Morgunblaðið - 27.07.2001, Blaðsíða 27
LISTIR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 27. JÚLÍ 2001 27
ÆFINGAR eru nú hafnar hjá
Norðurópi á óperueinþáttungnum
Gianni Schicci eftir G. Puccini og
Sálumessu eftir Sigurð Sævarsson.
Sálumessan er byggð á skáldsögu
Vigdísar Grímsdóttur Z ástarsögu.
Æft er í húsnæði Nýja Tónlistar-
skólans í Reykjavík en verkin eru
hluti af Óperuveislu Norðuróps í
sumar. Í ágúst og september verð-
ur nýtt óperuhús tekið í notkun í
iðnaðarhúsnæði við smábáta-
höfnina í Keflavík, Dráttarbraut-
ina, sem nú er notuð sem þvotta-
stöð Sérleyfisbifreiða Keflavíkur.
Gianni Schicci er gamanópera
um ættingja sem safnast saman eft-
ir að auðugur frændi deyr og þær
fléttur sem þá skapast. Verkið er
skrifað fyrir 15 söngvara og meðal
þeirra sem fram koma eru Davíð
Ólafsson bassi, Elín Halldórsdóttir
sópran, Garðar Thór Cortes tenór,
Jóhann Smári Sævarsson bassi og
Sigríður Aðalsteinsdóttir alt.
Verkið verður flutt í íslenskri þýð-
ingu Jóhanns Smára Sævarssonar.
Hljómsveitarstjóri er Garðar Cort-
es og leikstjóri Jón Páll Eyjólfsson.
Listrænn stjórnandi verksins er
Jóhann Smári Sævarsson. Sýn-
ingar verða aðeins þrjár á þessum
verkum dagana 10., 11. og 12.
ágúst.
Seinni sýning Norðuróps í þess-
ari óperuveislu er ópera byggð á
samnefndri skáldsögu
Vigdísar Grímsdóttur Z ást-
arsaga og er hún eftir Sigurð Sæv-
arsson. Hún verður frumsýnd á
ljósanótt í Reykjanesbæ hinn 1.
september. Forsala aðgöngumiða
fer fram í Sparisjóði Keflavíkur frá
og með 26. júlí. Helstu styrktarað-
ilar eru Sparisjóðurinn í Keflavík,
Hitaveita Suðurnesja, Kaupfélag
Suðurnesja, Íslandsbanki, mennta-
málaráðuneytið og fleiri.
Morgunblaðið/Ásdís
Hópurinn sem stendur að sýningu tveggja ópera.
Norðuróp æfir nýja
íslenska óperu
TÓNLISTARHÁTÍÐIN í Reykholti
verður haldin um helgina og hefst
hún með tónleikum í kvöld. Fernir
tónleikar eru á dagskrá, auk hátíð-
armessu, en í ár eru fimm ár síðan
Reykholtskirkja var vígð og jafn-
framt fimmta starfsafmæli Reyk-
holtshátíðar. Efnisskrá tónleika há-
tíðarinnar er að þessu sinni tileinkuð
evrópskum meisturum tónlistarsög-
unnar og verða meðal annars flutt
verk eftir Beethoven, Schumann,
Brahms, Chopin, Liszt og Fauré. „Í
tilefni aldamóta og einnig með tilliti
til þessa staðar valdi ég Evrópu,“
segir Steinunn Birna Ragnarsdóttir,
stjórnandi hátíðarinnar frá upphafi.
