Morgunblaðið - 23.10.2001, Page 26
ERLENT
26 ÞRIÐJUDAGUR 23. OKTÓBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
STAÐFEST var í gær að tveir
starfsmenn póstþjónustunnar í
Washington, höfuðborg Bandaríkj-
anna, hefðu greinst með miltis-
brandssmit í lungum. Þá var verið að
rannsaka lát tveggja manna sem
störfuðu í sömu byggingu og hinir
sýktu. Í gær höfðu verið tekin sýni
úr rúmlega 2.200 starfsmönnum
póstþjónustunnar í Washington með
tilliti til hugsanlegrar miltisbrands-
sýkingar.
Tveimur byggingum póstþjónust-
unnar hefur verið lokað. Rannsóknin
beinist að því hvort miltisbrandi hafi
verið komið fyrir í loftræstikerfum
eða hvort mennirnir tveir hafi andað
að sér militsbrandsgróum úr póst-
sendingu.
Ekki var greint frá nafni eða aldri
mannanna sem sýktust en sagt að
þeir væru á sjúkrahúsi í Virginíu.
Ástand annars mannsins, sem veikt-
ist hastarlega um helgina, væri „al-
varlegt en stöðugt“. Yfirmaður póst-
þjónustunnar sagði að horfur væru
taldar nokkuð góðar en það myndi
skýrast á næstu sólarhringum hvort
maðurinn næði aftur heilsu.
Andlát vekja ugg
Síðdegis í gær var síðan frá því
skýrt að annar starfsmaður póst-
þjónustunnar hefði greinst með milt-
isbrand í lungum. Tveir menn til við-
bótar sem þar störfuðu væru látnir
og væri verið að rannsaka hvort
mildisbrandssýking hefði hugsan-
lega orðið þeim að aldurtila. Sagði
Ivan Walks, sóttvarnarlæknir Wash-
ington, að bráðabirgðaniðurstöður
bentu til þess að annar þeirra hefði
tekið miltisbrand.
Walks sagði þessi tíðindi alvarleg
mjög og sagði ljóst að allir þeir sem
starfað hefðu í umræddum bygging-
um síðustu 11 daga þyrftu að koma
hið fyrsta í rannsókn og fá lyf.
Flensueinkenni
Miltisbrandur í lungum er alvar-
legasta form slíkrar sýkingar og
mönnum oftast bani búinn ef ekki er
brugðist við þegar á upphafsstigum
hennar. Fyrri maðurinn sem greind-
ist sýktur hafði sýnt einkenni flensu-
smits í liðinni viku en taldi ekki
ástæðu til leita til læknis fyrr en á
föstudag þegar hann var orðinn al-
varlega veikur.
Walks hafði fyrr í gærdag sagt að
alls hefðu fimm menn verið fluttir í
sjúkrahús eftir að hafa sýnt merki
miltisbrandssýkingar. Einn þeirra,
hið minnsta, sýndi einkenni sem
minntu á flensu og væri því hugs-
anlegt að hann hefði einnig andað að
sér miltisbrandi. Virtist hann þar
vísa til tilfellisins, sem staðfest var
síðdegis. Fjórir væru á sjúkrahúsi í
Washington en sá fimmti í Virginíu.
Á síðustu vikum hafa því fjórir
menn í Bandaríkjunum greinst með
miltisbrand í lungum en fram að
þessu hafði sá sjúkdómur verið
óþekktur í Bandaríkjunum frá 1978.
Einn þessara manna er látinn.
Auk þeirra hafa sex til viðbótar,
þar af tveir starfsmenn póstþjónust-
unnar í New Jersey, greinst með
miltisbrand í húð en það form sjúk-
dómsins er auðlæknanlegt.
Rannsakað hvort sýklum var komið fyrir í loftræstikerfum pósthúsa í Washington
Rúmlega 2.200
manns í miltis-
brandsrannsókn
Tveir starfsmenn sýktir og andlát
tveggja manna til rannsóknar
Washington. Los Angeles Times. AP.
BRESK stjórnvöld gáfu til
kynna í gær að þau myndu
senda herlið til Afganistans til
að taka þátt í landhernaði við
hlið Bandaríkjamanna.
Geoff Hoon, varnarmálaráð-
herra Bretlands, sagði í út-
varpsviðtali hjá BBC í gær að
unnt væri að senda breskar
hersveitir „með stuttum fyrir-
vara“ til Afganistans. Hann tók
fram að engin ákvörðun hefði
verið tekin þar að lútandi, en
sagði að verið væri að kanna
alla möguleika í stöðunni. Bret-
ar standa ásamt Bandaríkja-
mönnum að aðgerðunum í Afg-
anistan, en til þessa hefur
framlag breska hersins ein-
skorðast við að skjóta stýri-
flaugum úr kafbátum.
800 menn í viðbragðsstöðu
Undanfarna daga hafa breskir
fjölmiðlar verið undirlagðir af
vangaveltum um yfirvofandi
þátttöku breskra hermanna í
landhernaði í Afganistan. Nokk-
ur blöð hafa reyndar birt fréttir
þess efnis að breskar sérsveitir
væru þegar komnar inn í landið,
en stjórnvöld hafa neitað að tjá
sig um slíkar fregnir. Um 800
breskir sérsveitarmenn eru nú í
viðbragðsstöðu í Persaflóa, þar
sem þeir hafa tekið þátt í her-
æfingum sem skipulagðar voru
fyrir löngu.
Alþjóðasamfélagið komi
að stjórnarmyndun
Utanríkisráðherrann Jack
Straw minntist einnig á hugs-
anlega þátttöku breskra her-
manna í landhernaði í Afganist-
an í ávarpi sem hann hélt á
vegum alþjóðlegrar stofnunar í
herfræðum, IISS, í London í
gær. Straw kvaðst þó ekki geta
greint frá því hvenær bresku
hersveitirnar kynnu að vera
sendar á vettvang, enda væri
það ekki venjan að tilkynna fyr-
irfram hernaðaraðgerðir af
þessu tagi.
Í ávarpi sínu sagði Straw enn-
fremur að alþjóðasamfélagið
þyrfti að vera reiðubúið að koma
að myndun nýrrar ríkisstjórnar
í Afganistan eftir að stjórn talib-
ana væri fallin. Jafnframt væri
þörf á umfangsmikilli aðstoð við
enduruppbyggingu í landinu.
Straw heldur í dag til Wash-
ington, þar sem hann mun ræða
við bandarískan starfsbróður
sinn, Colin Powell, um framhald
hernaðaraðgerðanna.
Bretar reiðubún-
ir að taka þátt
í landhernaði
London. AzFP, AP.
BRESKIR landgönguliðar huga að búnaði sínum, en
þyrlan sem flutti þá á staðinn, af gerðinni Sea King,
hefur sig á loft. Hermennirnir taka þátt í æfingum með
þúsundum þýskra hermanna og hers Persaflóaríkisins
Omans sem fara fram um þessar mundir við Persaflóa.
Er talið víst að til greina komi að sumum landgöngulið-
anna verði beitt í Afganistan ef Bretar senda þangað
sveitir til aðstoðar Bandaríkjamönnum. Geoff Hoon,
varnarmálaráðherra Bretalands, sagði í gær að netið
um Sádi-Arabann Osama bin Laden og liðsmenn hans í
Afganistan væri að þrengjast og búast mætti við að bin
Laden yrði senn handsamaður eða framseldur.
Reuters
Þyrluæfingar í Oman