Morgunblaðið - 17.11.2002, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 17.11.2002, Blaðsíða 12
12 SUNNUDAGUR 17. NÓVEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ S ADDAM Hussein, forseti Íraks, fær ekki nema eitt tækifæri til að hlíta ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um vopnaeftirlit í Írak. Bandaríkjastjórn mun ekki beygja af þeirri leið, sem hún hefur markað, og til átaka mun koma, ef Írakar reyna að torvelda störf vopnaeftirlitsmannanna. Þetta er sam- dóma álit þeirra embættismanna og álitsgjafa sem Morgunblaðið hefur rætt við í Bandaríkj- unum á undanförnum vikum og dögum. Skv. skilmálum ályktunar öryggisráðsins hefur Saddam nú þrjátíu daga (frá og með síð- asta miðvikudegi) til að reiða af hendi tæm- andi lista um alla þætti áætlunar Íraksstjórn- ar um þróun efna-, sýkla-, og kjarnorkuvopna. Reynist listinn ekki tæmandi og sannur mun Bandaríkjastjórn vafalaust gera árás á Írak, og það fyrr en síðar. Raunar eru yfirlýsingar Íraka frá því á mið- vikudag, um að þeir fallist á ályktun örygg- isráðsins, þess eðlis að ekki er fullkomlega öruggt að Bandaríkjamenn telji sig þurfa að bíða eftir því að vopnaeftirlitsnefnd SÞ (sem heldur til Íraks á mánudag) skili skýrslu um starf sitt. Írakar ítrekuðu nefnilega þá yfirlýs- ingu sína, um leið og þeir sögðust fallast á ályktunina, að þeir réðu ekki yfir neinum ger- eyðingarvopnum. Um þetta segir hinn þekkti álitsgjafi Mich- ael O’Hanlon: „Ef Saddam lýsir því yfir að hann eigi engin gereyðingarvopn þá munu Bandaríkin ekki láta sig neinu varða hugs- anlegt vopnaeftirlit heldur tala fyrir því að ráðist verði þegar á Írak. Saddam væri nefni- lega bersýnilega að ljúga.“ Rétt er að taka fram að O’Hanlon, sem er fræðimaður við Brookings-stofnunina í Wash- ington, lét þessi orð falla örfáum dögum áður en ályktunin var samþykkt. Eftir standa þó þau orð hans að Saddam verður ekki leyft að spila með menn að þessu sinni. Helmingslíkur á að til stríðsátaka muni koma Algengt var að viðmælendur Morgunblaðs- ins giskuðu á að a.m.k. helmingslíkur væru á því að til stríðs myndi koma í Írak – hverju sem líður yfirlýsingum Saddams á þessari stundu um að Írakar samþykki ályktun ör- yggisráðs SÞ. Háttsettur embættismaður í öldungadeild Bandaríkjaþings sagðist einfald- lega ekki trúa því að Saddam yrði reiðubúinn til að leyfa vopnaeftirlitsmönnum að skoða all- ar byggingar, hvenær og hvar sem væri; hvað þá að hann gefi íröskum embættis- og vís- indamönnum frjálsar hendur með að svara spurningum vopnaeftirlitsmanna eins og þeir best geta. Ef það kæmi hins vegar á daginn, að Sadd- am hefði snúið svo rækilega við blaðinu, að hann heimilaði allt þetta, þá myndu Banda- ríkjamenn að sjálfsögðu nota hinar diplómat- ísku leiðir til að leysa deiluna. Gary Sick, prófessor við Columbia-háskóla í New York, tók undir þetta og vitnaði til kín- verska hernaðarspekingsins Sun Tzu, sem sagði að besta tegund stríðs væri það stríð sem menn ynnu án þess að til átaka kæmi. Ef Saddam léti af allri mótstöðu hefðu Banda- ríkjamenn auðvitað unnið sigur, og óþarfi væri að gera árás á Írak. Lykilatriði í þessu sambandi væri sú stað- festa sem George W. Bush Bandaríkjaforseti og embættismenn hans hefðu sýnt; enginn velktist í vafa um að þeim væri alvara. Það gæti vissulega gert gæfumuninn að því er varðar afstöðu Saddams. Í þeim skilningi er munur á þeirri stöðu, sem nú er kominn upp, og stöðunni haustið 1998 þegar síðast var deilt hart um vopnaeft- irlit í Írak. Í því felst ekki mat á því, að sögn Sicks, hvort Bush sé staðfastari maður en Bill Clinton, sem þá var forseti Bandaríkjanna. Í millitíðinni hafi nefnilega gerst atburður, sem öllu breyti; þ.e. árásin á Bandaríkin 11. sept- ember 2001. Sumir fræðimenn telja reyndar að Banda- ríkjastjórn hafi farið út af sporinu þegar hún setti málefni Íraks á oddinn. Þeir spyrja hvað hafi eiginlega orðið um baráttuna gegn