Morgunblaðið - 20.02.2003, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 20.02.2003, Blaðsíða 22
LISTIR 22 FIMMTUDAGUR 20. FEBRÚAR 2003 MORGUNBLAÐIÐ Hvað er myndlist? Sem betur fer er ekkert svar til við þessari spurningu, svo mörg eru þau og ekkert þeirra það rétta. Í hugum margra okkar er myndlist skilgreind eftir þeim miðlum sem listamaðurinn vinnur í, myndlist er: málverk, höggmyndir o.s.frv. Allt fram á tuttugustu öld mátti ganga að myndlistinni vísri innan þessa ramma. Tuttug- asta öldin kom svo fram með margar nýjar skil- greiningar á eðli, eiginleikum, hlutverki og markmiðum myndlistarinnar. Í dag virðast svo flestar þessar hugmyndir vera við lýði samtímis, fjölbreytnin er mikil og listamenn hafa frjálsar hendur sem aldrei fyrr. Í Evrópu hafa spurningar um tengsl listar og samfélags, hlutverk og ábyrgð listamanna gagn- vart samfélaginu reglulega komið upp hjá lista- mönnum, ekki eingöngu myndlistarmönnum, þessi spurning hefur líka verið áleitin innan ann- arra listgreina. Í myndlistinni voru það fútúr- istar, dadaistar og súrrealistar sem hvað fyrstir sprengdu af sér ramma viðtekinna hugmynda um listina, form hennar og hlutverk, en þessar hreyfingar náðu auðvitað líka til fleiri listgreina. Á sjöunda og áttunda áratug komu svo fram stefnur eins og Fluxus-stefnan sem vildi sam- einingu lífs og listar, einn af forsvarsmönnum hennar var þýski listamaðurinn Joseph Beuys. Fluxus-stefnan náði nokkurri fótfestu hér á landi, til dæmis kom hún fram í verkum Magn- úsar Pálssonar. Umræðan um hlutverk lista- manna í samfélaginu var mjög ofarlega á baugi á sjöunda, áttunda og níunda áratug síðustu ald- ar, um tíma má segja að hún hafi gengið jafnvel of langt í svokallaðri pólitískri réttsýni, eða P.C. Minnihlutahópar áttu upp á pallborðið og hinn hvíti gagnkynhneigði karlmaður átti undir högg að sækja. Þetta tímabil er nú liðið en umræðan um listir og samfélagið hefur haldið sínu striki, alla vega meðal ákveðins hóps listamanna. Á síð- ustu Dokumenta-sýningu í Kassel, sýningu sem á að birta stefnur og strauma á fjögurra ára fresti, áttu umræður að vera í brennidepli. Einn- ig mátti sjá þar nokkuð af myndböndum sem höfðu kannski fyrst og fremst heimildagildi, m.a. um ástandið í samfélögum þriðja heims landa. Nú hefur Ósk Vilhjálmsdóttir rofið þögnina sem hefur ríkt um nokkurt skeið varðandi mál- efni af þessum toga í íslenskri myndlist. Ósk er myndlistarkona sem á undanförnum áratug hef- ur unnið margs konar verk sem hafa samfélagið sérstaklega að viðfangsefni. Nú velur hún að nota myndlistina sem vettvang fyrir umræðu í Galleríi Hlemmi. Þar hefur hún komið fyrir borði, stólum, korktöflu og kaffi. Yfirskrift Ósk- ar er Eitthvað annað og vísar til þess að vera má að eitthvert okkar óski eftir einhverju öðru en því sem meginstefna efnishyggjusamfélagsins býður upp á. Meðan á verkefninu stendur boðar hún reglulega til umræðufunda þar sem um- ræðuefnið er m.a. listin og samfélagið, hvað er gott líf, o.s.frv. Allir eru velkomnir að koma og láta í ljós skoðanir