Morgunblaðið - 09.08.2002, Side 32
MINNINGAR
32 FÖSTUDAGUR 9. ÁGÚST 2002 MORGUNBLAÐIÐ
✝ Hallgrímur Matt-híasson fæddist á
Siglufirði 20. mars
1926. Hann lést á
Sjúkrahúsi Akraness
2. ágúst síðastliðinn.
Foreldrar hans voru
Matthías Hallgríms-
son, f. 28. janúar
1880, d. 12. júní
1949, og Auður Jón-
ína Frímannsdóttir,
f. 19. nóvember
1891, d. 22. mars
1952. Uppeldisfaðir
Hallgríms var Valdi-
mar Kristmundsson,
f. 7. maí 1888, d. 17. ágúst 1964.
Systkini Hallgríms voru Kristín,
f. 23. janúar 1915, d. 23. febrúar
1998, Haukur, f. 18. ágúst 1917,
d. 13. febrúar 1992, Elísabet, f.
29. desember 1920, d. 13. apríl
1939, og Sigurður, f. 31. október
1922, d. 29. júlí síðastliðinn.
Eiginkona Hallgríms var Þur-
íður Árnadóttir, f. 24. mars 1925,
d. 18. janúar 1989. Foreldrar
hennar voru Árni B. Sigurðsson,
f. 23. júlí 1895, d. 10. júní 1968,
og Þóra Einarsdóttir, f. 20. júlí
1898, d. 7. júní 1939. Börn Hall-
gríms og Þuríðar
eru Þóra Elísabet, f.
21. nóvember 1944,
maki Hermann
Brynjólfsson, f. 10.
júlí 1948, hún á tvo
syni, Vigni Barkar-
son, f. 25. janúar
1964, og Valdimar
K. Sigurðsson, f. 4.
júlí 1968, Matthías,
f. 12. des. 1946,
hann á tvö börn,
Guðmund, f. 29. okt.
1965, og Rakel
Þóru, f. 10. okt.
1970, Valdimar, f.
17. júlí 1949, maki Ingibjörg
Huld Guðmundsdóttir, f. 7. ágúst
1950, þeirra börn eru Birgir, f.
6. feb. 1969, Hallgrímur Bene-
dikt, f. 7. okt. 1972, og Guð-
mundur Árni, f. 14. okt. 1980,
Auður, f. 11. apríl 1953, maki
Birgir Arnar Birgisson, dóttir
hennar Þuríður Jónsdóttir, f. 4.
maí 1975, d. 19. nóvember 1975,
dóttir þeirra er Birgitta Þura, f.
23. apríl 1989.
Útför Hallgríms fer fram frá
Akraneskirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 14.
Elsku Dúddi afi. Það er ansi
skrýtið að þú sért farinn frá okkur.
Þó er það huggun að vita af þér í
faðmi ömmu Þuru á ný því það
særði þig mjög djúpt þegar hún dó
fyrir 13 árum. Ég varð þeirrar gæfu
aðnjótandi að alast upp hjá þér og
ömmu ásamt Vigni bróður á Heið-
argerði og vera umvafinn hlýju, ör-
yggi og ástúð í æsku.
Það eru margar ljúfsárar minn-
ingar sem koma upp í hugann þegar
ég hugsa til þín, afi. Mér eru minn-
isstæð ófá jólin þegar nánast öll
ættin kom í heimsókn á Heiðargerði
á aðfangadagskvöld. Þá varst þú yf-
irleitt hrókur alls fagnaðar. Einnig
er við fórum í heimsókn til Matta
frænda til Svíþjóðar 1977. Við fór-
um í tívolí og þú veltist um af hlátri
þegar þú sást hræðslusvipinn á mér
í rússíbananum. Þá man ég að þeg-
ar ég og mamma vorum að passa
Tunguna og Týru fyrir Auði frænku
eina helgi. Þegar ég kom heim á
sunnudeginum varstu hundfúll að
ég skyldi ekki hafa kíkt í heimsókn
alla helgina! Fyrsta daginn minn
hjá Rafveitunni þegar ég var dauð-
skelfdur fyrir utan og þá komst þú
og leiddir mig nánast inn. Þá þótti
mér alltaf gott að vita af þér og
Matta á vellinum í gegnum árin vit-
andi það að ef ég stæði mig ekki
fengi ég sko að heyra það.
Afi, þegar ég kvaddi þig á sjúkra-
húsinu um daginn sagðir þú að þér
liði vonandi betur næst þegar ég
sæi þig. Ég vona innilega og veit að
þér líður vel þar sem þú ert núna.
