Morgunblaðið - 23.09.2001, Blaðsíða 26

Morgunblaðið - 23.09.2001, Blaðsíða 26
26 SUNNUDAGUR 23. SEPTEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ O FT ER sagt að í stríði sé sannleikurinn fyrsta fórnarlambið. Eftir hryðjuverkin í síðustu viku óttast margir frels- issinnar að í þetta sinn verði það frið- helgi einkalífsins sem eigi fyrst undir högg að sækja,“ segir í grein í nýjasta tölublaði vikuritsins The Economist. Í kjölfar hryðjuverkanna 11. sept- ember síðastliðinn hefur Bandaríkja- stjórn sagt hryðjuverkamönnum og ríkisstjórnum sem veita þeim liðsinni stríð á hendur. Ætlunin er að mynda alþjóðlegt bandalag í þessu skyni. Er ljóst að Bandaríkin og Evrópuríki munu vinna náið saman að því að uppræta hryðjuverkahópa. Er fróð- legt að velta því fyrir sér með hvaða meðulum slík barátta verður háð. Ljóst er að til þess að fyrirbyggja hryðjuverk verður að stórherða lög- gæslu og eftirlit af öllu tagi. Það virð- ist reyndar liggja í augum uppi að aldrei verði hægt að uppræta hryðju- verk með öllu, að minnsta kosti ekki á meðan til er fólk sem er reiðubúið að láta lífið í slíkum árásum. Það er vissulega tæknilega mögu- legt að ganga mjög langt í þá átt að útrýma glæpum, þar á meðal hryðju- verkum. Í nútímaeftirlitsþjóðfélagi er öll háttsemi manna meira og minna skráð hvort sem um rafræn viðskipti er að ræða, notkun tölvu- pósts og Netsins eða eftirlitsmynda- vélar á opinberum stöðum og svo framvegis. Jafnframt hefur tækni til greiningar á DNA valdið byltingu í rannsókn sakamála. Það virðist því mögulegt að upplýsa velflesta glæpi, vegna þess að það er að verða ómögu- legt að gera nokkuð af sér óséður og án þess að skilja eftir sig spor. Nýr vandi Hingað til hefur refsilöggjöf byggst á því að líkur á því að glæpur komist upp dugi til að aftra mönnum frá því að fremja ódæði. Þessi hugsun gengur ekki upp gagnvart sjálfs- morðsárásum. Þar lætur glæpamað- urinn sig það engu varða þótt upp um hann komist. Fyrir vikið þarf að hugsa löggæsluviðbrögðin með öðr- um hætti. Ef afstýra á hryðjuverkum af þessu tagi verður að fylgjast mun betur með mönnum áður en ódæði er framið. Það þarf að fylgjast með öll- um almenningi til þess að koma í tæka tíð auga á óæskilega hegðun. Hvaða bækur les þessi, hvaða kvik- myndir horfir hann á, hverja um- gengst hann, hvert ferðast hann, hvað hugsar hann? Ýmsir hópar kunna þá að sjálfsögðu að teljast sér- staklega grunsamlegir eins og náms- menn og útlendingar. Það þarf jafn- vel að virkja allan almenning og hvetja hann til að fylgjast með náunganum. Í raun þyrfti að innleiða nokkurs konar lögregluríki. Það er ekki að ófyrirsynju að bent hefur ver- ið á að hryðjuverk hafi verið óþekkt í alræðisþjóðfélögum 20. aldar eins og Sovétríkjunum svo ekki sé talað um Austur-Þýskaland þar sem eftirlitið með einstaklingum af hálfu Stasi náði hvað mestri fullkomnun. Það er því ljóst að kröfur um betri varnir gegn hryðjuverkum vekja spurningar um hvernig þjóðfélag við viljum byggja. Neyðumst við til að fórna einhverju af áunnum frelsis- réttindum í þágu öryggis? Hvað með vernd persónuupplýsinga sem hefur verið æ meira í þungamiðju