Þau fjögur undanfarin ár sem hátíðin
hefur starfað hefur hún verið með
norrænu yfirbragði og áhersla lögð á
norræna tónlist og flytjendur. „Efn-
isskráin var valin með þetta evrópska
þema í huga, en einnig var leitast við
að velja verk sem fólk þekkir og hef-
ur gaman af að heyra. Í raun má
segja að þetta sé góðgætisprógramm
í ár,“ heldur Steinunn Birna áfram og
hlær við. „Þetta er ekki tilraunamús-
ik eða óþekkt verk, heldur þekkt verk
úr tónbókmenntunum. Tónlistin er
valin með það að augnamiði að gleðja,
að fólk komi glaðara út en þegar það
kom og finnist það hafa upplifað eitt-
hvað sem það tekur með sér.“
Ánægðir flytjendur
vekja ánægju
Kirkjuleg verk eru ekki á dagskrá
tónleika Reykholtshátíðar í ár. „Við
erum með svo fína hátíð hér á Íslandi,
sem er Skálholtshátíð, sem gerir
þessum verkum mjög góð skil. Mér
finnst þetta umhverfi hér líka vera
veraldlegra í eðli sínu, þó að það sé
bara mín persónulega skoðun. Þarna
koma inn bókmenntir og aðrar list-
greinar og þessi staður hefur verið
menningarlegur suðupottur í gegn-
um tíðina. Þess vegna kallar hann
ekki endilega á þessa trúartengingu.
Mig langaði til þess að á Reyk-
holtshátíð væri flutt þessi þakkláta
veraldlega tónlist frá Norður- og
Mið-Evrópu,“ segir Steinunn Birna.
Engin íslensk verk eru á dagskrá
tónleika Reykholtshátíðar í ár, en ís-
lensk verk hafa skipað nokkurn sess
á hátíðinni undanfarin ár. „Það kem-
ur þó að því aftur. Við höfum flutt
frumsamin verk, sem hafa verið sam-
in sérstaklega fyrir okkur og önnur
verk eftir íslensk tónskáld og hyggj-
umst halda því áfram. En þessi evr-
ópska dagskrá var svona smá útúr-
dúr og allir flytjendur eru mjög
ánægðir með verkefnavalið, heyrist
mér. Þetta eru verk sem þau hafa
mjög gaman af að spila og yfirleitt
hefur það góð áhrif á flutninginn ef
spilagleðin er í algleymingi.“
Fyrstu tónleikar Reykholtshátíðar
í ár, sem haldnir eru annað kvöld og
hefjast kl. 21, eru helgaðir Beethov-
en. Þá verða flutt píanótríó, serenaða
og dúett fyrir víólu og selló, sem kall-
aður er „gleraugnadúettinn“. „Mér
fannst viðeigandi, fyrst við helgum
þetta ár evrópskum meisturum, og
alveg tilvalið að tileinka heila tónleika
Beethoven,“ segir Steinunn Birna.
„Bæði tríóin eru mjög þekkt, en
strengjadúettinn er aðeins sjaldnar
spilaður. Þetta er líka óvenjuleg sam-
setning, það er víóla og selló.“ Blaða-
manni leikur forvitni á að vita af
hverju hann er kallaður gler-
augnadúettinn. „Við vorum einmitt
að ræða þetta um daginn. Það ber
ekki öllum saman um hver er ástæð-
an, en við giskuðum á að hann hefði
þótt svo erfiður að fólk þyrfti að setja
upp gleraugu til þess að spila hann,“
segir Steinunn Birna og hlær. „Það
er samt alls ekki víst að það sé ástæð-
an.“
Ásamt Steinunni Birnu koma fram
á hátíðinni Ásdís Valdimarsdóttir
víóluleikari, Bryndís Halla Gylfadótt-
ir sellóleikari, Michael Stirling selló-
leikari, Richard Simm píanóleikari og
Sif Tulinius fiðluleikari auk sópran-
söngkonunnar Lisu Graf og Peters
Bortfeldt, píanóleikara. Þau halda
ljóðatónleika á laugardag kl. 15. „Þau
eru með alveg hárómantíska ljóða-
dagskrá; Brahms, Liszt og Schu-
mann. Þetta gerist ekki öllu róman-
tískara,“ segir Steinunn Birna. „Lisa
Graf og Peter Bortfeldt eru þekktir
listamenn í Evrópu. Það er mikill
fengur að fá þau og gaman að geta
boðið góðum söngvurum upp á að
syngja í Reykholtskirkju, þar sem
hún hentar sérstaklega vel fyrir
söng.“
Neistaflug milli
áheyrenda og flytjenda
Listamennirnir gefa sér tíma til að
hitta blaðamann að máli rétt eftir
komuna til Íslands. „Við erum af-
skaplega ánægð með þetta tækifæri
til að koma fram í Reykholti,“ segir
Peter. „Lisa er frá Bandaríkjunum
og ég er frá Þýskalandi og við erum
með tónleika í báðum löndum til
skiptis. Við höfum því oft flogið í
gegnum Ísland, en aldrei dvalið hér.
