Morgunblaðið - 04.06.2003, Blaðsíða 4
FRÉTTIR
4 MIÐVIKUDAGUR 4. JÚNÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ
VALGERÐUR Sverrisdóttir, iðnað-
ar- og viðskiptaráðherra, segir að
ekki sé til nein einföld lausn á þeim
atvinnuvandamálum sem blasa við
íbúum Raufarhafnar. Ekki sé von á
framtíðarlausn á örfáum dögum og
ekki sé til umræðu að kaupa fast-
eignir af íbúunum svo þeir geti flutt.
„Það hefur ekki verið beðið um það,
málið hefur aldrei verið rætt á þeim
nótum og ég mun ekki taka það upp,“
segir ráðherra.
Fulltrúi Byggðastofnunar fór til
Raufarhafnar á mánudag til að afla
gagna um málið en starfshópur sem
iðnaðar- og viðskiptaráðherra skip-
aði fer þangað á fimmtudag. Val-
gerður Sverrisdóttir segist ekki vera
með ráðin um hvað gera skuli og því
hafi starfshópurinn verið skipaður,
en horfa þurfi á málið frá öllum hlið-
um og sjónarhornum.
Valgerður segir að byggðamálin
séu sífellt umfjöllunarefni og úr-
lausnarefni. Erfiðleikar komi alltaf
upp annað slagið og þannig hafi það
verið, en nauðsynlegt sé að taka mál
Raufarhafnar föstum tökum og
vinna hratt til að finna lausn, þó um
tímabundna lausn geti orðið að ræða.
„Ég sé ekki að við getum komið með
tillögur um einhverja framtíðarlausn
á örfáum dögum.“
Ekki aðeins spurning um kvóta
Sveitarstjóri Raufarhafnar hefur
sagt að varanlegur kvóti sé hugsan-
lega það eina sem geti bjargað
byggðarlaginu en einnig hefur komið
fram að kvóti Raufarhafnarbáta er
að miklu leyti leigður annað. Val-
gerður Sverrisdóttir segir að málið
sé ekki það einfalt að það sé aðeins
spurning um kvóta. Skipulagsbreyt-
ingarnar í frystihúsinu byggist ekki
á hráefnisskorti heldur standi til að
breyta vinnslunni og vinna jafnvel
meira hráefni en áður. „Þetta er því
ekki aðeins spurning um kvóta þótt
hann geti víða bjargað miklu,“ segir
hún og bætir við að það sé gott fólk í
forsvari fyrir sveitarfélagið sem vilji
vinna með stjórnvöldum að lausn
málsins. „Í litlu samfélagi bera menn
í raun meiri ábyrgð en í stærra sam-
félagi, því ákveðin félagsleg hugsun
er alltaf mikilvæg,“ segir Valgerður
um ábyrgð íbúanna og efast ekki um
að hún sé til staðar á Raufarhöfn.
„Það eru margir sem bera þarna
ábyrgð en það er miklu betra að
horfa fram á veginn, því það bætir
ekki ástandið að velta sér upp úr því
hvernig þetta hefur verið í tíð fyrri
sveitarstjórnar.“
Ekki fram-
tíðarlausn
á örfáum
dögum
AF skal skrípakarlinn, en af svip
hans að dæma er engu líkara en
hann sé í öngum sínum yfir því.
Skiptar skoðanir eru oft um
veggjakrot, margir telja það til
mikillar prýði á meðan aðrir eru
ekki eins hrifnir af því.
Maðurinn á myndinni virtist að
minnsta kosti ekki kæra sig um
karlinn og var í óða önn í gær
við að afmá tilvist hans af veggn-
um.
Morgunblaðið/Jim Smart
Angist skrípakarlsins
JÖKULL á Raufarhöfn hefur boðið
trillusjómönnum að kaupa þann fisk
sem þeir landa á staðnum en enginn
stöðugleiki hefur verið í því sam-
starfi og segir Margrét Vilhelms-
dóttir, framkvæmdastjóri Jökuls, að
fastir samningar séu nauðsynlegir
eigi slíkt samstarf að ganga.
Margrét Vilhelmsdóttir segir að
Jökull vinni um 50 tonn af frystum
hauslausum „Rússafiski“ að meðal-
tali á viku, um 10 tonn á dag, sem
jafngildi um 60 til 70 tonnum af
ferskum bátafiski. Bátarnir landi
um einu tonni hverju sinni og ekki
sé hægt að taka við fiski af einni og
einni trillu því um svo litla vinnslu
sé að ræða, en mikli máli skipti að
hægt sé að halda vinnslunni gang-
andi í einhverja klukkutíma í einu.
Að sögn Margrétar hafa trillusjó-
menn haft samband af og til og seg-
ist hún hafa bent mörgum þeirra á
að taka sig saman, þannig að það
væru t.d. fimm landanir sama dag-
inn og ferskur fiskur unninn þann
dag. „Við höfum reyndar unnið
ferskan fisk en þurfum ákveðið mik-
ið magn, því ekki er hægt að byggja
upp vinnslu af trillu sem kemur
stundum og stundum ekki,“ segir
hún og vísar til þess að reynt hafi
verið að taka við bátafiski sumarið
2000. Þá hafi Jökull reyndar ein-
göngu verið í „Rússafiski“ en 2001
og 2002 hafi ferskur fiskur verið um
20 til 30% af vinnslunni sem hafi að
mestu leyti komið frá togurum ÚA.