umræðna um mannréttindi í tækniþjóðfélagi nútímans? Var sú umræða öll mörk- uð af sakleysislegri trú á hið góða í manninum, trú sem var afhjúpuð hinn 11. september? Hvað um rétt manna til að teljast saklausir uns sekt er sönnuð? Hvað um umburðarlyndi gagnvart útlendingum? Umræða af þessu tagi er hafin í Bandaríkjunum. Þar eru til umræðu á þingi tillögur um stórauknar rannsóknarheimildir lögreglu. The Economist spáir því að Bandaríkjamenn muni verða að end- urmeta jafnvægið milli öryggishags- muna og friðhelgi einkalífs. Er þó vert að benda á að friðhelgi einkalífs og sérstaklega persónuupplýsinga nýtur mun lakari verndar í Banda- ríkjunum en í Evrópu. Þessi spurn- ing er þó alls ekki einskorðuð við Bandaríkin og Bandaríkjamenn. Baráttan við hryðjuverk er alþjóðleg og velflest ríki munu finna fyrir áhrif- um á eigið réttarkerfi og þjóðfélag. Þótt hryðjuverkin hafi verið framin í Bandaríkjunum virðist liggja fyrir að stór hluti af undirbúningnum fór fram í Þýskalandi. Þar voru að verki arabískir námsmenn í Hamborg og hugsanlega víðar sem gátu undirbúið ódæðið svo árum skipti án þess að vekja grunsemdir. Það er örugglega engin tilviljun að þeir kjósa að starfa í ríki sem getur státað af því að búa vel að útlendingum og þar sem réttindi einstaklinga til að vera í friði fyrir hnýsni yfirvalda eru í hávegum höfð. Það er óhætt að fullyrða að óvíða nýt- ur friðhelgi einkalífs og persónuupp- lýsinga meiri verndar heldur en í Þýskalandi. Til þess að koma upp um áformin hefði lögregla þurft að hafa rannsóknarheimildir sem hún hefur ekki nú til dags. Þetta kann að breyt- ast. Þannig sagði innanríkisráðherra Þýskalands, Otto Schily, fyrir skemmstu í viðtali við vikublaðið die Zeit: „Við verðum að breyta um áherslur í rannsóknarstarfi okkar. Það er erfitt þegar um er að ræða fólk sem lætur alls ekki á sér bera, lýkur námi með góðum einkunnum og lifir borgaralegu lífi þar sem ekk- ert bendir til að hryðjuverk kunni að vera í aðsigi. Leyniþjónusta eða lög- regla getur ekki hafið rannsókn vegna þess að einhver hegði sér sér- staklega venjulega. Þeim mun mik- ilvægara er að velta því fyrir sér hvernig við nýtum okkur þá gagna- banka sem við höfum, hvernig tengja má þá saman, hvernig bera má sam- an gögn úr ólíkum grunnum og hvern sess þjóðaröryggi skipar í því sam- bandi. Við verðum að hugleiða hvort ekki þurfi að skilgreina vernd per- sónuupplýsinga upp á nýtt.“ Samkvæmt þessu kann hefðbund- in löggjöf um vernd persónupplýs- inga að vera fjötur um fót ef ná á ár- angri við að fyrirbyggja hryðjuverk. Það er einmitt mikilvægur þáttur í vernd persónuupplýsinga samkvæmt evrópskum reglum að ekki megi sam- tengja gagnagrunna að ástæðulausu eða vinna með slíkar upplýsingar nema markmiðið sé skýrt. Það sem þýski ráðherrann hefur hins vegar í huga eins og fram kemur síðar í við- talinu er að hægt sé að nota nútíma- tölvutækni og söfnun persónuupplýs- inga til þess að leita að tilteknu hegðunarmynstri meðal fólks, skyggnast óbeint inn í hugarheima og koma þannig auga á þá sem kynnu að vera að leiðast út í alvarlega glæpi. Ef þessi orð endurspegla stefnu ríkisstjórnar jafnaðarmanna