Morgunblaðið - 11.04.2002, Síða 46

Morgunblaðið - 11.04.2002, Síða 46
MINNINGAR 46 FIMMTUDAGUR 11. APRÍL 2002 MORGUNBLAÐIÐ ✝ Matthías LaxdalBjörnsson fæddist á Felli í Árneshreppi í Strandasýslu 6. nóv- ember 1919. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 31. mars síðastliðinn. For- eldrar hans voru Hall- fríður Anna Guð- mundsdóttir frá Felli og Björn Guðmunds- son frá Ísafirði. Matthías átti einn bróður samfeðra, Hilmar Sæberg Björnsson, látinn. Matthías kvæntist 2. apríl 1953 Þórunni Gunnarsdóttur, f. 13. ágúst 1924 í Stykkishólmi. Dætur þeirra eru: 1) Hallfríður Anna, f. 1. febrúar 1953, maki Sverrir Víg- lundsson, börn þeirra Víglundur Laxdal og Ólöf Magnea; 2) Vilborg, f. 2. júní 1955, maki Ásmundur Jónsson, börn þeirra Jón Viðar, Sigurður Rúnar, Sigrún og Ás- mundur Þór; 3) Þjóðhildur Birna, f. 24. júní 1956, maki Karl Árnason, börn þeirra Guðrún Þóra, Matthías og Árni Rúnar; 4) Steingerður, f. 13. nóvember 1958, börn hennar Þórunn Guðmundsdóttir og Sturla Reynisson; 5) Kolfinna, f. 11. nóv- ember 1960, maki Pétur Svavarsson, börn þeirra Svavar Ólafur, Steinar, El- ísabet og Ragnhildur Dagbjört; 6) Soffía Jakobína, f. 15. sept- ember 1963, maki Sverrir Reynisson, börn þeirra Reynir Andri, Björn Daníel og Stefan Mikcael. Fyrir átti Matthías dóttur, Sigríði Fjólu, f. 2. janúar 1947, móðir hennar er Jensína Guðlaugs- dóttir frá Steinstúni. Dætur Sigríð- ar og Árna Þorgilssonar eru Jenný Elfa, Guðrún Olga, Berghildur og Hrafnhildur. Fyrir átti Þórunn soninn Gunnar Eldar, f. 16. október 1947, d. 18. júlí 1999. Langafabörn Matthíasar eru fimmtán talsins. Matthías útskrifaðist frá Vél- stjórnarskóla Íslands 1951. Hann var til sjós í áratugi. Eftir að hann kom í land starfaði hann lengst af hjá Álverinu í Straumsvík. Hann söng með Karlakórnum Þröstum í Hafnarfirði til margra ára. Útför Matthíasar fer fram frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30. Kveðja frá eiginkonu. Kallið er komið, komin er nú stundin, vinaskilnaðar viðkvæm stund. Vinirnir kveðja vininn sinn látna, er sefur hér hinn síðsta blund. Margs er að minnast, margt er hér að þakka. Guði sé lof fyrir liðna tíð. Margs er að minnast, margs er að sakna. Guð þerri tregatárin stríð. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. Gekkst þú með Guði, Guð þér nú fylgi, hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt. Grátnir til grafar göngum vér nú héðan, fylgjum þér, vinur. Far vel á braut. Guð oss það gefi, glaðir vér megum þér síðar fylgja’ í friðarskaut. (Vald. Briem.) Þórunn Gunnarsdóttir. Mig langar að minnast elskulegs pabba míns sem fallinn er frá eftir erfið veikindi síðastliðin ár. Pabbi var hæglætismaður sem ekki fór mikið fyrir. Hann hafði sín- ar skoðanir á hlutunum og stundum var erfitt að kyngja þeim, en yf- irleitt hafði hann rétt fyrir sér. Hann var fróður um landið, söguna og flestallt. Alltaf var hægt að leita til hans eftir svörum, hann hafði þau yfirleitt. Pabbi leyfði okkur systrunum að fara okkar leiðir og gladdist yfir því sem við gerðum, hann trúði því alltaf að við værum að gera rétt, ef svo var ekki lét hann það ekki í ljós við okkur. Við fráfall hans tók hann margt með sér en skildi líka margt eftir sem við varðveitum í minningu hans. Aldrei aftur heyri ég í honum, þegar ég var að koma að heimsækja pabba og mömmu, eða hringja í þau: „Er þetta pollan, litla stelpan hans æja?