Morgunblaðið - 27.01.2003, Blaðsíða 21
gengni við börn sem fullorðna. Skip-
aði ekki fyrir en stakk upp á verk-
efnum og lausnum. Það var mikil
fjölskyldustemmning í starfsliði
skólans. Við Svarfdælingar höfðum
gengið í gegnum erfitt sundurlynd-
istímabil. Svo gerðum við Björn að
oddvita, rígurinn hvarf og menn
undu sáttir.
Birni Þórleifssyni var svo margt
gefið að helmingurinn var meira en
nóg. Hann vann hluti fljótt og vann
sér þá leikandi létt, hvort sem það
var að setja saman stundaskrár, mat-
búa til veislu, semja greinargerðir
eða stjórna verkum í skóla og fé-
lagsmálum. Hann var afar næmur og
minnugur á tónlist og gamansöngv-
ari af guðs náð sem söng af sannri
músík. Hann var sá hraðkvæðasti
maður sem ég hef nokkurn tíma
kynnst eða mun kynnast. Ég held
líka sá minnugasti á allt mögulegt,
merkilegt og ómerkilegt. Og lét lítið
yfir öllu sem hann gerði. Hann leysti
verkefni sín eins og sjálfkrafa í krafti
náðargáfu en ekki af kappsemi eða
metnaði. Kannski var sá styrkur í
raun veikleiki hans. Þegar verkið var
unnið gerði hann um það brandara
og hló að.
Björn hafði ytra borð sem hann
hélt að heiminum. Það var fullt af
glensi og hlátri. Í góðra vina hópi og
góðu tómi var hann stundum eins og
síflæðandi brunnur fyndni og snjall-
yrða. Áreynslulaust. Sáldraði kring-
um sig gullkornum með eftirhermi,
skopsögum og vísum, oft um við-
stadda. Maður var staddur í revíu.
Aðrir gátu bara hallað sér aftur,
hlegið og notið náðargjafarinnar.
Hann gat líka alveg vent kvæðinu í
kross og talað í alvöru, sýndi þá
næman skilning á mönnum og mál-
efnum, nærfærni við náungann og
fundvísi á kjarna mála. Þá var ekki
síður gott að hlusta á hann og hlýða
hollum ráðum.
Ég vissi þó að hann var bæði skap-
ríkur og viðkvæmur. Og líklega voru
dökkir blettir í sálinni sem gátu
stækkað. En hann faldi þá og faldi
vel. Aldrei myndi hann bera harma á
torg, og ógjarnan biðja um hjálp.
Líklega var það annar veikleiki hans.
Leiðin lá fram á svarta bakkann.
Eitthvað rak hann þar fram af. Eng-
inn veit hvað. Einkunnarorðin gætu
því verið hið fornkveðna:
Glaður og reifur
skyli gumna hver
uns sinn bíður bana.
(Úr Hávamálum.)
Þórarinn Hjartarson.
Það var mikið reiðarslag að fá
fréttirnar af andláti Björns föstudag-
inn 17. janúar. Svo margt sem þaut í
gegnum hugann.
Björn og Júlla og foreldrar mínir
hafa verið miklir vinir frá því að ég
man eftir mér. Þau hafa eytt ófáum
stundum saman og þegar við börnin
vorum að alast upp fengum við alltaf
að vera með. Ógleymanlegar eru all-
ar ferðirnar norður í Svarfaðardal.
Þar var alltaf svo gaman og gott að
vera. Allir höfðu nóg fyrir stafni,
hvort sem það var utan eða innan
dyra.
Tvö sumur, rétt áður en ég komst
á unglingsaldurinn, fékk ég að vera
barnapía á Húsabakka. Þá var ég ein
af fjölskyldunni á Húsabakka og
Björn lét það skýrt í ljós að ef ég ætl-
aði að fá að giftast honum Lárusi þá
yrði ég að fara að borða fisk.
