Morgunblaðið - 14.07.2001, Qupperneq 46
FÓLK Í FRÉTTUM
46 LAUGARDAGUR 14. JÚLÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ
óskar eftir strákum og „strákslegum“ stelpum á
aldrinum 12-15 ára til að leika í tónlistarmynd-
bandi sem kvikmyndað verður í lok mánaðarins.
Áhugasamir eru vinsamlega beðnir um að mæta
sunnudaginn 15. júlí milli kl. 14 og 17
á Laugaveg 26 (sama hús og Skífan),
Grettisgötumegin hjá Labrador kvikmyndum.
i l l
l i il l i í li
i i í l i
i i l i
i j lí illi l
( í )
i i j i
SUMARIÐ er tíminn þegar íslenskar
popphljómsveitir keppast um að vera
sem sýnilegastar í sjóðheitum sólar-
geislunum. Framlög keppenda þetta
árið er að finna á slagarasafnplötunni
Svona er sumarið 2001 sem nú er
komin í búðir. Þar kasta allar helstu
popphljómsveitir landins út önglum
sínum og útvarpshlustendur geta
ekki annað en raulað með inn í
skammdegið.
Á plötunni er að finna ný lög með
Svölu, Sálinni hans Jóns míns, Landi
& sonum, Bubba ásamt Stríði & friði,
Írafári, Í svörtum fötum, Einari
Ágústi, Á móti sól, Greifunum, Butt-
ercup, Sóldögg, Fabúlu, Herberti
Guðmundssyni, SSSól, Útrás, Simma
& Jóa, Spútnik og Súrefni.
Týpísk stelpa
„Ég hlakka rosalega til að nýja lag-
ið fari í spilun,“ segir Birgitta Hauk-
dal, söngkona Írafárs, og á þar við
lagið „Eldur í mér“ en sveitin á einnig
á plötunni lagið „Fingur“. „Mér
finnst það alveg æðislegt. Það er svo-
lítið persónulegt og það er svo gaman
að syngja það. Ég er líka kannski svo
týpísk stelpa; þetta er rólegt lag og
svona, við föllum oft fyrir þeim. Það
gæti því kannski verið það. Textinn
er í bland saminn til bróður míns,
sem er dáinn, og til kærastans míns.
Þannig að það hefur mikla merkingu
fyrir mig að syngja þetta lag og
heyra.“
Poppunnendur ættu að vera farnir
að kannast við lagið „Fingur“ sem
hefur hljómað ótt og títt síðustu mán-
uði á þeim útvarpsstöðvum sem sinna
meginstraumnum. En af hverju
skyldu fingur vera Birgittu svona
mikið hugðarefni?
„Ég setti mig í spor þess sem er
blindur. Ég vildi fá að snerta og finna
í staðinn fyrir að sjá. Ég er sem sagt
ekki að syngja „Ó, hvað þú ert sætur,
ó, ég elska þig“ og allt það. Þetta er í
raun og veru ekki ástartexti.“
Írafár hefur gert plötusamning við
Skífuna og ætlar að gefa út plötu í
maí á næsta ári.
Háskólarokk
„Við erum mjög ánægðir með lag-
ið,“ segir Hreimur Örn Heimisson
um lagið „Summer“, framlag Lands
& sona til safnplötunnar. „Þetta er
líka fyrsta lagið þar sem einhver utan
hljómsveitarinnar kemur nálægt
lagasmíðunum.“
Samstarfsmaður Lands & sona
kallar sig Jive Jones og kemur til með
að vinna með sveitinni að væntanlegri
plötu sem kemur út á Bandaríkja-
markaði á næsta ári en sveitin skrif-
aði nýlega undir plötusamning við
bandaríska útgáfufyrirtækið London
Sire sem er í eigu Time Warner AOL
útgáfurisans.
„Þetta er svona stóra lagið á plöt-
unni. Í því erum við komnir meira út í
háskólarokk eins og Blink 182 eru að
gera. Þetta lag er það sem okkur þyk-
ir vænst um og það sem við fengum
að taka mestan þátt í sjálfir. Við sett-
um það í spilun af því að það er meira
í áttina að því sem við höfum verið að
gera í gegnum tíðina. Hefðum við sett
eitthvert annað lag af plötunni í spil-
un hefði fólk spurt sig hver grefillinn
væri í gangi því við erum meira
þekktir sem poppband. Við vildum
helst ekki koma aðdáendum okkar í
opna skjöldu heldur koma þeim hægt
og rólega á bragðið. Það er nægilega
stórt stökk að vera að syngja á
ensku.“
Hreimur segir textann fjalla um þá
hamingjutilfinningu sem fyllir nem-
endur við skólaslit. Sönglínan „Do
you remember getting high?“ á lík-
lega eftir að lyfta nokkrum auga-
brúnum, sérstaklega í ljósi þess hve
oft meðlimir sveitarinnar hafa talað
gegn fíkniefnum.
„Maður getur notað þetta orð um
það eitt að skemmta sér,“ útskýrir
Hreimur. „Hann Jive semur með mér
textann og ef hann hefði ætlað að fara
að semja um dópneyslu eða eitthvað
annað þá hefðum við aldrei gert
þetta. Við erum hreinir og þekktir
fyrir það og ætlum ekkert að fara að
hætta því.“
Land & synir ætla að láta mikið á
sér bera í sumar, verða m.a. á þjóðhá-
tíð í Eyjum þetta árið. En í haust flyst
svo sveitin til Bandaríkjanna. Eru
þeir þá farnir fyrir fullt og allt?
