Morgunblaðið - 17.01.2003, Page 27
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 17. JANÚAR 2003 27
þeim líður er ljóst, að hin þjóðhagslega framvinda
ræðst ekki síst af því, hvaða stjórnmálaflokki
verður treyst fyrir forystu við stjórn efnahags-
mála á næstu árum. Hagfræðingarnir taka ekki
afstöðu til þess en það munu kjósendur gera í
þingkosningunum í vor. Reynsla síðustu tólf ára
sýnir, að í því efni skiptir mestu, að hlutur Sjálf-
stæðisflokksins verði sem stærstur,“ sagði Björn
og uppskar hlátur af áhorfendapöllunum en í
nokkur skipti í ræðu hans þurfti forseti borgar-
stjórnar að skerast í leikinn og biðja áhorfendur
að hafa sig hljóða.
Draga mætti þá ályktun að lánstraust Reykja-
víkurborgar ykist enn við að Landsvirkjun efldist
vegna þessara framkvæmda og lánshæfiseinkunn
Landsvirkjunar hækkaði, en það hefði gerst eftir
að áformin um Kárahnjúkavirkjun og samning
við Alcoa voru kunn. „Landsvirkjun gerir ráð fyr-
ir, að fjárfesting hennar í Kárahnjúkavirkjun skili
mun meiri arði en mælt er fyrir um í fyrrnefndum
sameignarsamningi ríkisins, Reykjavíkurborgar
og Akureyrarbæjar. Miðar Landsvirkjun við 11%
arðsemi á eigin fé, en ávöxtunarkrafa eigendanna
er 5 til 6%. Í arðsemismati Landsvirkjunar er
miðað við 25% eiginfjárhlutfall og 75% lánsfjár-
hlutfall.
Í stuttu máli má segja, að þessir sérfræðingar
eigenda Landsvirkjunar leggi blessun sína yfir
forsendur Landsvirkjunar og þá aðferð, sem fyr-
irtækið notar til að komast að niðurstöðu um arð-
semi Kárahnjúkavirkjunar. Hitt er einnig ljóst,
að trúnaðarmenn eigenda telja sáralitlar ef
nokkrar líkur á, að ábyrgð falli á eigendurna
vegna lántöku í þágu framkvæmda við virkj-
unina,“ sagði Björn.
Svipað viðhorf til náttúru og Fjölnismenn
Sagði hann þá sem snúast gegn Kárahnjúka-
virkjun og álveri í Reyðarfirði með vísan til um-
hverfis- og náttúruverndar ekki gera
það af sýndarmennsku. Þvert á móti
réðu þar í mörgum tilvikum sterkar
tilfinningar sem bæri að virða. „Met
ég mikils sjónarmið þeirra, sem vilja
hlut íslenskrar náttúru sem mestan. Í
því efni er hins vegar ekki um neinn einhlítan
mælikvarða að ræða eins og þegar rætt er um
fjárhagslega hlið þessa mikla máls. Hér ráða per-
sónulegar skoðanir mestu og hef ég til dæmis
svipað viðhorf til náttúrunnar og Fjölnismenn á
nítjándu öld, að okkur Íslendingum beri ekki að-
eins að njóta fegurðar hennar heldur einnig að
nýta krafta náttúrunnar.“ Þurfti Björn að hætta
máli sínu í miðju kafi í þessum hluta ræðunnar og
biðja forseta að stilla til friðar, þvílík voru lætin af
pöllunum.
Björn sagði upplausn ríkja innan R-listans í
málinu. R-listinn hefði enga burði til að takast á
herðar meirihlutaábyrgð á stjórn borgarinnar.
„Fyrst eftir að niðurstaða okkar lá fyrir og þar
með meirihluti hér í borgarstjórn skýrði borg-
arstjóri frá því, að hún vildi samþykkja ábyrgð-
ina. Er líklega einsdæmi í sögu Reykjavíkurborg-
ar, að pólitískur borgarstjóri og að nafninu til
leiðtogi meirihluta hafi verið sporgöngumaður í
máli sem þessu.“ Að auki væri Samfylkingin klof-
in í málinu, þar sem tveir af þremur fulltrúum
hennar væru á móti því að veita ábyrgðina.
