Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1906, Blaðsíða 14
16
hafa verið verzlunarbúðir. A þeim stað hefði önnur hús naumast
verið hentuglega sett. Litlu sunnar og neðar er 3ja tóftin og er
auðséð að það er naust-tóft. Þannig bendir hér alt til hins sama.
2. Fiskilœkur. Svo segir Landn. III, 16: »Helgi gaf Hlíf dótt-
ur sina Þorgeiri, syni Þórðar bjálka ok land út frá Þverá til Varð-
gjár; þau bjuggu at Fiskilæk«. Og Víga-Skúta segist heita »Fár í
Fiskilækjarhverfi«. Fornmenn hafa kallað »Fiskilækjarhverfi« bygð-
ina fyrir utan Ytri-Þverá frá Garðsá út til Varðgjár. Þar hefir þá
landnámsbærinn Fiskilækur verið aðalbólið. Nú er það bæjarnafn
týnt. En lækur fellur þar ofan, sem heitir Fiskilækur. Við þann
læk hlýtur bærinn Fiskilækur að hafa staðið. Nú fullyrtu kunnugir
menn, að þar væri enginn eyðibær. Og hvaða bær er þá líkleg-
astur til þess? Það hygg eg að sé bærinn Gröf. Hann stendur
niður í brúninni við láglendið, þar sem Fiskilækur rennur ofan. Nú
á dögum má kalla að lækurinn hverfi, þegar ofan á láglendið er
komið; þar taka mýrakeldur við honum. Nú gengur þvi enginn
fiskur í hann. En fvrrum hefir hann runnið út með brúninni í ál
þann, sem að framan er getið að gengið hafi úr austanverðum fjarð-
arbotninum inn að Kaupangi. Þaðan hefir fiskur gengið i lækinn.
Annarastaðar frá gat hann það ekki. Orsökin til þess, að állinn
fyltist upp, mun einkum hafa verið sú, að Þverá (ytri) hefir á stund-
um kastað sér norður á við og borið aur í hann. 0g þá var eðli-
legt, að lækjarfarvegurinn, sem lá út með brúninni, hyrfi um leið.
Auðvitað hefir sjórinn líka hjálpað til, er hann hefir, þegar svo stóð
á vindstöðu, fært árburð úr Eyjafjarðará inn eftir honum. Þannig
hefir kaupstefna lagst af í Kaupangi og Fiskilækur orðið fiskilaus.
Þetta síðara hefir svo valdið því, að bæjarnafnið breyttist.
Kumlhólar heita tveir smáhólar undir brúninni fyrir neðan Gröf.
Þeir líta út fyi'ir að vera haugar. En það er líka auðséð, að grafið
hefir verið í þá fyrir löngu. Svo er um hér um bil alla þá hauga,
sem menn hafa vítað að voru haugar.
3. Munka-Þverá var kölluð Þverá hin syðri, eða Syðri-Þverá, í
fyrstu og þangað til þar var stofnað munkaklaustur. Sögurnar nefna
hana þó að eins »Þverá«, því hún varð snemma nafnkunn, einkum
vegna þeirra Víga-Glúms og Einars Þveræings. Ytri-Þverá kemur
þar á móti ekki við sögur fyr en í Sturlungu. Þverárgrundarbar-
dagi varð þar fyrir neðan bæinn. — Ekki er mikið um forn örnefni
á Munka-Þverá. Það eru t. d. ýmsar getur um, hvar akurinn Vitaz-
gjafi hafi verið, því örnefnið er týnt. Nefna sumir til þess hólma
einn í Eyjafjarðará, þar sem melgras vex nú á dögum. En bæði
er óvíst, að það hafi verið þar i fornöld, og svo var það alls eigi