Morgunblaðið - 22.04.2003, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 22.04.2003, Blaðsíða 23
skipti þá engu hvaða tíma dagsins það var, alltaf voru pottarnir á hellunum fullir af mat sem hún hitaði upp jafn- óðum og gest bar að garði og lét móð- an mása um þjóðmálin. Hún útvegaði börnum og barna- börnum sumarvinnu og okkur hjón- unum útvegaði hún fyrstu leigu- íbúðina með því að telja eigandanum trú um að við ættum eitt barn og ætl- uðum ekki að eiga fleiri. Alltaf var hún að skipuleggja ferðalög. Hún var haldin vissri óþreyju og vildi helst alltaf vera á ferð og flugi. Ef hún komst ekki í fyrirfram ákveðið ferða- lag þá fór hún bara í það í huganum. Öll hefting var henni á móti skapi og átti hún erfitt með að sætta sig við þegar minnið fór að gefa sig og hún gat ekki lengur farið frjáls ferða sinna. Hún taldi sig færa í flestan sjó og skildi alls ekki hvers vegna hún var allt í einu komin á Grund. Hún undr- aðist þessa frelsisskerðingu og spurði mig hvort ég vissi ekki að manneskja yrði fyrst gömul þegar hún umgeng- ist eingöngu gamalt fólk. Hún neitaði að horfast í augu við ellina, hugsaði eins og ung manneskja allt fram í andlátið. Þetta var Bergljót. Ég kveð með söknuði greinda, skemmtilega og litríka tengdamóður mína sem kom mér sífellt á óvart með óvenjulegri lífssýn sinni og lífsorku. Öllu starfsfólki á Grund eru færðar alúðarþakkir fyrir frábæra umönn- um. Ásthildur. Látin er í hárri elli elskuleg tengdamóðir mín Bergljót Guttorms- dóttir. Kynni okkar höfðu staðið í rúman aldarfjórðung eða allt frá þeim tíma, að við Guttormur sonur hennar geng- um í hjónaband. Mér var vel tekið á Lynghaganum og þá kynntist ég þeim sterku fjölskylduböndum sem þar ríktu. Heimili þeirra Ólafs var öruggt athvarf ekki bara börnum og barnabörnum, heldur einnig vinum og ættingjum. Bergljót var fædd og uppalin á Hallormsstað á Fljótsdalshéraði og þeim stað unni hún umfram aðra. Tryggð hennar við æskustöðvarnar, ættingjana og vinina fyrir austan rofnaði aldrei. Bergljót var hafsjór af fróðleik um fólk og staðhætti eystra og miðlaði samferðafólkinu óspart af þeim fróð- leik. Það var gaman að hlusta á hana segja frá lífinu fyrir austan og þeim miklu breytingum sem hún upplifði í búskaparháttum og heimilishaldi. Hún sagði mér frá því er hún fór á hverju sumri með börnin ung austur á Hallormsstað. Ferðalag landshorna á milli á þeim tíma var þó ekkert áhlaupaverk, en bjartsýni hennar og kjarki var alla tíð við brugðið. Henni var mikið í mun að afkom- endurnir hlytu góða menntun enda var hún sjálf mjög vel menntuð kona á þess tíma mælikvarða, með próf frá Samvinnuskólanum í Reykjavík og Kennaraskólanum. Hennar helsti starfsvettvangur varð samt heimilið. Þar gat hún helgað sig fjölskyld- unni, umönnun og velferð barna og barnabarna og allra þeirra sem þurftu á aðstoð að halda. Margir leit- uðu til hennar, enda var hún einstak- lega ráðagóð og útsjónarsöm. Berg- ljót talaði hins vegar oft um það, að hlutskipti ungra kvenna í dag væri ekki öfundsvert. Þótt hún hefði á sín- um búskaparárum ekki haft yfir að ráða