Þjóðviljinn - 06.05.1989, Blaðsíða 14

Þjóðviljinn - 06.05.1989, Blaðsíða 14
 Minningabrot um galdramann Jón Gunnar Árnason Að kveðja vin sinn hinstu kveðju er eins og að kveðja hluta af sjálfum sér, og minningar hrannast upp. Það var vorið 1961 sem ég kynntist Jóni Gunnari Árnasyni. Það var í gryfjunni í Ásmundarsal við Freyjugötu, sem eitt sinn hafði verið vinnustofa Ásmundar Sveinssonar. Þeir höfðu leigt sér módel, Jón Gunnar og Ragnar Kjartansson og ætluðu að fara að módelera í gips. Ég hafði notið handleiðslu Ragnars á kvöld- námskeiðum í teikningu um vet- urinn, og um vorið, þegar skólan- um var lokið, bauð Ragnar mér að slást í félagsskapinn. Þetta var Ragnari líkt. Ég, menntaskóla- strákur í fjórða bekk, sem enga þekkingu hafði í höggmyndalist, var allt í einu kominn í félagsskap þessara reyndu manna, sem tóku mér eins og jafningja og félaga. Þær voru dýrðlegar kvöld- stundirnar sem við áttum í gryfj- unni í Ásmundarsal þetta vor. Við mótuðum sitjandi konu í gips og Ragnar sagði mér til um undir- stöðuatriði gipsmótunar af stök- ustu þolinmæði: form, lína og rými. Og hvernig átti að með- höndla efnið. Mest lærði ég þó af því að fylgjast með þeim félögun- um vinna. Ragnar með sína sterku og jarðbundnu efnistil- finningu og sitt næma skyn fyrir rýminu. Og Jón Gunnar, sem starfaði á þessum árum í fagi sínu sem vélsmiður á dagjnn, en brann í skinninu eftir að fá tækifæri til þess að skapa myndlist. Mynd hans tók á sig ýkt og straumlínu- löguð form og fótleggir konunnar urðu ögrandi langir og mjóir og fullir af spennu sem átti síðar eftir að brjótast með mun skírara hætti út í málmskúptúrum hans. Stundum kom Ásmundur Sveins- son niður í gryfjuna til okkar og fór sínum kubbslegu, tilfinninga- næmu og vinnulúnu höndum um stytturnar. Hann benti okkur á að holrúmið væri hluti af skúl- ptúrnum, ekki síður en efnis- massinn. Og hann kenndi okkur að sjá formin í líkama stúlkunnar í samspili við rýmið í kring: skúlp- túrinn hefur þrjár víddir og form- ið er jafn óendanlega margbreyti- legt og sjónarhornin eru mörg. Hvílfk forréttindi voru það ekki fyrir skólastrák að geta stungið af frá stærðfræðistaglinu fyrir vorp- rófin og gleymt sér í þessum dýrð- lega félagsskap! Myndirnar sem Jón Gunnar mótaði í gips þetta vor áttu að vera eins konar fingraæfingar. En þær urðu annað og meira: þessi aflöngu og ýktu form, þessi spenna sem hann magnaði fram í formum kvenlíkamans og ástríð- an sem hann lagði í verk sitt, það voru ekki bara áhrif frá þeim Moore eða Giacometti, Ás- mundi, Ragnari eða fyrirsætunni sjálfri, formin geymdu lfka í sér þá spennu og ástríðu sem brann innra með honum sjálfum til að fá tækifæri til þess að starfa að fullu að myndlistinni. Þetta var á þeim árum þegar Jón Gunnar var að gera upp hug sinn um það, hvort hann ætti að helga sig vélsmíðinni eða höggmyndalistinni. Þrem árum seinna var teningnum end- anlega kastað, þegar hann hélt utan til náms í Horsney College of Fine Arts í London. Á þessum tíma, þegar ég kynntist Jóni Gunnari í gryfjunni í Ásmundarsal, var hann þegar kominn í tengsl við nýjustu strauma í höggmyndalist í Evr- ópu. Þetta sama ár tók hann þátt í samsýningu framúrstefnumanna sem fór á milli Stedelijk-safnsins í Amsterdam, Lousianasafnsins í Danmörku og Nútímalistasafns- ins í Stokkhólmi. Sú sýning hét „Hreyfing í listinni" og markaði viss þáttaskil, og margir sem þar sýndu voru þá þegar orðnir eða áttu eftir að verða meðal brautryðjenda nútíma högg- myndalistar (Tinguely, Arman, Dieter Roth o.fl.). Málmskúlptúrar Jóns Gunnars voru í fyrstu eins konar andsvar við formfestu og formdýrkun módernistanna. Þeir voru breytanlegir og áhorfandanum var mögulegt að laga þá að eigin skapi innan ákveðins ramma. En fljótlega tóku formin í skúlptúr- um hans að breytast og innihald þeirra um leið: þeir tóku á sig mynd oddhvassra hnífa og ógnvekjandi vítisvéla og tækja með greinilegri skírskotun til tæknimenningar samtímans, sem Jón þekkti reyndar af eigin raun úr vélsmíðanámi sínu. Þessi þró- un í höggmyndalist Jóns Gunnars gerðist á þeim tíma þegar styrj- öldin í Víetnam var að komast í hámark. Þeir atburðir, og það andrúmsloft sem þeim fylgdi, höfðu varanleg áhrif á Jón Gunn- ar eins og flesta aðra hugsandi menn á þessum tíma. Það var fjarri Jóni Gunnari að loka sig inni í einhverjum fflabeinsturni hreinnar og sjálfhverfrar form- dýrkunar á slfkum tímum, hon- um var það