Morgunblaðið - 02.10.2002, Qupperneq 10
FRÉTTIR
10 MIÐVIKUDAGUR 2. OKTÓBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
ÓLAFUR Ragnar Grímsson, forseti Íslands,
sagði m.a. í ræðu sinni við setningu Alþingis, 128.
löggjafarþings, í gær að breytt hlutföll auðs og
áhrifa settu í æ ríkari mæli svip á samfélagið.
Hann kom inn á þetta mál með því að vísa til þess
að Alþingi hefði að undanförnu unnið að því að
draga úr umsvifum hins opinbera og liðka fyrir
leikreglum markaðar og samkeppni.
„Líkt og í mörgum nágrannalöndum hefur ver-
ið leitast við að draga úr mætti almannavaldsins
og vísað til þess að löggjöfin skuli einkum miðast
við að ákvarða leikvöll atvinnulífsins. Að öðru
leyti muni úrslitin á markaðstorgi og alþjóða-
straumar í efnahagsmálum ráða för. Þessar nýju
leikreglur kunna að eiga þátt í breyttum hlut-
föllum auðs og áhrifa sem í æ ríkari mæli setja
svip á samfélagið og gætu smátt og smátt skapað
ástand sem hæpið er að samrýmist því sem upp-
haflega var ætlun þeirra sem lögin settu,“ sagði
forseti Íslands m.a. í ræðu sinni.
Græðgi og miskunnarleysi
Ólafur Ragnar sagði að við hefðum að und-
anförnu orðið vitni að því að prestar hefðu í
kirkjum landsins fellt þunga dóma um að auðsöfn-
un, græðgi og miskunnarleysi setti í vaxandi mæli
svip á samfélagið. „Og áhrifamenn á Alþingi hafa
einnig í sumarræðum kveðið fast að orði um þró-
unina. Verða þau ummæli væntanlega efniviður í
vetrarannir.“
Síðan sagði Ólafur Ragnar: „Frjáls markaður
og lýðræðislegt samfélag eru samnefnari þeirrar
skipunar sem flestir telja hið besta form sem völ
er á. En þessi tvíþætta þjóðfélagssýn er fléttuð úr
mörgum ólíkum þáttum og vandasamt að ná því
jafnvægi sem að er stefnt.
Atburðarásin á markaðstorgi kann að leiða til
slíkrar samþjöppunar auðs og eigna að veruleg
áhrif hafi á hið lýðræðislega vald sem byggja ber
á jöfnum rétti allra einstaklinga. Sé fjármagni
veitt ótæpilega inn í íslenska hversdagsveröld
kann að verða mikið flóð, þjóðfélagið orðið ólgu-
sjór þar sem hefðbundnar hömlur fara á flot og
völd og áhrif verða af öðrum toga en samstaða var
um hér áður fyrr. Skilin milli markaðar og stjórn-
mála eru sjaldan eins skýr í veruleika og í kenn-
ingunni.“
Í gegnum breytingaskeið
Ólafur Ragnar sagði að við Íslendingar gengj-
um nú í gegnum breytingaskeið sem að hluta væri
knúið áfram með ákvörðunum Alþingis en sækti
einnig efnivið í hið opna alþjóðlega hagkerfi sem
við yrðum í vaxandi mæli hluti af. „Ærið margt
sem þessu fylgir eru framfaraspor sem í senn
auka velferð landsins og hagsæld fjölskyldnanna,
bæta kjör og veita nýju fólki tækifæri til að sýna
hvað í því býr. En við sjáum einnig blikur á lofti
sem vekja spurningar um hvernig við varðveitum
áfram ýmsa grunnþætti sem gefið hafa íslensku
samfélagi sérstakt gildi, jafnræði og samheldni.“
Þá sagði Ólafur: „Við höfum notið þess að hér
hefur þróast opið og lýðræðislegt þjóðfélag þar
sem viðunandi jafnvægi hefur ríkt þegar til lengd-
ar lætur og hvorki óhóflegur auður né annarleg
áhrif hafa skákað þeim rétti sem umboðið frá fólki
veitir. Hér hefur ríkt samstaða um samfélagsgerð
sem við höfum talið þjóna best hagsmunum lands
og þjóðar, verið á vissan hátt grundvöllur að
sjálfsvitund okkar Íslendinga.
Er þessi samfélagsgerð nú að breytast? Er
veruleikinn sem okkur birtist í samræmi við anda
laganna sem veittu hinum nýju leikreglum form-
legt gildi? Slíkum spurningum er á engan hátt
auðvelt að svara en þær munu brenna á hverjum
þeim sem býður sig fram sem fulltrúi fólksins.“
Mikið í húfi
Ólafur Ragnar sagði að Alþingi væri kjarninn í
lýðræðisskipan Íslendinga og að þar ætti að ríkja
sá eindregni vilji sem endurspeglaði þjóðarhug.