Takk, Dúddi afi, fyrir allt sem þú
hefur gefið mér í gegnum lífið. Ég
geymi þig ávallt í mínu hjarta.
Með kærri kveðju.
Valdimar K. Sigurðsson.
Mig setti hljóðan er mér barst sú
fregn að góður samstarfsfélagi um
áratuga skeið væri látinn. Hugurinn
reikaði aftur í tímann og ég minnt-
ist margra góðra stunda er við átt-
um saman.
Við Hallgrímur hófum störf hjá
Rafveitu Akraness á svipuðum
tíma. Ég á árinu 1968 og hann vorið
1970 sem heilsársmaður, en áður
hafði hann unnið tímabundið hjá
fyrirtækinu við ákveðin verkefni í
veitukerfinu. Hallgrímur starfaði
hjá rafveitunni hátt í 25 ár, eða þar
til hann varð að hætta af heilsufars-
ástæðum.
Áður en Hallgrímur réð sig til
rafveitunnar hafði hann stundað
ýmis störf, m.a. verið til sjós og var
ekki komið að tómum kofunum hjá
honum, þegar sjósókn eða málefni
sjómanna bar á góma.
Eitt af verkefnunum sem Hall-
grímur vann að á fyrstu árunum var
að grafa upp og verja gegn tæringu
háspennustrengi, sem lágu frá að-
veitustöðinni til bæjarins. Vegna
sérstakra óhagstæðra aðstæðna
hafði talsverð tæring komið fram á
strengjunum og valdið slæmum bil-
unum, sem m.a. ollu því að rafmagn
fór af bænum. Svo vel tókst þetta
verkefni að ekki hafa komið fram
frekari bilanir, þótt 30 ár séu liðin
og strengirnir orðnir meira en
hálfrar aldar gamlir. Til þess að svo
vel tækist til sem raun ber vitni
þurfti að vanda vel öll vinnubrögð
og ber þessi ending strengjanna
gott vitni um vandvirkni Hallgríms
og vinnufélaga hans.
Hallgrímur eða Dúddi eins og
hann var yfirleitt kallaður var glett-
inn og spaugsamur og höfðum við
vinnufélagar hans oft gaman af
uppátækjum hans. Hann hafði mik-
inn áhuga á knattspyrnu enda var
Matthías sonur hans lengi ein
styrkasta stoð Skagaliðsins og
landsliðsmaður um árabil. Við
minnumst Dúdda samt fyrst og
fremst fyrir að hann var harðdug-
legur, hlífði sér aldrei og kom það
sér oft vel fyrir rafveituna, sem
jafnan var fámennur vinnustaður,
en verkefnin oft mörg og knýjandi.
Já, það er margt sem leitar á
hugann og það er gott að geyma
með sér minningar um traustan og
góðan samstarfsmann.
Ég, fjölskylda mín og fyrrum
starfsmenn Rafveitu Akraness
sendum börnum Hallgríms og fjöl-
skyldum þeirra innilegar samúðar-
kveðjur.
Blessuð sé minning Hallgríms
Matthíassonar.
Magnús Oddsson.
Þegar gamlir vinir og samferða-
menn falla frá, leitar hugurinn á
fornar slóðir og til löngu liðins tíma.
Þannig fór mér, þegar ég frétti lát
Hallgríms Matthíassonar, verka-
manns á Akranesi, en hann andaðist
2. ágúst sl. eftir nokkurra vikna
veru á Sjúkrahúsi Akraness.
Hallgrímur fæddist á Siglufirði
23. marz 1926, sonur hjónanna Auð-
ar Frímannsdóttur og Matthíasar
Hallgrímssonar útgerðarmanns.
Eftir skilnað foreldranna flutti hann
ungur með móður sinni til Akraness
og bjó þar ætíð síðan. Auður gerðist
fljótlega ráðskona hjá Valdimar
Kristmundssyni skipstjóra, sem bjó
í Mörk á Akranesi. Fylgdi Dúddi,
eins og Hallgrímur var ætíð kall-
aður, móður sinni þangað. Átti hann
þar síðan heima um árabil og stofn-
aði þar sitt eigið heimili og var lengi
kenndur við Mörk. Eftir lát Auðar
bjó Dúddi og fjölskylda hans áfram
í Mörk í nábýli við Valdimar og var
mjög kært á milli þeirra.
Dúddi kvæntist ungur Þuríði
Árnadóttur frá Nýhöfn á Akranesi.