“ Pabbi var mikill fé- lagsmaður á meðan hann hafði heilsu til og söng hann þá í ýmsum kórum og ferðaðist með þeim. Á áttræðisafmæli hans kom karlakór- inn Þrestir og söng fyrir hann og gestina. Pabbi var eins og barn þegar þeir hófu upp raust sína, því mikið fannst honum gaman að heyra í kórnum, hann fékk að syngja með þeim tvö lög þótt heils- an varla leyfði það, en langan tíma á eftir rifjaði hann þetta upp og ljómaði þegar hann minntist þess- arar stundar. Pabbi var mikið fyrir fjölskylduna og fylgdist vel með barnabörnunum sínum, hann gladd- ist alltaf með þegar eitthvert þeirra náði einhverjum áfanga, alltaf fylgdist hann vel með börnunum mínum og gladdist þegar þeim gekk vel. Ég minnist þess í desember sl. þegar Svavar sonur minn útskrif- aðist sem stúdent, þá lá pabbi á Víf- ilsstöðum og vissi að við ætluðum að koma til hans eftir útskriftina. Þegar við komum var hann að ræða við hjúkrunarkonu, greinilega um að við værum á leiðinni. Þegar við komum hresstist hann allur og var eins og barn, þurfti að láta vita að þetta væri dóttursonur sinn sem hann var svo stoltur af. Oft rifjaði pabbi upp hvernig var að alast upp á Ströndunum, og mik- ið var hann ánægður þegar við syst- urnar fórum eitt sumarið á Strand- irnar og heimsóttum æskuheimili hans á Felli í Árneshreppi. Þá fyrst fannst mér ég skilja hvað það hefði verið erfitt að alast þarna upp, í dag er þetta allt greiðfært á sumrin, en þegar hann ólst upp varð hann að fara flest gangandi. Það hlýtur að hafa verið erfitt og hert alla að alast upp við þessar aðstæður. Mikið eig- um við gott að tímarnir breytast og mennirnir með. Það er erfitt að kveðja þó svo að það hafi verið vitað að tíminn sem hann hafði með okkur styttist alltaf. Minningar rifjast upp og margt er hægt að skrifa um pabba, enn lít ég upp í gluggann heima hjá honum, þar sem hann var vanur að standa og horfa út, og gái hvort ég sjái hann ekki. Ég gæti skrifað margt um pabba en ég ætla að geyma það fyrir mig. Mikið vantar núna á þessari stundu að geta ekki hringt í pabba og talað við hann. Hann hefði haft útskýr- ingar á mörgum spurningum sem koma upp við fráfall hans. Hann sagði við mig þegar ég bað hann að verða eilífan fyrir mig: „Ég verð alltaf eilífur fyrir þér í minning- unni.“ Það eru orð sem ég minnist nú á þessum tíma og veit að þau eru sönn. Ég kveð elskulegan pabba minn og vona að guð styrki mömmu í þessari raun. Þín dóttir, Kolfinna. Þá ertu farinn frá okkur, elsku pabbi. Við vissum að hverju stefndi en samt vorum við ekki undir það búnar að kveðja þig. Aðfaranótt skírdags var ég hjá ykkur mömmu og þú hafðir orð á því að nú færi þessu að ljúka, ekki það að ég vissi ekki að þú hafðir rétt fyrir þér, ég gat bara ekki verið sammála því þótt ég vissi að þú varst orðinn mjög þjáður. Þú varst búinn að lifa góðu lífi, ala upp stelpurnar þínar eins og þú kallaðir okkur og varst tilbúinn að kveðja þetta líf. Ég veit að þér líður vel núna, pabbi, og ég vil minnast þín með ljóði eftir Hannes Hafstein sem þér þótti svo fallegt. Þú valdir þetta ljóð fyrir mig til að minnast tengdaföð- ur míns og ég