sínar í töluðu máli eða með myndum eða textum sem fá sinn stað á korktöfl- unni. Þetta er afar þarft framtak hjá Ósk, því bæði er að umræða um þessi mál er tímabær meðal íslenskra myndlistarmanna og líka virðast fáir íslenskir listamenn hafa áhuga á að brjótast út úr því viðtekna formi sem við þekkjum öll: að búa til hluti og sýna þá í þar til gerðum listsýn- ingarsölum. Þá á ég auðvitað ekki við að öll sú vinna sé fánýt eða minna áhugaverð, heldur það að Ósk er hér að vekja athygli á einum geira inn- an listarinnar sem virðist hafa verið dálítið van- ræktur. Enn fremur hefur verið talað um svo- kallaða krúttkynslóð, kynslóð afar lofandi, ungra listamanna sem vissulega vinna á fjöl- breyttan og sterkan hátt í verkum sínum en við- horf þeirra til hlutverks listamannsins virðast nokkuð hefðbundin. Spurningin um ábyrgð listamannsins gagnvart samfélaginu er áleitin í þessu sambandi. Ósk hefur hér stigið fyrsta skrefið í átt að því að opna fyrir umræðu, ekki aðeins meðal lista- manna heldur allra í samfélaginu. Ég veit ekki hvort hinn almenni vegfarandi leggur leið sína í Gallerí Hlemm til að viðra skoðanir sínar, en honum stendur það alla vega til boða og vonandi að sem flestir noti tækifærið. Listasafn Íslands Listasafn Íslands hefur nú opnað nýtt sýning- arrými í kjallara, ætlað til að kynna áhugaverða samtímalist. Fyrsti listamaðurinn sem verður fyrir valinu er Anna Líndal, myndlistarkona og prófessor við Listaháskóla Íslands. Anna er fædd 1957 og hefur unnið að list sinni í meira en áratug, hún hefur mikla sýningarreynslu að baki. Það hefði verið spennandi að fá að sjá stóra yfirlitssýningu á verkum Önnu í einhverjum stærri sala safnsins, en nú verðum við að láta okkur kjallarann duga. Sú skilgreining sem safnið gefur á ætlunarverki þessa kjallararýmis vekur upp spurningar um hvert hlutverk hinna sala safnsins sé. Eitthvað finnst mér bogið við að safnið ætli áhugaverðri samtímalist sérstaklega afgangsrými í kjallara. Það getur heldur ekki verið ætlunin, rýmið er líklega frekar hugsað fyrir minni sýningar, nú eða til að sýna mynd- bandsverk eins og Anna gerir nú en kjallarinn hentar sæmilega til þess þó full lágt sé til lofts og þröngt til veggja. Hráefni verka Önnu Líndal einkennast af miklum andstæðum. Annars vegar eru gjarnan hversdagslegir, oft kitsaðir, heimilishlutir eins og leirtau af ýmsum toga, heklaðir dúkar, hlutir úr brenndum leir með hraunáferð eins og vinsæl var á áttunda áratugnum, hlutir sem hafa yfir sér séríslenskan sveitalegan heimilisbrag. Hún hefur einnig gert mörg stórskemmtileg sauma- verk þar sem tvinni og garn fá nýtt hlutverk, gjarnan í tengslum við leirtau og aðra hluti og nú síðast hefur hún líka saumað tuskudýr. Þess- ir heimilishlutir Önnu hafa yfir sér hlýlegt yf- irbragð, stundum svo jaðrar við innilokunar- kennd. Þar á móti kemur svo íslensk náttúra og veður í öllu sínu kalda og hrjóstruga, eða sum- arblíðuveldi. Náttúruna og veðrið sýnir Anna á myndbandsskjám eða varpar myndböndum sín- um á vegg. Verk hennar fela í sér sterka