Morgunblaðið - 20.07.2003, Side 11
þegar þú varst ungur? Varstu lagður í einelti ?
„Nei, nei. En ég fékk að heyra það að ég væri
latur og nennti ekki að gera neitt. Ég tók það
ekkert nærri mér, fyrst ég gat haldið áfram að
safna óáreittur.
Ég veit svo sannarlega ekki af hverju ég er
þessi safnari. Velti því enda ekkert fyrir mér.
Ég er bara svona og vil alls ekki vera neitt öðru-
vísi!
– Er eitthvað sem þú safnar ekki?
„Ég safna svona einu og öðru.
En ég safna ekki lyklakippum, ekki pennum
og ekki servíettum. Heldur ekki bókum, þótt ég
lesi þær mikið. Það eru vissulega til margar
merkar bækur, en í mínum huga hafa bækur
ekki söfnunargildi, ef þær eru yngri en 150 ára.
Kannski þessi söfnunaráhugi sé einhver löng-
un til þess að skilja eftir sig spor í tilveruna. Og
öllum er hollt að svipast hér um og sjá, að fólk á
Íslandi hefur ekki alltaf setið við sjónvarps-
skjáinn.
Svo er það nú einu sinni svo, að nútíðin og
framtíðin byggjast á fortíðinni og því er okkur
beinlínis nauðsynlegt að kunna á henni skil.“
Götóttu dósirnar hans Leós
Kristján þarf alltaf öðru hverju að bregða sér
frá samtalinu og sinna gestum safnsins.
– Er þetta alltaf jafngaman? spyr ég, þegar
hann kemur til baka.
Það kemur glampi í augun.
„Já,já. Ég reyni að rölta með fólki og segja
því það sem ég veit.
Sumir vilja bara labba í gegn, en hinir eru
snöggtum fleiri, sem hafa gaman af einhverri
leiðsögn. Og hún er svo langt því frá að vera
alltaf sama rútínan, því fólk kveikir á
mismunandi hlutum og þá koma sögurnar hver
annarri ólík. Hér á sérhver hlutur sína sögu.“
Og satt er það. Ég fylgi í humátt á eftir
Kristjáni og tvennum hjónum. Safnið bók-
staflega lifnar í sögum hans.
– Hvaða hlut er mest gaman að sýna?
„Ég gæti nú nefnt marga.
Til dæmis finnst mér afskaplega skemmtilegt
að sýna götin í tóbaksdósunum hans Leós Jóns-
sonar á Svanavatni í Hegranesi.“
Kristján opnar nýsilfursdósir og sýnir mér.
Botninn er slitinn í gegn og er götóttur eftir
fingur Leós. „Hann hefur límt neðan á dósirnar
til að lengja lífdaga þeirra.“ En það hefur ekki
dugað til, því þarna eru aðrar dósir Leós og er
eins með þær; botninn er slitinn fingraförum í
gegn.
Þriðju dósirnar frá Leó eru þarna líka og
markar vel í botninn, en Leó hefur ekki enzt
ævin til að klípa þær í gegn.
Skrifaðist á við þrjú hundruð manns
Kristján Runólfsson hefur ekki einasta dreg-
ið saman muni og minjar um gamla tíma, eins
og þá sem hann sýnir í Minjahúsinu. Þegar ég
heimsæki hann upp á Hlíðarstíg, sýnir hann
mér konungsríki sitt á heimilinu; vinnu-
herbergið.
Hann segist eiga í skrá á fjórða þúsund ljós-
myndir, gömul skjöl og handrit í þúsundavís og
póstkort.
„Það var svo oft, að kort og ljósmyndir leynd-
ust í kössunum, sem fólk gaf mér, að ég fór bara
að safna þeim líka!
Og nú gerir fólk sér erindi til mín með þessa
hluti eingöngu og koma þeir þá bæði af heim-
ilum og haugunum!
Kortasafnið telur tuttugu bækur, „sem þykir
ekki mikið“. Svo hefur hann „auðvitað“ safnað
frímerkjum. „Ég á frímerki í sautján möppum,
en hef ekki safnað þeim nógu skipulega, þannig
að það er fátt um fína drætti í safninu því.
