Morgunblaðið - 01.12.2001, Side 13
Tónlistarskólakennarar fá um 60% launahækkun
á samningstímanum samkvæmt nýjum kjarasamningi
KJARASAMNINGUR tónlistar-
kennara felur í sér u.þ.b. 60% launa-
hækkun á samningstímanum. Á
móti kemur að aukagreiðslur sem
einstök sveitarfélög hafa samið um
falla út. Byrjunarlaun tónlistar-
skólakennara með full kennararétt-
indi verða rúmlega 152 þúsund
krónum á mánuði við upphaf samn-
ingsins, en þau voru rúmlega 100
þúsund samkvæmt eldri samningi.
Er þá lagt til grundvallar að við-
komandi fái 17.500 kr. úr svoköll-
uðum launapotti sem skólastjórar
hafa til ráðstöfunar.
Samningur tónlistarkennara felur
í sér að laun hækka 1. nóvember um
10%. Um áramót hækkað þau síðan
um 5%. Auk þess hækka laun um
3% 1. janúar 2003 og um önnur 3%
1. janúar 2004. Að auki er gert ráð
fyrir að kennsluskylda kennara
verði aukin á samningstímanum, en
við það hækka laun tónlistarkennara
um 12–13%. Ákvæðið um launapott-
inn er hliðstætt ákvæði samnings
grunnskólakennara. Þar segir að
skólastjóri skuli endurraða kennur-
um í launaflokk með tilliti til
ábyrgðar, álags og sérhæfingar
starfa. Skólastjóri á einnig að taka
mið af „persónulegri færni“ kenn-
ara, þar á meðal menntun og þekk-
ingu. Meðalgreiðsla til kennara úr
launapottinum er 17.500 krónur á
mánuði, en greiðslan getur verið
lægri eða hærri eftir því sem skóla-
stjórar ákveða.
Samningurinn kveður á um að
heimilt er að rýmka starfstíma tón-
listarskólanna frá því sem verið hef-
ur. Kennsla nemenda skal ekki hefj-
ast fyrr en 20. ágúst og skólunum
skal ljúka eigi síðar en 5. júní. Jan-
framt er gert ráð fyrir að tónlistar-
skólarnir taki upp vetrarleyfi líkt og
í grunnskólum.
Samningurinn gerir ráð fyrir að
kennsluskylda kennara verði aukin,
en að sama skapi er dregið úr vinnu
sem áður var skilgreind sem „fagleg
störf samkvæmt ákvörðun skóla-
stjóra“. Í dag fá nemendur í grunn-
námi 650 kennslustundir, en samn-
ingurinn kveður á um að frá og með
1. ágúst á næsta ári fari þessi tala í
685 tíma og í 720 tíma frá og með 1.
ágúst 2003. Heimilt er að fresta
gildistöku þessara breytinga um eitt
ár. Kennslumagn í miðnámi og
framhaldsnámi er einnig aukið. Fyr-
ir þessa kerfisbreytingu greiða
sveitarfélögin með samtals átta
launaflokka hækkun, en það er um
12–13% hækkun.
Samningurinn felur í sér sam-
bærileg ákvæði um símenntun og í
grunnskólanum. Ákvæði um sí-
menntun kveður á um að kennarar
fái tveggja launaflokka hækkun við
35 ára aldur, aðra tvo launaflokka
við 40 ára aldur og enn tvo við 45 ára
aldur.
Samningnum fylgir yfirlýsing frá
launanefnd sveitarfélaganna þar
sem fram kemur að þau muni greiða
tónlistarkennurum 50.000 króna ein-
greiðslu núna um mánaðamótin.
Jafnframt er tekið fram að sumar-
laun fyrir árið 2002 verði óskert
þrátt fyrir verkfallið.
Í bókun sem fylgir samningnum
segir að kjarasamningurinn byggist
á þeirri forsendu að sveitarfélögun-
um sé heimilt að fjármagna álags-
greiðslur til kennara samkvæmt
samningnum af skólagjöldum.
Samkvæmt kjarasamningnum
eiga allar aukagreiðslur til kennara,
sem einstök sveitarfélög hafa samið
um við kennara, að falla niður um
næstu áramót.
Samkvæmt kjarasamningi grunn-
skólakennara eru meðaldagvinnu-
laun grunnskólakennara 190–200
þúsund krónur á mánuði. Ekki feng-
ust skýr svör um það í gær hvort
meðaldagvinnulaun tónlistarskóla-
kennara yrðu þau sömu samkvæmt
nýja samningnum.
Byrjunarlaun verða
um 152 þúsund kr.