Vorið 1998 ákvað ég að prófa að
flytja ein til Akureyrar og kenna við
Brekkuskóla. Ég vissi að ég fengi að
vera inni á gafli hjá fjölskyldunni í
Holtagötu og þar sem ég var ein var
visst öryggi í því að vita til þess að ég
ætti þar fjölskyldu. Um sumarið var
Björn svo ráðinn skólastjóri við sama
skóla. Það gladdi mig mikið þegar ég
vissi að Björn yrði yfirmaður minn í
þessu nýja starfi. Núna finnst mér
það svo mikils virði að hafa ekki ein-
ungis fengið að vera mikið inni á
heimili hans þessa þrjá vetur sem ég
bjó fyrir norðan heldur líka að hafa
fengið að starfa með honum allan
tímann.
Þegar ég útskrifaðist úr Háskóla
Íslands var haldin veisla og Björn
sagði þar nokkur orð. Hann byrjaði á
því að þakka Gumma fyrir að sjá til
þess að ég yrði lengur fyrir norðan.
Mér þótti svo vænt um þessi hnyttnu
orð Björns. Hann var aldrei í vand-
ræðum með að koma fyrir sig orði.
Sagnagleðin var mikil og milli jóla og
nýárs las ég sögu eftir hann, sem nú
er komin á prent, um það þegar lúsin
kom í Holtagötuna. Ég hafði oft
heyrt þessa sögu og nú er svo mikils
virði að hún skuli vera komin í bók.
Ég sé Björn fyrir mér að horfa á
fótbolta með bauk í hendi, stýra
kennarafundum, elda mat í Holtagöt-
unni, segja skemmtilegar sögur …
myndirnar í huganum eru ótal marg-
ar. Þegar ég horfi á myndirnar er
mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa
þekkt Björn, vænan mann sem var til
staðar fyrir mig og átti þátt í uppeldi
mínu.
Elsku fjölskylda, hugir okkar eru
hjá ykkur. Guð veri með ykkur.
Ásdís Arnalds.
Hann byrjaði sem hver annar dag-
ur, föstudagurinn 17. janúar, en
seinnipartinn fengum við þær skelfi-
legu fréttir að vinur okkar, hann
Björn, hefði kvatt þetta líf. Kvatt
fjölskylduna, vinina og lífið. Eftir
stöndum við og spyrjum en fáum
engin svör. Við sumu er engin svör að
hafa.
Þau Björn og Júlla höfðu verið ná-
grannar okkar í um 12 ár í Holtagöt-
unni þegar þau fluttu sig yfir ána á
síðasta ári. Margt hefur verið gert á
þessum árum, en upp úr standa allar
okkar gleðistundir. Mikið grín og
sprell hefur verið gert t.d. á stóraf-
mælum okkar hér í götunni.
Mörgum helgum á sumrin eyddum
við saman á „hverfispallinum“, morg-
unmatur ekki óalgengur, sem teygð-
ist yfir í grill um kvöldið með sjálfan
grillmeistarann Björn við kolin.
Spjall, grín, stökum fleygt og sagðar
sögur. Þriggja daga stórhátíðin okk-
ar, „Halló Holtagata“, eins og Björn
nefndi hana, er hefð og skiptir engu
þótt burt sé flutt, hátíðin síðast bara
færð í Borgarsíðuna og þar gist.
Jólagleði, þorragleði, Illugastaða-
ferðir, alltaf fjör, sögur, skyldusögur
og söngur. Við höfum upplifað ým-
islegt saman: barnauppeldi (lúsina),
fermingar, stúdenta, giftingar, afa og
ömmutitla og nú sorgina.
Björn var mikill gleðimaður en bar
ekki tilfinningar sínar og innstu
hugsanir á torg. Eitthvað brast á bak
við grímu gleði og kátínu. Nú er hann
farinn og stórt skarð höggvið í okkar
hóp, en við yljum okkur við góðu
minningarnar um vænan vin og
kveðjum hann með trega. Áfram
munum við halda okkar stundir án
hans, og jafnvel segja sögurnar hans,
með hann í hugum okkar.
Elsku Júlla, vonandi getum við
stutt þig og styrkt um ókomna tíð.
