Morgunblaðið - 22.10.2003, Blaðsíða 25

Morgunblaðið - 22.10.2003, Blaðsíða 25
UMRÆÐAN MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 22. OKTÓBER 2003 25 MERKILEG umræða hefur sprottið upp í kjölfar þess að sýning Ólafs Elíassonar myndlistarmanns var opnuð í Lundúnum. Skyndilega hafa allir áhuga á nútímamyndlist og tala um Túrbínusalinn í Tate Modern eins og gamlan kunningja. Allir vilja slá eign sinni á listamanninn sem er af íslenskum ættum þó hann sé fæddur og uppalinn í Danmörku. Nú gerum við tilkall til hans. Danir mega alls ekki eigna sér hann, íslenski þráðurinn í verkum hans er svo augljós og við blásum út af stolti og þjóðerniskennd. Við verðum samt að átta okkur á því að það er hæpið fyrir okkur að gera kröfu um ,,hagnaðinn“ af frægð Ólafs þar sem við eigum ná- kvæmlega engan þátt í velgengni hans. Það var danska samtímalista- miðstöðin (DCA) sem upphaflega veðjaði á hann og tók þá við- skiptaáhættu að ,,kosta“ hann. Þetta er sérstaklega áhugavert þegar litið er til þess sem er að ger- ast í íslensku myndlistarlífi einmitt núna. Um næstu áramót verður Upplýsingamiðstöð myndlistar (UMM) lögð niður. Miðstöðin tók til starfa árið 1995 og á þeim tíma hefur verið byggður upp verðmætur gagnagrunnur um íslenska myndlist. Lengi vel væntu menn þess að UMM myndi þróast yfir í kynningarmiðstöð sem hefði það aðalmark- mið að kynna íslenska myndlist erlendis en sökum fjárskorts hefur aldrei tekist að uppfylla nema hluta af settum markmiðum. Myndlist- armenn hafa ekki gefið upp alla von um að á grunni UMM rísi ný og efld stofnun, ekki ósvipuð DCA sem var bakhjarl Ólafs Elíassonar. Enda þótt starfsfólk menningarmálaskrifstofu menntamálaráðuneyt- isins sé allt af vilja gert er ekki gert ráð fyrir krónu til verkefnisins í fjárlagafrumvarpi stjórnarinnar. Ef við þurfum að bíða í heilt ár eftir nýju stofnuninni er 30 milljónunum sem farið hafa til UMM frá 1995 einfaldlega hent í ruslið þar sem gagnagrunnar úreldast mjög hratt ef þeim er ekki haldið við. Á sama tíma og þetta á sér stað er höfðingleg gjöf Guðmundu sálugu Andrésdóttur til þjóðarinnar gerð opinber en hún skilur eftir sig öfl- ugan styrktarsjóð fyrir námsmenn í myndlist og styrkir með því grunninn að starfsgreininni betur en nokkur annar. Það er eitthvað öf- ugsnúið við það að fátæk kona (því hún var engin hátekjukona þó henni tækist að spara fyrir þessu takmarki með líferni sínu) skuli leggja menningunni til slíkan styrk á meðan ríki og atvinnulíf virðast horfa með eftirsjá á eftir hverri krónu til myndlistar. Myndlistarmenn hafa um langt árabil reynt að opna augu yfirvalda fyrir þeirri staðreynd að myndlist er útflutningsgrein sem getur skilað miklum arði ef vel er haldið á spöðum. Göngum nú ekki af göflunum yfir velgengni Ólafs Elíassonar! Leyfum Dönum að njóta ávaxtanna af sínu starfi. Reynum frekar að sjá sóma okkar í því að standa á eigin fótum. Búum til okkar eigin Ólaf. Ræktum garðinn okkar og munum að myndlist er arðbær atvinnugrein ef að henni er hlúð. Allir vildu Lilju kveðið hafa Eftir Áslaugu Thorlacius Höfundur er myndlistarmaður og formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna. FIMMTUDAGSKVÖLDIÐ 16. október var haldinn kynning- arfundur