Morgunblaðið - 20.07.2003, Qupperneq 6
FRÉTTIR
6 SUNNUDAGUR 20. JÚLÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ
L
iðin í röndóttu búningunum mætast í dag. Blaðamaður er í Öl-
veri og ætlar að hitta köttarana, rómaða stuðningsmenn Þrótt-
ara. En þar er aðeins gamall Víkingur, tveir erlendir ferða-
menn og barþjónn í brasilíska landsliðsbúningnum.
Víkingurinn heyrir erindi blaðamanns og skyrpir út úr sér:
– Ég hata KR-inga.
Í mígandi rigningu liggur leiðin á KR-völlinn. Knattspyrnumenn hita
upp við taktfast dropafallið og galeiðulagið Eye of the Tiger. Stuðnings-
menn hafa komið sér fyrir, þó enn sé langt í leik.
– Þeir vilja ekki missa af upphituninni, segir glaðbeitt stúlka í hliðinu.
– Hefur þú alltaf verið KR-ingur? spyr blaðamaður.
– Ég? Ég held með ÍA, svarar hún.
– En ég er KR-ingur í húð og hár, segir strákurinn við hlið hennar, eins
og til að bæta upp fyrir trúvilluna.
Í félagsheimili KR-inga verður Bubbi Morthens á vegi blaðamanns.
Talið berst að KR-laginu.
– Ég fór í fýlu af því tónlistin var svo léleg fyrir leiki, segir Bubbi. Ég
leitaði í smiðju Alexandre Dumas, Einn fyrir alla, allir fyrir einn. Og Kim
Larsen, Vi er røde, vi er hvide. Svo hjólaði ég með gítarinn í KR-heimilið,
spilaði lagið á stjórnarfundi og spurði hvort ég mætti gefa KR lagið. Já,
kváðu þeir við. Önnur lið hafa leitað til mín, en ég vil aðeins gera þetta fyr-
ir KR. Annars missir lagið merkingu sína. Nú er ég að velta fyrir mér öðru
lagi, um fjölskyldu sem er að búa sig undir leik.
– Og sækir í eigin reynslusarp?
– Já, það er mikilvægt að fjölskyldan standi saman og
hvetji liðið sitt. Hjá okkur gilda fimm reglur. Það má
ekki hallmæla andstæðingnum, ekki blóta, ekki svívirða
dómarann, það verður að klappa fyrir andstæðingnum
ef hann gerir vel og skilja reiði og ergelsi eftir á vellinum í leikslok.
– Ég hef tvær reglur, ekki hallmæla andstæðingnum og ekki heldur
dómaranum, segir Elísabet Jökulsdóttir. En í sumar er ég farin að endur-
skoða þetta með dómarann, bætir hún við og brúnin þyngist.
Í Þórólfsstofu eru KR-ingar í hrókasamræðum.
– Af hverju ertu ekki í treyju? spyr einn KR-ingur annan.
– Ég þorði ekki að mæta í KR-treyjunni, af því ég gleymdi henni í síð-
asta leik.
– Auðvitað breytir maður engu eftir sigurleiki, segir skilningsríkur KR-
ingur og kinkar kolli. Maður mætir í sömu sokkum, leggur bílnum í sama
stæði og situr á sama stað.
Leikurinn er byrjaður og í raun þarf ekkert að horfa. Það er nóg að hlusta
á hrópin. Oftast eru þau eitt atkvæði eins og hryglur í frummönnum:
– Nei!
– Búúhh!
– Spjald!
Það orð sem oftast er hrópað er ekki „skjóta“ eða „skora“ heldur:
– Dómari!
Þeir sem eru sjóaðir hrópa lengri setningar:
– Ef þú spjaldar ekki þá halda þeir að þeir megi þetta!
Í hálfleik rekst blaðamaður á stúlku sem hann hefði aldrei órað fyrir að
hefði áhuga á fótbolta.
– Ert þú KR-ingur?
– Nei, ég tók manninn með mér í Reykholt í gær. Ég varð að gera eitt-
hvað í staðinn, svarar hún einlæglega.
– Hvað finnst þér um leikinn?
– Mér finnst KR-ingar standa sig vel. Þeir eru nú búnir að eiga þrjú
skot framhjá.
Í seinni hálfleik lenda Þróttarar undir, þó köttararnir beri sig vel.
– Hverjir eru á toppnum! hrópar stuðningsmaður fremst.