öllum þeim tækjum sem í dag létta okkur heimilisstörfin, þá var verksviðið þrengra og konur ekki eins margskiptar á milli heimilis, náms og vinnu. Árin eftir að Ólafur lést voru Berg- ljótu erfið. Heilsan var þegar farin að bila fyrir lát hans og hrörnun og elli sóttu á. Umhyggjan fyrir fjölskyld- unni var henni samt alltaf efst í huga. Tveir sona hennar voru erlendis þeg- ar hún lagðist banaleguna, en hún beið með að kveðja þar til þeir voru báðir komnir heim. Nú þegar leiðir skilja þakka ég þér samfylgdina og þá umhyggju sem þú sýndir fjölskyldu minni alla tíð. Guð blessi þig. Aðalbjörg Ólafsdóttir. Lygn streymir Lögurinn, mjólkur- hvítur, frá jöklum til hafs, spóinn í kjarrinu vellur. Æskan á Hallorms- stað vakir yfir túnum fram í dagrenn- ingu svo nýgræðingurinn fái vaxið. Snæfellið er svefndrukkið í ársólinni. Heimasætan á Hallormsstað er brátt búin að standa næturvaktina með bróður sínum, Páli og tími til kominn að haska sér í háttinn, því um kvöldið er von á Ella í Geitagerði sem ætlar að þeyta munnhörpuna fyrir dansi eins og honum einum er lagið. Amma Elísabet er á fótum, hún vekur yfir- leitt hrafnana. Nikulás vinnumaður er kominn á ról og er að undirbúa rún- ingu sauðpeningsins. Hann signir alltaf fjárhúsdyrnar áður en hann lýk- ur þeim upp. Á morgun verður svo riðið í Vallanes til messu. Það er hæð yfir Austurlandi, maríutása á suður- himni. Fljótsdalsheiðin er morgun- björt. Amma Begga sagði mér stundum að öll æska sín hefði liðið eins og in- dælt vor. Og það var einsýnt. Þá var ekkert rafmagn, enginn sími til að slúðra í eins og hún orðaði það. Börn- in byggðu bæi úr torfi og grjóti á fjósakambinum, riðu á prikum milli bæja, horn fyrir kindur. Amma henn- ar Elísabet var sagnabrunnur sem börnin duttu í. Sögur af Jóni dúða voru vinsælar. Hún kunni firnin öll af vísum, þulum og rímum. Foreldrum Elísabetar varð ellefu barna auðið. Aðeins þrjú komust á legg. Húsfreyj- an á Hallormsstað, Sigríður Gutt- ormsdóttir, Vigfússonar prests á Stöð í Stöðvarfirði sem m.a. kom Einari Ben. til manns þegar Guttormur þjónaði á Svalbarð, spilaði tíðum á orgelið og söng með. Orgelið var heimanmundur Sigríðar þegar hún var gefin frænda sínum Guttormi Pálssyni Vigfússonar. Þá kenndi hún öllum vinnukonum á bænum lancer og aðra samkvæmisdansa. Já, þetta voru austfirskir sveitasælutímar. Og skammt frá var Seyðisfjörður, áning- arstaður Botníu á áætlunarleiðinni til Edinborgar. Ingi T. að skrifa tónlist, Eyjólfur Jónsson að stilla upp fyrir fjölskyldumyndatöku og fullbókað á hárgreiðslustofunni. Amma innritaðist í Húsmæðra- skólann hjá föðursystur sinni Sigrúnu Blöndal sem las meðal annars mennt- unarkenningar Bertrands Russell á Bretlandi af móði. Kreppan kom og amma fór að vinna í Kaupfélagi Hér- aðsbúa á Reyðarfirði. Þar nældi hún í afa sem var nú töluvert afrek því hann var svo laglegur. Óli í Hermes var kvennagull. Svo var hann líka gull af manni. Saman fetuðu þau lífsgötuna farsællega. Þau fluttu suður. Amma settist á skólabekk á Sölvhólsgötunni, eignaðist vildarvinkonu, Steinu og fékk framsóknarvígslu