Snemma hafði Þuríður misst móður
sína og sem unglingur annaðist hún
um tíma heimili föður síns og systk-
ina. Dúddi og Þuríður eignuðust
fjögur börn, Þóru, Matthías, Valdi-
mar og Auði og eru þau uppkomin
og hin mannvænlegustu. Þuríður
lést á góðum aldri fyrir 13 árum.
Var fráfall hennar mikill missir fyr-
ir Dúdda. Eftir það hefur hann
haldið heimili með Matthíasi syni
sínum.
Sem ungur maður starfaði Dúddi
nokkuð sem sjómaður, en lengst af
ævinni var hann verkamaður, sein-
ustu 25 starfsárin hjá Rafveitu
Akraness.
Á skólaárum mínum vann ég öll
sumur eins og önnur ungmenni til
að afla tekna fyrir komandi skólaár.
Sami vilji til vinnu og áður er áreið-
anlega fyrir hendi hjá ungu fólki í
dag, en styttri sumarleyfi og leng-
ing skólatímans hafa skert þessa
möguleika. Það var einmitt í sum-
arvinnu minni, sem leiðir okkar
Dúdda lágu saman. Sumarvinnan
var mér ekki síður mikils virði til
náms og þroska en skólagangan.
Lengst af vann ég hjá föður mínum,
Finni Árnasyni, sem var verkstjóri
hjá Akranesbæ um árabil, en Dúddi
og hann voru góðir vinir. Helsta
verkefnið á þessum árum var hafn-
argerðin á Akranesi, en auk þess
var unnið að ýmsum öðrum verkum.
Vinnuhópurinn var oft fjölmennur
og sumir unnu þarna saman í mörg
ár. Ég minnist margra þeirra
verkamanna, sem ég vann með
þessi sumur. Þeir voru litríkir per-
sónuleikar og forkar að dugnaði,
hertir í vinnu frá blautu barnsbeini.
Upp í hugann koma menn eins og
Jón Bjarnason í Garðbæ, Hannes
Jónasson í Norðtungu, Hjörtur
Bjarnason frá Breiðinni, Ólafur
Hallsteinsson frá Skorholti, Einar
Magnússon á Melstað, Jósef Ein-
varðsson á Marbakka, Ágúst Sig-
urðsson í Nýlendu, Hannes Þjóð-
björnsson í Hvammi, Sigvaldi
Jónsson, bílstjóri, sem kom norðan
úr Skagafirði og margir fleiri
ógleymanlegir menn, sem of langt
yrði hér upp að telja. Flestir eru
þeir nú horfnir af sjónarsviðinu og
nú síðast Dúddi í Mörk.
Atvikin höguðu því svo, að við
Dúddi unnum mikið saman flest
sumrin. Í þrjú sumur vorum við há-
setar á ferjunni, sem flutti efni til
hafnargerðarinnar, aðallega möl frá
Hrafneyri í Hvalfirði og sand úr
fjörum í landi Hafnar í Borgarfirði.
Ferjurnar höfðu á sínum tíma verið
notaðar við innrás Bandamanna í
Normandí í Frakklandi. Arnljótur
Guðmundsson, sem var fyrsti bæj-
arstjórinn á Akranesi, árin 1942–46,
var einstaklega framsýnn og hug-
myndaríkur maður. Hann hafði
beitt sér fyrir því, að tvær slíkar
innrásarferjur voru keyptar til
Akraness. Hugmyndin var að nota
þær til að koma á bílferjum yfir
Hvalfjörðinn nokkru norðar en
göngin, sem nú hafa verið gerð, og
stytta þar með verulega leiðina til
og frá Reykjavík. Jafnframt stóð
hann fyrir því, að keypt voru til
bæjarins fjögur steinsteypt ker,
sem notuð höfðu verið til að byggja
höfn á strönd Normandí við innrás-
ina. Mynda kerin nú stóran hluta
aðalhafnargarðsins á Akranesi.
Áformin um að koma á bílferjum yf-
ir Hvalfjörð urðu aldrei að veru-
leika, en ferjurnar áttu eftir að nýt-
ast vel við hafnargerðina á Akranesi
og fleira. Við vorum fjórir um borð í
ferjunni á þessum tíma, skipstjóri
og vélstjóri, ásamt okkur Dúdda.
Vinnu var hagað þannig, að haldið
var inn fjörðinn á aðfalli og ferjunni
siglt á land á flóði. Síðan var hleri,
sem var á henni að framan, látinn
falla og hafist handa með stórum
trukkum við að fylla lest ferjunnar
af möl eða sandi. Því verki var oft-
ast lokið nokkru áður en háflóð varð
að nýju. Þá flaut ferjan upp og siglt
var til Akraness og farmurinn los-
aður þar næsta dag.