vegna Lundarsvæðisins í Kópavogi. Húsfyllir var í Félagsheimili Kópavogs. Ef ég met fundinn rétt var enginn þangað kominn til að mót- mæla því að Lund- arsvæðið verði bet- ur nýtt undir byggingar eða að handhafi nýtingarréttar hafi tekjur af. Umræðan um nýtingu á Lundarsvæðinu snýst um það, hverskonar uppbyggingu bæj- arbúar kjósi á þessu landsvæði. Hlutverk bæjarfélagsins – bæj- arstjórnar og bæjarstofnana – hlýtur að vera það að skipuleggja sanngjarna nýtingu á Lundarland- inu í þolanlegri sátt við þá íbúa sem fyrir eru í nágrenninu og í bæjarfélaginu. Þegar þeirri skipu- lagsvinnu er lokið á bæjarfélagið að ganga til samninga við hand- hafa nýtingarréttarins (einnig nefndur erfðafesturéttur). Eðli málsins samkvæmt ætti bæjarstjórnin að líta á sig sem samningsaðila andspænis hand- hafa nýtingarréttarins. En það virðist ekki ætlunin. Á fundinum á fimmtudag var kynnt einungis ein hugmynd um uppbyggingu á Lundarsvæðinu og hún er komin frá þeim aðila sem telst handhafi nýtingarréttarins. Sá aðili – en ekki bæjaryfirvöld – hefur látið hanna þá uppbyggingu sem áform- uð er á landinu. Handhafinn á í vændum vænar sölutekjur fyrir nýtingarréttinn og miðast skipu- lagstillaga hans auðvitað við sem allra mestan þéttleika byggðar, sem allra flestar íbúðir og þar með sem allra mest verðmæti landsins. Hvað annað? Vissulega borga þeir brúsann, sem kaupa nýju íbúðirnar í Lund- arlandinu, en það þýðir ekki að samningar milli bæjarfélagsins og handhafa nýtingarréttar eigi að mótast einhliða af hagsmunum þeirra síðarnefndu. Á kynning- arfundinum kom fram einörð and- staða gegn þeim tröllvöxnu íbúð- arblokkum sem áformaðar eru á Lundarlandinu. Örfáir verjendur nýja skipulagsins töldu hugsanlegt að lækka risablokkirnar um eina eða tvær hæðir til að lægja and- ófsöldurnar. Vafalaust hefur verið reiknað með málamynda und- anslætti í fyrirliggjandi skipulags- áætlun. Kjarni málsins er sá að bæj- aryfirvöld nálgast skipulag Lund- arsvæðisins á röngum forsendum. Eina rétta leiðin er að gera það sem stungið var upp á af nokkrum ræðumönnum á kynningarfund- inum. Skoða málið upp á nýtt og nú á forsendum íbúa í bæjarfélag- inu. Tillagan sem verið var að kynna á fundinum er hvort eð er ekki nema fimm mánaða gömul. Eindregin ósk kom fram um að auglýst verði eftir hugmyndum um nýtingu Lundarlandsins og valin verði sú uppbyggingartillaga sem flestir geta sætt sig við. Þeg- ar bæjarstjórnin hefur ákveðið á sjálfstæðum forsendum í samráði við bæjarbúa hver verði nýting Lundarsvæðisins er hægt að ganga til samninga við handhafa nýtingarréttarins. Sú leið sem bæjarstjórnin hefur valið býður heim þeirri hættu að þetta byggingarland sé hannað einungis frá sjónarhorni hámarks- arðsemi, þvert á vilja íbúa í Kópa- vogi. Bæjarbúar verða að taka í taumana áður en það er um seinan og leiða bæjarstjórninni fyrir sjónir að til sé sanngjörn og mál- efnaleg lausn. Uppbygging Lundar í Kópavogi Eftir Jón Ásgeir Sigurðsson Höfundur er fréttamaður og íbúi í Kópavogi. ÁRIÐ 2004 er ár fatlaðra í Evr- ópu. Ýmislegt er í gangi vegna ársins (sjá arfatladra.is). Öryrkjabandalag Íslands er samtök fatlaðra á Íslandi. Þar innanborðs eru 29 félög (sjá obi.is), sem hvert um sig er