hjá Hriflu- Jónasi. Amma var efni í stjórnmála- skörung. En það voru ekki markmið kvenna á þeim tíma. Hún kenndi þess í stað, rak saumastofu, seldi Bretun- um fish and chips, handskrifaði bók- hlöður af orðabókarmiðum og rak fram á síðustu ár Lynghaga 8 sem var annálað heilsuhæli, jafnt fyrir kost- gangara sem framlága fjölskyldu- meðlimi. Ró hennar var stóísk. Eitt sinn þegar hún heimsótti okkur í Mý- vatnssveit, þá hófust Kröflueldar með tilheyrandi jarðhræringum. Til stóð að rýma byggðarlagið því hraunelfur- inn stefndi á byggðina. Þá fór amma og lagði sig og hvatti pabba til að gera slíkt hið sama. Okkur ömmu varð iðulega skraf- drjúgt því hún hafði frá svo miklu að segja. Um hana og allt sem hún vissi mætti skrifa margt og mikið. Eftir stendur að líf ömmu minnar var auðnumikið. Og það var auðna mín að eiga ömmu Beggu. Það er merkilegt hvað sumt fólk hefur mikil áhrif. Áhrifin seytla um allt umhverfi þess, eins átakalítið og lækur um máða steina. Þannig var amma. Hún var forsætisráðherrann í ættinni. Sendi- herra Austurlands í höfuðborginni. Ung kona stóð hún á tindi Snæfells með Unni Jónsdóttur venslakonu sinni og Unni Briem, fyrstar kvenna. Nú er skógardísin á burt. Snæfellið krýnir Fljótsdalinn. Ríki þess er bæði himinn og jörð. Halldór Friðrik Þorsteinsson. Ég kynntist Bergljótu Guttorms- dóttur um 1960 í gegnum Sigríði Helgu (Sirrý), vinkonu mína og dótt- ur hennar. Seinna styrktust tengslin þegar ég kynntist eiginmanni mínum, Lofti, hálfbróður Beggu. Það var mannmargt og fjörugt á Lynghaganum um 1960. Hið rólega yfirbragð heimilisföðurins Ólafs var skemmtilegt mótvægi við hamagang- inn í sonunum. Þeir voru eins og þeytispjald út og inn, myndarlegir á velli og íþróttamannslegir í fasi. Með- an þeir stöldruðu við sátu þeir gjarn- an í eldhúsinu að snæðingi þar sem Begga hafði nánast brytjað matinn ofan í lystuga syni sína. Barnabörnin voru afar tíðir gestir á Lynghaganum og sum þeirra bjuggu þar um lengri eða skemmri tíma. Amman Bergljót var fastur punktur í tilveru þeirra og þau undu sér sann- arlega vel í því létta andrúmslofti sem hún skapaði með barngæsku sinni og glaðværð. Begga var nefnilega í hlut- verki Ömmunnar með stórum staf sem tók að ákveðnu marki að sér upp- eldishlutverkið meðan foreldrarnir stunduðu vinnu. Slíkar ömmur eru nú orðnar sjaldgæfar, enda uppteknar á vinnumarkaðnum eins og foreldrarn- ir – því miður fyrir börnin en vonandi til hagsbóta fyrir jafnrétti kynjanna. Begga tók mér einkar vel þegar ég tengdist Guttormsættinni eins og ég kallaði fjölskyldu Lofts. Stutt var í ættarstoltið hjá mágkonu og hún naut þess að leiða mig inn í leyndardóma flókinna fjölskyldutengsla sem ekki var heiglum hent að henda reiður á. Fróðleikurinn vildi því fljótlega hripa úr stopulu minni mínu en Begga lét sig ekki muna um að endurtaka lex- íuna við næsta tækifæri. Ætli það verði ekki Sirrýjar að taka við þessu hlutverki að Beggu genginni? Eins og áður segir var glaðværðin áberandi þáttur í fari Beggu. Kímni- gáfa hennar kom sér t.d. einkar vel þegar hálfbræður hennar, allir vinstra