og græningja kann að virðast að stutt sé í að henni verði hrint í framkvæmd. Stjórnarandstaðan er mjög ólíkleg til að leggjast gegn hertri löggæslu því það er einmitt eitt af hefðbundnum baráttumálum kristilegra demó- krata. Málið er þó ekki svona einfalt. Annars vegar myndi stefnubreyting hvað varðar vernd persónuupplýs- inga örugglega koma til kasta stjórn- lagadómstóls Þýskalands sem er þekktur fyrir að standa skeleggan vörð um grundvallarréttindi einstak- linga. Hins vegar má benda á að löggjöf um vernd persónuupplýsinga hefur verið samræmd á Evrópska efna- hagssvæðinu á undanförnum árum í kjölfar tilskipunar Evrópusambands- ins frá árinu 1995. Eitt ríki getur ekki breytt þessum reglum en það má auðvitað spá því að ef áhrifamesta ríki Evrópu, Þýskaland, vill breyta um stefnu í þeim efnum hafi það sitt að segja. Leynd fjarskipta Fyrir tilviljun gerist það að á sama tíma og rætt er um viðbrögð við hryðjuverkunum í Bandaríkjunum samþykktu ráðherrar Evrópuráðs- ríkjanna 43 í síðustu viku nýjan sátt- mála um varnir gegn tölvuglæpum, sáttmála sem kann að skipta sköpum í baráttu við alþjóðlega glæpahringi. Sáttmáli þessi hefur verið í undirbún- ingi um árabil og er nú tilbúinn til undirskriftar. Bandarísk stjórnvöld hafa tekið virkan þátt í gerð sáttmál- ans. Hann felur í sér heimildir lög- reglu til að fá aðgang að gögnum um fjarskipti um Netið og til að senda slíkar upplýsingar milli landa með greiðum hætti. Á þetta við þegar ver- ið er að rannsaka tiltekna alvarlega glæpi. Hryðjuverk eru ekki talin þar á meðal og vakna því spurningar um hvort ekki verði að bæta þeim við aðra efnisglæpi sem sáttmálinn nær til, þ.e. barnaklám, brot á höfunda- rétti og innbrot í tölvukerfi. Talsmenn tjáningarfrelsis og ein- staklingsréttinda hafa undanfarin ár barist fyrir rétti manna til að nota dulmál eða dulkóðun í fjarskiptum. Eru rökin þau að fólk eigi rétt á að eiga samskipti sín á milli án þess að lögregla og leyniþjónustur geti ráðið í merkingu slíkra skeyta. Á hinn bóg- inn hafa heyrst raddir um að áskilja verði að yfirvöld geti ætíð ef á þarf að halda brotið upp slíka dulkóðun. Er líklegt að erfiðara verði en áður að verja þá skoðun að menn eigi rétt til að nota órjúfanlega dulkóðun. Hvert stefnir? Pólitísk viðbrögð í Evrópu og Bandaríkjunum undanfarna daga benda til þess hvert stefnir. Sam- kvæmt sameiginlegri yfirlýsingu Evrópusambandsins og Bandaríkj- anna frá því á fimmtudag er nauðsyn- legt að vernda borgarana gegn hryðjuverkum en gæta þó að einstak- lingsréttindum, réttaröryggi og meg- inreglunni um lögbundið ríkisvald. Það sýnir að enginn vilji er til að koll- varpa undirstöðum lýðræðis- og rétt- arríkis. Nánar tiltekið mun samstarf- ið fela í sér aðgerðir til að tryggja öryggi flugsamgangna, aukna sam- vinnu lögreglu, ráðist verði að fjár- hagslegum grunni hryðjuverka- manna, landamæraeftirlit verði hert og síðast en ekki síst fái löggæslan greiðari aðgang að upplýsingum og auknar heimildir til að skipast á raf- rænum gögnum yfir Atlantsála. Evrópusambandið fyrir sitt leyti samþykkti á fimmtudag allróttæka breytingu á löggæslusamstarfi ríkjanna