Morgunblaðið - 29.10.2003, Síða 10
FRÉTTIR
10 MIÐVIKUDAGUR 29. OKTÓBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ
MAGNÚS Þór Hafsteinsson, þing-
maður Frjálslynda flokksins, kvaddi
sér hljóðs í upphafi þingfundar á Al-
þingi í gær og beindi þeirri spurningu
til þeirra ráðherra sem staddir voru á
þingi hvort umsókn Færeyinga um
fullgilda aðild að Norðurlandaráði og
Norrænu ráðherranefndinni hefði
verið tekin til formlegrar umfjöllunar
í ríkisstjórninni eða í utanríkismála-
nefnd þingsins. Kom fram í máli
Magnúsar að þingflokkur Frjáls-
lyndra styddi umrædda umsókn Fær-
eyinga. „Okkur ber að styðja þá með
ráðum og dáð í baráttu þeirra fyrir
auknu sjálfstæði. Ég tala nú ekki um
þegar einróma stuðningur Lögþings
Færeyja er á bak við eins og er í
þessu tilfelli.“ Vísaði hann til þess að
Lögþingið hefði samþykkt einróma
að sækja um fullgilda aðild að Norð-
urlandaráði.
Þingmenn annarra stjórnarand-
stöðuflokka tóku undir málflutning
Magnúsar og töldu eðlilegt að Íslend-
ingar styddu umsókn Færeyinga. Þá
gagnrýndu þeir að Davíð Oddsson
forsætisráðherra skyldi ekki hafa lýst
yfir stuðningi við umsóknina á þingi
Norðurlandaráðs sem nú stendur yfir
í Ósló.
Guðni Ágústsson, starfandi utan-
ríkisráðherra í fjarveru Halldórs Ás-
grímssonar, sagði á hinn bóginn að
erfitt væri fyrir Íslendinga að blanda
sér inn í deilur Færeyinga og Dana og
Árni Mathiesen sjávarútvegsráð-
herra sagði að fullveldi Færeyinga
væri viðkvæmt mál.
Einróma óskir
Össur Skarphéðinsson, formaður
Samfylkingarinnar, tók í sama streng
og Magnús Þór Hafsteinsson og sagði
að það væri fullkomlega eðlilegt að Ís-
lendingar sem fullvalda og sjálfstæð
þjóð tækju undir einróma óskir fær-
eyska Lögþingsins. „Færeyingar
hafa einsett sér að verða fullvalda ríki
og þeir líta á það sem hluta af sjálf-
stæðisbaráttu sinni að taka sæti í
Norðurlandaráði meðal helstu frænd-
þjóða sinna.“ Bætti hann því við að
Færeyingar hefðu alla burði til þess
að verða fullvalda þjóð. „Þegar fær-
eyska Lögþingið samþykkir svona
ósk einróma er ákaflega erfitt fyrir
Íslendinga að standa álengdar hjá.“
Þuríður Backman, þingmaður
Vinstrihreyfingarinnar - græns fram-
boðs, sagði það miður að fulltrúar Ís-
lendinga á þingi Norðurlandaráðs
skyldu ekki hafa lýst yfir stuðningi
við ósk Færeyinga. „Ég hefði talið
það eðlilega byrjun og stuðning við
erindi þeirra að við Íslendingar
styddum beiðni þeirra og settum
þetta í ákveðinn farveg til frekari
vinnslu,“ sagði hún. Þess má geta að
Steingrímur J. Sigfússon, formaður
VG, hefur lýst yfir stuðningi við erindi
Færeyinga á þingi Norðurlandaráðs.
Viðkvæmt mál
Árni Mathiesen sjávarútvegsráð-
herra sagði að fullveldi Færeyinga
væri viðkvæmt mál. „Við höfum mikl-
ar tilfinningar til þeirra og mikinn
skilning á stöðu þeirra. Þeir hafa í alla
staði reynst okkur vel í okkar málum í
gegnum tíðina. Við viljum auðvitað
reynast þeim vel líka. Við verðum
hins vegar að gæta að okkur í því
samstarfi sem Norðurlandasamstarf-
ið er. Það byggir að mestu leyti, ef
ekki nánast öllu, á því að það sé sam-
staða um hlutina, að ekki er hægt að
taka ákvörðun um að útvíkka sam-
starfið og fjölga þar aðildarþjóð-
um…án þess að um það sé samstaða
meðal allra aðildarþjóðanna. Sérstak-
lega þarf að fara varlega í þessum
efnum ef einhver þessara þjóða telur
að það málefni sem hér er til umræðu
brjóti gegn stjórnarskrá einnar aðild-
arþjóðanna.“
Hjálmar Árnason, formaður þing-
flokks framsóknarmanna, sagði það
hárrétt að hér væri um stórt og mikið
mál að ræða „og hér er mál sem er
sannarlega ástæða til þess að Alþingi
fjalli um,“ sagði hann. „Hins vegar er
rétt að vekja athygli á því að ekkert
slíkt erindi hefur borist frá Lögþingi
Færeyinga. Það er líka rétt að draga
það fram að enn hafa Færeyingar
ekki tekið þá stóru pólitísku ákvörðun
að stíga sjálfstæðisskrefið til fulls.“
Guðni Ágústsson sagði að umsókn
Færeyinga hefði ekki verið rædd í
ríkisstjórn. „Ég get tekið undir þá
skoðun að það er mjög erfitt fyrir Ís-
land að setja sig í deilur þessara
frændþjóða,“ sagði hann og vísaði til
Færeyinga og Dana.
