Morgunblaðið - 04.05.2003, Síða 37
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 4. MAÍ 2003 37
✝ Steinunn Júlíus-dóttir fæddist á
Miðjanesi í Reykhóla-
sveit 31. janúar 1920.
Hún lést á Reykja-
lundi 13. apríl síðast-
liðinn. Foreldrar
hennar voru Júlíus
Jóhann Ólafsson, f.
20. júlí 1863, d. 25.
mars 1941, og Helga
Jónsdóttir, f. 26. des-
ember 1880, d. 15.
apríl 1939. Bróðir
Steinunnar var Ját-
varður Jökull Júl-
íusson, f. 6. nóvember
1914, d. 15. október, 1988, og hálf-
systir Jóhanna Eyjólfa Ólafía Júl-
íusdóttir Linnet, f. 6. mars 1890, d.
29. apríl 1968.
Steinunn giftist 9. ágúst 1958
Runólfi Jónssyni, f. 28. janúar
1927, d. 11. febrúar 1991. Sonur
Steinunnar og Sigurðar Sveins
Karlssonar, f. 12. febrúar 1927, er
Sveinn Erling, f. 26. janúar 1946,
kona hans er Kolbrún Björk Haf-
liðadóttir, f. 6. apríl 1950. Synir
Sveins og Kolbrúnar eru: 1) Run-
ólfur Bjarki, f. 5. nóvember 1966,
kona hans er Guðrún Helga Brynj-
ólfsdóttir, f. 15. maí
1970. Börn þeirra
eru Arnar Már, f. 25.
september 1993 og
Sigrún Björk, f. 30.
september 1997. 2)
Víðir Már, f. 19. mars
1974. 3) Steinn Einir,
f. 9. nóvember 1976,
sambýliskona hans
er Aina Björk Más-
dóttir, f. 10. október
1978. Dóttir Runólfs
Jónsonar er Erla, f.
26. nóvember 1957.
Steinunn lauk
barnaskóla í heima-
sveit sinni en nam síðan við
Reykjaskóla í Hrútafirði og einn
vetur við Kennaraskóla Íslands.
Hún vann ýmis störf en 1958 varð
hún vistmaður á Vinnuheimilinu á
Reykjalundi og eftir útskrift réðst
hún til starfa á skrifstofu Reykja-
lundar. Steinunn og Runólfur
bjuggu fyrst á Reykjalundi en
byggðu sér hús í Gerði í Mos-
fellsbæ, 1963. Steinunn fluttist í
Hlaðhamra 2 í Mosfellsbæ 1992.
Útför Steinunnar var gerð frá
Lágafellskirkju 22. apríl í kyrr-
þey.
Steina Júl, eins og hún var alltaf
kölluð, var föðursystir mín. Að leið-
arlokum langar mig að minnast
hennar. Saga hennar er um margt
sérstök. Sem barn veiktist hún af
astma og hafði það mikil áhrif á allt
hennar líf. Hún gat lítið verið úti en
lá oft og lengi í rúminu og lærði
snemma að lesa. Faðir hennar útveg-
aði henni lesefni meðal annars á
dönsku og þannig lærði hún að lesa
dönsku án teljandi aðstoðar. Einu
snúningarnir sem hún gat farið í var
ríðandi á hestum, þannig gat hún sótt
kýrnar eða farið í sendiferðir.
Hún lauk gagnfræðaprófi frá
Reykjaskóla en svo varð hún að
hverfa frá námi við Kennaraskólann
vegna veikinda. Það voru mikil von-
brigði því hún átti létt með nám. Oft
var hún lengi á sjúkrahúsum, t.d.
sagði hún mér frá því þegar hún var á
St. Jósefsspítala, þar lá hún lengi en
þegar hún fór að hressast fór hún að
hjálpa þeim sem voru veikari. Þá var
hún ráðin starfsmaður og flutti út í
starfsmannahúsið. En þar var eitt-
hvað sem hún þoldi ekki og veiktist
og fór aftur inn á spítalann. Í tvö ár
var hún þarna starfsmaður en svaf
inni á sjúkrastofu hjá sjúklingunum
því hún veiktist af einhverjum ástæð-
um ef hún fór í starfsmannahúsið.
Seinna var hún á Reykjalundi og
þar fann hún ástina. Þar kynntist
hún Runólfi Jónssyni sem einnig var
þar sjúklingur en hann hafði þjáðst
af berklum. Ég hef oft hugsað um
hvað lífið hefur verið sérstakt á
berklahælunum, þarna lá ungt fólk
sem barðist við alvarlegan sjúkdóm,
margir dóu, enginn vissi hver yrði
næstur. Þarna batst fólk sterkum til-
finningaböndum og þarna urðu til
hjónabönd.