landssamtök fólks sem ákveðin fötlun snertir á einhvern hátt. Fötlun getur verið af ýmsum toga. Sum fötlun er sýnileg og önnur ekki. Á ári fatlaðra er ástæða til að fræða landsmenn um það sem gjarnan fer óþarflega lítið fyrir. Þ.e. umræða um þau takmörkuðu lífsgæði sem margt fólk er svo óheppið að fæðast með eða verður fyrir síðar á lífsleiðinni. Það sem ekki er rætt þekkja fáir og mynda sér því gjarnan rangar hug- myndir um. Þetta á við um margt af því sem hrjáir félaga í ÖBÍ. Sjálfur þekki ég best málefni mál- haltra, þeirra sem stama. Talið er að um 1% mannkyns stami. Af því má álykta að um þrjú þúsund íslendingar séu málhaltir á þann hátt að stama. Samt sem áður verða menn ekki mikið varir við fólk sem stamar. Það er líklega vegna þess að við sem stömum erum ekki nógu dugleg að láta í okkur heyra. Við tölum ekki nógu mikið, eða ef til vill er nákvæmara að segja að við stömum ekki nógu mikið. Við þegj- um. Í þögninni er einmitt fötlun þeirra sem stama fólgin. Málhaltir forðast gjarnan allar aðstæður sem reikna má með að þeir þurfi að tala við. Allir sjá við nánari athugun að í þessu fel- ast miklar hömlur, fötlun. Eina leiðin til að sporna við þögninni er að tala. Ef maður talar ekki einangrast mað- ur og fötlunin nær tökum á lífinu og þjóðfélagið verður af starfskröftum sem ekki fá notið sín. Þessi tjáningarfötlun getur líka horfið, þrátt fyrir að stamið sé enn til staðar. Ef málhaltur maður talar og lætur ekki stamið hindra sig hefur hann dregið verulega úr fötlun sinni. Fötlunin hættir að vera andleg og fé- lagsleg, en einangrast við að hann er lengur að tala en aðrir. Þá fötlun er miklu auðveldari við að eiga og hefur minni áhrif á líf fólks, en andlegu og félagslegu áhrifin af einangruninni sem fylgir því að draga sig í hlé og forðast samskipti við aðra. Með því að forðast að tala er viðkomandi í raun að auka fötlun sína. Vissulega er átak að tala þegar stamið er mik- ið, en það er eina leiðin til að minnka fötlunina. Þjálfun er mikilvæg – en umburðarlyndi og stuðningur þeirra sem hlusta er einnig mjög mik- ilvægur og getur skipt sköpum. Oft er sá stuðningur forsenda þess að fólk einangrist ekki. Skilaboð mín til málhaltra eru: Talið og þegið ekki. Skilaboð mín til landsmanna eru: Sýnið þeim þolinmæði og stuðning, sem eiga erfitt með að tjá sig. Í dag 22. október er alþjóðlegur upplýsingadagur um stam. Af því til- efni stendur Málbjörg fyrir fræðslu- fundi um stam í Keflavík í húsnæði Iðnsveinafélagsins Tjarnargötu 7 kl. 18 til 20. Erindi flytur Elmar Þórð- arson formaður félags talmeina- fræðinga og börn sem stama verða með uppákomu. Auk þess verður kynnt norræn ráðstefna Málbjargar, sem fram fer í Stykkishólmi að ári. Fundurinn er öllum opinn. Málhaltir á Evrópuári fatlaðra Eftir Björn Tryggvason Höfundur er formaður Málbjargar, félags um stam. TÍMAMÓT eru að verða í þjónustu og ráðgjöf við for- eldra og aðstandendur langveikra, fatlaðra og þroska- heftra barna. Það hillir undir starfsemi Sjónarhóls, nýrrar ráðgjafarmiðstöðvar fyrir alla þá landsmenn sem hafa fram að þessu þurft að flakka á milli margvíslegra stofnana í leit að svörum við meini og möguleikum barna með sérþarfir. Margir hafa týnst á þessu ferðalagi um