Reynt hafi verið að bjóða upp á þá
þjónustu að kaupa allan fisk, sem
menn vildu landa á Raufarhöfn, á
sama verði og greitt hafi verið á t.d.
Grenivík og annars staðar og fara
með hann í vinnslu til Akureyrar.
Viðbrögðin hafi verið þau að eina
vikuna hafi kannski tveir bátar
landað, enginn þá næstu og jafnvel
10 bátar í þriðju vikunni. „Þegar
þeim hentaði lönduðu þeir hjá okk-
ur en ef þeir sáu fyrir að það yrði
hærra verð á mörkuðum þá voru
þeir farnir þangað,“ segir hún. „Það
gengur ekki að vera með vinnslu
sem byggist eingöngu á trillum
nema maður hreinlega geti komist í
fasta samninga.“
Yfirlýsing frá
Raufarhafnarhreppi
Margrét áréttar að Jökull hafi
aldrei lent í hráefnisskorti. Þegar
ÚA hafi tekið við rekstrinum vet-
urinn 1999 hafi verið unnin um 700
tonn en um 1.500 til 1.600 tonn í
fyrra.
Vegna umræðunnar um kvóta á
Raufarhöfn sendi Raufarhafnar-
hreppur frá sér eftirfarandi í gær:
„Aðeins um 445 tonn af þeim
1.700 tonnum sem skráð eru á báta
með Raufarhafnarhöfn sem heima-
höfn, eru í höndum heimamanna.
Um 980 tonn eru í eigu ÚA án þess
að hafa komið til Raufarhafnar sl. 4
ár. Einnig eru um 250 tonn skráð á
aðra báta með engin tengsl við
Raufarhöfn. Rúm 100 tonn af þeim
445 sem heimamenn ráða yfir eru
leigð. Sveitarstjórn harmar þann
villandi fréttaflutning sem verið hef-
ur af málinu og því alvarlega
ástandi sem nú blasir við á Rauf-
arhöfn. Þrátt fyrir að vera útkjálka-
byggð þá þrífst á Raufarhöfn blóm-
legt samfélag sem hefur alla burði
til að vera sjálfbjarga fái það notið
þeirra gæða sem því er ætlað að
njóta.“
Fastir samningar við trillu-
sjómenn nauðsynlegir
ÞYRLA Landhelgisgæslunnar TF-
LÍF sótti fótbrotinn sjómann um
borð í þýskan togara á Reykjanes-
hrygg í fyrrinótt. Flugvél Landhelg-
isgæslunnar TF-SYN fór með þyrl-
unni í útkallið af öryggisástæðum og
til að bæta fjarskiptasamband á
meðan verið var að hífa hinn slasaða
um borð í þyrluna.
Sjúkraflug hjá Landhelgisgæsl-
unni hafa verið óvenjumörg að und-
anförnu, en frá maíbyrjun hefur
þyrluáhöfnin verið send 10 sinnum í
slík verkefni á sjó og landi.
Að sögn Dagmarar Sigurðardótt-
ur, upplýsingafulltrúa Landhelgis-
gæslunnar, eykst álagið að jafnaði
yfir sumarmánuðina hjá Gæslunni.
Einnig er mikill fjöldi sjómanna á
Reykjaneshreygg, eða 2–3000
manns, miðað við um 70 skip með allt
að 90 manna áhöfn. Enginn læknir er
á svæðinu og því er eina ráðið að
senda þyrlu eftir slösuðum ef tilfellin
þola ekki bið á meðan siglt er með
sjúklinga í land. Af 70 skipum eru 55
erlend skip á veiðum á Reykjanes-
hrygg.
Fótbrotinn
sjómaður
sóttur á haf út
HALLDÓR Ásgrímsson utanríkis-
ráðherra sagði á ráðherrafundi Atl-
antshafsbandalagsins í gær að þrátt
fyrir mikilvægi þess að bandalagið
tæki að sér aukið hlutverk í friðarað-
gerðum utan Atlantshafssvæðisins,
eins og í Afganistan og Írak, mætti
ekki gleymast að hlutverk þess væri
fyrst og fremst að standa vörð um
sameiginlegar varnir bandalagsríkj-
anna. Hann lagði einnig áherslu á
mikilvægi tengslanna yfir Atlantshaf-
ið og samstöðu ríkja sem væri grund-
völlur að friði og stöðugleika í Evr-
ópu.
Fundurinn var haldinn í Madríd á
Spáni og Halldór sat þar einnig há-
degisverðarfund með ráðherrum sjö
verðandi aðildarríkja. Þar hélt hann
framsögu um hlutverk þessara ríkja í
breyttu og stækkuðu bandalagi fram-
tíðarinnar þar sem hann sagði meðal
annars að framlag þessara ríkja yrði
verulegt, ekki síst í því að efla Atl-
antshafstengslin og auka samstarf
bandalagsins og ríkja utan þess.