„Það er mikið í húfi að okkur takist að nýta í anda
íslenskra hefða þau tækifæri sem breytingarnar
fela í sér en ekki síður að ávaxta vel arfleifðina
sem fyrri kynslóðir færðu okkur og byggja á ár-
angrinum sem orðið hefur fræðimönnum tilefni til
að álykta um atorkuna sem býr í smærri ríkjum.
Sú ábyrgð sem á Alþingi hvílir er því áfram mik-
il.“
Að lokum óskaði Ólafur Ragnar alþingismönn-
um velfarnaðar í vandasömum verkefnum á kom-
andi vetri og bað þingheim að rísa úr sætum og
minnast fósturjarðarinnar.
Breytt hlutföll auðs og áhrifa setja
í æ ríkari mæli svip á samfélagið
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í ræðu við þingsetningu
ALÞINGI Íslendinga, 128. löggjaf-
arþing, var sett í gær að lokinni
guðsþjónustu í Dómkirkjunni.
Halldór Blöndal, þingmaður Sjálf-
stæðisflokksins, var á þingsetning-
arfundi endurkjörinn forseti Al-
þingis. Í ávarpi sínu sagði Halldór
m.a. að þingstörfum lyki um miðj-
an mars eða um átta vikum fyrir
áætlaðan kjördag, 10. maí.
Í máli hans kom einnig fram að
óhjákvæmilegt væri að ráðast í
umfangsmiklar endurbætur og við-
hald á Alþingishúsinu til þess að
það skemmdist ekki. Unnið væri
að áætlun um þá framkvæmd. Þá
sagði hann að koma ætti fyrir lyftu
milli annarrar og þriðju hæðar
þinghússins til þess að fatlaðir
gætu komist á áheyrendapallanna.
Eins og fyrr sagði hófst þing-
setningin með guðsþjónustu og
predikaði sr. Sigurður Sigurðar-
son, vígslubiskup í Skálholti, og
þjónaði fyrir altari ásamt biskupi
Íslands, Karli Sigurbjörnssyni. Að
guðsþjónustu lokinni gengu forseti
Íslands, biskupinn yfir Íslandi,
ráðherrar, þingmenn og aðrir
gestir til þinghússins. Þar setti
forseti Íslands þingið og að því
búnu tók starfsaldursforseti þings-
ins, Páll Pétursson félagsmálaráð-
herra, við fundarstjórn. Bauð hann
þingmenn velkomna til starfa.
Síðan fór fram kjör forseta Al-
þingis og var Halldór Blöndal einn
í kjöri. Í leynilegri atkvæða-
greiðslu fékk hann 45 atkvæði en
15 greiddu ekki atkvæði. Eftir
ávarp Halldórs Blöndal var þing-
setningarfundi frestað til kl. 16. Á
meðan héldu þingflokkarnir fundi.
Heildarútgáfa á verkum
Snorra Sturlusonar
Halldór Blöndal hóf ávarp sitt
m.a. á því að þakka alþingismönn-
um það traust sem þeir sýndu sér
með kjörinu. Síðan vék hann orð-
um sínum að nýrri þjónustubygg-
ingu Alþingis, sem tekin var form-
lega í notkun í síðustu viku. „Fæst
þar langþráð úrbót í húsnæðis-
málum Alþingis.“ Skýrði hann frá
því að almenningi hefði gefist
kostur á að ganga um skálann og
þinghúsið sl. laugardag og að þar
hefðu margir lýst ánægju með
hversu vel hefði tekist til um fram-
kvæmdina.
Halldór skýrði einnig frá því að
ráðist hefði verið í nauðsynlegar
breytingar á fyrstu og annarri
hæð þinghússins til þess að teng-
ing þess við skálann væri sem
greiðust og nýttist sem best. „Í
næsta áfanga er óhjákvæmilegt að
ráðast í umfangsmiklar endur-
bætur og viðhald á Alþingishúsinu
til þess að það skemmist ekki og
er unnið að áætlun um þá fram-
kvæmd. Síðan liggja fyrir marg-
víslegar endurbætur aðrar sem
ekki eru eins aðkallandi en sem
meðal annars miða að því að færa
salarkynni til upprunalegs horfs.
Jafnframt liggur fyrir að koma
fyrir lyftu milli annarrar og þriðju
hæðar til þess að fatlaðir geti
komist á áheyrendapallana.“
Halldór sagði einnig frá því að á
þessu ári hefði Alþingi veitt styrk
til þess að kosta myndskreytingu á
heildarútgáfu á verkum Snorra
Sturlusonar. „Vel hefur verið stað-
ið að verki. Verður efnt til kynn-
ingarfundar á útgáfunni í Skál-
anum á fimmtudag þar sem úrval
mynda úr bókum Snorra-Eddu,
Eglu og Heimskringlu verður til
sýnis.“
Eftir að forseti hafði lokið máli
sínu var þingfundi eins og áður
sagði frestað til kl. 16. Á fram-
haldsfundinum var fjárlögum út-
býtt og m.a. kosið um fjóra vara-
forseta þingsins. Guðmundur Árni
Stefánsson, Samfylkingu, var end-
urkjörinn 1. varaforseti þingsins,
Guðjón Guðmundsson, Sjálfstæð-
isflokki, var endurkjörinn 2. vara-
forseti, Ísólfur Gylfi Pálmason,
Framsóknarflokki, verður áfram 3.
varaforseti og Árni Steinar Jó-
hannesson, Vinstri grænum, verð-
ur áfram fjórði varaforseti.