sýn á íslenskt hversdagslíf og hvað það felur í sér að búa á okkar blessaða landi. Hin upphitaða inni- lokun mætir ofsa náttúrunnar og einhvern veg- inn rennur þetta saman í eitt eins og það gerir líka í okkur Íslendingum. Í Listasafninu sýnir Anna þrjár innsetningar. Heimilissamstæðan er sú flóknasta af verkun- um þar sem saman kemur nútíð og fortíð, menn- ingararfleifð okkar og birtingarmátar náttúr- unnar innan dyra og utan. Myndbandið Jöklakúrekar sýnir íslenska karlmenn undirbúa jeppaferð á jökulinn. Einnig hér birtist sam- band manns, hluta, tækni og náttúru á skemmti- legan hátt. Í innsta rýminu varpar Anna annars vegar myndbandi af skafrenningi á snævi þöktu landslagi, líklega jökli, á vegg. Verkið er fallegt og auðvelt að gleyma sér við að horfa á snjófok- ið, en tæknilegir hnökrar spilla dálítið fyrir, ein- hver hristingur á myndatökuvélinni verður til þess að verkið nær sér ekki alveg á strik. Í sama rými sýnir hún svo myndbandsverk á skjá og tuskubrúður, kona og hundur horfa á ísi þakinn jökul og þrjár sólir á lofti. Þetta er fallegt verk en um leið í því undirtónar. Tuskubrúðurnar minna á yfirborðinu á úttroðninga Magnúsar Pálssonar frá áttunda áratugnum, eða úttroðin verk Gabríelu Friðriksdóttur, en í samhengi verka Önnu fá þau aðra merkingu og ná að tengjast íslenskri handverks- og föndurhefð ásamt ýmsu kvenlegu bardúsi á fyndinn hátt sem er ekki án ádeilu. Það er friður yfir þeim skötuhjúum þar sem þau sitja límd við skjáinn, en um leið eru þau hræðilega vansköpuð eitt- hvað og vantar hálfpartinn höfuðið á tusku- konuna, þar sem hún situr innandyra og nýtur náttúrunnar á sjónvarpsskjá. Verk Önnu ná ætíð að vinna sér sess í minn- inu og lifa góðu framhaldslífi hjá áhorfandanum eins og áhugaverðri íslenskri samtímalist ber að gera. Hvað er áhugaverð samtímalist? MYNDLIST Gallerí Hlemmur Til 2. mars. Gallerí Hlemmur er opið miðvikudaga til sunnudaga frá kl. 14–18. EITTHVAÐ ANNAÐ, UMRÆÐUR OG HUGMYNDIR, ÓSK VILHJÁLMSDÓTTIR Eitthvað annað. Inni fyrir í Galleríi Hlemmi er samnefnd sýning Óskar Vilhjálmsdóttur. Listasafn Íslands Til 16. mars. Listasafnið er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 11–17. BLÖNDUÐ TÆKNI, ANNA LÍNDAL Frá sýningu Önnu Líndal í nýju rými í kjallara Listasafns Íslands. Ragna Sigurðardóttir „ÞETTA gengur alveg æðislega vel,“ sagði Sigrún Eðvaldsdóttir að lokinni æfingu með Sinfóníu- hljómsveit Íslands í gær, en hún leikur Fiðlukonsert eftir bandaríska tónskáldið Samuel Barber með hljómsveitinni á tónleikum í Há- skólabíói kl. 19.30 í kvöld. „Þetta er rosalega rómantískur konsert, og Barber viðurkenndi það alveg sjálf- ur. Hann var ekkert að reyna að elta það sem tónskáld á hans tíma voru að fikra sig áfram með, samdi bara það sem hann langaði. Hann samdi konsert fyrir nemanda sinn við Curtis-tónlistarskólann í Fíladelfíu. Pabbi nemandans átti fullt af pen- ingum og borgaði Barber fyrir að semja verk fyrir son sinn. En þegar Barber sýndi honum verkið, fannst pabbanum þetta ekki vera nógu erf- itt. Honum fannst