gleymi því aldrei þegar þú fórst með það fyrir mig. Er sólin hnígur hægt í djúpan sæ og höfuð sitt til næturhvíldar byrgir á svalri grund í golu, þýðum blæ er gott að hvíla þeim er vini syrgir. Í hinstu geislum hljótt þeir nálgast þá að huga þínum veita mjúkum svala. Hver sælustund er þú þeim hafðir hjá í hjarta þínu byrjar ljúft að tala. Og tárin sem væta vanga þinn er vökvan send frá lífsins æðsta brunni. Þau líða eins og elskuð hönd um kinn og eins og koss þau brenna ljúft á munni. Þá líður nóttin ljúfum draumum í, svo ljúft að kuldagust þú finnur eigi. Og fyrr en veistu röðull rís á ný og roðinn lýsir yfir nýjum degi. Elsku pabbi, takk fyrir allt. Þín dóttir Soffía. Þakka þér fyrir, pabbi. Þakka þér fyrir að leiða mig þegar ég átti erfitt. Þakka þér fyrir að standa við hlið mér þegar ég þarfnaðist hugg- unar. Þakka þér fyrir að víkja til hliðar og leyfa mér að halda áfram upp á mitt eindæmi þegar sá tími var kominn. Í bernskuminningunni ertu alltaf við hliðina á mér. Faðmar mig. Þú verður alltaf hluti af mér, pabbi. Þín dóttir Birna. Afi Matti er loksins búinn að fá þá hvíld sem hann þráði. Afi sem við öll hlustuðum á þegar hann byrjaði að tala því oftar en ekki var það sem hann sagði hinn heilagi sannleikur. Oft var afi spurður um svör við ættfræði og hinum ýmsu málefnum, það virtist engu skipta hvað þú spurðir hann um, hann hafði alltaf svör um það hvað gerð- ist og af hverju. Þrátt fyrir erfið veikindi var afi alltaf hress, og gladdist í hvert skipti sem einhver gerði eitthvað, t.d. nýja búðin henn- ar mömmu. Þrátt fyrir að vera mik- ið veikur fór hann galvaskur þang- að uppeftir til að gleðjast með mömmu og sýna henni að hann væri stoltur af henni. Það sem helst kemur upp í hugann þegar maður byrjar að rifja upp minningar um hann afa Matta er fernt, fyrst er það óhemju gott minni hans og gáf- ur, síðan söngur hans, og búumst við við að engum sem var nær- staddur þegar hann söng á þorra- blóti hér um árið muni nokkurn tíma líða sá söngur hans úr minni. Þriðja atriðið um afa eru fréttirnar, afi missti aldrei af fréttum, ef þú hringdir á fréttatíma varstu jafn- óvinsæll og ef þú hringdir á mat- málstíma hjá öðrum. Og síðast en alls ekki síst kemur upp í huga manns, þegar afi verður nefndur á nafn í framtíðinni, þrjóska hans. Hversu oft höfðu systurnar ekki ákveðið að nú væri hann að syngja sitt síðasta, en nei, afi gafst ekki upp, og þrátt fyrir hin miklu veik- indi sem hann átti í núna síðast lifð- um við alltaf í voninni um að hann mundi nú eins og venjulega setjast upp og hlæja að þessu fólki sem hafði hjúkrað honum. En það gerði hann ekki, og núna eru öll hans níu líf, líkt og kötturinn hefur, uppurin og fyrir honum hefst nýtt líf þar sem hann getur gleymt veikindum sínum. Núna situr afi örugglega á himn- um og syngur fyrir okkur hin sem syrgjum hann og kemur til að klappa á öxl ömmu henni til hugg- unar og segja henni að hafa ekki áhyggjur því núna geti hann sungið að vild, göngutúrar hans hafi aldrei verið lengri en einmitt núna og það besta sé að hann finni ekkert fyrir þeim kvillum sem háðu honum til þessa. Svavar, Steinar, Elísabet og Ragnhildur Dagbjört. Elsku afi. Nú ertu farinn frá okkur. Ég trúi því varla, en veit að þú ert feginn