kerfið, enn aðrir gefist upp á miðri leið – og eftir sitja börnin, sem fara á mis við mannréttindi. Óhætt er að segja að Sjónarhóll verði bylting í allri upplýsingamiðlun til aðstandenda barna með sérþarfir. Sjónarhóll mun í krafti fagmennsku verða einskonar umboðmaður allra barna hér á landi sem glíma við langvarandi veikindi og fötlun. Stofnun Sjónarhóls er ávísun á betra og réttlátara líf fyrir þær þúsundir barna og forráðamenn þeirra sem árlega glíma við al- varleg veikindi. Sjónarhóll verður bandamaður þessa fólks í glímunni við kerfið og þar verður á einum stað hægt að leita svara við öllum þeim spurningum sem leita á huga fólks í þessum efnum. Langvarandi veikindi, fötlun og þroskahömlun er mikill missir, fyrst og fremst fyrir þann einstakling sem þarf að búa við skerta heilsu og lífsgæði, en við það bætist að aðstandendur barna með sérþarfir vita lítt hvernig og hvar á leita hjálpar og þjónustu. Þá hefur sárlega skort leiðsögn um völundarhús velferðarkerf- isins. Margvísleg réttindi hafa verið brotin á þessu fólki, af því einfaldlega að þekkingu og reynslu á að- stæðum barna með sérþarfir hefur fram að þessu ekki verið að finna á einum stað. Sjónarhóll er lausnin; leið- sögumaður fólks um kerfið. Það vita þeir sem hafa eignast fatlað eða alvarlega veikt barn, að langan tíma tekur að átta sig á áfallinu. Því fylgir dofi og máttleysi. Að sumu leyti má líkja þessari reynslu við högg sem dynja reglubundið á manni. Börn geta ef til vill aðlagað sig fötlun og lang- varandi veikindum sínum, en foreldrar venjast þessu ekki. Foreldri verður aldrei sátt við fötlun eða veikindi barns síns. Það er ekki síst af þessum sökum sem for- eldrum sárnar það óskaplega að mæta lokuðum dyrum eða vera vísað frá einni stofnun til annarrar, frá einu ráðuneyti til annars, þegar þeir leggja af stað með barni sínu út á langa vegu réttindabaráttunnar. Margt er mjög vel gert í velferðarlandinu, en vand- inn er sá að fólk þarf ekki einasta að vera heilbrigt til að kljást við kerfið, heldur og heppið, útsjónarsamt, fullt þráhyggju og frekju – og helst hafa ekkert annað að gera en að berjast með barni sínu. Umhyggja fyrir börnum með sérþarfir er fullt starf. Stofnun Sjónarhóls er eitthvert merkasta framlag til mannréttindabaráttu hér á landi á síðustu árum. Landsmenn allir geta veitt starfsemi hans liðsinni í landssöfnun sem hefst í byrjun nóvember undir heitinu: Sérstök börn til betra lífs. Sjónarhóll – fyrir sérstök börn Eftir Sigmund Erni Rúnarsson Höfundur er í undirbúningshópi fyrir landssöfnun Sjónarhóls 8. nóvember 2003. GLEÐILEGUR nýjungarbragur fannst mér að því er biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, sýndi þá röggsemi af sér á dögunum að standa upp fyrir málstað hinnar lúthersku, ev- angelísku þjóðkirkju landsins og andmæla – þótt af mestu hóg- værð væri – kjafta- vaðli um aðskilnað ríkis og kirkju, sem er í senn afburða lágkúruleg hug- mynd og vottur um undirlægjuhátt gagnvart rausi um „kröfur nýrra tíma“ og aðra ámóta moðsuðu. Því ánægjulegra var þetta þar sem und- irrituðum hefur lengi þótt skorta á að kirkjuleg yfirvöld héldu merki kirkj- unnar á loft af nægilegum myndug- leika – sem sjaldan hefur verið meiri þörf á en nú. „Kröfur nýrra tíma“ er afstætt hugtak – eða aðeins „hverf- andi gufa og fjúkandi fis“, eins og Helgi Hálfdánarson orðar það í þýð- ingu sinni á sálmi eftir Thomas Kingo. Það er reginmisskilningur að kirkjan eigi að vera „frjálslynd“. Öðru nær. Hún á að vera íhaldssöm og er nú freistandi að minna á orð föður núver- andi biskups, herra Sigurbjörns Ein- arssonar, sem sagði svo eft- irminnilega: „Sú kirkja sem giftist tíðarandanum lendir fljótt í ekkju- standi.