hryðjuverkum. Daniel Hamilton, sérfræðing- ur um samskipti Evrópu og Bandaríkjanna, segir t.a.m. að það skaði nokkuð trúverðug- leika Bandaríkjastjórnar í allri umræðunni um Írak að ekki skuli hafa tekist að sýna fram á bein tengsl Saddams við árásirnar á Banda- ríkin. Og embættismaður í öldungadeild þingsins kveðst reiðubúinn til að viðurkenna að eðlilegt sé að menn spyrji hvers vegna Írak sé tekið á dagskrá einmitt núna (þegar sumir teldu eðli- legra að einbeita sér að því að hafa uppi á Osama bin Laden), og af slíku offorsi. „En ég myndi vilja snúa spurningunni við: hvers vegna tókum við ekki Írak á dagskrá með þessum hætti fyrir löngu?“ Rétt er að nefna í þessu sambandi að eng- inn viðmælenda Morgunblaðsins dró í efa þær fullyrðingar að Írakar ráði yfir gereyðingar- vopnum, eða að þeir hafi haft áhuga á því að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Menn eru þó ekki endilega sammála um það hversu mikil ógn stafar raunverulega af Saddam Hussein. Munu ekki komast hjá því að biðja um aðstoð bandalagsþjóða Tveir fræðimenn, sem Morgunblaðið ræddi við, sögðu yfirlýsingar Bandaríkjastjórnar undanfarnar vikur og mánuði villandi að mörgu leyti. Sögðu þeir O’Hanlon og Hamilt- on að þrátt fyrir yfirlýsingar Bandaríkja- stjórnar um hið gagnstæða þá sé óhugsandi að Bandaríkin efni einhliða, og án stuðnings að minnsta kosti einhverra sinna bandalags- þjóða, til árásar á Írak. Staðreyndin sé nefnilega sú, að Bandaríkin muni þurfa að biðja Evrópumenn um að lið- sinna sér, ef ekki við stríðsreksturinn sjálfan, þá a.m.k. við mönnun þess hernámsliðs, sem sennilegt er að tæki við stjórn mála í Írak að afloknu stríði. Ráða mátti af samtölum við embættis- og fræðimenn að enn hefur ekki verið mikið hugsað út í það í bandaríska stjórnkerfinu hvað taki við eftir að unnist hefur sigur á her Íraka (fari svo að til átaka komi) og Saddam hefur verið velt úr sessi. Rashid Khalidi, prófessor í sagnfræði Aust- urlanda nær við háskólann í Chicago, bendir í þessu sambandi á að það sé engan veginn ein- falt mál að hernema 22 milljóna manna land, þar sem búa ýmsar þjóðir og bæði súnní- og shíta-múslímar, með það að yfirlýstu mark- miði að koma á lýðræði. Fyrir það fyrsta verði erfitt að koma í veg fyrir að landið liðist í sundur (Kúrdar geri sig t.d. líklega til að stofna eigið ríki). „Ef við tökum þá ákvörðun að leggja út í þann gífurlega kostnað, sem stríð í Írak myndi útheimta, að ekki sé talað um að hætta lífi hundruða eða þúsunda bandarískra her- manna, þá er ljóst að við munum verða í Írak um langt skeið,“ segir embættismaður í bandaríska utanríkisráðuneytinu. Michael O’Hanlon kveðst sjá fyrir sér svip- að verkefni og sinnt hafi verið á Balkanskaga undanfarinn áratug. Sett yrði á stofn borg- araleg stjórn, sem nyti fulltingis fjölmenns hernámsliðs. Hann segir að þeir stjórnmála- menn í Bandaríkjunum sem séu andsnúnir þessu af hugmyndafræðilegum ástæðum [þ.e. andsnúnir því sem á ensku er kallað „nation- building“] muni verða undir í umræðunni. Hamilton bætir því við að bandarískur al- menningur myndi aldrei gangast inn á það að þurfa að standa einir fyrir mannfreku her- námi í Írak, e.t.v. um áratuga skeið. Skilyrtur stuðningur Það er raunar samdóma álit flestra, sem Morgunblaðið hitti að máli, að stuðningur bandarísku þjóðarinnar við hugsanlegar hern- aðaraðgerðir í Írak sé býsna skilyrtur. Skoðanakannanir hafa sýnt að um 70% Bandaríkjamanna styðja forseta sinn, er hann ræðir um nauðsyn þess að ráðast á Írak. Við- mælendur Morgunblaðsins eru hins vegar sammála um að fæstir vilji að Bandaríkin standi ein í slíku stríði og jafnframt vilji flestir að þar til bærar alþjóðastofnanir, þ.e. Samein- uðu þjóðirnar, hafi lagt formlega blessun sína yfir aðgerðirnar. Þá muni andrúmsloftið breytast fljótt í Bandaríkjunum ef um mikið mannfall yrði að ræða. „Andstaða Evrópumanna hefur haft áhrif á fólk. Ef ég verð var við að almenningur hafi