Þó á ég eitt merki, sem menn hafa staldrað
við, ég fór einu sinni með það á frímerkjafund á
Selfossi og það fór nú svo, að fundurinn snerist
nær allur um þetta merki mitt, sem er með
stimplinum Þjórsárbrú.“
Í skjala- og handritasafninu eru bréf og dag-
bækur. „Ég á öll handrit móðurafa míns; þess
sem sagður var hafa skrifað sig tóman.
Ofan á allt annað skrifaðist hann á við 300
manns!
Svo eru í þessu ósköpin öll af gömlum kveð-
skap. Ég á meðal annars í eiginhandarhandriti
kveðskap 75 skálda og hagyrðinga; ég á til
dæmis mikið eftir Gísla Ólafsson skáld frá Ei-
ríksstöðum.“
Það er eins og með öskuhauginn í Deildardal,
að Kristján hefur haft upp úr handritunum
margan gimsteininn. Mestum tíðindum fer af
tveimur áður óþekktum kvæðum eftir Bólu-
Hjálmar.
Annað þeirra hefur birzt í Skagfirðingabók,
en hitt handritið var nokkuð skemmt, en Kristj-
án segir að nú hafi með góðra manna hjálp tek-
izt að ráða í kvæðið; Um hreystiverk Grettirs
eftir H.J.son. Kvæðin voru í handriti, sem Þor-
steinn Þorsteinsson frá Heiði skrifaði.
Allt frá ástarjátningum til morðhótana
Og það eru ekki öll kurl til grafar komin, því
Kristján á töluvert mikið af skjölum og hand-
ritum órannsökuð. Hann segist reyna að skrá
þau með einhverjum hætti, sem því næst jafn-
óðum og þau berast, en magnið er slíkt, að hann
er orðinn talsvert á eftir með innihaldið.
Ég spyr hvort hann hafi ráðstafað þessum
söfnum líkt og minjasafninu, en hann neitar því.
„Ég veit ekki enn, hvað ég geri. Vonandi verð
ég ekki vitlaus og hendi þessu öllu saman!“
– Sjö, níu, þrettán!
– En hvað með útgáfu?
„Ég veit ekki. Ég hef ekkert bolmagn til
hennar. Svo yrði bara allt vitlaust, ef ég færi að
opinbera þetta núna, því í bréfunum eru allt frá
ástarjátningum til morðhótana.“
Það er að vonum mörg vísan í handraða
Kristjáns.
„Ég hef safnað vísum frá því ég var krakki,
en sjálfur kunni ég nú ekki til verka fyrr en ég
var orðinn fullorðinn.“
– Þú yrkir ?
„Upp á hvern dag!
Ég var til dæmis að yrkja þessa núna:
Margar líða lífsins stundir,
líða burtu straumar tímans,
lífsins straumar stöðugt renna,
stundir tímans renna áfram.
Í janúar síðastliðnum orti ég 100 vísur og 109
í febrúar en eitthvað færri eftir það. En ég get
ort undir 50 bragarháttum og ég á efni í sirka
tuttugu bækur, meðalstórar.“
Kristján dregur fram möppu og les mér.
„Nú, það er bara svona! Það er ekkert birt-
ingarhæft í þessari möppu!“
– Ekki er allt sem þú yrkir óbirtingarhæft?
„Nei, nei. Það hafa ratað upp úr mér vísur og
ljóð, sem þola vel dagsbirtuna!
Annars er ég hvorki klúr né níðskældinn.
Þótt það sé ljótt, er ekkert illt á bak við það.
Nema þegar ég reiðist. Þá er fjandinn laus!“
Það er sama hvar um völl samtal okkar
Kristjáns berst, alls staðar dregur hann upp
forvitnilega hluti úr kössum og kirnum.
Upp úr einum kassanum koma gamlir upp-
drættir; m.a. frá Hofsósi, þar sem áætlanir hafa
staðið til snöggtum stærri byggðar en enn er
orðin.
„Hvað er nú þetta?“ tautar Kristján og kíkir í
einn strangann. „Hvað, skopmynd af mér?“ Og
hefur skjót handtök með hann til baka. En mér
tekst að fá að skoða. Og sjá, þarna er greinilega
einn montinn Skagfirðingur!
„Já. Við erum montnir af því að vera Skag-
firðingar.“
– Hvað er svona merkilegt við það að vera
Skagfirðingur?
Í fyrsta skipti sé ég Kristjáni bregða lítið eitt.
„Voðalega spyrðu barnalega,“ segir hann svo.
„Hér er allt öðruvísi fólk en annars staðar.