hvíldinni. Afi, ég er þakklát fyrir að hafa kynnst jafnyndislegum afa og þér, þú gafst mér svo mikið. Ég gat alltaf leitað til þín ef það var í sam- bandi við skólann, afi, þú vissir allt. Það er svo margs að minnast, ég mun aldrei gleyma hve gott það var að koma til ykkar ömmu. Allar stundirnar sem við áttum saman um helgar þegar ég kom með rút- unni frá Keflavík að vinna í Kosta- kaupum. Þú skildir aldrei hvernig ég gat hagrætt þessu, vera í skól- anum og svo að vinna um helgar, en afi, ég man það eins og þú hefðir sagt það í gær: „Hún Guðrún mín er svo dugleg.“ Takk, afi, fyrir að trúa á mig. Þegar ég svo flutti til Svíþjóðar sagðirðu að ég hefði ekkert þangað að gera, það væri miklu betra hjá afa. Það kom líka á daginn að ég flutti til ykkar ömmu og mun ég alltaf muna þau ár sem við áttum saman á Hjallabrautinni. Heldur gleymi ég ekki þegar ég átti hana Emblu Líf, hversu reiður þú varst út í hjúkrunarfólkið að láta mig kveljast svona, en allt gekk vel að lokum og ég man að hún Embla vildi bara sitja í fanginu á þér þegar við komum til ykkar ömmu. Ég lofa að hún skal muna eftir þér, elsku afi. Nú geymir hún klossana sem ég átti þegar ég var lítið skott og þú geymdir svo vel fyrir mig, þeir verða ein af mörgum minningum mínum um þig. Ég lofa að passa ömmu vel, hún þarf á okkur öllum að halda. Henn- ar missir er mikill, sem og okkar. Takk fyrir allt, afi minn. Hvíl í friði. Þín Guðrún Þóra. Í dag kveðjum við afa minn, Matthías Laxdal. Afi, ég kveð þig með söknuði og virðingu og þakka þér þá vitneskju og hlýju sem þú gafst okkur öllum. Þú varst ein af hetjum þessarar þjóðar, sem upplifðir og stóðst breytingarnar, frá því að alast upp í torfkofa og læra að lesa í Íslend- ingasögunum, fram til þess tíma að geta fylgst með heimsfréttunum, beint heima í stofu á sjónvarpsskjá, sennilega þær mestu breytingar sem nokkur kynslóð mun upplifa. Margar minningar fara í gegnum huga minn þessa dagana og minnist ég sérstaklega söngs þíns, gáfna og einstakra hæfileika til að geta sett þig inn í og fylgst með leik og starfi annarra. Alltaf varstu þér meðvit- andi um hvað var í gangi hjá okkur börnunum þínum og minnist ég þess hversu oft þú hringdir til að ræða þá dóma sem ég hafði fengið í blöðunum í starfi mínu sem körfu- knattleiksdómari, heyra aflafréttir af pabba eða bara til að ræða fjöl- skyldu- og heimsmálin. Afi, ég þakka þær góðu stundir sem við áttum saman í vetur og sendi þér kveðju frá litlu englunum þínum í Danmörku sem kveðja þig með miklum söknuði. Við hlökkum til að geta átt samverustund við leiði þitt í sumar og vonum að þú njótir hvíldarinnar. Elsku amma, mamma og systur, ég sendi ykkur samúðarkveðjur frá fjölskyldu minni og óska þess að þið styðjið hver aðra í sorginni. Víglundur Laxdal. Elsku afi. Alltaf þegar þú fórst á spítalann leið mér illa og ef einhver spurði hvað væri að var svarið: „Afi er á spítala en hann er alltaf að deyja,“ og svo brosti ég. Seigur varstu og gafst aldrei upp. Þú fórst inn á spít- alann fárveikur en komst hlæjandi út. En nú líður þér vel, afi minn, hoppar og trallar uppi á skýjunum og hlærð að okkur, skilur líklega ekki af hverju við grátum því þér líður vel þannig að okkur ætti líka að líða vel. Það var alltaf svo gaman þegar prófin