– Þróttur!
– Það er kalt á toppnum, segir vondaufur köttari ofar í stúkunni.
Og þegar einhver meiðist, hvort sem það er KR-ingur eða Þróttari, þá
syngja köttararnir:
– Jafna sig, jafna sig, jafna sig.
Leikurinn er að líða undir lok. Spennan leynir sér ekki ef fylgst er með
höndum áhorfenda. Þær eru á látlausu iði. Klappað. Krepptar hendur í
bænastellingu. Rótað í skeggi. Húfan löguð. Armurinn hvíldur á öxl ást-
vinarins. Áhyggjurnar síga í. Veifað. Bent, svo dómarinn sjái. Nagaðar
neglur. Mæðgur haldast í hendur. Japlað á súkkulaðibréfi. Hendur á loft í
spurn. Köttari grúfir sig niður. Fitlað við barkakýlið þegar dómarinn
flautar til leiksloka. Þróttur tapar.
– Við stöndum saman allir sem einn, syngur Bubbi. Leikmönnum
klappað lof í lófa. Svo tínast áhorfendur á braut, Þróttarar með hendur í
vösum. Svarthvítir og rauðhvítir regnbogar í rigningunni. Sem hverfa inn
í bílana. Gleði og vonbrigði eftir á vellinum. Og allir deila sömu umferð-
arteppunni.
Morgunblaðið/Árni Torfason
Regnbogar í
rigningunni
SKISSA
Pétur Blöndal
fór á
fótboltaleik
LÖNGUNIN til þess að svífa um
eins og fugl hefur fylgt mann-
inum frá örófi alda. Í dag geta
menn, fyrir nokkuð hóflegan
kostnað, látið drauminn rætast á
góðum og sólríkum sumardögum.
Allt sem þarf er örlétt svifhlíf og
hugrekki til þess að hlaupa út í
loftin blá.
Tveir svifhlífakennarar eru
staddir hér á landi og kenna þeir
íslenskum svifmönnum ýmsar list-
ir og tækni sem getur nýst vel
þegar nýta þarf uppstreymi og
„loftbólur“. Hitta þeir íslenska fé-
laga sína uppi á Hafrafjalli, sem
er vinsælasti staðurinn á Íslandi
fyrir svifflugmenn.
Góðar aðstæður til svifs
Old Sam er frá Bandaríkjunum
og hefur lengi haft áhuga á flugi.
„Pabbi minn var listflugmaður og
ég fékk snemma mikinn flug-
áhuga. Ungur smíðaði ég fyrsta
svifdrekann minn úr vírum og
alls kyns skrani og flaug honum
ofan af alls konar hólum og hæð-
um. Pabbi eyðilagði hann þegar
ég var búinn að brotlenda í tutt-
ugasta trénu. Þá tók ég mér hlé í
rúman áratug, þangað til fyrir
átta árum þegar ég kom til Ís-
lands og sá allt þetta frábæra
landslag, sem er eins og sér-
hannað til að leika sér á svif-
græjum. Fjöllin hér og hlíðarnar
eru skóglaus, vindarnir blása
mjög skemmtilega og landið í
heild sinni er alveg frábært til
þessarar iðju. Vinur minn kenndi
mér þá á svifhlífar og ég hef leik-
ið mér að þessu síðan,“ segir
Sam, sem hefur komið til Íslands
mánuð í senn síðustu fjögur ár til
þess að kenna íslenskum svif-
mönnum.