Steina og Runi voru einstakt par,
leiðir þeirra lágu saman í rúm 30 ár
eða þangað til Runi lést árið 1991 eft-
ir tveggja ára baráttu við heilaæxli.
Þau byggðu sér hús við Varmá,
Gerði, og bjuggu þar og unnu bæði á
Reykjalundi, Steina á skrifstofunni
en Runi sá um allt utanhúss. Þegar
við komum á Reykjalund getum við
litast um og séð hvað öllu hefur verið
vel fyrir komið í upphafi, það eru
verkin hans Runa. Hann var líka einn
af þeim sem aldrei lét sér verk úr
hendi falla. Var alltaf að dytta að ein-
hverju, gróðursetja og snyrta. Við
Gerði byggði hann gróðurhús þar
sem þau ræktuðu rósir og ýmislegt
fleira, í garðinum var heimagerð laug
og í einu horninu á garðinum var það
sem Steina kallaði íslenska holtið
sitt, þar hélt hún ósnertu horni en
bætti inn íslenskum plöntum sem
þau söfnuðu í óbyggðum. Þau
byggðu sér sumarbústað heima á
Miðjanesi en hann hvarf í snjóflóði
1995 og þá missti hún ákaflega mikið.
Nú stendur þar aðeins eftir skógar-
lundurinn sem Runi gróðursetti.
Steina og Runi voru sérstaklega
samhent og hún saknaði hans óskap-
lega eftir að hann fell frá. Þau ferð-
uðust mikið innan lands og utan og
þau kunnu einstaklega vel að njóta
náttúrunnar, sáu fegurð í hverri
plöntu og steini.
Steina eignaðist son, Svein, fyrir
hjónaband og hann var augasteinn-
inn hennar og einnig synir hans.
Í vetur þegar ég heimsótti Steinu
eftir að hún var orðin alvarlega veik
talaði hún alltaf um hvað það hefði
verið gaman þegar maðurinn minn
bauð þeim í sjóferð frá Reykhólum
og inn að Miðhúsum. Í okkar huga
var þetta ekki merkilegt en fyrir
hana hafði þetta verið upplifun sem
gaf henni mikið.
Steina var einstaklega orðheppin
og gat verið bráðfyndin. Hún var
mjög listræn og naut þess að lesa
góðar bækur og fara í leikhús. Hún
hafði mjög ákveðnar skoðanir t.d. á
nöfnum. Hún varð mjög glöð þegar
ömmudrengurinn minn var skírður
Júlíus eins og faðir hennar hafði heit-
ið. Hún gaf honum mynd af langafa
sínum og nafna sem við munum varð-
veita fyrir hann.
Seinustu árin voru nokkuð erfið
fyrir frænku mína. Frænkur hennar
og vinkonur margar voru látnar og
hún saknaði þeirra. Í rauninni var
hún farin að bíða eftir að fá hvíldina.
Steina og Runi fengu bæði að liggja
banaleguna á Reykjalundi og vil ég
nota tækifærið og þakka fyrir góða
þjónustu við þau þar.
Hafðu bestu þökk fyrir allt, kæra
frænka.
María Játvarðardóttir.
Það var haustið 1937 að ég kynnt-
ist Steinunni Júlíusdóttur er hún
settist á skólabekk í Reykjaskóla í
Hrútafirði. Þá var ég aðeins 11 ára en
hún 19. En svo skrítið sem það nú var
fann ég aldrei neinn aldursmun, en
þannig var Steina, gat jafnt átt sam-
leið með börnum sem fullorðnum.
Síðan hefur okkar vinátta staðið.
Steina var vel undir skóla búin
bæði vegna greindar og hve lesin hún
var. Einnig var heilsu hennar þannig
háttað að hún þoldi illa líkamlega
vinnu, en hún var mjög mikill astma-
sjúklingur, og hafði því meiri tíma til
lestrar. Steina var afar sérstæður
persónuleiki og skilur eftir sterkar
minningar hjá samferðarfólki. Strax
þegar astmaköstin voru liðin hjá gat
hún hlegið að okkur sem alltaf vorum
dauðhrædd um að hún væri að deyja.
