Þjóðviljinn - 15.12.1989, Blaðsíða 6

Þjóðviljinn - 15.12.1989, Blaðsíða 6
Dauðann frekar en föðurlandið - Víetnamar á illa haffærum og ofhlöðnum fleytum bjóða sjávarháska og sjóræningjum byrginn. Nauðungarflutningar frá Hongkong Þar er þröngbýlt fyrir og nýlendubúar, sem kvíða framtíðinni, telja sér ekki framar fært að veita víetnömskum flóttamönnum viðtöku. Og á Vesturlöndum eru flóttamenn þessir ekki lengur eins velkomnir og var Ekkert er síður í tísku en fórn- arlömb gærdagsins, skrifar einn leiðarahöfundur bandariska blaðsins New York Times. Hann fjallar þar um Víetnama þá, sem komið hafa tii Hongkong og lýst sig flóttamenn, en bresk stjórnvöld og yfirvöld nýlendunn- ar vilja meina að ekki séu það og hyggjast nú flytja nauðuga til föðurlands þeirra. Stríðinu í Víetnam var ekki löngu lokið er þaðan hófst flótta- mannastraumur sem enn er ekk- ert lát á. Þeir sem fyrstir flúðu voru annarsvegar einkum áhang- endur Bandaríkjamanna og lepps þeirra, Saigonstjórnarinnar gömlu, hinsvegar fólk af kín- verska þjóðernisminnihlutanum, sem fjölmennur var þarlendis eins og annarsstaðar í Suðaustur- Asíu. Þeir fyrrnefndu höfðu fulla ástæðu til að ætla, að þeir ættu ekki á miklu góðu von frá hinum nýju valdhöfum og hinir síðar- nefndu töldu sér ekki vært meðal Víetnama eftir að andkínverski þátturinn í þjóðernishyggju þeirra, sem verið hefur megin- atriði í henni í yfir 2000 ár, vakn- aði enn á ný til lífsins við vaxandi fáleika með Kína og Víetnam og þó einkum „refsiárás" fyrrnefnda ríkisins á það síðarnefnda snemma árs 1979. Efnahags- málastefna og félagsleg viðhorf kommúnískrar stjórnar samein- aðs Víetnams komu auk þess illa niður á hópum þessum báðum. „Við unnum stríðið en töp- uðum friðnum,“ sagði víet- namskur stjórnmálamaður. Efnahagsmál Víetnams eru í megnasta ólestri og kemur margt til, efnahags- og viðskiptalegt umsátursástand sem Bandaríkin beita það til að hefna ósigurs síns, gífurlegur herkostnaður vegna hersetu og stríðs í Kambódíu og ótta við Kína, mikil fólksfjölgun og þunglamaleg og kreddubund- in miðstýring efnahagslífs. Frá því síðasttaida tóku víetnamskir valdhafar að vísu að þoka ríki sínu fyrir nokkrum árum, en þeirri „perestrojku" fylgdi mikið brask og spilling, líkt og í Kína, og óklárt er hvort hún hefur orðið til einhverra bóta. Víetnam er eitt fátækasta land Suðaustur- Asíu og almenningur hjarir á sultarmörkunum, ef ekki fyrir neðan þau. Ljóst er að þetta ástand á drjúgan þátt í að ekkert lát hefur orðið á fólksstraumnum úr landi. Flóttafólk þetta hefur flest yfir- gefið land sitt sjóleiðina, flust á oft illa haffærum fleytum, gjarnan drekkhlöðnum þar á ofan, til Taílands, Malajsíu, Indónesíu, Filippseyja og Hong- kong, þar sem það í skemmri eða lengri tíma hefur beðið leyfis til landvistar einhversstaðar á Vest- urlöndum. Fyrir utan þá sem komist hafa á einn eða annan ákvörðunarstað hafa þúsundir, e.t.v. tugþúsundir, látið lífið af völdum veðra og sjóræningja. Sumt flóttafólkið, sérstaklega það sem fór fyrstu árin, hafði ver- ið tiltölulega efnað áður fyrr og hafði með sér sitthvað fémætt. Það varð til þess að hjá fiski- mönnum sumra grannlanda, einkum Taflands, varð það auka- búgrein og tómstundagaman að rupla flóttamennina og nauðga kvenfólki þeirra. Bátflóttafólkið, sem ótrautt bauð byrginn stormum og stórsjó að ógleymdum hryllingi af mann- avöldum heldur en verða um kyrrt í heimalandinu vakti eðli- lega samúð víða um heim, a.m.k. á Vesturlöndum. Bandaríkja- mönnum varð þetta þar að auki kærkomið tækifæri til að reka af sér eitthvað af hneisunni eftir allt sitt stand í Víetnam. Þeir tóku við mörgum víetnömsku flóttamann- anna og lögðu fast að vinum sín- um að gera slíkt hið sama. Bandaríkin höfðu mikið reynt að fá bandamenn sína með sér í Ví- etnamstríðið, en með litlum ár- angri. Með því að fá þau sömu ríki til að taka við flóttamönnum undan andstæðingum Bandaríkj- anna í því stríði fannst Banda- ríkjamönnum að þeim hefði