Okkur hefur lengi langað til þess.
Steinunn Birna bauð okkur að koma
og við vorum beðin um að vera með
tónleika í þeim anda sem við erum
vön.“ Fimm miðevrópsk tónskáld eru
á efnisskrá tónleika þeirra, öll í róm-
antískum anda. „Þessi verk sem við
flytjum, „lieder“, fjalla um gleðina yf-
ir að vera til, að vera manneskja, um
sambandið við aðra og við náttúr-
una,“ segir Lisa. „Ég myndi segja að
það sé þetta sem við höfum mest
gaman af að kanna. Þessi efnisskrá
gefur tækifæri til að kynna þennan
hluta Evrópu og hugsunina þar.“ Pet-
er bætir við að efnisskrá sem þessi
henti mjög vel til flutnings í smærri
sölum, sem Reykholtskirkja er.
„Þessi tónlist fjallar um djúpar til-
finningar og persónulega reynslu,
þess vegna hentar hún betur minni
hópi áheyrenda. Það myndast sér-
stakt samband milli áheyrenda og
flytjenda,“ segir hann. „Í Þýskalandi
tölum við um að neistarnir fljúgi.“
Flygillinn formlega
afhentur
Efnisskrá seinni tónleikanna
tvennra er mjög fjölbreytt. Þar er um
einleiksverk að ræða, auk ýmissa
samsetninga, þar á meðal dúett fyrir
tvö selló og einnig píanódúett, svo
eitthvað sé nefnt. „Það eru verk frá
barokktímanum og alveg fram á
þessa öld. Á sunnudagstónleikunum
verður efnisskráin öll í léttari kant-
inum og á þeim tónleikum er oft mikil
hátíðarstemmning.“
Í ár verður sérstök hátíðarmessa á
sunnudag kl. 14, þar sem kirkjan
fagnar fimm ára vígsluafmæli og
flygill kirkjunnar verður formlega af-
hentur. Steinunn Birna mun leika á
flygilinn í messunni. „Árið 1996 geng-
ust einstaklingar fyrir peningasöfnun
til kaupa á flygli fyrir Reykholts-
kirkju. Þeir keyptu flygilinn og
ákváðu að afhenda hann þegar hann
væri að fullu greiddur. Eftir þessi
fimm ár hefur það tekist með harð-
fylgi og góðum gjöfum þeirra sem
hafa lagt málefninu lið,“ segir Dagný
Emilsdóttir, framkvæmdastjóri
Heimskringlu, sem er fram-
kvæmdaraðili Reykholtshátíðar.
„Hann verður því formlega afhentur í
hátíðarmessunni á sunnudag.“
Evrópsk tón-
list í forgrunni
Morgunblaðið/Þorkell
Hljóðfæraleikarar Reykholtshátíðar við flygilinn sem verður formlega
afhentur á hátíðinni. Frá vinstri: Steinunn Birna Ragnarsdóttir, Michael
Stirling, Ásdís Valdimarsdóttir, Sif Tulinius, Bryndís Halla Gylfadóttir
og Richard Simm. Á myndina vantar Lisu Graf og Peter Bortfeldt.
ingamaria@mbl.is
Reykholtshátíð verður haldin um helgina.