í skólanum voru búin og ég fór með einkunnaspjöldin til þín og sýndi þér hversu dugleg ég var. Þú varst alltaf svo stoltur af litlu stelp- unni þinni, Dirrrúnu litlu eins og þú kallaðir mig svo oft. Ég kveð þig með söknuði, elsku afi minn. Hvíl í friði. Sigrún Ásmundsdóttir (Dirrrún litla). Elsku afi minn, nú ertu farinn frá okkur og hvílir nú í friði hjá guði og ég veit að hann passar þig vel. Með sorg í hjarta mínu hugsa ég til þess að þig vanti þegar ég heimsæki ömmu,og að þú sitjir ekki lengur í ruggustólnum sem þú sast svo oft í þegar ég og Erla komum í heim- sókn. Takk fyrir að taka alltaf vel á móti okkur, alltaf hafðirðu eitthvað að tala um og margt höfum við af því lært, sem við munum búa að um ókomna tíð. Ég hugsa alltaf um þig þegar ég fer frá ömmu og sé þig ekki lengur í glugganum að horfa á eftir mér, en elsku afi, ég veit að þú vakir yfir okkur. Þinn Árni Rúnar. Elsku afi, þakka þér fyrir allt sem þú gafst mér og allt sem þú gerðir fyrir mig. En ég sakna þín eins og þú veist og ég gleymi þér aldrei. En þú munt alltaf vera með mér og aldrei fara frá mér. Og þú munt alltaf vera afi minn. Guð geymi þig. Þinn vinur Sturla. Vinur okkar og samferðamaður um nær hálfrar aldar skeið, Matth- ías Laxdal Björnsson, er látinn. Kynni okkar hófust er hann kvænt- ist vinkonu okkar, Þórunni Gunn- arsdóttur frá Stykkishólmi. Þau hófu búskap á Hjallaveginum, það- an lá leið þeirra í Skipasundið, en síðustu áratugi bjuggu þau í Hafn- arfirði, síðast á Hjallabraut 33. Þegar þau fluttu í Hafnarfjörðinn voru dætur þeirra orðnar sex, en Matthías átti eina dóttur fyrir hjónaband og þá átti Þórunn son fyrir hjónaband sem nú er látinn. Eins og nærri má geta hafa þau þurft mikið á sig að leggja til að sjá þessari stóru fjölskyldu farborða en Þórunn og Matthías leystu það verkefni af hendi af miklum dugn- aði og myndarskap. Hafa þau skilað börnum sínum vel til manns og hafa þau verið foreldrum sínum stoð og stytta þegar á hefur þurft að halda. Matthías var afar ljóðelskur og kunni ógrynni af ljóðum og rímum, þá var hann söngmaður góður og var félagi í Karlakórnum Þröstum. Hann hafði mikla ánægju af kór- starfinu og mat það mikils þegar kórfélagar heiðruðu hann með söng á áttræðisafmæli hans. Matthías stundaði sjómennsku fyrr á árum en síðustu áratugi starfaði hann í álverinu í Straums- vík þar til hann lét af störfum vegna aldurs. Matthías og Þórunn voru afar gestrisin og héldu þau margar veislur af ýmsu tilefni, svo sem vegna skírna, ferminga, afmæla og brúðkaupa. Var oft glatt á hjalla þegar ættingjar og vinir fjölmenntu og glöddust með þeim hjónum á þessum hátíðarstundum í lífi þeirra. Nú er komið að kveðjustund og þökkum við Gyða Matthíasi fyrir samfylgdina og allar gleðistundirn- ar sem við áttum saman. Við vott- um Þórunni og afkomendum þeirra okkar dýpstu samúð. Veri hann að eilífu guði falinn. Aðalsteinn Dalmann Októsson. Elsku Matthías. Ég vil fá að þakka þér fyrir góðu móttökurnar sem ég fékk alltaf hjá þér og þakka fyrir að hafa fengið að kynnast þér þótt það hafi ekki verið langur tími sem við fengum.Vertu sæll, kæri Matthías, og sjáumst ein- hvern tímann hjá guði. Erla Kolbrún. MATTHÍAS LAXDAL BJÖRNSSON

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.