megin í pólitíkinni, voru í heimsókn á hinu rótgróna framsókn- arheimili. Begga hafði lag á að varpa fram skringilegum athugasemdum, sem sneru alvöruþrungnum samræð- um upp í skellihlátur. Sat svo hver við sinn keip og menn skildu alltaf sáttir. Í ekkjudómi sínum naut Begga mikils ástríkis og umönnunar barna sinna og tengdabarna. Til dæmis flutti Sirrý heim á Lynghagann til að vera móður sinni innan handar þegar heilsan fór að bila. Gleðilegt var að sjá í fyrra hversu Begga naut til fullnustu 90 ára afmælisveislunnar sem börn hennar héldu henni með glæsibrag. Ég sé hana fyrir mér þar sem hún sat eins og drottning í samkvæminu miðju og horfði stolt á myndarlegan ættbogann. Sú mynd af Beggu verður mér lengi minnisstæð. Hanna Kristín Stefánsdóttir. Þegar Eggert, yngsti sonur Bergljótar Guttormsdóttur og Ólafs Bjarnasonar, varð tengasonur okkar Ragnheiðar á tíunda áratugnum rifj- uðust upp fyrir mér gamlar minning- ar austan af Héraði þar sem Bergljót ólst upp og átti rætur. Fjölskylda mín sem bjó á Eskifirði fór á hverju sumri upp í Hallorms- staðarskóg og voru þessar ferðir mik- ið tilhlökkunarefni. Skógurinn var ekki fjölsóttur af ferðamönnum í þá daga því bílvegur náði ekki þangað inneftir fyrr en eftir 1930. Ferðamenn sem ekki voru ríðandi urðu því að fara með vélbáti frá Egilsstöðum inn í Atlavík. Þótt minnið sé farið að dapr- ast um löngu liðna atburði staðfesta ljósmyndir, sem teknar voru í þessum skógarferðum, að Bergljót, dóttir skógarvarðarins, annaðist móttöku ferðamanna sem komu til að njóta náttúruparadísarinnar við Lagarfljót með dyggri aðstoð heimilisfólksins á Hallormsstað. Skýrari mynd hef ég af Bergljótu þegar ég var ellefu ára eitt sumar í snúningum hjá Guttormi skógarverði og Guðrúnu, seinni konu hans. Berg- ljót var ekki heima nema stuttan tíma þetta sumar en ég minnist þess glöggt hve falleg ung stúlka hún var, tignarleg og heillandi í framkomu. Ár- in liðu en löngu eftir sumarið góða á Hallormsstað hringdi Bergljót til mín austur í Egilsstaði. Erindið var að spyrja hvort ekki vantaði kennara við barnaskólann næsta vetur en Eggert sonur hennar var að útskrifast sem stúdent og langaði til að dvelja vetr- arlangt á bernskuslóðum móður sinn- ar áður en hann færi til frekara náms. Mörgum árum síðar giftist Sigrún, dóttir okkar, fyrrverandi kennara sín- um og kynnin við Bergljótu og fjöl- skyldu hennar endurnýjuðust. Berg- ljót var þá orðin fullorðin en sama reisnin yfir henni, hún var framúr- skarandi skemmtileg og kunni frá mörgu að segja frá liðnum dögum. Austurland var okkur báðum kært og umræðuefnin óþrjótandi. Bergljót var með afbrigðum barngóð og því fengu sameiginlegu barnabörnin okk- ar, Páll Ragnar og Margrét Þórhild- ur, að kynnast. Hún var af þeirri kyn- slóð sem fór með vísur og barnagælur til að gleðja lítil börn og fengu barna- börnin að njóta þess. Ég og fjölskylda mín þökkum fyrir að hafa fengið að kynnast þessari merku konu sem verður minnisstæð öllum sem hún átti samleið með. Börnum hennar og fjöl- skyldum þeirra vottum við innilega samúð. Páll Halldórsson. Það