Sigga Ásta, Þórhildur, Lárus,
Héðinn og Tolli, megi minningin um
góðan pabba veita ykkur styrk.
Holtagötugengið:
Ester – Nói, Þóra – Sigurjón,
María – Ágúst, Ása – Einar
og börn.
Stundum verður framvinda lífsins
með öllu óskiljanleg, eins og þegar
við heyrðum af skyndilegu fráfalli
Björns vinar okkar. Við erum þrumu
lostin og botnum ekki neitt í neinu.
Síðan þá hafa minningar frá 30 ár-
um ruðst fram. Í huganum höfum við
hlustað á Björn flytja listilega frum-
samda bragi með einstökum orða-
leikjum og orðgnótt. Oft söng hann
þá með sinni fallegu rödd og flutti
með tilþrifum sem hver lærður leik-
ari væri fullsæmdur af. Hann var svo
sannarlega fremstur meðal jafningja
í vinahópnum sem skemmti sér sam-
an í þrettándaveislunum í Byggða-
veginum.
Hugurinn hefur leitt okkur í bóka-
leik í jólaveislunum á Húsabakka og
við höfum endurlifað Evrópuferðina
með Birni og Júllu, þar sem snilling-
urinn batt ferðasöguna í rím og
stuðla með einni limru á dag. Við
höfum setið með kaffibolla á Bláu
könnunni með vínarbrauðsdrengja-
kórnum, verið í ævintýralegu fer-
tugsafmæli Björns og Júllu á Grund-
inni og snætt gómsæta rétti
listakokksins Björns í Holtagötunni.
Einnig höfum við síðustu dagana
gengið í huganum í fylgd göngu-
garpsins Björns upp að Nykurtjörn,
inn á Skíðadal og svo auðvitað á
Skálakambinn. Og ennþá fyrr var
Björn náinn vinur á stúdentabænum
á Kringsjá. Auk alls þessa leita á
hugann bjartar minningar um snjall-
an og afkastamikinn fagmann og
hugmyndaríkan vinnufélaga.
Minningarnar taka engan enda og
rauði þráðurinn er glaðværð og
snilld. Nú ræður djúp sorg ríkjum í
hugum okkar, ásamt spurningunni
stóru um það af hverju svona hafi
þurft að fara. En við erum umfram
allt afar þakklát fyrir að hafa átt
svona góðan og gjöfulan vin.
Elsku Júlla, Þórhildur, Sigga
Ásta, Tolli, Héðinn, Lárus og Hörð-
ur. Við sendum ykkur og öðrum ást-
vinum Björns okkar innilegustu sam-
úðarkveðjur.
Valgerður og Teitur.
Við minnumst ótal góðra stunda í
litlum vinahópi hérna við Eyjafjörð-
inn. Þetta byrjaði löngu áður en við
fluttum norður og var eitt af því sem
heillaði okkur til að flytja hingað. Við
minnumst síðustu Þorláksmessu. Við
tókum þátt í friðargöngu frá Akur-
eyrarkirkju og niður á Ráðhústorg.
Þetta var ganga gegn stríði. Um
kvöldið sátum við saman og spjöll-
uðum um heimsmálin, stríðshætt-
una, um allt milli himins og jarðar.
Þrátt fyrir að hörmungarnar vofðu
yfir var skemmtilegt þetta kvöld.
Þetta var eitt af þessum kvöldum
fullt af alvöru og gamni. Björn var
þar að vanda hrókur alls fagnaðar
þótt stríðið væri honum ofarlega í
huga. Kannski var þessi dagur lýs-
andi fyrir Björn.
Hans lífsstarf var á sviði mann-
legra samskipta, mannúðarmála og
skólastarfs. Hann var alls staðar far-
sæll í starfi, skemmtilegur og hlýr í
samskiptum og kom öllum málum til
betri vegar. Hann var þekktastur
fyrir snjallar ferskeytlur og gaman-
kvæði. Þrátt fyrir léttleikann á ytra
borði ólgaði undir samúðin með þeim
sem minna mega sín, samúð með
þeim sem líða fyrir illa meðferð, of-
sóknir og stríð.