Við Dúddi kynntumst vel þessi
sumur og minningarnar frá þessum
tíma eru mér ljúfar. Þrátt fyrir
nokkurn aldursmun urðum við góðir
vinir. Hann var duglegur til vinnu
og sérstaklega skapgóður og þægi-
legur í umgengni. Hann var
skemmtilegur og gat oft verið glett-
inn í samtölum og sagði vel frá. Oft-
ast fóru einhver gamanyrði okkar á
milli, þegar við hittumst. Hann var
góðviljaður og umtalsgóður um fólk
og vinmargur. Hamingja hans
mesta var fjölskylda hans og henni
unni hann. Eftir að ég flutti frá
Akranesi fækkaði samfundum okk-
ar og síðustu árin fóru aðeins jóla-
kveðjur okkar á milli. Ég var alltaf
á leiðinni að heimsækja hann, nú
síðasta í sumar, en alltaf fórst það
fyrir. Nú er það orðið of seint eins
og svo margt annað.
Ég minnist vinar míns Dúdda í
Mörk með hlýju og söknuði um leið
og við Sigríður sendum börnum
hans og fjölskyldum þeirra innileg-
ar samúðarkveðjur.
Árni Grétar Finnsson.
HALLGRÍMUR
MATTHÍASSON
✝ Anna Kristjáns-dóttir fæddist í
Skálholti í Biskups-
tungnahreppi 28.
júní 1945. Hún lést á
líknardeild Landspít-
alans í Kópavogi 29.
júlí síðastliðinn. For-
eldrar hennar voru
Guðbjörg Guðríður
Bjarnadóttir, f. 24.
okt. 1915, d. 2. jan.
1992, og Kristján
Þorsteinsson, f. 29.
maí 1921, látinn.
Fósturfaðir Önnu var
Kristberg Jónsson, f.
15. jan. 1916, látinn. Anna átti
fimm hálfsystkini sammæðra.
Hinn 5. desember 1981 giftist
Anna Sigurði Sævari
Ásmundssyni, f. í
Reykjavík 1935, d.
31. okt. 1989. Hann
var rafvirki. Barn
þeirra er Sævar
Reykjalín, f. 1. mars
1981. Barn Önnu og
Vilmundar Jónsson-
ar, f. 7. nóv. 1935,
látinn, er Eyvindur
Gauti, f. 24. júlí 1977.
Anna vann við að-
hlynningarstörf, að-
allega á næturvökt-
um, undanfarin ár á
vistheimilinu Selja-
hlíð í Breiðholti.
Útför Önnu fór fram í kyrrþey
hinn 6. ágúst.
Þegar lífsins leiðir skilja
læðist sorg að hugum manna.
En þá sálir alltaf finna
yl frá geislum minninganna.
(Helga frá Dagverðará.)
Vinkona mín og samstarfskona til
margra ára, Anna Kristjánsdóttir,
er látin langt fyrir aldur fram, 57
ára. Það er rúmlega eitt og hálft ár
síðan Anna greindist með krabba-
mein. Hún gekk þá í gegnum erfiða
lyfja- og geislameðferð og var ótrú-
lega sterk og dugleg og vonaði að
hún fengi einhvern bata – aðeins
lengri tíma. Hún var þó raunsæ,
vissi að allt gæti gerst, en samt svo
æðrulaus og sýndi mikinn sálar-
styrk. Hún var bjartsýn og reyndi að
gera sér dagamun og njóta þess sem
hún gat, þegar henni leið betur.
Studd af drengjunum sínum, skyld-
mennum, vinum og vandalausum lét
hún aldrei bugast. Stóð á meðan
stætt var. Ég tel að á engan sé hallað
þótt ég nefni Haddýju, vinkonu
hennar og samstarfskonu, og fjöl-
skyldu hennar. Haddý var alltaf boð-
in og búin að létta henni lífið, taka
hana með í bíltúra, til innkaupa og
útréttinga og hvaðeina sem að gagni
mætti koma. En lífið í brjósti Önnu
voru drengirnir hennar, Gauti og
Sævar. Þeir voru gæfa hennar, gleði
og stolt. Hún lifði fyrir þá, enda voru
þeir ekki gamlir þegar hún þurfti ein
að ala önn fyrir þeim. Sævar var átta
ára og Gauti tólf ára þegar hún varð
ekkja árið 1989. Og þeir launuðu
henni svo sannarlega uppeldið, þeg-
ar halla tók undan fæti og heilsan
brást. Góðir og elskulegir drengir,
sem gerðu allt sem í þeirra valdi stóð
fyrir mömmu sína.