þetta allt of auð- velt. Barber ákvað að bæta úr því og gerði þriðja þáttinn mjög erfiðan. Þá komu skilaboð um að konsertinn væri orðinn of erfiður. En svo var einhver annar nemandi fenginn til að spila í gegnum hann að gamni, og það lukkaðist vel, þannig að Barber ákvað að breyta engu meir. Síðasti kaflinn er því mjög erfiður og dálít- ið eins og Stravinskíj; – skemmti- legur með rytmum á víxl og mjög flottur. Það er bara ótrúlegt að konsertinn skuli ekki hafa verið spilaður hér heima áður. Þetta er einn af gimsteinum 20. aldarinnar. Þeir sem hafa heyrt verkið og þekkja það hafa hrifist af því um leið.“ Verk Barbers eru lítið þekkt hér heima, utan kannski nokkur söng- lög, og svo langþekktasta verk hans, Adagio, sem heyrist nokkuð oft. „Ég er ekki frá því að hægi kaflinn minni svolítið á Adagio-ið, það er óstjórn- lega falleg tónlist; – langir, hægir frasar sem fljóta áfram.“ Barber lærði sjálfur við Curtis-tónlistar- skólann, þar sem konsertinn varð til þegar hann var þar seinna meir sem kennari. Sigrún stundaði líka fiðlu- nám í Curtis. „Ég finn fyrir þessum tengslum. Þegar ég var í Curtis var þar æfingaherbergi sem hét Barber- Menotti herbergið. Þar hékk risa- stór mynd af honum á vegg, og þar æfðum við kammertónlist.“ Sigrún segir það hafi tekið tals- verðan tíma að æfa konsertinn, hún hafði aldrei æft hann upp áður. „Ég var nú orðin töluvert stressuð, mikið að gera hjá mér og ég var komin í hönk með þetta. En sem betur fer tókst það á endanum. Þegar maður var loksins komin inn í verkið gekk þetta mjög vel. Ég keypti mér raddskrá og svo á ég fjóra geisla- diska með mismunandi fiðluleik- urum, og það er gaman að hlusta á þá. Þetta eru Hillary Hahn, Gil Shaham og Hu Kun, kínverskur fiðluleikari sem býr í London. Ég þekki hann – hann er vinur minn og lærði í Beijing hjá pabba Lin Wei sem spilar með okkur í hljómsveit- inni – áður en hann fór í Menuhin- skólann. Síðast en ekki síst á ég verkið með Isaac Stern, og það er æðisleg upptaka, með Bernstein að stjórna New York-Fílharmóníunni. Það er mitt uppáhald.“ Sigrún segir ekki rétt sem sagt sé, að ungir fiðlu- leikarar í dag spili allir eins. „Þau hafa hvert sinn stíl á þessu og það er svo gaman.“ Hljómsveitarstjórinn sem upp- haflega átti að stjórna tónleikunum í kvöld forfallaðist, og í hans stað var fenginn Svisslendingur með íslenskt nafn, Baldur Brönnimann. „Ég er svo ánægð með hann; hann er frá- bær: ljúfur, klár og yndislegur. Ég hef aldrei fengið jafn góðan æfinga- tíma með hljómsveitinni og það er algjör lúxus. Verkið er líka stórt og erfitt fyrir hljómsveitina, þannig að ég er alveg í skýjunum.“ Önnur verk á efnisskrá kvöldsins eru Le Rouet d’Omphale eftir Saint- Saëns, og Gæsamömmusvíta og Valsinn – hvort tveggja eftir Ravel. Sigrún Eðvaldsdóttir leikur Fiðlukonsert eftir Samuel Barber með Sinfóníuhljómsveit Íslands „Rosalega róman- tískur konsert“ Morgunblaðið/Halldór Kolbeins Sigrún Eðvaldsdóttir á æfingu með Sinfóníuhljómsveit Íslands í gær.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.