sem hefði örugglega tekið lengri tíma að knýja í gegn ef aðstæð- ur hefðu verið aðrar. Þannig ákváðu dómsmálaráðherrar Evrópusam- bandsríkja að koma á laggirnar svo- kallaðri evrópskri handtökuheimild. Mun hún leiða til þess að hægt verður að draga menn fyrir dóm í bókstaf- legri merkingu hvar sem er í Evrópu- sambandinu án þess að þurfa að fara hefðbundna leið framsals. Eins og nú er háttað málum geta Spánverjar, svo dæmi sé tekið, ekki fengið afhent- an franskan ríkisborgara sem grun- aður er um aðild að hryðjuverkum ETA nema stjórnvöld í Frakklandi leyfi framsal. Þetta hefur oft reynst erfitt, að sögn franska dagblaðsins Le Monde, vegna ótta Frakka við að baskadeilan berist til Frakklands. Hugmyndin um evrópska handtöku- heimild felur hins vegar í sér að ekki verður lengur hægt að synja um framsal af pólitískum ástæðum. Kann þetta að kalla á stjórnarskrárbreyt- ingu í sumum ríkjum vegna fullveld- isskerðingarinnar sem í þessu felst. Hvar eru mörkin? Það má fullyrða að jafnvægið milli friðhelgi einkalífs og rannsóknar- heimilda lögreglu getur breyst án þess að um mikla röskun á grundvall- argildum lýðræðis- og réttarríkja sé að ræða. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu segir til dæmis að skerða megi friðhelgi einkalífs teljist það nauðsynlegt í lýðræðisríki vegna þjóðaröryggis. Það er auðvitað tölu- vert svigrúm fyrir hendi til að meta hvað sé nauðsynlegt í þeim efnum. Hins vegar eru aðrar grundvallar- reglur sem ekki má víkja frá eins og bann við pyntingum. Vissulega gæti það hjálpað í viðureign við hryðju- verkamenn að pynta menn til sagna. Er vissulega tilhneiging til þess í ríkj- um sem heyja stríð gegn hryðjuverk- um eins og í Tyrklandi. Mannrétt- indadómstóll Evrópu hefur hins vegar ekki slakað neitt á kröfum í þeim efnum í fjölmörgum tyrknesk- um málum sem komið hafa til kasta hans. Annað dæmi má nefna og það er samstaða Evrópuríkja um bann við dauðarefsingum. Ef vitorðsmenn til- ræðismannanna í Bandaríkjunum nást verða örugglega kröfur þar í landi um þyngstu refsingu. Þar gæti skilið milli Bandaríkjamanna og Evr- ópubúa. Má nefna að Mannréttinda- dómstóll Evrópu myndi líklega telja óheimilt að framselja sakamenn til Bandaríkjanna ef dauðarefsing biði þeirra. Með illu skal illt út reka Reuters Öryggisvörður leitar í farangri á Logan-flugvelli í Boston. Krafan um aukið eftirlit í kjölfar hryðjuverkanna 11. september er hávær og velta nú margir fyrir sér hvort afleiðingin verði sú að gengið verði á friðhelgi einkalífsins og persónfrelsið í viðleitninni til að uppræta hryðjuverkamenn og samtök þeirra. Höfundur er lögfræðingur á mann- réttindaskrifstofu Evrópuráðsins. Skoðanir sem fram kunna að koma í þessari grein eru á ábyrgð höfundar. Vinsamlegast sendið ábendingar um efni til pall@evc.net. Í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum er víða rætt um að löggæslan þurfi aukið svigrúm til athafna. Páll Þórhalls- son veltir því fyrir sér hvort styrjöldin gegn hryðjuverkum eigi eftir að þrengja að frels- isréttindum fólks. Lög og réttur eftir Pál Þórhallsson
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.