var á björtu sumarkvöldi í Ósló fyrir tæpum 30 árum að ég var svo heppin að kynnast þeim hjónum Bergljótu og Ólafi á heimili Sirrýjar dóttur þeirra. Eftir stutt og glaðleg orðaskipti voru komin á kynni sem áttu eftir að vara. Sérstæð tilsvör Bergljótar, sem hafa glatt mig æ síðar, létu ekki á sér standa þetta kvöld. Gott dæmi um það var þegar barst í tal að við Sirrý ætluðum að fara á ölkrá síðar um kvöldið, þá sagði Bergljót að bragði: „Borgar það sig?“ Þá var mikið hlegið. Þetta gaf tóninn um það sem framundan var þegar fundum okkar Bergljótar bar saman. Sjónarhorn hennar á lífið og tilveruna var mér á ýmsan hátt nýstárlegt og umhugsunarefni sem endist. Er mér þar einkar minnisstætt að þótt aldurinn hefði sinn gang var aldrei á það minnst, heldur hugað að fram- tíðinni eins og ekkert væri. Raunar var sama hvað við ræddum um, hvort sem það voru ógleymanlegar frásagn- ir af Hallormsstað, börnin og barna- börn, dægurmálin eða framtíðaráætl- anir, orðheppnin og húmorinn var slíkur að ég fór alltaf glöð af þeim fundum. Þó að hallaði undan fæti hjá Berg- ljótu á allra síðustu árum bar hún gæfu til að halda upp á níræðisafmæl- ið sitt með glæsibrag. Þar ríkti glaumur og gleði, mikið sungið. Berg- ljót sat teinrétt í stólnum og geislaði af gleði. Sá fagnaður var sannarlega í henn- ar anda. Að leiðarlokum er kominn tími til að þakka fyrir sig. Aðstandendum votta ég samúð mína. Þorgerður Benediktsdóttir. MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 22. APRÍL 2003 23 Símar 581 3300 - 896 8242 Allan sólarhringinn - Áratuga reynsla Suðurhlíð 35 — Fossvogi — www.utforin.is Sverrir Olsen, útfararstjóri. Sverrir Einarsson, útfararstjóri. Bryndís Valbjarnardóttir, útfararstjóri. Baldur Frederiksen, útfararstjóri. ÚTFARARSTOFA ÍSLANDS Ástkær eiginkona mín, móðir okkar, tengda- móðir og amma, Guðný Halla Jónsdóttir, ljósmóðir, Fjólugötu 3, Akureyri, lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri mánu- daginn 14. apríl. Útför hennar fer fram fra Akureyrarkirkju miðvikudaginn 23. apríl kl. 13.30. Blóm og kransar vinsamlegast afþakkað, en þeir sem vildu minnast hennar er bent á að láta Krabbameinsfélagið njóta þess. Gudmund Knutsen, Jón Guðmund Knutsen, Jóna Birna Óskarsdóttir, Gunnar Sverre Knutsen Brynja Viðarsdóttir og ömmubörn. Elskuleg fósturmóðir mín, tengdamóðir, amma og langamma, MÍNERVA KRISTINSDÓTTIR, Hraunbúðum, Vestmannaeyjum, verður jarðsungin frá Landakirkju miðvikudaginn 23. apríl kl. 16.00. Sigríður Mínerva Jensdóttir, Kristinn Skæringur Baldvinsson, Sigurjón Kristinsson, Þórir Kristinsson Auður Hermannsdóttir, Baldvin Kristinsson, Áslaug Þórdís Gissurardóttir og langömmubörn. Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, KRISTÍN BENEDIKTSDÓTTIR, áður til heimilis að Smáratúni 2, Selfossi, andaðist að Hjúkrunarheimilinu Ljósheimum, Selfossi sunnudaginn 20. apríl 2003. Jarðarförin fer fram föstudaginn 25. apríl 2003 kl. 13.30. Sólveig Jónsdóttir, Oddbjörg Jónsdóttir, Einar Sumarliðason, Guðfinnur Jónsson, Helga Emilsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.