Morgunblaðið - 15.10.2002, Síða 19
SUÐURNES
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 15. OKTÓBER 2002 19
EINAR Guðberg Gunnarsson var á
sunnudag gerður að fyrsta heið-
ursfélaga Þroskahjálpar á Suð-
urnesjum (ÞS), á 25 ára afmæl-
ishátíð félagsins sem fram fór í
félagsheimilinu Stapa í Njarðvík.
Fram kom að Einar Guðberg hefur
unnið framúrskarandi gott og fórn-
fúst starf í þágu félagins. Hann var
meðal annars fyrsti formaður þess
og sat í stjórn þrettán fyrstu árin.
Einar Guðberg er einn helsti
hvatamaður að stofnun Þroska-
hjálpar á Suðurnesjum og vann öt-
ullega að því að koma félaginu á fót
fyrir 25 árum.
Einar Guðbergs sagði í þakk-
arræðu sinni að margt hefði áunn-
ist í málefnum fatlaðra en stærsti
sigurinn væri sú breyting sem orðið
hefði á viðhorfi til fatlaðra. „Ég
gleymi því aldrei þegar ég fór með
Val son min í bíó fyrir 25 árum. Þá
hópaðist fólk í kringum okkur til að
líta á þetta undur sem því þótti Val-
ur vera. Í dag þekkist þetta ekki og
þetta þykir mér stærsti sigurinn,“
sagði Einar Guðberg.
Valur er nú 31 árs og Einar sagði
að á þeim tíma sem Valur fæddist
hafi foreldrum verið ráðlagt að
senda börn sín til vistunar á Skála-
túni. „Við foreldrar Vals fórum
þangað í heimsókn með opnum
huga og okkur var tekið vel, en við
okkur blasti hrein martröð. Allur
aðbúnaður var hræðilegur enda
hælið þá rekið af miklum van-
efnum. Í stórum skála voru klósett í
röðum við einn vegginn, án skil-
rúma og sturtur við annan, án
hengja. Og í „geymslunni“ eins og
við kölluðum hana, blöstu við okkur
44 andlit fatlaðra barna og við sem
héldum að Valur væri sá eini með
þessa tegund fötlunar. Hvaðan
komu öll þessi börn?
Leiðin heim var þrungin mar-
traðakenndum hugsunum og við
foreldrar Vals hétum því að þetta
skyldi aldrei verða hlutskipti hans.
Þegar við kynntumst svo foreldrum
annarra fatlaðra barna á Suð-
urnesjum, sem strengt höfðu sömu
heit, fórum við að ræða um stofnun
hagsmunafélags á Suðurnesjum.
Eftir þrotlausa vinnu í nokkur ár
var stofnfundurinn haldinn hér í
Stapa 10. október 1977,“ sagði Ein-
ar Guðberg um aðdragandann að
stofnun félagins.
Á afmælishátíðinni voru tveir
velunnarar ÞS sæmdir gullmerki
félagins fyrir gott og mikið starf.
Er þetta í þriðja sinn sem gullmerki
félagsins er afhent. Gullmerkið í ár
hlutu Vilhjálmur Þorleifsson, sem
ávallt hefur sýnt skjólstæðingum
félagsins mikla virðingu og hefur í
áraraðir unnið við hlið fatlaðs
manns, Óskars Ívarssonar, í áhalda-
húsi bæjarins. Þá var Valgerður
Þorsteinsdóttir sæmd gullmerki
fyrir fórnfúst starf í þágu félagins
frá stofnun þess, en hún er móðir
eins af skjólstæðingum ÞS, Helga
Sæmundssonar.
Þroskahjálp á Suðurnesjum bár-
ust margar góðar gjafir í tilefni af-
mælisins, en félagið hefur ávallt
notið mikillar velvildar fyrirtækja,
félagasamtaka og almennings á
Suðurnesjum.
„Breytt viðhorf til fatl-
aðra stærsti sigurinn“
Morgunblaðið/Svanhildur Eiríksdóttir
Það voru stoltir feðgar sem stigu á svið og tóku við fyrsta heiðurs-
félagatitli Þroskahjálpar á Suðurnesjum. Vali og Einari Guðberg var vel
fagnað af afmælisgestum.
Njarðvík
ÞRIGGJA skrokka hraðfiskibátur
var kynntur fyrir sjómönnum og
fleirum í Sandgerðishöfn um
helgina. Er þarna um að ræða nýja
hönnun hjá Plastverki ehf.
Báturinn, sem hefur vinnuheitið
Örninn, er af nýrri gerð, með einn
aðalskrokk og og tvo aukaskrokka,
sinn á hvorri síðu. Aukaskrokkarnir
eru með sjálfstæð flot og ekki opnir
inn í aðalskrokk bátsins.
Örninn er 9,63 metra langur og
mesta breidd hans er 3,50 metrar.
Báturinn mælist 10 tonn og tekur
ellefu 660 lítra fiskikör og fjögur
380 lítra í lest. Örninn er knúinn
með 430 hestafla Cummings-vél og
gengur 29 sjómílur, með 3 tonn í
lest gengur hann 23 sjómílur. Bát-
urinn er með fasta skrúfu og gír en
skrúfuöxull liggur undir vél bátsins.
Undir lestargólfi er 989 lítra olíu-
tankur. Þá er hann með Berker-
stýri sem gerir hann mjög lipran en
báturinn hefur verið prófaður með
vönum sjómönnum sem segja að
hann sé mjög stöðugur og fari vel í
sjó. Gústaf Ólafsson, eigandi Plast-
verks, segir að báturinn sé mun rás-
fastari en venjulegir hraðfiskibátar,
stöðugri og reki minna. Þriggja
skrokka fyrirkomulagið skili þessu
og auðveldi þar með sjómönnum
starfið.
Brjóta upp mynstrið
Báturinn var hannaður frá grunni
af starfsfólki Plastverks. Gústaf hef-
ur á orði að svona geri víst ekki
óbrjálaðir menn en bætir því við að
stundum þurfi að brjóta upp
mynstrið til að fá framfarir. Hann
segir að afar gaman hafi verið að
fást við þetta verkefni en tekur
fram að hönnun bátsins, þróun og
smíði hafi kostað mikla fjármuni.
Að hans sögn er báturinn enn
óseldur en margir hafi sýnt honum
áhuga. Gústaf segir að ef báturinn
fái góðar viðtökur verði haldið
áfram og fleiri bátar smíðaðir.
Plastverk ehf. hefur margra ára
reynslu af smíði og breytingum á
plastbátum.
Morgunblaðið/Reynir Sveinsson
Örninn, nýr bátur frá Plastverki, prófaður á 29 mílna hraða við Sandgerði.
Nýr þriggja skrokka
hraðfiskibátur kynntur
Sandgerði