Steina lauk prófi frá Reykjaskóla
1939 og minntist vistar sinnar þar
sem sælutíma. Þar voru skólaskáldin
Böðvar Guðlaugsson, Sveinbjörn
Hannesson og einnig Steina en hún
var prýðilega hagorð. Svo lá leið
Steinu í Kennaraskólann en þá varð
hún svo slæm til heilsunnar að hún
varð að hætta námi. Hún fór þá vest-
ur í Reykhólasveit en þaðan í vistir
og vann um tíma á Reykjaskóla.
Árið 1946 eignaðist Steina son,
Svein Erling Sigurðsson viðskipta-
fræðing, sem hefur ásamt sinni úr-
valskonu, Kolbrúnu Hafliðadóttur,
gert henni lífið sem léttbærast. Árið
1958 fór Steina á Reykjalund sér til
hressingar og síðan vinnu en hún
vann þar á skrifstofunni eins og ald-
ur leyfði. Á Reykjalundi kynntist hún
mannsefni sínu, Runólfi Jónssyni frá
Vopnafirði, sem hafði komið þangað
sjúklingur en var búinn að ná heilsu á
ný. Þau byggðu húsið Gerði í Mos-
fellsbæ.
Samhentari hjón er vart hægt að
hugsa sér, lestur góðra bóka, ferða-
lög og spilamennska var þeirra yndi
ásamt því að rækta garðinn sinn, sem
varð sem gróðurvin í höndum þeirra.
Stofnuðum við fljótlega bridsklúbb
og spiluðum við hálfsmánaðarlega.
Var þá alltaf glatt á hjalla. Og svo
þurftu þeir sem töpuðu að borga
brúsann. Þegar nóg var komið í pott-
inn var farið í leikhús. Klúbburinn
var starfræktur meðan heilsa Run-
ólfs leyfði og verður ávallt ein af góðu
minningunum. Runólfur var einstak-
ur maður, skemmtilegur með af-
brigðum, fróður og víðlesinn. Gest-
risni þeirra hjóna var rómuð og
ekkert til sparað til að láta fólki líða
vel. Þau byggðu sér sumarbústað á
Miðjanesi og nutu í nokkur ár, en þá
féll á hann snjóflóð og hann eyðilagð-
ist. Runólfur veiktist og eftir stranga
legu andaðist hann 1991, langt fyrir
aldur fram. Ári seinna flutti Steina í
íbúð að Hlaðhömrum, heimili aldr-
aðra í Mosfellsbæ.
Þótt Steina væri heilsutæp bugað-
ist hún aldrei og við sem vorum
heilsuhraust dáðumst oft að því sem
hún færðist í fang. Hún veiktist í des-
ember sl. og lá rúmföst þar til yfir
lauk hinn 13. apríl.
Þeir sem kynntust Steinu munu
minnast hennar sérstæða persónu-
leika sem örugglega hefur hjálpað
henni að yfirvinna margar, að okkur
virtist, óyfirstíganlegar hindranir.
Með þakklæti kveð ég og mitt fólk
Steinunni Júlíusdóttur.
Anna.
STEINUNN
JÚLÍUSDÓTTIR
hans og börn þeirra gerðu sér grein
fyrir því að kallið gat komið á hverri
stundu, en þó síst þegar það kom,
því Ásgeir hafði verið með hressasta
móti þann 25. apríl, daginn fyrir
andlátið.
Samgangur milli heimila okkar
var með slíkum ágætum að aldrei
bar skugga á. Kynnin voru meiri í
upphafi árin ’66-’70 af Löllu og
börnunum vegna fjarveru Ásgeirs
við störf en hann var matreiðslu-
maður um langt skeið í Olíustöðinni
í Hvalfirði, einnig á skipum og hjá
ýmsum fyrirtækjum. Ásgeir var al-
staðar vel látinn, vandaður í hví-
vetna, léttur í lund og afbragðs yf-
irmaður. Börn þeirra bera með sér
gott uppeldi heimilisins, með vand-
aðri framgöngu og umhyggju fyrir
samfélaginu og samborgurum. Ás-
geir var hrókur alls fagnaðar í vina-
hópi. Við hjónin áttum með þeim
Löllu ljúfar stundir sem við geym-
um í minningunni. Ógleymanleg er
ferð til Mallorka í fyrstu sumarleyf-
isferð okkar hjóna á erlenda grund,
þá fórum við í góðum vinahópi með
þeim Löllu og Ásgeiri og þau báru
umhyggju fyrir okkur eins og við
hjónin værum systkini þeirra.
