Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1992, Blaðsíða 52
56
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
að hægt var að skipta vistarverunum með einu eldstæði í kvennahluta og
karlahluta. Kvennahlutinn var sá hluti af vistarverunni sem lá næst inn-
ganginum og næst ströndinni, en karlahlutinn lá fjærst dyrunum og
ströndinni. (Gron 1988 og 1991).
Ef tvö eldstæði voru í vistarverunum var hægt að skipta þeim hornrétt
frá ströndinni á milli tveggja fjöldskyldna.
Vandamál Grons er að hann verður að ganga út frá því að vissir gripir
tengist konum, en aðrir ekki. Þetta er þó ekkert nýtt vandamál, (sjá t. d.
Conkey 1991 og umræðuna þar um konur og tinnu, m. a. örvarodda, í lok
elstu steinaldar, hjá Magdalenian-menningunni 15 000-8 000 f.Kr.).
E. Engelstad hefur bent á þá staðreynd að við vitum harla lítið um
hvernig kynbundin störf eða hegðun birtast okkur í fornleifum. Hún telur
bestu lausnina á þessum vanda vera að bera saman þjóðfræðilegar upp-
lýsingar við fornleifafræðilegar upplýsingar, og þá frá sömu menningu.
(Engelstad 1991:51). Engelstad vísar hér sérstaklega til samískra aðstæðna,
en þær aðstæður eiga ekki við allstaðar og eindregið ekki á íslandi. Margir
hafa gagnrýnt þessi vinnubrögð þar sem þjóðfræðilegar upplýsingar eru
notaðar til sönnunar á einhverju forsögulegu vandamáli.
Þjóðfræðilegar athuganir hafa þó sýnt að ýmiskonar menningarsam-
félög hafa skipt rýminu (búsetunni, húsinu, svæðinu) á ýmsan hátt, t. d. í
mismunandi vinnusvæði eða önnur athafnasvæði. (Westman 1989:18). Oft
var hið svokallaða öndvegi („The seat ofHonour") lengst frá innganginum í
eitthverju tilteknu herbergi. Þessi staður var ætlaður mikilvægasta ein-
staklingi heimilisins, sem oftast var karlmaður. (Gron 1991:105). Á meðal
Túarega, Sama og Indíána í Norðvestur-Ameríku og víðar skipti fólk bú-
staðnum (tjaldinu) í mismunandi trúarleg svæði. Hjá Túaregum var t. d.
inngangurinn ætíð mót suðri, og eystri hlutinn tilheyrði körlum og sá vest-
ari konum. Á Islandi, og víðar, var t. d. kirkjurúminu (kirkjuskipinu) skipt
á milli kynjanna. Norðanmegin, þar sem norðannæðingurinn fór sínu
fram, sátu konurnar, en sunnan megin sátu karlarnir. Hélst þessi skipting
jafnvel eftir að jarðneskri tilveru var lokið og hinsti hvílustaður valinn. Að
auki skipti máli hvernig lík hins látna snéri og gildir einu hvort um ís-
lenskan kotung var að ræða eða amerískan indíánahöfðingja. Hjá báðum
ákvað samfélagið hvernig lík cíttu að snúa.
Á ákveðnum stöðum framleiðir manneskjan mat eða gripi, og á öðrum
stöðum er matar neytt og gripir notaðir o. s. frv.
Suma gripi má flokka sem kvennagripi eða karlagripi. T. d. hefur T.
Mobjerg sýnt fram á að perlur, sem eru kvennagripir, dreifast öðruvísi í
vetrarbústöðum nútíma Inuita, en haglapatrónur, sem eru karlagripir.
(Mobjerg, 1991:45).