Morgunblaðið - 22.07.2001, Síða 14

Morgunblaðið - 22.07.2001, Síða 14
LISTIR 14 SUNNUDAGUR 22. JÚLÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ L ÍKAMLEG tilfinning fyrir rými, eins og við skráum hana í minninu, leggur jafn- framt grunninn að vitund okkar og skynjun á afstæð- ari máta. Þannig verður ákveðin lífsreynsla á ákveðnum stað til þess að móta sjálfsvitund okkar bæði sem einstaklinga og sem hluta af heild. Þegar blaðamaður skoðaði verk kóreska listamannsins Do-Ho Suh á Feneyjatvíær- ingnum varð honum fyrst hugsað til hugleið- inga Málfríðar Einarsdóttur, rithöfundar, um samastað sinn í tilverunni í samnefndri bók hennar. Do-Ho Suh var einn þeirra sem hvað mesta athygli vöktu á tvíæringnum, fyrir verk sem byggja á vangaveltum um togstreitu á milli sjálfsvitundar einstaklings og hlutverks hans í samfélagsheildinni, en þær eru vissu- lega hluti af sammannlegri reynslu burt séð frá uppruna. Gagnrýnar raddir á tvíæringnum héldu því þó fram að list Do-Ho Suh væri helst til einföld í hugmynda- fræðilegum skilningi. Ekki eru þó allir sam- mála því að það sé ljóður á listsköpun að vera auð- skilin eða hafa víðtæka skírskotun, enda nutu verk Do-Ho Suh ekki síst athygli fyrir hve vel þau voru útfærð og sterk sem fagurfræðileg og tilfinningaleg heild. Sjálfsvitund einstaklingsins og hlutverk hans í þjóðfélaginu er því eins og áður segir áberandi þema í verkum Do-Ho Suh, þar sem hann rannsakar innbyrðis tengsl einstaklinga og fjöldans í ólíkum rýmum á afar afhjúpandi máta. Eitt þeirra verka sem hann sýnir á tvíæringnum, „Public Figures“ (eða „Merkir einstaklingar“), hefur beina vísun í listheiminn sjálfan og hlutverk hans, auk þess að vísa til þess dýrðarljóma er umlykur þá sem sam- félagið hefur upp á stall á opinberum vett- vangi. Sýningarstallurinn er lykilatriði í verk- inu, settur fram sem aðalatriði en ekki undirstaða fyrir hefðbundið „mikilmenni“, á stað sem er dæmigerður fyrir slíka upphafn- ingu. Augnatillit áhorfandans er þó fljótt að beinast undir stallinn en þar gefur að líta ara- grúa smárra mannsmynda, sem halda honum uppi berum höndum. Tengslin við aldargömul gildi austrænnar hugmyndafræði þar sem verðmæti einstaklingsins liggur í framlagi hans til heildarinnar, eru augljós og athygl- isvert að bera þau saman við þá einstaklings- hyggju sem lengi hefur verið talinn hornsteinn vestrænnar menningar. Vísanir verksins í valdastrúktúr samfélagsins, fórnir þeirra und- irokuðu til dýrðar valdinu, eru augljósar og áhrifamiklar, enda í fullu samræmi við tvíræð- an titil verksins, sem í raun gerir mannfjöld- ann sem heldur stallinum á lofti að hinum „merku einstaklingum“. Sú niðurstaða er sér- staklega áhrifamikil í ljósi þess að listamað- urinn sýnir mannfjöldann í mjög smækkaðri mynd, sem felur þó síst af öllu í sér „minnkun“. Verk Do-Ho Suh í skála Kóreu á Fen-eyjatvíæringnum er á áþekkum efn-islegum nótum. Þar vísar listamað-urinn ekki einungis til ljómans sem umlykur þá sem samfélagið hefur hafið á stall, heldur til þeirrar dýrðar sem löngum hefur loðað við hernað og fórnir á einstaklingum í þágu föðurlandsins. Verkið heitir „Some/One“ (sem útleggja má bæði sem „Einhver“ og sem „Margir/Einn), en titillinn lýsir vel þeirri inn- byrðis togstreitu sem í verkinu felst. Verkið er eins og risastór brynja sem rís upp úr sam- felldu hafi eitt hundrað þúsund auðkenn- ismerkja (dogtags) af hálsfestum hermanna sem þeir bera svo hægt sé að bera kennsl á þá fallna. Brynjan, sem er eins og kápa með hettu og víðum ermum að lögun, stendur með út- breiddan faðminn eins og æðri vera og tákn fyrir föðurlandið. Að innan er hún gyllt og ljómandi eins og musteri eða opinbert minn- ismerki – en um leið hol og ógnvekjandi. Auð- kennismerkin sem mynda þennan mikla hlífi- skjöld eru óteljandi og minna óþægilega á allan þann fjölda manna sem leggur líf sitt að veði í herþjónustu. Til að leggja enn frekari áherslu á mannfjöldann sem um er að ræða hefur Do-Ho Suh þakið veggi sýningarrým- isins með veggfóðri sem við fyrstu sýn virðist þakið smágerðu mynstri er rennur saman í eina heild. Við nánari athugun kemur í ljós að á veggfóðrinu gefur að líta örsmáar andlits- myndir af óteljandi hermönnum. Allir eru þeir að sjálfsögðu ólíkir einstaklingar, sem verður sérstaklega áberandi innan þess þrönga ramma sem einkennisbúningar þeirra marka, en einsleitni þeirra miðar auðvitað fyrst og fremst að því að afmá persónuleg einkenni ein- staklingsins og steypa alla í sama mót. Í þessu verki má bera kennsl á óræð mörk sjálfsvitundar og samfélagsheildar, en það er einmitt samruni