„Hvers eiga Reykvíkingar að gjalda að búa við
svo máttlaust forystuafl í málum sínum? Áhættan
af því að sitja undir slíkum glundroða í stjórn
borgarinnar er meiri en af því að ábyrgjast lán-
töku Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjun-
ar. Hag Reykjavíkurborgar er meiri hætta búin
af stjórnleysinu undir R-listanum en því að axla
þessa ábyrgð vegna lántöku Landsvirkjunar.“
Hæpnar álverðsforsendur
Árni Þór Sigurðsson, forseti borgarstjórnar og
oddviti Vinstri grænna í R-listanum, sagði
skýrslu eigendanefndarinnar ekki veita eigend-
um Landsvirkjunar neinar leiðbeiningar um
hvort verkefnið væri arðbært eða ekki. Til að fá
viðhlítandi svör við þeirri spurningu hefði þurft
að bera fjárfestinguna saman við aðrar sambæri-
legar fjárfestingar og leggja sjálfstætt mat á for-
sendur Landsvirkjunar í arðsemisútreikningi
fyrirtækisins. Jafnfremt hefði þurft að fara fram
ítarlegt áhættumat fjárfestingarinnar vegna
ábyrgðar borgarinnar. Árni sagði það ekki skyn-
samlegt, að hans viti, að ábyrgjast lán með þá
hugsun að leiðarljósi að það kæmi líklega aldrei
að skuldadögum. Margir hefðu farið flatt á því.
Sérstaklega bæri að vara við forsendum
Landsvirkjunar um álverðið annars vegar og
stofnkostnað hins vegar. „Raunar er samningum
við hið geðþekka ítalska fyrirtæki ekki lokið, svo
mönnum er ekki ljóst á þessari
stundu, hver niðurstaðan verður í
þeim viðræðum og hver stofnkostn-
aður verður þegar upp er staðið.“
Það væri álitamál hvort ábyrgðir af
því tagi sem um ræddi væru löglegar
með vísan til sveitarstjórnarlaga. Einnig væri
óljóst hvort framkvæmdin samræmdist ákvæðum
EES-samningsins. „Þessi álitamál tel ég miklu
þýðingarmeiri heldur en vangaveltur um arðsemi
framkvæmdarinnar þar sem útkoman úr því
reikningsdæmi ræðst fyrst og fremst af því hvaða
forsendur menn gefa sér og þær eru, eins og öll-
um er ljóst, afar umdeildar svo ekki sé fastar að
orði kveðið.“
Mun leiða til þenslu
Stórframkvæmdir myndu leiða til þenslu í hag-
kerfinu með neikvæðum afleiðingum fyrir upp-
byggingu á öðrum sviðum samfélagsins. Hærri
útlánsvextir og hátt gengi krónunnar myndu
þrengja að samkeppnisgreinum, rekstrarum-
hverfi útrásarfyrirtækja yrði afleitt, hvöt ungs
fólks til að afla sér menntunar myndi dvína og
ýmsar opinberar framkvæmdir á höfuðborgar-
svæðinu og víðar yrðu settar á langtíma biðlista.
„Þannig er næsta víst að framkvæmdir eins og
Sundabraut, tónlistar- og ráðstefnuhús, hjúkrun-
arheimili, framhaldsskólar og fleira munu verða
fyrir barðinu á boðuðum frestunar- og niður-
skurðarhnífi stjórnvalda. Þá mun boðuð 2%
hækkun raunvaxta á langtímalánum bitna harka-
lega á fjölskyldum í landinu, ekki síst þeim sem
eru að koma sér þaki yfir höfuðið.“
Árni Þór sagði Vatnajökul og hálendið norðan
hans tvímælalaust í flokki náttúrufyrirbæra á
heimsvísu. „Stórbrotið landslag, fjölbreytt nátt-
úrufar, samspil jökla og elda og jarðsagan öll gera
Vatnajökul og umhverfi hans að einstæðustu og
verðmætustu sameign þjóðarinnar. Þessa eign
höfum við sem nú búum í landinu að láni frá af-
komendum okkar.“
Árni sagði að áhrif virkjunarinnar myndu ná til
3.000 ferkílómetra svæðis, sem léti nærri að vera
um 90 sinnum stærra en byggt land í Reykjavík.
Þar yrðu nokkur uppistöðulón, samtals um 70 fer-
kílómetrar, þéttbýlissvæðið í Reykjavík væri til
samanburðar 63 ferkílómetrar. Árleg vatnsborðs-
sveifla í Hálslóni yrði um 75 metrar, eða á við
Hallgrímskirkju. „Og til hvers er svo allt þetta?