“ Það mun lítilli lukku stýra að hrekja hina eldgömlu þjóðkirkju landsins út á gaddinn með því að ríkisvaldið kippi til sín hendinni og skipi henni þannig jafnan sess við hvers konar fíflskap, sem nú veður svo mjög uppi, og boðar trú á „stokka og steina“ ef því er að skipta. Ekkert er að því að finna þótt aðflutt fólk reisi sér sínar moskur og synagógur eftir því sem trú þeirra og löngun stendur til – það er bara sjálf- sagt mál. En að íslenska þjóðkirkjan víki sæti eða sé sett til jafns við þessi og önnur trúarbrögð er fráleitt. Henni ber allur forgangur í trúarlífi landsins, eins og verið hefur um aldir, og að stofna tilurð hennar í hættu með því að ríkisvaldið láti af stuðningi við hana hefði hrapallegar afleiðingar í för með sér fyrir gjörvalla menningu þjóð- arinnar – langtum hrapallegri en mér heyrist fólk almennt gera sér grein fyrir. Það er óþarft fyrir biskupinn að vísa til þess að einhver „meirihluti“ sé hlynntur núverandi stöðu kirkjunnar og stuðningi við hana. Henni ber allur forgangur sem áður segir – og það þótt ótal „skoðanakannanir“ sýndu að fleiri en færri létu sig örlög hennar engu skipta. Skeytingarleysi um málefni kirkj- unnar er vissulega mikið í landinu. Tvímælalaust getur hún engan veginn talist „pópúler“ – og þess er svo sem varla að vænta. Og víst talaði ég um hug mér ef ég segði að mér þætti pré- dikanir margra þjóna hennar til- komumiklar. En það skiptir ekki meg- inmáli. Þetta er kirkja landsins og vonandi gefur Forsjónin Karli biskupi djörfung til að halda svo á málum að hún megi vera landslýðnum að minnsta kosti nokkur vörn fyrir öflum hins illa, sem sannarlega eru nú rammauknari að mætti og áhrifum en nokkru sinni – þótt víst sé þá sterkt að orði kveðið. Að endingu hlýt ég að árétta að hvorki biskup né stjórnvöld eiga að skeyta minnstu vitund um áhugaleysi mikils hluta almennings um kirkjuna. „Áhugi“ kemur og fer – en kirkjan stendur. Og þannig á það að vera. Fyrir skemmstu fagnaði þessi elsta og helgasta stofnun landsins þúsund ára afmæli sínu. Þá staðfesti þjóðin marg- nefnt áhugaleysi sitt með því að „gefa skít“ í þau veglegu hátíðarhöld sem til var efnt á Þingvöllum og fjargviðrast yfir þeim fjármunum sem til þeirra var varið – en það voru í rauninni „smáaurar“ þegar um svo stórkost- legan viðburð var að ræða. Margir glöddust og töldu að þar hefði kirkjan og stjórnvaldið orðið sér ærlega til skammar. En því verr höfðu menn endaskipti á hlutunum: Það var ÞJÓÐIN sem varð sjálfri sér til skammar. En það minnir mig að eng- inn hafi þorað að segja nema herra Sigurbjörn Einarsson. Hafi hann heila þökk fyrir. „Þú hverfandi gufa, þú fjúkandi fis…“ Eftir Atla Magnússon Höfundur er rithöfundur.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.