Það er stórt skarð höggvið í vina-
hópinn með fráfalli Björns. En hann
lifir samt áfram með okkur, hann lifir
í skáldskap sínum og skemmtilegum
sögum og hann lifir í söknuðinum.
Ekkert verður sem fyrr en samt
heldur lífið áfram. Minningin um
yndislegan mann mun tengja okkur
enn sterkari böndum en áður.
Elsku Júlla og börn. Við stöndum
frammi fyrir dapurlegri staðreynd
og gerum best með því að reyna að
nýta okkur þá erfiðu reynslu okkur
öllum til góðs. Innilegustu samúðar-
kveðjur.
Ingibjörg Hjartardóttir og
Ragnar Stefánsson.
Það var á sólfögrum ágústdegi ár-
ið 1998 sem Björn Þórleifsson
hringdi til mín og spurði hvort ég
gæti fundið sig að máli. Spurning
Björns kom mér nokkuð á óvart þar
sem við á þessum tíma vorum varla
meir en málkunnugir. Báðir áttum
við það þó sameiginlegt að við höfð-
um sóst eftir að verða skólastjórar
við Brekkuskóla þegar staða skóla-
stjóra var auglýst nokkru fyrr um
sumarið og hafði Björn hreppt
hnossið. Erindi hans var að kanna
hvort ég gæti hugsað mér að starfa
með honum sem aðstoðarskólastjóri
alla vega næstu tvö árin, en honum lá
á svari, tíminn var naumur þar sem
skóli hæfist senn. Eitthvað gerði það
að verkum að ég taldi mig ekki þurfa
að hugsa mig lengi um. Það var ým-
islegt í fari þessa manns sem gerði
mig vissan um að ég væri að gera
rétt. Betri og elskulegri samstarfs-
og yfirmann gat ég ekki hugsað mér.
Strax í upphafi samstarfs okkar kom
í ljós að við höfðum býsna líkar skoð-
anir á því hvernig staðið skyldi að
skólahaldi og með hvaða hætti best
væri að umgangast börn og unglinga
og raunar fólk yfirleitt. Það var Birni
afar kært að sjá þegar viðkvæm mál
nemenda okkar fengu farsælan endi
og það voru forréttindi að fá að fylgj-
ast og læra af með hvaða hætti hann
tók á málum þegar mest á reyndi.
Það má segja að þá hafi honum farn-
ast best.
Brekkuskóli var í raun ný stofnun
sem hafði aðeins starfað í eitt ár. Því
þurfti víða að taka til hendi við að
samhæfa og samræma. Til þessara
verka gekk Björn af mikilli einurð en
jafnframt sérstakri nærgætni og
skilningi á því að ekki voru allir á eitt
sáttir um réttmæti þess að gömlu
skólarnir væru sameinaðir. Því var
alls ekki vandalaust að stýra því upp-
byggingarstarfi sem framundan var.
Það er mín bjargfasta skoðun að án
Björns Þórleifssonar hefði ekki tek-
ist jafn vel til og raun ber vitni. Þar
vó þungt einstakur léttleiki hans og
kímnigáfa ásamt afburða hæfni til að
laða fram það jákvæða og góða í
hverjum einstaklingi.
Síðastliðið vor hafði Björn ákveðið
að fara í námsleyfi og setjast á skóla-
bekk við Háskólann á Akureyri til að
auka enn við þekkingu sína á stjórn-
unarsviðinu. Ekki síst fyrir orð
Björns og fullvissu um að hann kæmi
aftur til starfa tók ég að mér að stýra
Brekkuskóla í fjarveru hans. Fram
undan voru krefjandi tímar þar sem
tekin hafði verið ákvörðun um að
byggja við skólann og breyta eldra
húsnæðinu á óvenjulegan og spenn-
andi hátt. Ég vissi að Björn hlakkaði
til að takast á við að móta skólann í
nýju húsnæði og leysa margháttuð
og ögrandi verkefni á undirbúnings-
tímanum. Því til staðfestingar starf-
aði hann af miklum áhuga með verk-
efnisliðinu að undirbúningi fram-
kvæmda þrátt fyrir að vera í leyfi frá
störfum.