Nokkurra ára aldursmunur var
aldrei merkjanlegur, börn okkar
jafnaldra eyddu þeim mun. Það eru
ógleymanlegar stundir þegar dætur
þeirra hjóna voru að passa fyrir
okkur á þeim árum þegar við vorum
að baslast við að standa undir því að
koma undir okkur fótum varðandi
húseign og heimilishald. Þau hjónin
Lalla og Ásgeir létu sig ekki muna
um að hafa auga með báðum heim-
ilum ef svo bar til.
Þó Ásgeir beitti gjarnan glað-
værð og glettni var honum mjög
umhugað um jafnræði þegnanna,
réttlæti og velferð. Hann unni Akra-
nesi, okkar heimabyggð, og vildi veg
þess sem mestan, hann var glöggur
á samferðamenn, en ég heyrði hann
aldrei hallmæla nokkrum manni en
hann átti til að segja að það væri
misjafn sauður í mörgu fé. Við sökn-
um Ásgeirs, vildum hafa verið dug-
legri í samskiptum sl. ár en að leið-
arlokum kveðjum við heilsteyptan
félaga og vin. Við vottum fjölskyld-
unni, Löllu, börnum, tengdabörnum
og barnabörnum okkar innilegustu
samúð á sorgarstundu og biðjum
um styrk ykkur til handa.
Edda, Gísli S. Einarsson
og fjölskylda.
Oft verður okkur hjónum hugsað
með söknuði til verslunarinnar
Traðarbakka og hjónanna þar
þeirra Ásgeirs og Löllu. Þessi litla
verslun sem þau hjón ráku þar skip-
aði svo ótrúlega stóran sess í dag-
legu lífi fjölskyldunnar allt frá því
að við fluttum á Vesturgötuna árið
1985 og þar til búðin hætti. Það var
svo þægilegt að skreppa út í búð,
spjalla við þessi yndislegu hjón, fara
á bakvið og drekka kaffisopa, spjalla
um börnin, skólann, lífið og til-
veruna. Varla leið sá dagur að ekki
væri litið við. Oftast til að versla en
líka til þess eins að hitta þau og
spjalla. Þegar búðinni var lokað
fundum við hversu miklu hafði skipt
að þau væru þarna kaupmannshjón-
in á horninu, alúðleg og skemmtileg.
Börnin okkar gátu hlaupið út í
búð eftir ýmsu smálegu, ef þau
vantaði eitthvað í svangan maga var
bara farið út í Traðarbakka og það
sótt, allt sett í reikning. Stundum
vorum við hjón ávítuð af hagsýni
fólki fyrir að versla allt okkar til
heimilisins hjá þeim hjónum. Við
vildum hins vegar hafa þessa versl-
un hjá okkur og vorum viljug til að
greiða fyrir það örlítið hærra verð.
Allur sá mismunur fékkst í þæg-
indum og velvilja Ásgeirs og Löllu.
Hjá þeim var allt svo sjálfsagt. Úr-
valið var að vísu ekki sambærilegt
við það sem annars staðar var en
það nægði, enginn okkar leið fyrir
það.
Ásgeir í Traðarbakka er nú allur
fyrir aldur fram. Þar er genginn
góður maður. Hann var hlýr í sam-
skiptum, ávallt viðræðugóður og sí-
vinnandi. Í litlu búðinni í Traðar-
bakka var ekki mikið vöruúrval en
þar var mikið af hjartahlýju og vin-
áttu.
Löllu í Traðarbakka, börnum
þeirra hjóna og öllum ástvinum
vottum við okkar dýpstu samúð.
Blessuð sé minning Ásgeirs Ás-
geirssonar.
Borghildur, Sveinn,
Vésteinn og Bergþóra.
Þó yfir grandann hverf ég hér á jörð
um hulda regindröfn,
ég hyggst að sjá minn vegavörð
sem vísi mér í höfn.
(Sig. Júl. Jóh.)
Ennþá einn bróðir úr Oddfellow-
stúkunni okkar nr. 8 Agli á Akra-
nesi hefir lagt frá landi og hafið þá
ferð, sem okkar allra bíður, um
„hulda regindröfn“ og tekið stefn-
una til lands lifenda, sem við trúum
að bíði okkar. Og þar fáum við að
líta „vegavörðinn“, sem vísar okkur
til öruggrar hafnar. Þess vegna get-
um við líka tekið undir með sálma-
skáldinu góða og sagt: „Jafnvel þótt
ég fari um dimman dal óttast ég
ekkert illt, því að þú ert hjá mér.“
(Sálm. 23,4.)