af einhverju tagi sem er grundvöllur þjóðernis og hugmynda okkar um skil á milli einstakra þjóða. Fyrir áhorfandann sem einstakling er verkið einkar áhrifaríkt, þar sem það leikur á tilfinningu hans fyrir eig- in sjálfi í sameiginlegum reynsluheimi mann- kyns. Með þá vitneskju í farteskinu að Do-Ho Suh fluttist rétt fyrir þrítugt frá Kóreu til Bandaríkjanna, þar sem ólíkir kynþættir og menningarhópar þrífast hlið við hlið í sund- urleitu samfélagi sem er um margt ólíkt ein- sleitu föðurlandi hans, upplifir áhorfandinn nýja vídd í verkunum þar sem þjóðerni og landamæri virðast umfram allt afstæð. Þegar dvalið er við verkið „Some/One“ verða spurningar er varða vald og valdboð óneitanlega áleitnar. Ljóst er að á milli ein- staklinga í fjöldasamfélagi og þeirra krafta sem stjórna þeim er flókið samband. Það er at- hyglisvert að toppur valdastrúktúrsins er hvergi sýnilegur á áþreifanlegan máta, frekar en í verkinu „Public Figures“, þar sem styttan, tákn valdsins sem venjulega er aðalatriðið, er einfaldlega ekki til staðar. Hin mikla brynja sem mynduð er úr auðkennismerkjum her- mannanna er að vísu stór og áhrifamikil, en um leið óræð og tóm, rétt eins og áhorfand- anum hafi verið falið að fylla það tómarúm sjálfur, eða velta fyrir sér ásýnd valdsins út frá nýju sjónarhorni. Frammi fyrir slíkum fjölda (fallinna ?) hermanna er tæpast hægt að kom- ast hjá því að velta því fyrir sér hvaða vald það er sem byggir múra og markar línur á milli einnar þjóðar og annarrar og tilgangi þess fyr- ir einstaklinginn. Í ljósi þeirra átaka sem átt hafa sér stað á heimaslóðum listamannsins, Kóreuskaganum, verður verkið enn sterkara. Verk Do-Ho Suh voru víða á tvíæringnum því Harald Szeemann valdi verk hans til sýn- ingar í stóru samsýninguna í ítalska skálanum. Þar hefur Do-Ho Suh unnið verk inn í heilan sal sem hefur sterkar tengingar við verkin „Public Figures“og „Some/One“. Enn eru veggir salarins fóðraðir með örsmáum andlits- myndum. Þær mynda tengingu við gólfið sem er fullkomlega gegnsætt og haldið uppi af óteljandi fjölda smárra mannsmynda rétt eins og stallinum í „Public Figures“. Í einhverjum skilningi er því einnig búið að hefja áhorfand- ann sjálfan (sem er risavaxinn í samanburði við smækkaðar mannsmyndirnar undir gólf- inu) á stall í þessu verki, jafnvel þannig að margir þeirra sem komu að þessum sal hikuðu í fyrstu við að ganga inn á sjálft glergólfið og „troða“ þannig á mannfjöldanum sem heldur því uppi. Þannig eru tengsl einstaklingsins, semáhorfanda, við þetta verk sér-kennilega virkt ferli sem lýsir bæðistöðugleika ákveðinna gilda í mann- legu samfélagi þar sem einsleitur fjöldinn er undirstaða alls, og margbreytileika í við- brögðum stakra einstaklinga við þessum sömu gildum. Verkið hefur því einnig markvissar vísanir í þá marxísku hugmyndafræði sem hafði svo mótandi áhrif á síðustu öld, ekki síð- ur en í einstaklingsdýrkun vestrænnar menn- ingar, þar sem það dregur fram í dagsljósið stöðuga árekstra á milli einstaklingsins sem hluta af samfélaginu og þess félagslega og menningarlega rýmis sem honum er gert að hrærast í. Rétt eins og verk Málfríðar Einarsdóttur, eru verk Do-Ho Suh vandlega tvinnuð frásögn af minningum og mannkynssögu – hugleiðing um samastað í tilveru sem okkur hefur enn ekki tekist að móta á viðunandi máta, hvorki sem einstaklingar né þjóð, þó flest sættum við okkur við hlutskipti okkar. Styrkur Suh felst í yfirlætislausum vísunum í sammanlegan veru- leika. Þær eru þó sérkennilega átakalausar enda myndi valdsmannlegri leið að viðfangs- efninu vera í fullkominni andstöðu við þá sam- kennd með hlutskipti „lítilmagnans“ sem verk- in lýsa – „lítilmagna“ sem verður að „stórmenni“ í félagi við aðra í viðleitni sinni til að halda uppi mannlegu samfélagi. AF LISTUM Eftir Fríðu Björk Ingvarsdóttur fbi@mbl.is Samastaður í tilverunni Hið gegnsæja gólf, sem listamaðurinn hefur búið til í einum sýningarsala tvíæringsins, hvílir á uppréttum höndum þúsunda smækkaðra ein- staklinga – mannfjölda sem hefur áhorfandann sjálfan upp á stall. „Public Figures“ eftir Do-Ho Suh, er einskonar viðsnúningur á hefð tengdri opinberum minn- ismerkjum um mikilmenni samfélagsins. Í stað þess að mikilmennið tróni á stallinum, er sjón- um áhorfandans beint að þeim smækkuðu „stór- mennum“ sem bera stallinn uppi. „Some/One“ hverfist um brynju sem búin er til úr 100.000 auðkennismerkjum hermanna. Brynjan breiðir úr sér yfir allt gólf salarins svo sýningargestir ganga á miklum faldi hennar og jafnframt á nöfnum hermannanna.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.