Það er rétt sem sagt var, að við Skagfirðingar
kunnum enn að lifa lífinu og gerum það.“
Svo hættir Kristján að virða mig viðlits, en
rjátlar við eitthvert spjót, sem hann hefur dreg-
ið fram úr einu skotinu. Mér lízt ekki á blikuna,
þegar ég sé, að hann er með níðstöng í hönd-
unum; þetta er níðstöngin, sem Bandalag há-
skólamenntaðra ríkisstarfsmanna reisti ríkis-
stjórn Steingríms Hermannssonar í september
1990.
– Ég er nú Skagfirðingur í móðurætt, segi ég
upp á von og óvon.
Það dugar; níðstöngin hverfur aftur í skot sitt
og Kristján býður mér til kvöldkaffis. Það er þá
sem hann sýnir mér bókina, sem hann tólf ára
gamall teiknaði í uppdrætti af horfnum bæjar-
húsum í Deildardal eftir frásögnum fróðra
manna.
Ég læt öðrum eftir samtímaminjarnar
Við erum komnir aftur niður í Minjasafn.
Förum upp á efri hæðina,. Þar er nú geymsla,
en ég bæði sé og finn að Kristjáni fyndist upp-
lagt að fá þessa hæð líka til sýningahalds.
En þangað til ægir þarna saman rokkum,
saumavélum, orgelum, hefilbekkjum, renni-
bekkjum, taurullum og baðkeri með líkkistu-
lagi.
„Það sankast að mér alls konar drasl,“ segir
Kristján og handleikur ballettskó og greiðu,
sem fundust einhvers staðar milli þilja. Hann
strýkur þá fimlega eins og hann vilji særa fram
anda þeirra. „Ég er ekki alveg klár á sögunni á
bak við þá. En það má mikið vera, ef þeir segja
ekki eitthvað um brostna ballettdrauma.“
Og um leið og við förum niður aftur, bendir
Kristján mér og segir:
„Sjáðu. Þetta er fyrsti peningaskápurinn,
sem brotizt var inn í á Sauðárkróki!“
– Hendum við of mörgu?
Það kemur skelfingarsvipur á Kristján.
„Já. Það er alveg ótrúlegt, hvað fólk er dug-
legt við að henda hlutum.“
– Hendir þú engu?
„Jú. Ekki er ég saklaus af því! En ég reyni að
halda öllu gömlu til haga.“
– Ertu ekkert að fikra þig nær nútímanum?
„Nei. Það verða einhverjir aðrir að sinna
samtímanum.
Ég hef svo sem tekið eitt og annað til hliðar,
sem er dottið út af borðinu, eins og til dæmis
mjólkurpokana, sem voru notaðir fram undir
1980.
Stundum vilja menn gefa mér þvottavélar og
ísskápa, en svoleiðis fjöldaframleiðsla er ekki
mitt áhugamál. Ég hendi þessu bara á haugana!
Annað mál væri, ef um væri að ræða fyrstu
þvottavélina á landinu, í Skagafirði eða jafnvel
hér á Króknum. Þá myndi ég líta við henni!
Annars er samtíminn fljótur að fyrna hlutina.
Og ég má vara mig á því eins og aðrir. Ég átti
vasatölvu, sem ég lét frá mér, en sé nú eftir, því
kannski var hún sú fyrsta hér á Króknum.“
Það segir svo sína sögu um safnarann Kristj-
án Runólfsson, að í lítilli geymslu út undir vegg,
sitja bæði þvottavél og ísskápur, sem hann
svona heldur til haga!
„Draumurinn er að fá að starfa við þetta ein-
göngu; hafa af safnvörzlunni fulla atvinnu,“ seg-
ir Kristján, kominn á kontórinn aftur. Svo er
hann rokinn fram einn ganginn enn. Það eru
komnir gestir.
ssa heims og annars
Ljósmynd/ Björn Björnsson
ólfsson, „en ég safna ekki lyklakippum, ekki pennum og ekki servíettum. Og heldur ekki bókum…“
vélin, sem var festargjöf og komst þá í tízku að bjóða konuefni að velja á milli saumavélar og hrings. Fyrsta prjónavélin og hluti sýningarsalarins, en Steinþór Sigurðsson hannaði sýninguna fyrir Kristján.
freysteinn@mbl.is
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 20. JÚLÍ 2003 11