tek- ist að hnika bandamönnum sín- um til að ábyrgjast Víet- namævintýrið með sér, betra seint en aldrei. Niðurstaðan varð að víet- namska flóttafólkið fékk lengi til- tölulega góða fyrirgreiðslu. Að því stuðlaði og að það reyndist yfirleitt iðið og duglegt og að því gekk til þess að gera vel að að- lagast nýjum aðstæðum. En síðustu árin hefur sífellt meir gætt af hálfu vesturlanda- ríkja tregðu á að taka við erlendu fólki. Atvinnuleysi er þar víðast verulegt eða mikið, svo að ekki er skortur á vinnuafli, síst ólærðu. Þar að auki reka menn sig þar nauðugir viljugir á staðreynd, sem jafnt kapítalistar sem sósíal- istar hafa eftir bestu getu reynt að láta sem ekki væri til: að mann- eskjan er ekki bara framleiðandi og neytandi, heldur eiga atriði eins og þjóðerni, trúarbrögð, menning, tungumál, kynþáttur o.fl. hlut að því hvernig persónu- leiki hennar er mótaður, við- brögðum hennar gagnvart öðrum og viðbrögðum annarra gagnvart henni. Hætt er alltaf við að and- stæður af þessum sökum leiði til árekstra milli innfæddra og að- fluttra, ekki síst ef mikill fjöldi framandi fólks flyst til einhvers lands á skömmum tíma. Viss óró- leiki í Bandaríkjunum út af vax- andi fjölda hispaníka, aukinn byr í seglin fyrir óánægjuflokka svo- kallaða, suma með meira eða minna greinileg fasísk einkenni, óbilgirni múslíma í Bretlandi og víðar í sambandi við Rushdiemál- ið og skuplumálið í Frakklandi hafa ásamt með fleiru leitt til þess að mjög hefur dregið úr fúsleika vesturlandaríkja á að hleypa framandi fólki inn í lönd sín svo teljandi sé. Þar við bætist að síðan austan- tjaldsríkin (fyrrverandi) drógu úr hömlum á útflutningi fólks hefur skollið þaðan á Vesturlöndum ný innflytj endabylgj a. Flest af þessu AÐ UTAN fólki er þýskt eða af þýskum upp- runa og fer til Vestur- Þýskalands, auk þess sem búferl- aflutningar sovéskra gyðinga til Bandaríkjanna færðust mjög í aukana. I þessum tilfellum skyldi maður ætla að aðlögunarerfið- leikar margumtalaðir væru í minna lagi, en með hliðsjón af ástandi í Austur-Evrópu og So- vétríkjunum telja margir líklegt að ekki muni á næstu árum draga úr fólksstraumnum þaðan, nema síður sé. í Vestur-Þýskalandi hafa menn út af þessu vaxandi áhyggjur og hafa þá í huga hús- næðisskort, atvinnuleysi sem er þar íyrir og álag á kerfi félags- legrar þjónustu. Enn er þess að geta að kalda stríðið er að gufa upp og þá verð- ur allt í einu ekki lengur spenn- andi að taka við fólki á flótta undan „kommúnismanum". Bandaríkjamenn, sem lengi ámæltu Sovétmönnum mest fyrir að leyfa ekki þeim að fara sem vildu, hafa sett hömlur á innflutn- ing fólks þaðan. Og þótt lítið sé um glasnost í Víetnam og perest- rojka þar takmörkuð, kemur þetta einnig niður á flóttafólki þaðan, meðfram vegna þess að ekkert bendir til þess að séð sé fyrir endann á þeim straumi. Til Hongkong hafa um 34,000 bátflóttamenn komið á þessu ári, flestir frá Norður-Víetnam, það- an sem tiltölulega þrautalítið er að þræða sig meðfram strönd Suður-Kína til bresku nýlend- unnar. í júní tóku yfirvöld þar upp nýja stefnu gagnvart komu- mönnum þessum. I stað þess að taka við þeim sem pólitískum flóttamönnum, eins og þangað til hafði verið reglan, var nú farið að skilgreina þá sem „efnahagslega flóttamenn“, fólk sem yfirgefið hefði land sitt einfaldlega vegna þess að það teldi sig geta haft það betra annarsstaðar, fremur en að það hefði yfir nokkru að kvarta vegna harðræðis stjórnvalda. Þetta er ráð sem handhægt er að grípa til; það getur lengi verið skilgreiningaratriði, hver eigi rétt á að teljast flóttamaður og hver ekki. Erfitt getur og verið fyrir flóttamann, sloppinn til annars lands, að standa skil á skýlausum sönnunum fyrir ofsóknum heimafyrir og jafnvel þótt inn- flytjendayfirvöld móttökulands séu öll af vilja gerð til ganga úr skugga um raunverulegar ástæð- ur fyrir flóttanum, kostar það of mikinn tíma og peninga til að auðvelt sé að standa við það í framkvæmd, sérstaklega þegar