Skírnir - 01.08.1908, Page 18
210
Vistaskifti.
— Það er bezt, þú íarir inn og fáir þér eitthvað að
éta. Og svo verðurðu hjá ánum uppi í skarðinu í nótt.
Þær geta tapast í þessari þoku, ef enginn er hjá þeim.
Og þú veizt, hvað við liggur, drengur minn, ef þú týnir
einhverju af þeim.
Mér sýndist henni létta fyrir brjósti. Og nú fór hún
inn. En mér sortnaði fyrir augum ... Að vera aleinn
uppi í skarðinu alla nóttina í þoku og náttmyrkri — það
hafði mér aldrei verið sagt fyr, og mér hafði aldrei kom-
ið til hugar, að það yrði mér sagt, fyr en þá þegar eg
væri orðinn stór. Og eg hafði ekki skilið í því, að eg yrði
nokkurn tíma svo stór, að eg mundi þora þ a ð.
Eg grét ekki, þegar eg rölti upp hlíðarnar á eftir
ánum. Eg hafði grátið svo mikið, áður en eg fór, og
var nú hættur.
En þegar eg kom upp í skarðið og þokan luktist ut-
an um mig, köld og grá og dimm, og náttmyrkrið læsti
sig inn í hana, eins og vatn inn í voð, þá fanst mér eg
vera einn í veröldinni. Enginn maður og enginn guð.
Enginn nema eg og tröllin í hellunum í skarðinu ....
Og líklegast var bezt að þau ætu mig .... Og samt
var það svo voðalegt.
Og eg settist á stein og tók að gráta af nýju ....
Niðurl.