Inga María Leifsdóttir kynnti sér
tónleikahaldið í ár, sem að þessu sinni
hefur evrópska tengingu.
Peter BortfeldtLisa Graf
ÚT ER komin að nýju hjá Máli og
menningu bókin Slettireka eftir
Helga Hálfdánarson. Hér er á ferð-
inni safn greina um vísur og kvæði
úr Íslendingasögum, meðal annars
ýmis frægustu kvæði fornra bók-
mennta eins og Sonatorrek og Höf-
uðlausn Egils Skallagrímssonar.
Höfundur segir í formála: „Árið
1954 birtist á prenti undanfari þess
samsetnings sem hér getur að líta,
þar sem fjallað var á sama hátt um
flest hin sömu atriði og hér. Það
plagg hefur verið ófáanlegt um langt
skeið, og hafa ýmsir undan því
kvartað. Því er þessi endurútgáfa
farin á flot, um nokkur atriði lítið eitt
lagfærð.“
Þetta er ný útgáfa bókarinnar,
þar sem einn mikilvirkasti ljóðaþýð-
andi okkar tíma varpar ljósi á ýmsa
myrka og torlesna staði í gömlum
kvæðahandritum og iðulega verður
merking þeirra mun skýrari í með-
förum hans. Þar nýtur sín yfirburða-
þekking Helga á ljóðmáli og næm
tilfinning fyrir kveðskap fornskáld-
anna Egils, Hallfreðar og Kormáks.
Slettireka merkir múrskeið, notuð
til að fylla upp í feyrur í steinsteypu.
Bókin er 155 blaðsíður og er
prentuð í Svíþjóð.
Nýjar bækur
EINKALEYFASTOFAN hefur
gefið út bókina Saga hugverkarétt-
inda í íslensku atvinnulífi á 19. og
20. öld. Höfundur er Sumarliði R.
Ísleifsson sagnfræðingur. Bókin er
gefin út í tilefni af 10 ára starfs-
afmæli Einkaleyfastofunnar, en
stofnunin var formlega sett á lagg-
irnar 1. júlí 1991.
Á bókarkápu segir m.a. svo um út-
gáfuna: „Hugverkaréttindi hafa
hvarvetna fengið aukið rúm í um-
ræðu um atvinnuþróun á síðustu
áratugum. Breytingar í viðskiptum
þjóða í milli eiga hér sinn stóra þátt.
Hægt er að tala um gjörbreytt um-
hverfi í þessu tilliti. Ísland hefur
ekki farið varhluta af þessari þróun.
Í bókinni er fjallað um sögu hug-
verkaréttinda í atvinnulífi á Íslandi
frá því á ofanverðri 19. öld og til okk-
ar daga, málefni einkaleyfa, vöru-
merkja og hönnunar. Gerð er grein
fyrir lagasetningu á þessum sviðum
til loka 20. aldar og í því samhengi
fyrstu tilraunum til þess að setja lög
um einkaleyfi hér á landi 1875, á
fyrsta þinginu eftir að Alþingi Ís-
lendinga fékk löggjafarvald. Aðild
Íslands að alþjóðasamningum á
málasviðinu, þróun stjórnsýslunnar
og norræns samstarfs fær ýtarlega
umfjöllun í bókinni. Þá er sér-
staklega fjallað um stofnun og starf-
semi einkaleyfastofunnar og þær
víðtæku breytingar sem urðu innan
þessa málaflokks á tveimur síðustu
áratugum 20. aldar. Við sögu koma
m.a. stjórnmálamenn, embætt-
ismenn og frammámenn í atvinnu-
lífi.“
Bókin er 183 blaðsíður og prýdd
fjölda mynda. Um útlitshönnun sá
Gísli B. Björnsson teiknari en aug-
lýsingastofan Næst annaðist umbrot
og litgreiningu. Bókin er prentuð í
Steindórsprenti-Gutenberg ehf.
Nýjar bækur