bæði eðlilegt og nauðsynlegt að taka afstöðu til samtímans, einnig í verki. Hann vildi að myndlistin skírskotaði til samtímans með nýjum hætti og vekti fólk til nýrrar vitundar, ekki bara um falleg form og fagra fleti, heldur líka um hlutverk og til- gang listarinnar og þá jafnframt hlutverk og þátt áhorfandans í þeirri samræðu, sem í myndlist- inni er fólgin. Skilningur Jóns Gunnars á at- burðunum í Víetnam var ekki fenginn með því að fletta upp í „Heimsvaldastefnunni" eftir Lenín eða öðrum pólitískum kennslubókum. Skilningur hans var bæði dýpri og persónulegri og mótaðist af nánast eðlislægri til- finningu fyrir umhverfinu og þeim háska sem lífríkinu er búinn af allri hugmyndafræði tækni- hyggjunnar og hagvaxtarhyggj - unnar. Hann skildi að ógnir styrjaldarinnar í Víetnam voru ekki nema eitt af mörgum and- litum þeirrar sálarlausu siðmenn- ingar véltæknialdarinnar sem hefur blindast í ofdirfsku sinni og grefur nú markvisst sína eigin gröf. Jón Gunnar hugsaði út frá vistfræðilegum forsendum löngu áður en það hugtak kom í tísku, og hann vildi að skúlptúrinn vekti vitund og tilfinningu áhorf andans fyrir umhverfinu eins og það birt- ist okkur annars vegar í ómælis- víddum og óræðum gildum nátt- úrunnar og hins vegar í því árás- argjarna umhverfi sem siðmenn- ing 20. aldarinnar hefur búið okkur. Já, minningar hrannast upp: Fyrsta SÚM-sýningin í Ásmund- arsal 1965. Myndir Jóns Gunnars þar voru mér persónuleg opin- berun. Kannski vegna þess að ég þekkti nokkuð til þess sem á undan var gengið. En líka vegna þess að þar sá ég í fyrsta skipti hér á landi hvernig hægt var að skapa myndlist á nýjum forsendum, þar sem hinni sjálfhverfu formdýrk- un módernismans var gefið langt nef. Nýjustu straumar í samtíma- list í Evrópu höfðu eignast sinn gilda fulltrúa hér á landi. Þáttur Jóns Gunnars í félags- skapnum StlM var meiri en hægt er að gera grein fyrir í stuttu máli. Hann var félagslyndur með ein- dæmum, og starfsgleði hans og áhugi smitaði þannig út frá sér að ekki er hægt að hugsa sér hvernig SÚM-félagsskapurinn hefði orð- ið til án hans. Áhugi hans á fé- lagsmálum smitaði frá sér víðar: Nýlistasafnið og Myndhöggvara- félagið urðu ekki síst til fyrir frumkvæði hans og Ragnars Kjartanssonar. Hann var magn- aður kennari eins og nemendur hans við Myndlista- og handíða- skólann og Listaakademíuna í Kaupmannahöfn fengu að reyna, og þar var ekki miðlað einhverj- um lærðum formúlum eða pat- entlausnum. Kjarni þess sem Jón Gunnar hafði að miðla bjó í hans örláta og frjóa geði, persónulegu viðmóti og lífsskoðun sem var í senn umburðarlynd og kröfu- hörð: umburðarlynd gagnvart líf- inu í sinni fjölbreytilegu mynd og kröfuhörð um heiðarleika og ein- lægni manna gagnvart því sem menn voru að fást við. Já, minningar hrannast upp: sæludagar í Flatey á Breiðafirði, þar sem Jón Gunnar hafði hoggið mynd Freys í flæðarmálinu úr gömlum rekaviðardrumb. Fyrir honum varð Flatey að miðstöð sem tók við kosmískum skilaboð- um og sendi þau til baka. Það var í félagsskap Flateyjar-Freys sem hugmyndin vaknaði um að gera sólina bjartari. Sú hugmynd var lýsandi fyrir þá kosmísku tilfinn- ingu, sem Jón Gunnar hafði fyrir samhenginu í veröldinni. Fyrir framan mig hér við skrifborðið hef ég stein sem Jón Gunnar gaf mér fyrir allmörgum árum. Þetta er grágrýtissteinn, mótaður af hreyfingu hafsins og viðnámi fjörunnar. í fagurlega hvelft yfir- borð steinsins er greiptur lítill kringlóttur spegill, þannig að hægt er að horfa inní steininn og hann getur lfka endurspeglað birtu himinsins. Þegar ég blaða nú í gegnum rissblöð, sem Jón Gunnar tók saman 1972 og kall- aði „símagrafík", rekst ég á eftir- farandi orð rissuð á blað: „þessi steinn felur í sér geisla sólarinnar og um leið hinn endalausa frið hins óendanlega veruleika sem við finnum til, þegar tónlist him- insins og hreyfing sjávarins sam- einast..." Nú eru þeir báðir horfnir á vit hins óendanlega veruleika, vin- irnir sem ég kynntist í gryfjunni í Ásmundarsal fyrir 28 árum. Báð- ir háðu þeir hugrakka og erfiða baráttu við dauðann á Borgar- spítalanum. Þar fóru óvenjulegir menn og einstakir og ég átti þeim persónulega skuld að gjalda. Þar sem tónlist himinsins og hreyfing sjávarins sameinast, þar vil ég nú gjalda þeim skuld mína. Blessuð sé minning þeirra. Ólafur Gíslason 14 SÍÐA - NÝTT HELGARBLAÐ Laugardagur 6. maí 1989

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.