FRÉTTIR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 1. DESEMBER 2001 13
ÁRLEGA viðurkenningu Þróun-
arfélags miðborgarinnar fékk að
þessu sinni G. Ólafsson & Sand-
holt, gamalgróið bakarí við
Laugaveg í Reykjavík. Með við-
urkenningunni minnir félagið á
að sífellt þurfi að laga miðborg-
ina að nýjum skilyrðum og vill
vekja athygli á „starfi fyrirtækja,
félaga og einstaklinga sem með
frumkvæði og dugnaði leysa af
hendi verkefni í miðborginni
þannig að aðdáun vekur,“ segir
m.a. í frétt frá Þróunarfélaginu.
G. Ólafsson & Sandholt hefur
verið í eigu sömu fjölskyldunnar
frá upphafi, í 81 ár „og hefur
tekist einstaklega vel að laga sig
að nýjum tímum, en jafnframt
varðveitt það besta úr fortíðinni.“
Bakaríið hefur verið til húsa við
Laugaveg 36 frá árinu 1925 og
var fyrir ári ráðist í breytingar
þar. Segir að engu af því gamla
hafi verið kastað fyrir róða, úti-
hurðin sé hin sama og frá upp-
hafi og enn sé notaður steinofn
til baksturs en hann var hlaðinn
árið 1940. Var hugmyndin með
breytingunum að nýta húsnæðið
betur en jafnframt að tryggja að
bakað yrði áfram í miðborginni.
Sett var upp ísgerð og innréttuð
kaffistofa en þaðan má sjá inní
bakaríið og fylgjast með störfum.
Margir lögðu hönd á plóg við
breytingarnar og nefnir Þróun-
arfélagið helst þau Bryndísi Evu
Jónsdóttur innanhússarkitekt og
arkitektana Harald Haraldsson
og Hauk Viktorsson. Viðurkenn-
ingin er keramiklistaverk eftir
Elísabetu Haraldsdóttur.
Morgunblaðið/Golli
Hjónin Stefán Sandholt og Olga B. Magnúsdóttir tóku við viðurkenn-
ingu Þróunarfélags miðborgarinnar hjá Jakobi H. Magnússyni for-
manni. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri var einnig viðstödd.
Sandholts-
bakarí fær
viður-
kenningu
GÍSLI Tryggvason, hdl. og
framkvæmdastjóri Bandalags
háskólamanna (BHM), telur að
„ákvörðun um að taka til baka
annan mánuðinn í greiðslu í
fæðingarorlofi feðra“, eins og
hann orðar það sé brot á stjórn-
arskránni. Lára V. Júlíusdóttir
hæstaréttarlögmaður sagði hins
vegar í Morgunblaðinu í gær að
það væri afar langsótt að tala
um stjórnarskrárbrot í þeim
efnum.
Eins og fram hefur komið er
nú rætt um það meðal stjórn-
armeirihlutans á Alþingi að
„fresta framkvæmd“ fæðingar-
og foreldraorlofslaga um næstu
áramót þannig að feður fái ekki
tveggja mánaða sjálfstæðan rétt
til töku fæðingarorlofsins eins
og getið er um í lögunum.
Gísli rökstyður sína skoðun
m.a. með því að vísa í 36. grein
fæðingar- og foreldraorlofslag-
anna. „Þar segir: Lög þessi öðl-
ast þegar gildi,“ segir hann og
heldur áfram. „Lögin öðluðust
þar með gildi þegar þau voru
birt í maí í fyrra. Svo segir í
annarri málsgrein 36. greinar-
innar: Þrátt fyrir orðalag 8. gr
[þar sem segir að foreldrar skuli
eiga sjálfstæðan rétt til fæðing-
arorlofs í allt að þrjá mánuði
hvort um sig...] skal sjálfstæður
réttur föður til fæðingarorlofs
vera einn mánuður frá og með
1. janúar 2001, tveir mánuðir frá
og með 1. janúar 2002 og þrír
mánuðir frá og með 1. janúar
2003.“ Segir Gísli að með þess-
um orðum sé búið að stofna rétt
til greiðslna í fæðingarorlofi
feðra með lögum.
„Og þegar búið er að stofna
svona rétt með lögum eða með
samningi eða kjarasamningi
verður hann ekki tekinn af fólki
þó hann sé ekki orðinn virkur
eða kominn til framkvæmda,“
bætir Gísli við.
Gísli vísar í þessu sambandi
til 71. gr. stjórnarskrárinnar
þar sem segir að allir skuli njóta
friðhelgi einkalífs, heimilis og
fjölskyldu. Þá vísar hann í 72.
gr. stjórnarskrárinnar þar sem
kveðið er á um friðhelgi eign-
arréttar.