Fyrir ímyndaða byggðastefnu? Fyrir eirðarlaus-
ar pólitískar sálir? Fyrir stundargróða? Fyrir
amerískan álrisa?“ spurði Árni Þór og var klapp-
að, stappað og hrópað af áhorfendapöllunum.
Reisa sér ævarandi níðstöng
Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi frjáls-
lyndra og óháðra, sagði deilurnar um hversu
miklu megi fórna af náttúrugæðum
fyrir vafasaman skammtímaávinning
einkennast af hálfu íslenskra valdhafa,
af óvandvirkni, flýti og flaustri,
skammtímahugsun og brengluðu
verðmætamati. „Þau einkennast ekki
síður af óbilgirni og hrottaskap, valdníðslu og
virðingarleysi fyrir landi og þjóð. Eyðilegging ís-
lenskra náttúrudjásna fyrir örstutta uppsveiflu í
hagkerfinu en stórtap fyrir þjóðina til lengri tíma
blasir við. Borgarfulltrúar í Reykjavík mega ekki
styðja það níðingsverk gegn náttúru Íslands sem
Kárahnjúkavirkjun er og veðsetja eignir Reyk-
víkinga fyrir þessari áhættusömu fjárfestingu. Í
mínum huga er það alveg ljóst að þeir sem standa
fyrir þessum framkvæmdum munu reisa sér
ævarandi níðstöng með þessu skemmdarverki
gagnvart afkomendum okkar. Skömm þeirra
mun uppi meðan land byggist,“ sagði Ólafur F.
Magnússon og uppskar mikil fagnaðarlæti af
áhorfendapöllunum.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir, annar fulltrúi
Samfylkingar í R-listanum, velti þeirri spurningu
upp hvaða neikvæðu skammtímaáhrif fram-
kvæmdirnar hefðu í för fyrir Reykvíkinga. „Það
gefur jú auga leið að draga þarf úr framkvæmd-
um hér á höfuðborgarsvæðinu og hefur fjármála-
ráðuneytið gefið það út að slíkur samdráttur
þyrfti að vera a.m.k. 10%. […] Sem fulltrúi Reyk-
víkinga í borgarstjórn er erfitt að samþykkja
framkvæmd sem hefur svo neikvæð áhrif í för
með sér á stöðu mála í borginni og hlýtur að verða
að skoðast í samhengi við þá arðsemi sem reikna
má út að sé fullnægjandi fyrir Reykvíkinga sem
eigendur í Landsvirkjun. Og út frá hagsmunum
Reykjavíkurborgar og þeirra sem hér búa, er
einnig erfitt að samþykkja veðsetningu vegna
þessara lána, þó svo að ólíklegt sé að þessar lán-
veitingar falli á Reykjavíkurborg. Að mínu viti
kemur ekki til álita að skuldsetja borgina umfram
heildareignir með þessari framkvæmd.“ Ef-in í
málinu væru hreinlega of mörg.
Flýta þarf framkvæmdum
Alfreð Þorsteinsson, oddviti Framsóknar í
R-listanum, sagði rétt að grípa þyrfti til mótvæg-
isaðgerða þegar framkvæmdirnar hæfust. „At-
vinnuleysi hefur stungið sér niður í Reykjavík og
það er mikið undirliggjandi atvinnuleysi hér í
borginni. Hér er ungt námsfólk nýkomið úr námi
með skuldabyrði, hér er verslunarfólk, verkafólk
og fólk úr öllum geirum sem gengur um atvinnu-
laust. Við höfum skyldur borgarfulltrúar við þetta
fólk eins og við höfum skyldur við náttúru lands-
ins.“
Alfreð sagði það liggja fyrir að farið yrði í fram-
kvæmdir við Kárahnjúka og í Reyðarfirði. Þess
vegna þyrfti Reykjavíkurborg væntanlega þegar
á þessu ári að grípa til aðgerða til að flýta fram-
kvæmdum hvort sem það væri í skólamálum,
íþróttamálum, gatnamálum eða orkumálum. „Það
þarf jafnvel að fara í lántökur til að fara í þau
veigamiklu verkefni sem bíða og örva atvinnulífið
í borginni á þessu ári og fram eftir næsta ári. Það
er mjög brýnt að við skoðum þessi mál heildstætt
og eyðum ekki of miklu púðri í ákvörðun sem þeg-
ar hefur verið tekin á Alþingi Íslendinga. Málið er
einfaldlega þannig að fyrir okkur liggur að sam-
þykkja eða synja ábyrgð á lánum Landsvirkjun-
ar, í raun og veru er ekkert sem okkur kemur við
annað umfram það.“
Ríkissósíalismi sem ber að forðast
Stefán Jón Hafstein, oddviti Samfylkingarinn-
ar innan R-listans, spurði hversu langt ætti að
ganga í að veita styrki frá hinu opinbera. Hér ætl-
uðu ríki og borg að veita erlendum álframleið-
anda opinbera styrki í formi lægri vaxta á lánum
til orkuvinnslu fyrir þennan eina kaupanda. Ekk-
ert fyrirtæki á Íslandi nyti viðlíka fyrirgreiðslu,
né heldur myndi nokkurt annað eiga möguleika á
slíkum kjörum. Slík væri stærð framkvæmdar-
innar.