En á einu augnarbliki hefur sú
vissa um að okkur auðnaðist að vinna
áfram með okkar öfluga starfsliði að
vexti og viðgangi Brekkuskóla orðið
að engu. Eftir stendur allt skólasam-
félagið hnípið með óteljandi spurn-
ingar sem aldrei verður svarað. En
minningin um góðan vin og félaga
stendur eftir. Ég kveð kæran starfs-
félaga og vin sem ég gat óhræddur
leitað til og fengið hjá stuðning og
leiðbeiningu sem ég þurfti á að halda
hverju sinni.
Fyrir hönd okkar allra í Brekku-
skóla, jafnt starfsfólks sem nemenda,
þakka ég fyrir réttsýna og mannbæt-
andi leiðsögn. Júlíönu og öðrum að-
standendum votta ég mína dýpstu
samúð og bið Guð að blessa þau öll.
Sigmar Ólafsson.
Haustið 2000 settist sundurleitur
hópur kennara saman á skólabekk í
HA með einbeitta sýn á meistara-
gráðu í fyllingu tímans. Skóladagur-
inn var oft langur og í hádeginu þeg-
ar flest okkar settust niður til að
nærast skrapp brosmildur Björn frá
til að stjórna skólanum sínum af
alefli í klukkutíma. Svo var hann
mættur á ný og dró tebrúsann sinn
upp úr brúnni skjóðu og gerði okkur
hinum skömm til þegar kennararnir
hlýddu okkur yfir.
Á föstudögum áttu klukkugarm-
arnir það til að hægja á sér og þegar
doði sótti að mannskapnum, oftast
um fjögurleytið þegar aðferðafræðin
varð þreyttum heilabúum ofviða, gát-
um við treyst því að brátt myndi
Björn slengja fram vísukorni andan-
um til upplyftingar. Þannig verður
minningin: Klukkan að verða fjögur
á föstudegi, Björn og brosið, tebrús-
inn, brúna taskan og vísurnar.
Við söknum góðs drengs og minn-
ingin um hann mun lifa með okkur
áfram í námi og starfi. Við sendum
eiginkonu, börnum og aðstandendum
okkar dýpstu samúðarkveðjur.
Bekkjarsystkini í HA.
Fallinn er frá á besta aldri öðling-
urinn Björn Þórleifsson, skólastjóri
Brekkuskóla á Akureyri.
Björn tók við skólanum í brotsjó-
um sameiningar Gagnfræðaskóla
Akureyrar og Barnaskóla Akureyr-
ar. Mörg okkar höfðu haft spurnir af
þessum glaða og reifa dreng gegnum
hans góðu konu, Júlíönu Lárusdótt-
ur, sem kenndi við skólann lengi, og
kom svo aftur til starfa með okkur
eftir nokkurt hlé, svo og þeirra
mannvænlegu börn, sem stunduðu
hér nám um árabil.
Breytingarnar voru óeðlilega örar
á þessum tíma. Fór Björn fyrir liði
sínu af mikilli festu en þó af fullri
kurteisi og vann að því markmiði að
gera Brekkuskóla að góðum skóla
sem skipaði sér í raðir hinna fremstu.
Þegar mest mæddi á stóð hann við
stýrið líkur sjósóknurum fortíðar,
rýnandi í stórhríðarbylinn og gætti
jafnt að áhöfn sem ágjöf, enda
þrælsjóaður í fyrri störfum í
mennta-, félags- og öldrunargeira.
Þegar lendingu var náð, vildu margir
„Lilju kveðið hafa“.
Baráttan var hörð fyrir bættri að-
stöðu við skólann og gladdi það Björn
mjög þegar ákvörðun var tekin um
veglega nýbyggingu seint á síðasta
ári.