„Nei, ég segi það nú ekki. Það er
ekki nóg að fá plötusamning, maður
verður nú líka að eiga lög sem eru
vinsæl. Það getur vel verið að við
komum til baka með skottið á milli
lappanna, maður veit það ekki.“
„Nett klikkun“
„Það er nett klikkun að ætla að
fara að gefa út plötu,“ upplýsir Einar
Ágúst sem á lagið „Fiður “ á plötunni.
„Maður er búinn að vera í hljómsveit
sem hefur þeyst um allt landið og
leggja gríðarlega mikla vinnu í það að
vera í popphljómsveit. Að stökkva úr
því umhverfi og ætla svo að fara að
gera einhverjar „gloríur“ sjálfur tek-
ur á taugarnar. Nú er maður sjálfur
að standa undir þessu en ekki fimm
manns.“
Tónlist Einars Ágústs er þó nokk-
uð ólík popptónum Skítamórals, sál-
aráhrifin meiri og innblásturinn er
greinilega sóttur í annan brunn.
„Þetta er sú tónlist sem ég „fíla“
best sjálfur. Fönktónlist með ein-
hverju smá hiphop innskoti. Mig
langar mikið að finna í mér blámann-
inn. Mér finnst rosalega heillandi það
sem listamenn eins og Macy Gray og
Lenny Kravitz eru að gera. Svoleiðis
tónlist hentar minni rödd best. Ég er
rosalega strekktur á taugum yfir því
hvort ég nái sömu spilagleðinni á
plötunni og er í þessu lagi. Það er erf-
itt hérna á Íslandi, hér er enginn
svartur upptökustjóri sem maður
getur hringt í til að fá aðstoð.“
Það er nokkuð ljóst þegar hlustað
er á textann að Einar Ágúst er ekki
að setja sig í spor starfsmanns Dún-
og fiðurhreinsunarinnar þótt titillinn
gefi það kannski í skyn.
„Textinn fjallar um hvernig við
höfum öll okkar sannfæringu en er-
um samt svo fljót að fara út af spor-
inu. Falla fyrir freistingum og svona.
Mín lög eru frekar ástaróður til al-
mættisins en til einhverra kerlinga
úti í bæ.“
Lagið er samið af Kristjáni Grét-
arssyni gítarleikara, en hann kemur
til með að manna undirleikssveit Ein-
ars. Þeir félagar auglýsa þó hér með
eftir trommu- og bassaleikara til þess
að ganga í hljómsveitina.
Afsakið hlé?
„Þetta fyrra lag sem er farið að
hljóma á öldum ljósvakans, „Nú finn
ég það aftur“, er nú kannski bara í
Greifastíl, svona „syngdu með“-lag,“
segir Kristján Viðar Haraldsson,
söngvari Greifanna, en sveitin á einn-
ig lagið „Kominn heim“ á plötunni.
Sá orðrómur hefur verið á kreiki
undanfarnar vikur að Greifarnir séu
við það að hætta?
„Við spilum út september, þá ætl-
um við að taka okkur hlé. Hversu
lengi veit enginn, það verða örugg-
lega nokkur ár, kannski um alla eilífð.
Þetta er orðið ágætt í bili en ég trúi
því að það eigi eftir að koma fleiri lög
frá okkur. Hvort sem það verður und-
ir Greifanafninu eða ekki. Ég á a.m.k.
einhver lög á lager.“
Þrátt fyrir yfirvofandi samstarfs-
slit virðist hljómsveitin enn vera að
prófa sig áfram í tónlistinni.
„Seinna lagið er svolítið öðruvísi en
við höfum verið að gefa út áður. Ein-
hver orðaði það þannig að þetta væri
popplag í þungarokksútsetningu. Það
er nokkuð harðara en áður. Þetta
verður aldrei spilað á Bylgjunni. Við
vissum það alveg frá byrjun. En það
er allt í lagi, við verðum líka að fá að
gera tilraunir.“
Stefna á frekari útgáfu
Í nýlegri léttri könnun sem fram
fór í Fólkinu á mbl.is voru notendur
spurðir hvaða sveitaballahljómsveit
yrði sú vinsælasta í ár. Það sem kom
mest á óvart í niðurstöðunum var hve
hátt hlutfall atkvæða hljómsveitin Í
svörtum fötum fékk, en hún lenti í
öðru sæti af þeim 13 sem hægt var að
kjósa um.
„Þetta kom okkur skemmtilega á
óvart,“ segir Jón Jósep Snæbjörns-
son, söngvari sveitarinnar. „Við erum
reglulega ánægðir með þetta. Við
höfum ekki farið mikið út á land, er-
um ekkert sérstaklega iðnir við það,
en höfum verið iðnir við að spila í
bænum.“
Hljómsveitin á lagið „Nakinn“ á
safnplötunni. Jón segir að textinn
fjalli ekki um neina sérstaka persónu
heldur sé saminn fyrir þá sem koma
að sjá og heyra sveitina leika á tón-
leikum.
„Við vorum jafn lengi með lagið og
alla síðustu plötu, eða tólf daga, en
núna kostaði þetta fimm sinnum
meira. Við stefnum á frekari útgáfu á
árinu en ég býst fastlega við því að
það verði fremur í formi stakra laga
en breiðskífu.“
Já, svona er sumarið 2001.
Hvernig verður sum-
arið? Birgir Örn Stein-
arsson komst að því.
Safnplatan Svona er sumarið 2001 er komin út
biggi@mbl.is
Nýaldarpopp
Hljómsveitin Í
svörtum fötum.
Írafár.
Hreimur, söngvari
Lands & sona.