„Það er kalt að fljúga nakinn“
Sam þykir gaman að vera nak-
inn og er því kallaður strípaling-
urinn. „Ég hef einu sinni flogið
nakinn, það var kalt að fljúga
nakinn, en gaman. Svo fékk ég
fría gistingu á hótelinu þar sem
ég gisti því að eigandinn hafði
svo gaman af svona uppá-
tækjum.“
Roman Iacobucci frá Austurríki
kennir ýmsar fluglistir, sem kall-
aðar eru „aerobatics“. Hann lenti
í slysi fyrir ári og braut báða fæt-
ur sína á mörgum stöðum og
gengur enn með stafi sér til
stuðnings. „Auðvitað eru hættur,
en maður harkar það af sér. Mér
var sagt að ég gengi ekki aftur,
en ég er farinn að ganga.“ Roman
segir Ísland vera afar sérstakt til
svifflugs. „Fyrir utan skógleysið,
vindinn og landslagið hér er líka
hægt að fljúga fram yfir miðnætti
á sumrin. Það er hvergi hægt
annars staðar, þetta er frábært.“
Hlífasvif varð til sem íþrótt í
kringum 1985 þegar fjall-
göngumenn fóru að nota fallhlífar
til að komast niður fjöllin á þægi-
legri máta, því oft geta menn lent
í klandri á niðurleiðinni. Það þró-
aðist mjög fljótt yfir í tóm-
stundagaman sem hefur vaxið
hratt úti um allan heim. Kristján
B. Arnarson, íslenskur svifmaður,
bendir á að hlífasvif sé ódýrasta
flugíþróttin sem fólk getur stund-
að. „Þetta kostar undir 200.000
krónum, eins og ágætis byrj-
endasett í golfi. Þetta er líka ört
vaxandi og margir að bætast við,
sérstaklega vegna þess að þetta
er ekki næstum því jafnfyrirferð-
armikil og krefjandi íþrótt og
svifflug.“
Morgunblaðið/Jim Smart
Hópur svifmanna í blíðunni uppi á Hafrafjalli. Gamli Sam stríplast og
Roman styðst við staf.
Svifmaðurinn á leið upp. Rétt áður
var jörðin kvödd með léttum tá-
kossi.
Gamli Sam lét sig svífa örfáa metra
yfir ljósmyndara og stýrði svifhlíf-
inni af furðulegri nákvæmni.
Svifið tignarlega hlið við hlið í svifhlífunum.
Skemmti-
legt
áhugamál
í örum
vexti
PERSÓNUVERND hefur gert ýmsar kröfur til Lyfju
hf. og Lyfja og heilsu hf. í kjölfar úttektar sem gerð var
á vinnslu persónuupplýsinga á vegum fyrirtækjanna.
Hafa lyfsölufyrirtækin fengið frest til 1. janúar á næsta
ári til að fara eftir fyrirmælunum.
Fyrirmælin felast meðal annars í því að taka upp
innra eftirlit, tryggja að þeir starfsmenn undirverktaka
eða þjónustuaðila, sem kunna að fá vitneskju um við-
kvæmar persónuuplýsingar í störfum sínum, undirriti
trúnaðarheit, tryggja öryggi í gagnaflutningi og sjá til
þess að persónugreinanlegum merkingum af umbúðum
lyfja verði eytt áður en umbúðirnar eru afhentar förg-
unaraðila.
Sigrún Jóhannesdóttir, forstjóri Persónuverndar, seg-
ir að úttekt hafi verið gerð á fyrirtækjunum þar sem þau
geymdu viðkvæmar upplýsingar sem varði stóran hóp
manna. „Það er mjög mikilvægt að öryggi í vinnslu
slíkra upplýsinga sé tryggt. Hins vegar eru þetta alls
ekki einu aðilarnir sem unnið er að úttektum hjá. Það
eru margir aðilar í úttektarferli og er niðurstaðna að
vænta fljótlega,“ segir Sigrún.
Gerir athugasemdir
við vinnslu
persónuupplýsinga
HÓPUR foreldra í Vesturbænum í Reykjavík hefur
hafið söfnun undirskrifta gegn fyrirhugaðri lokun
gæsluvallarins við Frostaskjól. Í áskorun til borgaryf-
irvalda segir m.a. að gæsluvöllurinn sé mikið notaður
að sumarlagi þegar leikskólar séu lokaðir. Ljóst sé að
gangi fyrirætlanir borgarinnar eftir verði enginn
gæsluvöllur í vesturbæ Reykjavíkur frá og með 15.
ágúst.
Að sögn Þorsteins Siglaugssonar, íbúa í hverfinu,
hefur undirskriftasöfnunin gengið vel og hafa um 200
manns ritað nafn sitt á listann.
„Það er mjög mikil óánægja með þetta vegna þess
að þetta er það mikilvæg þjónusta fyrir fólk í hverf-
inu,“ segir Þorsteinn.
Undirskriftalistar liggja frammi á gæsluvellinum
við Frostaskjól, í Nóatúni við Hringbraut, Mela-
búðinni og KR-heimilinu. Stefnt er að því að afhenda
undirskriftirnar í lok júlí.
Foreldrar í Vesturbæ
safna undirskriftum
Mótmæla fyrir-
hugaðri lokun
gæsluvallar