um mikinn innlytjendastraum er að ræða. Nú stendur til hjá breskum stjórnvöldum að flytja nauðuga heim frá Hongkong 40,000- 50,000 þangaðkomna Víetnama. Marga þeirra geyma yfirvöld í gaddavírsgirðingum við slæman aðbúnað, til að landa þeirra fýsi síður þangað. Eigi að síður mót- mælir flóttafólkið harðlega fyrir- hugaðri heimsendingu, bindur um höfuð sér hvíta borða (hvítt er sorgarlitur í Austur-Asíu) og kveðst heldur vilja deyja en að snúa aftur til föðurlandsins. Breskir stjórnarandstæðingar, Amnesty International, Flótta- mannastofnun Sameinuðu þjóð- anna og Bandaríkin mótmæla einnig, en Margaret Thatcher, þekkt fyrir hörku í sínum and- kommúnisma, er nú allt í einu sannfærð um að téðir Víetnamar muni engu mæta nema góðu, er þeir snúa heim, og segir að Bandaríkjamönnum farist ekki um að tala, því að þeir fari eins að við ólöglega innflytjendur frá Mexíkó og Haiti. Og Bandaríkja- menn, sem að vísu hafa tekið við um miljón indókínverskra flótta- manna að eigin sögn, slepptu að- eins um 800 Víetnömum inn til sín s.l. ár og ekki er búist við að þeir stækki þann kvóta. Ástandið í Hongkong, þrengsl- in þar gífurleg, stöðugur flótta- mannastraumur frá Kína og yfir- vofandi innlimun nýlendunnar í það ríki sem nýlendubúar flestir sárkvíða fyrir, eru atriði sem koma inn í þetta mál. Á landa- mærum nýlendunnar eru um 40 kínverskir flóttamenn reknir öf- ugir tilbaka dag hvern og má vera að Hongkongbúar sjái með hlið- sjón af því litla ástæðu til gest- ristni við flóttamenn af öðrum þjóðum. Þar að auki vilja miljón- ir Hongkongbúa komast úr landi, áður en Kínastjórn tekur við 1997, og flestir þeirra horfa, líkt og víetnömsku flóttamennirnir, löngunaraugum til Vesturlanda. Hongkongbúar þessir hugsa kannski sem svo, að þeim mun fleiri Víetnömum sem hleypt sé þangað minnki líkurnar á að þeir sjálfir mæti þar gestrisni. Víst er um það að blöð í Hongkong fagna flest ákvörðun stjórnvalda um nauðungarflutningana. Bresku stjórninni er greinilega ekki lítið kappsmál að fá þetta vandamál út úr heiminum, því að hún borgar Víetnamstjórn 620 Bandaríkjadollara með hverjum heimsendum flóttamanni (í orði kveðnu til að hjálpa flóttamönn- unum að koma fótum undir sig í heimalandinu að nýju) og hefur líka í þessu samhengi lofað Víet- namstjórn þróunarhjálp. Nauð- ungarflutningarnir hófust á þriðj- udagsnótt; um 200 lögreglumenn og fangaverðir rifu rúmlega fimmtíu manneskjur, karla, kon- ur og börn, upp úr fastasvefni í flóttamannabúðum og ráku þau upp í flugvél, sem var komin með þau til Hanoi um morguninn. Fólkið grét, en veitti ekki mót- spyrnu. Flutningarnir hafa verið stöðvaðir í bili, kannski vegna mótmæla, en bresk stjórnvöld segjast ráðin að halda þeim áfram. Breskur íhaldsþingmaður hefur stungið upp á að Vfet- nömum þessum verði gefinn kostur á að flytjast til Austur- Þýskalands, þar eð þar sé sannan- lega skortur á vinnuafli og raunar eitthvað af Víetnömum þegar starfandi, svo að Austur- Þjóðverjar þekki nokkuð til þeirrar þjóðar. Kannski verður það lausn fyrir einhverja. DAGUR ÞORLEIFSSON Frá Borgarskipulagi Reykjavíkur Suður-Mjódd ÍBÚAR, HAGSMUNAAÐILAR OG VÆNTANLEGIR NOTENDUR Á Borgarskipulagi hafa verið unnar tillögur að deiliskipulagi Suður-Mjóddar. Suður-Mjódd af- markast af Breiðholtsbraut til norðurs, af Stekkjarbakka til austurs og suðurs og af Reykjanesbraut til vesturs. í tillögunum er gert ráð fyrir uppbyggingu á verslunar- og þjónustusvæði meðfram Reykja- nes- og Breiðholtsbraut, en að öðru leyti verði þar íþrótta- og útivistarsvæði. Með þessari kynningu er verið að leita eftir ábendingum um notkun og uppbyggingu svæð- isins. Uppdrættir, líkan og greinargerð verða til sýnis hjá Borgarskipulagi Reykjavíkur, Borgartúni 3, kl. 8.30-16.00 alla virka daga frá föstudeginum 15. des. 1989 til 15. janúar 1990, þar sem fólk getur kynnt sér hugmyndirnar og komið á fram- færi ábendingum og athugasemdum.

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.