Björn var ekki maður æsinga eða
hávaða, en brá gjarnan fyrir sig
kímni og hinu bitra vopni, ferskeytl-
unni, enda var maðurinn yfirlýstur
„öryrki“ í hópi kvæðamanna. Ófáar
vísur og jafnvel kvæðabálkar liggja
eftir hann í skólanum ortar af marg-
víslegu tilefni, svo sem auglýsingar
um kennarafundi, spaugileg afrek
starfsmanna og frásagnir af misvitr-
um ákvörðunum yfirvalda.
Stjórn Björns á skólanum var sér-
lega góð og farsæl, hann treysti sínu
starfsfólki og var hann því mjög góð-
ur. Fyrir það þökkum við nú.
Mikill harmur er að fjölskyldunni
kveðinn. Við biðjum um styrk fyrir
Júlíönu, börnin og aðra aðstandend-
ur í sorg þeirra.
Starfsfólk Brekkuskóla.
Og sjálfur vísdómssæði í tímans skaut
ég sáði líka – og þennan ávöxt hlaut
af allri minni ræktun, vökva og von:
„Sem vatn ég kom og fer sem gola á braut.“
(Omar Khayyam: úr Rubaiyat.)
Eins og garðyrkjumaðurinn hlúir
að og vökvar sprota sína, sem eiga að
vaxa og dafna, hlúir skólafólk að ung-
um skjólstæðingum sínum.
Nemendur Björns Þórleifssonar
eru orðnir æði margir í gegnum tíð-
ina. Þeir eiga eftir að minnast kenn-
ara og skólastjórnanda með virðingu,
ánægju og þökk. Björn var ötull við
að benda nemendum á að allt nám
ætti eftir að nýtast til góðs, þó svo að
þeir hygðu ekki á langskólanám.
Einnig lagði hann mikið upp úr því að
rækta með nemendum víðsýni, sam-
viskusemi og benda á að hver ein-
staklingur væri mikilvæg fyrirmynd
þeirra sem yngri væru í skólasam-
félaginu. Mannræktarstarf af þessu
tagi hefur aldrei verið auðvelt en
enginn velkist í vafa um mikilvægi
þess.
Við sem störfuðum með Birni sem
skólastjórnendur á Akureyri vitum
að stundum gefur á bátinn og róð-
urinn getur verið okkur erfiður um
tíma uns við komumst aftur á lygnari
sjó. Þá er gott að koma saman, ræða
málin og heyra skoðanir samstarfs-
manna.
Björn var lítið fyrir það að flækja
mál eða velta þeim á undan sér og
var oft fljótur að finna góðar lausnir
á hinum ýmsu viðfangsefnum sem
allir gátu unað við. Samhugur hefur
verið góður í hópnum okkar og það
var ekki síst Birni að þakka. Oftast
sá hann skoplegar hliðar á hinum
ýmsu málum sem við vorum að fást
við, þannig að fundirnir okkar voru
skemmtilegir, ekki síður en gagnleg-
ir.
Allt of fljótt er komið að kveðju-
stund. Skarð er höggvið í hóp okkar
og við söknum vinar í stað. Við þökk-
um Birni fyrir samstarf og góðar
stundir og biðjum honum guðs bless-
unar.
Við sendum Júlíönu og fjölskyld-
unni allri okkar innilegustu samúðar-
kveðjur.
Skólastjórnendur á Akureyri.
Kveðja frá Kór
Akureyrarkirkju
Hann var hrókur alls fagnaðar.
Húmorinn aldrei langt undan. Vísna-
gerðin eins og að drekka vatn. Söng
fyrsta bassa.
Björns Þórleifssonar er sárt sakn-
að. Hann var einstakur félagi sem við
öll höfðum miklar mætur á. Fyrir
nokkrum árum gekk hann í raðir
okkar félaga í Kór Akureyrarkirkju
og æ síðan var hann ómissandi bassi,
var lengi vel sjálfkjörinn raddfor-
maður. Björn hafði yndi af söngnum
og inn á milli atriða skaut hann fram
húmorískum vísum eða limrum.
Ekkert var honum óviðkomandi í
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 27. JANÚAR 2003 21