan. Þangað hafði ég
aldrei komið og ég þekkti engan Grænlend-
ing og ég vissi yfir höfuð ósköp lítið um
þessa víðáttumiklu ísálfu. En ég ferðaðist
þangað og smám saman komst mynd á
söguna." Hann segir frá upplifun sinni og
hrifningu á sérstæðri menningu Grænlend-
inga og að eitt höfuðmarkmið sitt hafi ver-
ið að lýsa því sem gerðist þegar fólk frá
fjarlægri menningu tekur að kljást við ann-
an og óþekktan menningarheim. Hvernig
fer Grænlendingur að því að taka upp nýja
lifnaðarhætti til dæmis í Kaupmannahöfn
án þess að kasta sinni gömlu menningu
fyrir róða?
En af hveiju er aðalpersóna sögunnar
kona? „Allir karlmenn hafa í sér konu sagði
Jung einu sinni. Á sinn hátt hefur bókin
verið leið mín að konunni í sjálfum mér.“
Og annarstaðar segir Heeg að of algengt
sé að líta á samband kynjanna sem vanda-
mál. Fyrir honum sé það heillandi ráðgáta
sem engin lausn fáist á. Bókin hafi verið
nokkurskonar leikur. Hann hafi leikið sér
að því að vera kona. „Það kvenlega er rík-
ur þáttur í mér. Við erum nefnilega ekki
bara eitt kyn. Ég er fyrst og fremst karl-
maður en um leið náskyldur því kvenlega.
Munurinn á kynjunum er einhver sterkasta
orkuuppspretta sem ég veit um. Og þráin
eftir því kvenlega er eitt af því sem einkenn-
ir alla karlmenn.“
Eitt af því sem lesendur bókarinnar reka
sig á er óskaplegt flæði af vísindalegum
fróðleik og reyndar fróðleik um allt á milli
himins og jarðar, sem fléttaður er inní
spennusöguna. Því hefur einhver nefnt
Hoeg í sömu andrá og ítalska rithöfundinn
Umberto Eco. Hoeg virðist hafa kunnáttu
á flestum sviðum.„Það er í rauninni bók-
menntalegur galdur. Þetta er spurning um
að skapa trúverðugan heim. Og þegar allt
kemur til alls hef ég lifað hálft mannslíf.
Ég hef lesið og fengist við margt og ég
hef lært að afla mér upplýsinga. Þegar ég
skrifaði um Smillu sat ég löngum á háskóla-
bókasafninu í Kaupmannahöfn og las mér
til um Grænland og skip og ís. Ég hef skrif-
að til sérfræðinga í réttarlæknisfræði og
jöklafræðinga og þar að auki hef ég kynnst
mörgum Grænlendingum sem hafa sagt
mér margt og mikið.“
Hoeg segist hafa heillast af gátum þegar
hann skrifaði sína aðra bók, smásagnasafn-
ið„Fortællinger om natten“. „Þá fékkst ég
í fyrsta skipti við gátur og þær kveiktu
áhuga minn. Mér þykir gaman að þeim og
gaman að búa þær til. En gátan er aðeins
tæki, drifkraftur, sem heldur áhuganum
vakandi. Maður vill alltaf fá að vita hver
gerði það...“ Hann segist hafa byijað að
skrifa í örvinglun eða sorg „en þegar ég
lít til baka yfir líf mitt hef ég alltaf verið
að fást við sögur og áður en ég lærði að
skrifa teiknaði ég. En svo kemur dagurinn
sem skilur á milli þess að skrifa ljóð eða
stuttar sögur og senda vinum sínum og
þess að þú segir: Nú sit ég við hvern dag
og vinn við stóra skáldsögu! Þaðan í frá
vissi ég að ég var rithöfundur." Hoeg segir
að sínar mestu bókmenntalegu uppgötvanir
hafi orðið til við lestur bóka sem þykja
ómerkilegar; Tarsanbóka og Flemmingbók-
anna, en hann nefnir líka hasarblöð og léleg-
ar bíómyndir sem áhrifavalda.
Þegar Hoeg var spurður á sínum tíma út
í vinsældirnar sem hann hefur notið með
bók sinni, en þá hafði hún aðeins komið út
í Danmörku, sagði hann: „Ég er í rauninni
aldrei alveg ánægður með það sem ég
skrifa. Kannski finnst mér í lagi með nokkr-
ar síður í bókinni eða mér finnast samtöl
hafa heppnast, en aldrei verkið í heild. Ég
er mjög ánægður með að búa í Danmörku,
finnst gott að hér er allt svo smátt í snið-
um. Hér heima eru vinsældirnar ákveðnar
eftir smæð markaðarins. Það þýðir að nokk-
ur þúsund kaupa bækurnar mínar og það
þýðir að ég get lifað sæmilega af skrifum
mínum og gert eina bók í viðbót. Annað
langar mig ekki að gera.“
Þessi litli heimur Heegs hefur opnast svo
um munar með bókinni um Smillu. Hann
er ekki lengur aðeins þekktur í Danmörku
heldur um allan heim og bók hans selst
ekki í þúsundum heldur hundruðum þús-
unda og sjálfsagt milljónum þegar fram í
sækir. Ef það er eitthvað sem Hoeg hefur
sýnt fram á þá er það að ekkert er til sem
heitir lítill markaður lengur ef þú ert með
rétta efniviðinn í höndunum. Við þekkjum
þetta best af velgengni Bjarkar Guðmunds-
dóttur. Hoeg skrifar ekki lengur fyrir nokk-
ur þúsund í Danmörku. Ekki þegar heimur-
inn fylgir sporum hans í snjónum.