Halldór Ásgrímsson á
ráðherrafundi NATO
Sameigin-
legar varnir
eru megin-
hlutverkið
HAFSTEINN Hafsteinsson, for-
stjóri Landhelgisgæslunnar, segir
það alrangt að gæslan hafi fengið þau
fyrirmæli að „venja ekki skipstjóra
og útgerðarmenn á að geta kallað á
þyrluna ef slys ber að höndum úti á
sjó,“ líkt og Páll Steingrímsson, for-
maður Sjómannadagsráðs á Akur-
eyri, sagði í ávarpi sínu á Sjómanna-
daginn.
„Þetta er ekki rétt, það er alveg
klárt mál,“ sagði Hafsteinn í samtali
við Morgunblaðið í gær. „Við erum
alltaf reiðubúnir að koma þegar þörf
krefur og það hafa aldrei verið gefin
út nein fyrirmæli eins og hann gefur í
skyn að hafi verið gefin út.“
Hafsteinn segir erfitt að ímynda
sér hvernig slíkur misskilningur hafi
orðið til. „Þetta er misskilningur sem
við viljum fá skýringar á og höfum
óskað eftir þeim við Pál. Vegna þess
að ef einhver misskilningur er á ferð-
inni er um að gera að leiðrétta hann
og finna út í hverju hann getur legið.“
Þyrlan ávallt
til taks ef á
þarf að halda
♦ ♦ ♦
♦ ♦ ♦
VEGNA verkfallsins í Færeyjum
hefur þurft að loka tveimur Bónus-
verslunum á vegum SMS-verslunar-
félagsins og tveimur veitingastöðum
í eigu félagsins; Burger King og Sun-
set Boulevard. Sem kunnugt er á
Baugur helmingshlut í SMS. Þá hef-
ur Eimskip í áætlunarsiglingum sín-
um milli meginlands Evrópu og Ís-
lands sleppt úr að koma við í nokkur
skipti í höfnum í Færeyjum og 10
fastir starfsmenn af 26 verið frá
vinnu.
Vonarglæta kviknaði í gærmorg-
un um að verkfallið væri að leysast
þegar opnað var á viðræður milli
verkalýðsfélaga og vinnuveitenda en
þær vonir urðu fljótt að engu þegar
verkalýðsfélögin höfnuðu því tilboði
sem kom upp á borðið.
Sex verslanir SMS-verslunar-
félagsins eru enn opnar en að sögn
Nils Mortensen, framkvæmdastjóra
SMS, eru hillur víða að tæmast og
lítið annað hægt að gera en að senda
starfsfólk heim eða í snemmbúið
sumarfrí. Nils segir ljóst að félagið
hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni
vegna verkfallsins en ekki sé vitað á
þessu stigi hve það er mikið. Af um
300 starfsmönnum félagsins í Fær-
eyjum segir Nils að 8–10 þeirra séu í
verkfalli. Aðalvandamálið sé að
vörur berist ekki í verslanir og fyr-
irtæki á vegum SMS.
Garðar Jóhannsson, fram-
kvæmdastjóri utanlandsdeildar
Eimskips, segir verkfallið augljós-
lega hafa neikvæð áhrif á starfsemi
félagsins í Færeyjum. Undanfarnar
fjórar vikur hafi áætlunarskip Eim-
skip sleppt úr að koma við átta við
sinnum en verkfallið ekki haft áhrif á
flutninga milli Færeyja og Íslands.
Áhrifin séu aðallega á flutninga frá
Færeyjum til Norðurlanda og meg-
inlands Evrópu. Það sé þó lán í óláni
að á sama tíma hafi metflutningar átt
sér stað hjá Eimskip í siglingum til
og frá landinu. Starfsmennirnir tíu
hjá Eimskip sem hafa verið í verk-
falli eru vöruhúsa- og hafnarverka-
menn. Starfsemi á skrifstofu og í
annarri þjónustu hefur verið með
eðlilegum hætti, að sögn Garðars.
Ekkert þrifið hjá Kaupþingi
Áætlunarferðir ferjunnar Nor-
rænu hafa ekki raskast vegna verk-
fallsins, samkvæmt upplýsingum frá
ferðaskrifstofunni Terra Nova Sol,
en miðað við árstímann er minna en
oft áður um að ferðamenn fari í land í
Færeyjum. Engin vandamál hafa
skapast við að leggjast að bryggju
með ferjuna.
Á skrifstofu Kaupþings í Færeyj-
um fengust þær upplýsingar hjá Pet-
er Holm forstjóra að verkfallið hefði
haft lítil sem engin áhrif á starfsem-
ina út á við. Hins vegar væri ræst-
ingafólkið í verkfalli og starfsmenn
þurft að sýna ákveðinn sveigjanleika
af þeim sökum, eins og hann orðaði
það. Þá fengju starfsmenn ekki leng-
ur sendan mat í vinnuna heldur
þyrftu þeir að koma með nesti að
heiman.
Verkfallið í Færeyjum farið að segja verulega til sín
Búið að loka tveimur
Bónus-verslunum