Morgunblaðið - 22.07.2003, Blaðsíða 48
MORGUNBLAÐIÐ, KRINGLUNNI 1, 103 REYKJAVÍK, SÍMI 569 1100, SÍMBRÉF 569 1181, PÓSTHÓLF 3040,
ÁSKRIFT-AFGREIÐSLA 569 1122, NETFANG: RITSTJ@MBL.IS, AKUREYRI: KAUPVANGSSTRÆTI 1 ÞRIÐJUDAGUR 22. JÚLÍ 2003 VERÐ Í LAUSASÖLU 190 KR. MEÐ VSK.
EFTIR einmuna blíðu tók loks að rigna á
höfuðborgarsvæðinu í gær og reyndar víðar
um landið en tiltölulega hlýtt var þó í veðri.
Menn sem unnu við að leggja hellur fyrir
framan Stjórnarráðið höfðu brugðið sér í
regngalla en ferðamaðurinn hefur greini-
lega ekki heyrt eða ekki lagt trúnað á full-
yrðingar um að regnhlífar séu til lítils gagns
á Íslandi.
Morgunblaðið/Arnaldur
Væta að loknum sólríkum dögum
BRÖGÐ eru að því að ristarhlið sem varna því að
sauðfé gangi óhindrað um vegi landsins séu fjar-
lægð án þess að leitað sé leyfis fyrir slíkum fram-
kvæmdum, að því er fram kemur í nýrri grein um
heyflutninga og varnarlínur sem Sigurður Sigurð-
arson, dýralæknir á Keldum, ritar á vef Bænda-
samtaka Íslands. Í samtali við Morgunblaðið segir
Sigurður að nokkuð hafi borið á þessu á síðustu ár-
um.
„Vegagerð og virkjanir hafa gert okkur lífið leitt
á seinni árum og þykjast varla þurfa að virða okkur
svars, taka upp ristarhlið án þess að leita leyfis og
búa til nýja vegi og brýr þar sem áður voru fjár-
heldir vegir. Illt er að þurfa að skattyrðast við þá í
blöðum, en mál til komið að þeir ansi okkur. Drott-
inn blessi þá,“ segir Sigurður m.a.
Hann segir ennfremur að vitað sé að mjög um-
fangsmiklir flutningar fari fram á heyi milli lands-
hluta og leyfi sé gefið fyrir talsvert miklum hluta
þeirra en að talsverður hluti fari fram hjá héraðs-
dýralæknum eða fulltrúum yfirdýralæknis á Keld-
um. Sótt er um leyfi til heyflutninga til yfirdýra-
læknisins á Keldum. Hestamenn og aðrir sem
kaupi hey og flytji með sér á milli landshluta geti
með þessu valdið stórtjóni þar eð talið er víst að
riðuveiki geti borist með heyi og vitað að garna-
veiki berst með heyi. Hann segir að yfirleitt dugi
eitt símtal til að sækja um leyfi. Hann skorar á
sveitarstjórnir og búfjáreftirlitsmenn að fylgjast
vel með hvað sé flutt inn í sveitirnar.
„Vegagerð og
virkjanir hafa
gert okkur
lífið leitt“
STOFNANIR og fyrirtæki Reykjavíkurborg-
ar virðast í mörgum tilvikum ekki hafa farið
eftir innkaupareglum borgarinnar við innkaup
og verklegar framkvæmdir á árunum 2000 og
2001, samkvæmt nýrri skýrslu Borgarendur-
skoðunar um frávik frá innkaupareglum.
Fram kemur í niðurstöðukafla skýrslunnar
að Borgarendurskoðun gerði sambærilega at-
hugun á árinu 1994 fyrir Innkaupastofnun
Reykjavíkurborgar á frávikum frá innkaupa-
reglum á árinu 1993, þar sem fram komu veru-
leg og umfangsmikil frávik frá þágildandi
reglum. Síðan segir: „Enda þótt nýjar inn-
kaupareglur hafi verið samþykktar í framhaldi
af þeirri athugun á árinu 1995, er erfitt að
greina umtalsverðar framfarir og meiri fylgni
við reglur á árinu 2000 og 2001 miðað við það
sem úttektin 1993 leiddi í ljós.“
Fram kemur í skýrslunni að fjölmörg dæmi
hafi komið fram við athugun Borgarendur-
skoðunar þar sem borgarfyrirtæki og stofn-
anir hafi talið að milliganga eða liðsinni Inn-
kaupastofnunar hafi ekki átt við í einstökum
innkaupum, eða sérstakar ástæður hafi haml-
að útboði eða verðkönnun, enda þótt viðskiptin
hafi fallið innan innkaupareglna. Einnig var
borið við tímaskorti, óvissu um umfang eða
fjárhæð viðskipta o.fl. í svörum sem Borgar-
endurskoðun bárust þegar athugunin fór
fram.
