Morgunblaðið - 16.07.2002, Qupperneq 8
FRÉTTIR
8 ÞRIÐJUDAGUR 16. JÚLÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ
Hjúkrunarheimilið Droplaugarstaðir 20 ára
Gott að dvelja
hjá Droplaugu
NÝLEGA var haldiðupp á 20 ára af-mæli Hjúkrunar-
heimilisins Droplaugar-
staða. Af því tilefni ræddi
Morgunblaðið við Ingi-
björgu Bernhöft, forstöðu-
mann og hjúkrunarfor-
stjóra heimilisins.
– Hver er saga Drop-
laugarstaða?
„Framan af var hér
blandað heimili með hvoru
tveggja vistdeild og hjúkr-
unardeild. Heimilið var
opnað hinn 30. júní 1982 og
var þá opnuð vistdeild fyrir
36 einstaklinga. Um haust-
ið sama ár var opnuð
hjúkrunardeild fyrir 32
einstaklinga. Samtals eru
68 manns í heimili hér.
Droplaugarstaðir voru
opnaðir með öðrum heimilum á ár-
unum 1979–1982, má þar nefna
íbúðirnar á Dalbraut og við Norð-
urbrún. Í ársbyrjun 1996 var
heimilinu breytt alfarið í hjúkrun-
arheimili og hefur svo verið síð-
an.“
– Hverjir fá að dvelja á Drop-
laugarstöðum?
„Viðkomandi fer í svonefnt vist-
unarmat þar sem metin er þörf
hans fyrir aðstoð og aðhlynningu.
Þeir sem dveljast hér verða að
vera í mjög brýnni þörf fyrir
hjúkrun. Stefnan er að hlúa sem
best að fólki í heimahúsum, en
þegar vistunarmatið úrskurðar að
viðkomandi sé í brýnni þörf á hann
rétt á að koma til okkar. Þess
vegna eru margir veikir hjá okk-
ur.“
– Hvernig er herbergjaskipan?
„Við erum með þrettán tvíbýli,
annað er einbýli. Framtíðarstefan
er sú að hafa alla í einbýli. Það er
nútímakrafa að hafa svæði útaf
fyrir sig þrátt fyrir að vera kom-
inn á hjúkrunarheimili. Áður fyrr
var algengt að margir væru saman
í herbergi, en nú eru aðeins byggð
heimili með einstaklingsherbergj-
um. Þannig viljum við einnig vera.
Þess vegna hafa verið þróaðar
hugmyndir um stækkun heimilis-
ins, sem eru á vinnslustigi.“
– Hvernig myndi heimilið
breytast ef það yrði stækkað?
„Það fengju allir einbýli og það
yrði pláss fyrir fjórtán manns til
viðbótar, sem gerði heimilið að
mjög þægilegri rekstrareiningu.
Einnig höfum við hug á að nýta
þakið yfir húsinu betur, til dæmis
með því að opna þar samkomusal.
Þessar breytingar eru þó enn að-
eins á vinnslustigi.“
– Hvernig er andinn á Drop-
laugarstöðum?
„Við reynum að hafa allt sem
heimilislegast. Þetta er að sjálf-
sögðu heimili þeirra sem hér búa,
ekki stofnun. Að sama skapi eru
engir sérstakir heimsóknartímar,
hér geta ættingjar og vinir litið við
þegar þeim hentar, heimsótt ást-
vini sína og fengið sér kaffisopa.
Við viljum koma til móts við þær
óumflýjanlegu breytingar sem
verða á umhverfi þess sem flytur
af fyrra heimili inn á
hjúkrunarheimili eins
og þetta. Einnig erum
við að breyta fatnaði
starfsfólks á þann veg
að það getur mætt í sín-
um fötum en klæðist ekki ein-
göngu einkennisklæðum. Það ger-
ir samveruna persónulegri.
Starfsandinn er einnig mjög góð-
ur, og hafa tvær konur unnið hér
frá upphafi, og margir unnið hér
lengur en 10 ár.“
– Hvernig er hjúkrun háttað?
„Hér starfar fjöldi hjúkrunar-
fræðinga, sjúkraliða og Eflingar-
starfsfólks sem sinnir íbúum
heimilisins og rekur það. Svo er
samningur um læknaþjónustu við
Landspítala – háskólasjúkrahús,
öldrunarsvið.“
– Hvað með félagsstarf?
„Félagsstarfið hefur verið
stundað alveg frá byrjun, en það
er að sjálfsögðu í samræmi við
getu heimilisfólks. Við höfum
mjög góðan iðjuþjálfa sem sér um
félagsstarfið ásamt iðjuþjálfun.
Sjúkraþjálfun er einnig mjög virk
hér. Hér hafa allir fótavist á hverj-
um degi og sjúkraþjálfun og iðju-
þjálfun er mjög góð til að viðhalda
þeirri færni sem fyrir er og byggja
upp. Við fáum alls konar listafólk í
heimsókn og höldum ýmsar hátíð-
ir, þorrablót og þess háttar. Fólki
finnst mjög gaman að fá tónlist-
armenn í heimsókn eða að sjá
myndasýningu. Einnig förum við í
stuttar ferðir saman um Reykja-
vík og utan Reykjavíkur.“
– Þið hafið líka fallegan garð,
ekki satt?
„Jú, við búum svo vel að eiga
yndislegan garð og gróðurhús, þar
sem við ræktum, bæði starfsfólk
og gamla fólkið, tómata, papriku,
vínber og alls konar annað græn-
meti. Nú í vor prófuðum við einnig
í fyrsta sinn að setja niður kart-
öflur. Við viljum endilega gera
heimilisverk saman til
að viðhalda heimilis-
bragnum.“
– Hvers vegna ber
heimilið nafnið Drop-
laugarstaðir?
„Það er saga á bak við það.
Þannig er mál með vexti að hér í
grenndinni eru götur sem nefndar
eru eftir hetjum Íslendingasagna,
Njálsgata og Bergþórugata til
dæmis. Hér rétt við heimilið var
stígur, og bar sá stígur nafnið
Droplaugarstígur. Hann er nefnd-
ur eftir Droplaugu, móður Drop-
laugarsona, Helga og Gríms, í
samnefndri Íslendingasögu.“
Ingibjörg Bernhöft
Ingibjörg Bernhöft er fædd í
Reykjavík 1949. Hún útskrifaðist
sem hjúkrunarfræðingur frá
Hjúkrunarskóla Íslands 1973.
Tók réttindi sem Dale Carnegie-
kennari frá Syracuse U.S.A.
1989 og kenndi á Dale Carnegie-
námskeiðum hjá Stjórnunarskól-
anum í 5 ár. Starfaði sem hjúkr-
unarfræðingur á Landspítala í 2
ár strax eftir nám og svo í 8 ár
aðstoðardeildarstjóri á Reykja-
lundi. Var hjúkrunarforstjóri
heilsugæslunnar í Mosfellsbæ.
Sölumaður fyrir hjúkrunarvörur
hjá Austurbakka, síðan hjúkr-
unaforstjóri í Víðinesi og nú síð-
ustu 7 árin forstöðumaður Drop-
laugarstaða. Ingibjörg er gift
Bjarnþóri Aðalsteinssyni lög-
reglufulltrúa og eiga þau tvær
dætur, Ingibjörgu og Bryndísi.
Heimilislegt
og vinsamlegt
umhverfi
Þið standist vel skilyrðið um mikla erlenda peninga, en þið eruð ekki útlendingar og ekki
heldur með rétt flokksskírteini, herrar mínir.