„Ríkissósíalismi af þessu tagi hefur marga
ókosti sem varast ber.“ Virkjunin væri ekki hluti
af almenningsveitukerfi landsins en í því tilviki
væri rökrétt að ýmsu leyti að veita ábyrgð.
Stefán Jón sagði að ríkisvaldið hefði, í málefn-
um virkjunarinnar, gengið framhjá öllum nútíma-
legum viðhorfum um kröfur sem gera yrði til
svona framkvæmdar. Ein krafan væri sú að þau
náttúruspjöll væru verðmetin og kæmu fram sem
kostnaðarliður við arðsemisreikninga. Álfram-
leiðandinn ameríski fengi orkuverðið niðurgreitt
sem næmi náttúru Íslands. „Staðreyndin er þessi:
Jafnvel lágt mat á náttúruspjöllum við Kára-
hnjúka, upp á 300–500 milljónir á ári, mun koll-
varpa arðsemisútreikningum.“
Þá væri Alcoa undanþegið sköttum og skyld-
um. „Og ekki nóg með það. Landsvirkjun greiðir
ekkert auðlindagjald. Við tölum um sægreifa sem
eiga ríkisrekinn einkaaðgang að auðlindum hafs-
ins, en greiða þó auðlindagjald til málamynda.
Það mál hefur slitið sundur friðinn í landinu í ára-
tugi. Hér er verið að efna til nýrrar stéttar ál-
greifa. Þeir þurfa ekki að greiða mengunarskatta,
þurfa ekki að greiða fyrir verðmætaspjöll í nátt-
úrunni, þurfa ekki að greiða orkuverð sem end-
urspeglar eðlilega skatta framleiðandans og því
síður auðlindagjöld.“
Stefán Jón sagði að til samans gerðu fórnirnar
öll þessi áform öll að „stærstu framkvæmd ríkis-
sósíalista á Íslandi fyrr og síðar“ nú
þegar kjöraðstæður væru til að nýta
frumkvæði einstaklinga til að hreinsa
til í lúnum atvinnuvegum og rífa upp
nýjar greinar.
Guðlaugur Þór Þórðarson, borgar-
fulltrúi Sjálfstæðisflokks, sagði að hann hefði
aldrei heyrt pólitískan samherja tala með þeim
hætti um það fólk sem starfar með honum og
Stefán Jón hafi gert. „Hann kallaði þá sem styðja
þessa ákvörðun ríkissósíalista og sagði að þeir
væru að fara með efnahagslífið aftur að Breshn-
ev-tímanum,“ sagði Guðlaugur Þór. Benti hann á
að Stefán væri formaður framkvæmdastjórnar
Samfylkingarinnar og þeir sem Stefán kallaði rík-
issósíalista væru m.a. Ingibjörg Sólrún Gísladótt-
ir borgarstjóri.
hnjúkavirkjun samþykktar í borgarstjórn undir háværum mótmælum af áhorfendapöllum
Morgunblaðið/Sverrir
tan Ráðhús Reykjavíkur þegar borgarstjórn tók ábyrgðarmálið fyrir. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gerir hér grein fyrir atkvæði sínu.
mhverfi, arðsemi
issósíalisma“
Ábyrgðir á
lántöku
ólöglegar?
Valdníðsla
og virðing-
arleysi
nina@mbl.is