sterkar efasemdir um að rétt sé að ráðast á Írak þá geturðu verið viss um að Bush hefur orðið var við það líka,“ segir Jeff Martin, framkvæmdastjóri Stanley-stofnunarinnar um alþjóðamál en hún er staðsett í Muscatine í Iowa. Undir þetta tekur dr. Donald Hellman, framkvæmdastjóri Institute for International Policy í Seattle. Hann hefur efasemdir um að hægt yrði að ráðast á Írak án þess að taka upp herskyldu og telur útilokað að fólk muni taka slíkri ráðstöfun þegjandi og hljóðalaust. Þeir Hellman og Martin búa báðir fjarri hringiðu stjórnmálanna í Washington en af- staða þeirra er býsna dæmigerð fyrir þá menntamenn sem Morgunblaðið hitti að máli í Iowa og Seattle. Það mátti finna greinilegan blæbrigðamun á afstöðu þeirra á austur- strönd Bandaríkjanna sem lifa og hrærast í stjórnmálunum og fólks „úti á landi“. Ekki var að finna meðal fólks í Iowa eða Seattle þá sterku sannfæringu sem menn í Washington hafa um að Bandaríkin eigi nú í stríði: stríði við alþjóðlega hryðjuverkamenn og þau út- lagaríki sem þá styðja. „Við höfum ekki svo ýkja miklar áhyggjur af öryggi okkar hérna í Iowa,“ segir Lyle Muller, ritstjóri dagblaðsins Iowa City Gaz- ette í Iowa. Hann segir að þó að árásirnar 11. september 2001 hafi haft áhrif á alla Banda- ríkjamenn þá einkennist sjónarhorn manna ekki alls staðar svo ýkja mikið af því að þeir telji að sér sótt, þ.e. að stríð standi beinlínis yfir. Vissulega sé fólk varara um sig en áður en á því sé munur og því, að finnast sem mað- ur sé að upplifa stríðstíma. Styðja sinn forseta á örlagatímum Með þessu er ekki verið að gefa í skyn að íbúar í ríki eins og Iowa styðji ekki forseta sinn í viðleitni hans til að ráða niðurlögum þeirra hryðjuverkahópa sem stóðu fyrir ódæðunum í New York og Washington fyrir rúmu ári. Raunar er saga bæjarstjórans í Westbranch, 2.400 manna smábæjar í Iowa- ríki, afar lýsandi um þau áhrif sem 11. sept- ember hafði hvarvetna á fólk. Bæjarstjórinn, Mike Quinlan, hafði aldrei haft áhuga á pólitískri þátttöku en eftir árás- irnar á Bandaríkin sá hann sig knúinn til að fara í framboð. Hann segir atburðina þann ör- lagaríka dag hafa kveikt í brjósti fólks sterka föðurlandsást – og henni fylgi vitneskjan um að menn þurfi að láta gott af sér leiða, gegna skyldum sínum við fósturjörðina. Quinlan svarar því játandi þegar hann er spurður um það hvort Bandaríkjamenn muni styðja stríð gegn Írak. „Ég kaus Al Gore á sínum tíma [til forseta]. En nú stend ég fast að baki forseta mínum [Bush]. Ef hann metur stöðuna þannig að nauðsynlegt sé að efna til stríðs við Írak þá þarf ég ekki að vita meira,“ segir Quinlan. Staðfestist það einmitt í þing- og ríkis- stjórakosningunum í Bandaríkjunum, sem eru nýafstaðnar, að fólk vill fylkja sér um sinn forseta á þessum örlagatímum. Því er út í hött að halda því fram að forseti Bandaríkjanna sé fullkomlega úr takti við þjóð sína, eða að fólk sé almennt á móti stríði við Írak. Umræðan um þessi mál er hins veg- ar engan veginn eins einsleit og stundum má ráða af bandarískum fjölmiðlum (einkum er hér átt við sjónvarpsfréttastöðvarnar). Bush mun njóta stuðnings þjóðar sinnar ákveði hann að efna til stríðs við Írak en honum er eins gott að fara vel með þann stuðning. Besta tegund stríðs er það sem vinnst án átaka George W. Bush Bandaríkja- forseti getur treyst á stuðning þjóðar sinnar telji hann á end- anum nauðsynlegt að ráðast á Írak. Það þýðir þó ekki að efa- semdir hafi ekki leitað á marga. Davíð Logi Sigurðsson var á ferð um Bandaríkin og ræddi þar við mann og annan. Reuters Herþota af gerðinni F-14D Tomcat hefur sig á loft af bandaríska flugmóðurskipinu U.S.S. Abraham Lincoln sem er á siglingu þessa dagana í Persaflóa. Bandaríkjamenn eru búnir undir stríð við Írak. ’ Ef Bush metur stöðunaþannig að nauðsynlegt sé að efna til stríðs við Írak þá þarf ég ekki að vita meira. ‘ david@mbl.is
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.