Ásgeir var fæddur Reykvíkingur.
Foreldrar hans voru Kristín Matth-
íasdóttir og Ásgeir Ásgeirsson
kaupmaður. Stjúpmóðir hans var
Agnes Matthíasdóttir. Til Akraness
flutti hann 1956 og það ár, hinn 1.
desember, kvæntist hann eftirlif-
andi eiginkonu sinni, Aðalbjörgu
Jónu Guðmundsdóttur. Þau eiga 6
börn, sem öll eru á lífi. Hjónabandið
var farsælt. Þau voru samhent hjón-
in í lífsbaráttunni, stóðu saman og
studdu hvort annað í blíðu og stríðu.
Frá samleiðinni var margs að minn-
ast og mikið að þakka. En hæst
gnæfði þó þakklætið fyrir barnalán-
ið, sem þau fengu að njóta í svo rík-
um mæli.
Ásgeir starfaði um alllangt skeið í
Hvalfirði, fyrst í Hvalstöðinni og
síðar í Olíustöðinni þar. Einnig var
hann um nokkurt skeið matsveinn á
sementsferjunni Freyfaxa. Hinn 23.
janúar 1974 vígðist Ásgeir í Odd-
fellowregluna á Akranesi.
Árið 1985 hófu þau hjónin versl-
unarrekstur í nýlenduvöruverslun-
inni Traðarbakka og ráku hana af
miklum dugnaði um árabil. Má hik-
laust segja, að Ásgeir hafi verið síð-
asti „kaupmaðurinn á horninu“, sem
rak verslun á Akranesi. Það var gott
að versla á Traðarbakka. Þar var
alltaf alúðlegu viðmóti, hjálpsemi og
greiðvikni að mæta, og hagur við-
skiptavinarins jafnan hafður í huga.
Ásgeir var félagslyndur og góður fé-
lagsbróðir. Sú var reynsla okkar af
honum í Oddfellowstúkunni okkar.
Og víðar varð þess greinilega vart.
Hann var t.d. mjög hneigður fyrir
tónlist og átti létt með að leika á
ýmis hljóðfæri, þótt ólærður væri á
því sviði. Á tímabili söng hann einn-
ig í karlakórnum Svönum á Akra-
nesi. Þar sem annars staðar var
hann virtur og vel metinn. Þannig
var það yfirleitt hvar sem hann kom
nærri. Hið ljúfa viðmót hans, hlýja
handtakið og bjarta brosið gaf hon-
um alls staðar vini.
Vorið 1999 veiktist Ásgeir af þeim
banvæna sjúkdómi, sem að lokum
átti sinn stóra þátt í því að leiða
hann til lokadægurs. Hann háði
hetjulega baráttu, oft sárþjáður og
gaf ekki eftir, þó að flest sund virt-
ust vera að lokast. Hann var lengst-
af heima og klæddist fram undir það
síðasta. Heima var hann síðast á ný-
liðnum páskum. Þá átti hann bjarta,
dýrmæta og helga samverustund í
skjóli eiginkonu sinnar og annarra
ástvina. Aftur lá leiðin á sjúkrahúsið
í fáeina daga. Hann var að fara
heim, þegar hinsta kallið hljómaði
skyndilega. Það var eins og skáldið
segir, sem ég vitnaði til í upphafi
þessara kveðjuorða: „Sólsetur! kom-
ið kveld og kallað á mig skýrt.“ Það
var „vegvörðurinn trúi“, sem þar
var að kalla á kæran bróður sinn.
Við Oddfellowbræður á Akranesi
kveðjum Ásgeir Ásgeirsson með
hjartans þökk fyrir góð kynni á
samleið og í samstarfi. Við sendum
eiginkonu hans, Aðalbjörgu, börn-
um þeirra og ástvinum öllum ein-
lægar samúðarkveðjur og biðjum
þess, að bjartar minningar frá lið-
inni samleiðartíð megi lýsa þeim,
blessa þau og styrkja á ókomnum
dögum og árum.
Björn Jónsson.
Inger Steinsson,
útfararstjóri,
s. 691 0919
Ólafur Ö. Pétursson,
útfararstjóri,
s. 896 6544
Bárugötu 4, 101 Reykjavík.
S. 551 7080
Vönduð og persónuleg þjónusta.
Blómastofa Friðfinns,
Suðurlandsbraut 10,
sími 553 1099, fax 568 4499.
Opið til kl. 19 öll kvöld
Kransar • Krossar • Kistuskreytingar