Við Anna unnum saman á nætur-
vöktum í Seljahlíð um árabil, þrjár
nætur í viku. Það segir sig sjálft að
þegar tvær manneskjur vinna svo
mikið saman um langan tíma mynd-
ast með þeim góð og náin kynni og
vinátta. Svo varð með okkur Önnu.
Og þótt ég hætti störfum vegna
heilsubrests hélst vinátta okkar
óbreytt til hinsta dags. Það var alltaf
tilhlökkun í Hlaðbrekkunni þegar
þær stöllur Anna og Haddý komu í
heimsókn, þá voru rifjaðar upp
skemmtilegar minningar frá liðnum
árum, ýmislegt sem gerst hafði í
vinnunni, bæði sætt og súrt. Eins
var næturvaktin öll dugleg að halda
tengslum og gera sér dagamun
stöku sinnum.
Anna fylgdist vel með fréttum og
á þjóðmálum hafði hún ákveðnar
skoðanir. Hún var ekki alltaf sátt við
stefnu ráðamanna í málum gamla
fólksins og annarra þeirra sem
minna mega sín. Hún las erlend
tímarit sér til gagns og gamans og
hafði áhuga á að ferðast til fjarlægra
landa, þótt ekki hefði hún mikil tök á
því. Hún fór reyndar eina slíka ferð
nokkru áður en hún veiktist. Það var
henni ógleymanlegur tími og sú
ferðasaga og atvik úr þeirri ferð
voru oft rifjuð upp á góðum stund-
um.
Anna var ekki allra, en góður vin-
ur vina sinna, gjafmild og hugsunar-
söm. Maðurinn minn kunni vel að
meta hversu oft hún hringdi til að
frétta af heilsu hans undanfarin erfið
ár, slíkt gleymist ekki. Ég vil að lok-
um þakka Önnu minni samveruna og
okkar góðu kynni á liðnum árum. Ég
á eftir að sakna hennar.
Elsku Gauti og Sævar, megi minn-
ingin um mömmu ykkar lýsa ykkur
veginn í gegnum lífið og verða ykkur
styrkur til allra góðra hluta. Guð
veri með ykkur og öllum sem þótti
vænt um Önnu, minnast hennar og
sakna. Ég færi ykkur innilegar sam-
úðarkveðjur frá okkur hjónunum.
Öllum er skapað að skilja
í skyndingu, mislangar stundir.
En þeir sem vona og vilja
fá veglega endurfundi.
(Vilhj. S. V. Sigurjónsson.)
Erla Bergmann.
Þeir sem guðirnir elska deyja
ungir. Mamma besta vinar míns er
dáin. Hjá þeim átti ég mitt annað
heimili, athvarf sem er dýrmætara
en orð fá lýst. Strákar, matur! Það
þýddi allir þrír, Sævar, Gauti og ég,
alltaf sem einn úr fjölskyldunni. Allt-
af hlý og góð í minn garð. Kynni mín
af þessari góðu fjölskyldu eru eins
langt og ég man. Pabbi og Siggi heit-
inn voru góðir vinir, ég fæddist 28/2
’81 og Sævar daginn eftir svo það var
víst aldeilis fögnuður hjá körlunum.
Síðan lá leið okkar saman í leikskóla,
grunnskóla og framhaldsskóla og
alltaf áttum við (og eigum) athvarf á
heimili hvor annars. Það er tóm í
mínu hjarta, nú veit ég hvernig er að
missa móður. En ég er þakklátur
fyrir að hafa haft kynni af þessari
yndislegu konu og kveð hana með
söknuði.
Reynir Albert Þórólfsson.
ANNA
KRISTJÁNSDÓTTIR
Handrit afmælis- og minningargreina skulu vera vel frá gengin, vélrituð eða tölvusett. Sé
handrit tölvusett er æskilegt, að disklingur fylgi útprentuninni. Senda má greinar til blaðsins
í bréfsíma 569 1115, eða á netfang þess (minning@mbl.is). Nauðsynlegt er, að símanúmer höf-
undar/sendanda fylgi. Nánari upplýsingar má lesa á heimasíðum. Það eru vinsamleg tilmæli
að lengd greina fari ekki yfir eina örk A-4 miðað við meðallínubil og hæfilega línulengd — eða
2.200slög. Höfundar eru beðnir að hafa skírnarnöfn sín en ekki stuttnefni undir greinunum.