Kynning talin hafa brugðist
„Innkaupastofnun virðist að nokkru leyti
hafa brugðist hlutverki sínu við kynningu á
innkaupareglunum og markaðssetningu þjón-
ustu sinnar, en sú athugasemd var líka sett
fram í kjölfar úttektarinnar frá 1993,“ segir í
niðurstöðum skýrslunnar.
Bent er á í skýrslunni þar sem niðurstöður
athugunarinnar eru dregnar saman að val á
hönnuðum, ýmsum sérfræðingum við skipulag
og verklegar framkvæmdir og á verktökum
hafi ekki farið fram fyrir tilstilli Innkaupa-
stofnunar, þar sem Borgarskipulag, borgar-
verkfræðingsembættið, embætti gatnamála-
stjóra og Reykjavíkurhöfn hafi ekki talið
ástæðu eða skyldu til að leita til stjórnar stofn-
unarinnar og hlíta innkaupareglum, heldur
fylgt eigin aðferðum. Voru venjur, hefðir eða
sérfræðiþekking sögð ástæða þessa.
Gert er ráð fyrir að skýrslan verði rædd í
borgarráði í dag.
Borgarendurskoðun segir dæmi um frávik frá innkaupareglum
Litlar framfarir þrátt
fyrir nýjar reglur
Reglur/10
AÐ GANGA leiðina milli Landmannalauga og
Þórsmerkur er mörgum ágætis útivist og tekur
fólk sér gjarnan nokkra daga í gönguna til að
njóta náttúrunnar. Öðrum er Laugavegurinn
hin besta skokkbraut. Um helgina var keppt í
ofurmaraþoni á Laugaveginum, þar sem yfir
eitt hundrað hlauparar hlupu um 55 kílómetra
leið yfir fjöll og firnindi. Sigurvegarinn, Charles
Hubbard, spretti svo sannarlega úr spori og
lauk hlaupinu á tæpum fimm tímum, rúmum
tuttugu mínútum á undan næsta manni, Steinari
Friðgeirssyni. Hér má sjá Pétur Hauk Helgason
spretta úr spori við fögnuð útivistarfólks, en
hann lenti í tíunda sæti.
Ofur-
maraþon á
Laugavegi
Ljósmynd/Björgvin Hilmarsson
BANDARÍSKA dagblaðið The
Washington Post hefur eftir hátt-
settum, en ónafngreindum, heimild-
armönnum innan Bandaríkjastjórn-
ar að í síðustu viku hafi verið
haldinn fundur æðstu þjóðarörygg-
isráðgjafa Bandaríkjaforseta til
þess að ræða framkvæmd varnar-
samnings Íslands og Bandaríkj-
anna. Í fréttinni er það haft eftir
heimildarmanninum að á fundinum
hafi verið ákveðið að reynt skyldi að
koma í veg fyrir að samskiptum
ríkjanna hrakaði vegna þessa máls.
Í frétt WP segir heimildarmaðurinn
að næstu skref í samningaviðræðum
verði fundir hátt settra embættis-
manna ríkjanna tveggja.
Sagt er frá því að þrýstingur um
brottflutning flugvéla frá Keflavík
komi frá bandaríska varnarmála-
ráðuneytinu en að í huga Íslendinga
séu þoturnar „bráðnauðsynlegar
fyrir loftvarnir landsins“.
Í frétt WP segir að ákvörðun
Bandaríkjastjórnar um að tilkynna
fyrirætlun sína skömmu fyrir kosn-
ingar hafi valdið miklum titringi.
Öryggisráðgjafar
forsetans ræddu
varnarsamninginn
Ísland vill ekki/25
VÍÐA um landið eru berjalönd farin að taka við
sér og ber að verða fullþroskuð. Einkum virð-
ast krækiber vera snemma á ferðinni í ár enda
fóru þau ekki að blómstra fyrr en eftir að
kuldakastið í vor var yfirstaðið. Að mati skóg-
arvarða, sem Morgunblaðið ræddi við, eru þau
allt að fjórum vikum fyrr á ferðinni en vana-
lega.
Hjá Skógræktinni á Hvolsvelli fengust þær
upplýsingar að krækiber væru orðin full-
þroskuð í Fljótshlíð auk þess sem stutt væri í
að bláber og rifsber fari að taka við sér þannig
að fólk getur farið að koma í berjamó. Á Aust-
urlandi hafa krækiber einnig tekið vel við sér
en óvíst er með bláber, rifsber og hrútaber. Í
Borgarfirði líta berjalönd vel út og þá einkum
krækiber og úr Fnjóskadal var sömu sögu að
segja, krækiberin eru farin að taka við sér en
óvíst er með bláber. Í Þjórsárdal og Haukadal
voru berin hins vegar skemmra á veg komin.
Berjauppspretta á helstu berjasvæðum landsins
ræðst svo af veðurfari næstu vikurnar.
Krækiber víða
snemma á ferð
♦ ♦ ♦