Réttindi eru áunnin og
stjórnarskrárvarin
Gísli vitnar einnig í Hæsta-
réttardóm frá 3. desember 1992
máli sínu til stuðnings. „Í þeim
dómi komust fimm af sjö hæsta-
réttardómurum að þeirri niður-
stöðu að bráðabirgðalög sem af-
námu kjarasamningsbundnar
hækkanir launa hjá einmitt
BHMR – eins og BHM hét þá –
hefðu ekki staðist jafnræðis-
ákvæði stjórnarskrárinnar, sem
var þó ekki einu sinni komið inn
í stjórnarskrána, því það var
óskráð jafnræðisregla hennar.“
Gísli vitnar síðan orðrétt í dóm-
inn og segir að þar standi á bls.
1968: „...urðu félagsmenn sam-
flotsfélaganna að þola skerðingu
á þegar áunnum réttindum...“
Segir Gísli að þar með hafi dóm-
urinn viðurkennt að réttindi séu
áunnin og stjórnarskrárvarin
þótt ekki sé búið að vinna fyrir
þeim.
Gísli telur með öðrum orðum
að réttindi eins og til dæmis
launahækkanir sem samið hafi
verið um séu áunnin réttindi
sem ekki sé hægt að afnema. Í
tilviki fæðingarorlofslaganna sé
rétturinn til greiðslna í tveggja
mánaða fæðingaorlofi feðra
áunninn þótt sá réttur sé ekki
kominn til framkvæmda. „Þetta
eru áunnin réttindi því löggjaf-
inn er búinn að lofa þeim,“ segir
hann að síðustu.
Deilt um hvort
frestun brjóti
gegn stjórnarskrá
Fæðingar- og foreldraorlofslögin
ÚRSKURÐARNEFND um upplýs-
ingamál hefur vísað frá kæru á hend-
ur Rannsóknarnefnd flugslysa,
RNF, sem lögð var fram af aðstand-
anda eins fórnarlamba flugslyssins í
Skerjafirði í fyrra.
Aðstandandinn kærði til nefndar-
innar synjun RNF, um að veita hon-
um aðgang annars vegar að ratsjár-
gögnum yfir aðflug fjögurra
tilgreindra flugvéla að Reykjavíkur-
flugvelli að kvöldi 7. ágúst 2000 og
hins vegar „logbókum“ flugvélarinn-
ar sem fórst sama kvöld. Helstu rök
RNF fyrir synjuninni voru þau að
flugslysið sætti opinberri rannsókn
lögreglunnar í Reykjavík. Af þeim
sökum hefðu öll gögn verið afhent
lögreglustjóraembættinu, m.a.
frumrit viðhaldshandbókar og dag-
bóka flugvélarinnar. Í svari RNF til
úrskurðarnefndar um upplýsinga-
mál kemur ennfremur fram að rat-
sjárgögn séu hjá Flugmálastjórn en
ekki hjá RNF.
RNF brást
leiðbeiningarskyldu
Í niðurstöðu sinni bendir úrskurð-
arnefnd um upplýsingamál á að upp-
lýsingalögin gildi ekki um rannsókn
eða saksókn í opinberu máli.
Nefndin telur einnig að kærandi
hefði átt að beina erindi sínu til Flug-
málastjórnar og finnur að því við
RNF að hafa ekki bent kæranda á þá
leið. RNF hafi brugðist leiðbeining-
arskyldu sinni gagnvart kæranda,
samkvæmt stjórnsýslulögum og það
sé aðfinnsluvert.
Vísar frá kæru
vegna flugslyss-
ins í Skerjafirði
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál
Bílanaust segir
upp fimm manns
FIMM starfsmenn Bílanausts hf. fá
uppsagnarbréf í hendur þessi mán-
aðamót, að því er fram kemur í yf-
irlýsingu sem barst Morgunblaðinu
frá framkvæmdastjóra fyrirtækis-
ins, Stefáni Árna Einarssyni:
„Vegna samdráttar í varahluta-
verslun, sem er afleiðing mikils efna-
hagssamdráttar hérlendis sem og
erlendis, hefur Bílanaust hf. orðið að
segja fimm starfsmönnum upp frá og
með 1. desember 2001. Fyrirtækið
starfrækir átta verslanir með bíla-
hluti um land allt og hafa starfsmenn
verið 71 fram að þessu. Bílanaust
neyðist nú, eins og fjölmörg önnur
fyrirtæki, til að rifa seglin til að
mæta minnkandi sölutekjum.
Þá hefur verið ákveðið að endur-
skoða allan rekstur fyrirtækisins,
þar með talið launakerfi þess. Mark-
miðið er að draga úr rekstrarkostn-
aði og einfalda launakerfið. Þess
vegna verða meðal annars gerðir ný-
ir samningar við starfsfólk fyrirtæk-
isins. Þetta verk er unnið í nánu sam-
starfi við trúnaðarmann
starfsmanna.
Stjórnendur Bílanausts harma
það að nú komi til uppsagna þessara
fimm starfsmanna, en því miður
verður ekki hjá því komist.“