Í lok fundarins var einnig geng-
ið frá kjöri í fastanefndir og al-
þjóðanefndir Alþingis og síðan
hlutað um sæti þingmanna.
Alþingi Íslendinga, 128. löggjafarþing, sett í gær
Þingi verður frestað í
mars vegna kosninga
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni gengu forseti Íslands, biskupinn yfir Íslandi, vígslubiskup í Skálholti,
þingmenn og aðrir gestir fylktu liði til þinghússins eins og venja er við þingsetningu.
ÞINGKOSNINGAR og kosningar
til forsætisráðs Bosníu og Hers-
egóvínu fara fram laugardaginn 5.
október næstkomandi og mun utan-
ríkisráðuneytið senda þrjá Íslend-
inga til kosningaeftirlits á vegum Ör-
yggis- og samvinnustofnunar Evr-
ópu (ÖSE), sem hefur eftirlit með
kosningunum. Þeir eru Þorgerður
Katrín Gunnarsdóttir alþingismað-
ur, Ástríður Sif Erlingsdóttir, for-
stöðumaður rannsóknaþjónustu Há-
skóla Íslands, og Emil Breki
Hreggviðsson, varafastafulltrúi Ís-
lands hjá ÖSE.
Um 300 alþjóðlegir eftirlitsmenn á
vegum ÖSE munu hafa eftirlit með
kosningunum. Þátttaka Íslands í
kosningaeftirlitinu er liður í auknu
framlagi utanríkisráðuneytisins til
uppbyggingar- og friðarstarfs á
Balkanskaga, sem fram fer á vegum
ÖSE, Sameinuðu þjóðanna og
NATO. Nánari upplýsingar um
þingkosningarnar í Bosníu og Hers-
egóvínu má finna á heimasíðu ÖSE á
slóðinni www.osce.org.
Þrír íslenskir
eftirlitsmenn
í Bosníu-
Hersegóvínu
KONUR og yngra fólk eru al-
mennt jákvæðari gagnvart inn-
flytjendum en karlar og eldra fólk.
Þetta kemur fram í könnun Gallup
þar sem viðhorf til innflytjenda og
afstöðu til fjölgunar þeirra o.fl.
voru könnuð. Hátt í helmingur
fóks á aldrinum 16 til 24 ára er já-
kvæður gagnvart því að útlend-
ingum fjölgi en aðeins um 37%
þeirra sem eru 55–75 ára. Þá eru
þeir sem eru tekjuhæstir og hafa
mesta menntun almennt jákvæðari
gagnvart fjölgun útlendinga en
aðrir hópar.
Mikill meirihluti þjóðarinnar,
eða um 86%, er hins vegar sam-
mála um að skylda eigi útlendinga,
sem setjast að hér, til þess að læra
íslensku. Meirihluti fólks, eða 58%,
segist vera jákvæður gagnvart því
að börn þeirra myndu giftast út-
lendingum en 12% neikvæð.
Hringt var í 2.476 manns úr þjóð-
skrá 29. ágúst til 25. september,
svarhlutfall var 70% og vikmörk
eru 1–3%.
Konur og
yngra fólk
jákvæðari
gagnvart inn-
flytjendum
Í AÐALSKIPULAGI er gert ráð
fyrir lóð fyrir Kvennaskólann á fyll-
ingu sunnarlega við Ánanaust og
kannaðir hafa verið möguleikar á
nýrri lóð fyrir Menntaskólann við
Sund í austurhluta Laugardals.
Þetta kom fram í svari borgar-
stjóra, Ingibjargar Sólrúnar Gísla-
dóttur, við fyrirspurn Björns
Bjarnasonar, oddvita sjálfstæðis-
manna, á fundi borgarráðs í gær.
Fyrir liggur tillaga að endurskoð-
uðu deiliskipulagi í austurhluta
Laugardalsins þar sem m.a. er gert
ráð fyrir lóð handa MS og verður
hugmyndin kynnt í hverfaráðum á
næstunni.
Borgarstjóri sagði að stjórnendur
Kvennaskólans hefðu lagt ríka
áherslu á að vera nær miðbænum en
erfitt væri að koma fyrir viðbygg-
ingum á því svæði. Sú hugmynd
hefði komið fram að koma Kvenna-
skólanum fyrir á svæði Vals við Hlíð-
arenda og væri hún til nánari skoð-
unar hjá skipulagsyfirvöldum.
MS í Laug-
ardalinn
♦ ♦ ♦
♦ ♦ ♦