Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1961, Blaðsíða 41

Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1961, Blaðsíða 41
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 621 var, voru svo nærri þeim á „Von", að þeir vissu vel hvorir um aðra. Og þeir sáu hana, er hún var komin með segl og að hún fór norður, því að veður var bjart, þó að hvasst væri, og tunglsbirta. Þeir vissu, að slíkt átti sér ekki stað, nema legufærin hefðu bil- að. Vindur heldur vestlægðist um nóttina, og um birtinguna um morguninn í byrjun suðurfallsins gekk vindur enn meir í vestur eða norðvestur, svo að það fór að verða leiði í land. „Leystu þeir þá upp", eins og það var kallað, settu upp segl og höfðu horfu á Súgandafjörð og komu þar að landi í sína vör eftir V-k—3 tíma siglingu. Þeir sögðu frá því, sem þeir vissu um „Von" og að hún myndi ekki bafa náð lendingu nær en fyrir norðan Djúp, en gáfu þó góða von um heimkomu þeirra, þegar veður lægði og gengi til annarar áttar. Það sem þeir sögðu af sínum ferðum, auk þess, sem sagt hefur verið, hefur gleymsk- an og tíminn breitt yfir eins og svo margt annað, sem er aðeins endurtekning á daglega lífinu. Eins og sagt hefir verið frá um veður í Rekavík og þar norður frá, þá var það mjög líkt í Súg- andafirði, nema hvað staðhættir voru aðrir. Öll vikan gekk á ýmsu með veður, norðan eða vestan. Þó var snjóleysi og oft frekar gott veður á landi, en ekki kom „Von" og engar fregnir af henni, sem ekki var heldur að vænta, þar sem vitað var, að hún mundi ómögu- lega hafa getað náð landi fyrir vestan Djúp. En það höfðu komið dagar, sem virtust vera hagstæðir til heimkomu, þó að fjær væri eða fyrir norðan Djúp, en vonirnar um komu þeirra urðu að engu. Fjórir af mönnunum á „Von" áttu konur og ung börn, og má ætla, að strax hafi einhver kvíði átt þar heima. Og fjarveran lengd- ist og vonir manna um heimkom- una voru alltaf að smádofna. Og þegar sunnudagurinn rann upp heiður og fagur, mun hann hafa geymt síðustu vonina í skauti sínu. Þegar Stefanía, kona Guðmund- ar í Vatnadal, vaknaði þennan sunnudagsmorgun, þá hnerraði hún mikið, en það var sagt, að sá sem hnerraði í rúmi sínu að sunnudagsmorgni, að honum mundi bætast eitthvað í hinni ný- byrjuðu viku. Hún sagði, að hún byggist ekki við að sér mundi bætast neitt í vikunni, en fólkið í baðstofunni sagði við hana, að ef hún fengi mann sinn heilan og lifandi heim, þá væri það meira en smámunir. Um hádegisbilið sá fólk á Stað, Gelti og Norðureyri bát, sem kom fyrir Gölt og reri inn fjörðinn. Þetta hlaut að vera „Von". Við getum hugsað, að það hafi farið um fólkið eins og hlýir straumar af gleði við þessa sýn, því að það er þungt áfall fyrir lítið byggðarlag að missa þó ekki sé stærri hópur af sínum úrvals- mönnum í einu. Það var verið að lesa sunnu- dagslesturinn í báðum endum baðstofunnar á Suðureyri, þegar þeir lentu, svo að enginn sá til þeirra, þegar þeir voru að lenda. En þó sá maður í þeim enda bað- stofunnar, sem út eftir sneri, manna umferð á mölunum og taldi sig þekkja hverjir það væru. Hann mun hafa ætlað að láta fólkið í hinum endanum, þar sem formaðurinn og hans fólk átti heima, vita um, en þil var í milli, og hafði hann ekki gert það, þeg- ar málrómur þeirra heyrðist frammi í bænum og niðri á gólf- inu og tilkynnti komu þeirra. Þó að þessi heimilisguðsþjón- usta hafi verið með meiri alvöru og bænaranda en almennt, þá mun hið hljóða þakklæti, sem nokkur hjörtu fluttu í lok hennar hafa verið helgast og háleitast af því öllu. Allir munu hafa keppzt sem mest við að komast heim, en þó tók Kristján þá alla heim til að veita þeim einhverja hressingu eftir hina löngu og erfiðu för að norðan. Þeir Guðmundur höfðu báðir land undir fæti heim, en þeir Jón og Sveinbjörn voru flutt- ir yfir að Norðureyri. Að loknum sunnudagslestrinum í Selárdal, meðan verið var að búa til miðdagsmatinn, gengu þau hjónin, Þorvaldur Gissurarson og Sigríður kona hans út á tún og leiddu milli sín hana litlu dótt- ur sína, sem var á þriðja ári. Þetta sýnir, hvað veðrið var indælt þennan dag. Þá sjá þau mann koma inn yfir Hafnargilið. Og svo sáu þau á hann innar og fannst sem það væri Sveinbjörn. Og er hann kom inn yfir Leitið, þekktu þau, að það var hann, og var heimkoma hans sem hinna fagnaðarstund, því að hann hafði verið í Selárdal hjá Þorvaldi og systrum hans síðan nokkru fyrir fermingu og var sem hluti af fjöl- skyldunni þar, auk þess sem frændsemi var þar í milli. Hann mun hafa komið síðastur heim til sín af þeim félögum á „Von", þó að litlu munaði. Svona eru sögurnar af sænum. Þær gerast og gleymast og verða að hversdagsleika, sem ekki þykir í frásögur færandi. En „þegar mikils þarf með", þá koma mik- ilmennin í Ijós, þó að á öðrum tímum beri þau ekki höfuðið hærra en aðrir menn. Valdemar Þorvaldsson.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.