Rækta vinskap við báðar þjóðir
„Ég hygg að það sé mikilvægt á
meðan Færeyingar berjast fyrir sínu
frelsi að aðrar þjóðir gangi ekki inn í
þá samninga …,“ sagði hann enn-
fremur. „Mér finnst heiðarleg afstaða
að blanda sér ekki í þær deilur og
reyna heldur að rækta vinskap við
báðar þessar þjóðir.“
Skiptar skoðanir á Alþingi um afstöðu Íslands til umsóknar Færeyinga að Norðurlandaráði
Stjórnarliðar segja málið viðkvæmt
Stjórnarand-
stæðingar vilja
að Íslendingar
styðji umsóknina
Þuríður
Backman
Össur
Skarphéðinsson
Magnús Þór
Hafsteinsson
Árni
Mathiesen
Hjálmar
Árnason
Guðni
Ágústsson
Finnsk samtök hljóta umhverfisverðlaun
FINNSK umhverfissamtök, Luonto-Liitto, hlutu í gærkvöld umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 2003. Þóttu
samtökin m.a. hafa unnið vel að því að koma á umhverfisvænum leiksvæðum fyrir börn og unglinga. Minttu Massinen
og Jake Lahti-Olsen, fulltrúar samtakanna, tóku á móti verðlaununum við hátíðlega athöfn í gær. Í máli Lahti-Olsen
kom fram að samtökin hefðu starfað í sextíu ár og að verðlaunin væru mikil viðurkenning fyrir starfsemi þeirra.
POUL Schlüter, fyrrverandi for-
sætisráðherra Dana, sagði á þingi
Norðurlandaráðs í Ósló í gær að fjár-
málaráðherrar Norðurlandanna
hefðu á fundi sínum í fyrradag ekki
sýnt neinn pólitískan vilja til að leysa
vandamál vegna flutnings fjármagns
milli landanna. Schlüter gerði á
þinginu í gær grein fyrir því verkefni,
sem hann hefur haft með höndum sl.
mánuði, um að afnema landamæra-
hindranir milli Norðurlandanna.
Kom hann í ræðu sinni m.a. inn á
vandamál vegna fjármagnsflutninga.
Sagði hann að fjármálaráðherrar
landanna hefðu fengið það verkefni að
kanna af hverju það tæki svo langan
tíma fyrir bankana að millifæra fjár-
magn milli landanna og hvers vegna
kostnaðurinn við að millifæra væri
eins hár og raun bæri vitni. Hann
sagði að rætt hefði verið um þetta
vandamál á fundi ráðherranna í fyrra-
dag en þeir hefðu þó ekki komið sér
saman um neina lausn. Sagðist hann
hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum
með það.
Schlüter sagði að þetta málefni yrði
aftur tekið upp á sameiginlegum
fundi fjármálaráðherranna eftir hálft
ár en þangað til myndu norrænir
þegnar áfram lenda í vandræðum
vegna millifærslu peninga. Hann
benti þó á að ýmislegt annað hefði
verið rætt á fundi fjármálaráðherr-
anna og nefndi m.a. í því sambandi
skattamál. Til að mynda hefði verið
rætt um að setja upp „sameiginlegt
rafrænt skattakerfi“ sem á að gera al-
menningi kleift að reikna út skatta
sína í hverju landi fyrir sig.
Schlüter fór yfir fleiri þætti og
áfanga í þeirri leið að opna landamær-
in milli Norðurlandanna. Hann sagði
m.a. frá því að á næsta ári yrðu breyt-
ingar á samningum um þjóðskrár
þannig að einfalt og fljótlegt yrði fyrir
fólk sem flytur á milli Norðurlanda að
fá nýja kennitölu.
Nafnareglum breytt
Schlüter sagði að íslensk nafnahefð
væri ákveðin landamærahindrun. „Ís-
lendingar hafa sérstaka nafnahefð;
barnið ber nafn föðursins, en síðan
bætist við dóttir eða sonur. Áður fyrr
var það vandkvæðum bundið að nota
þessa nafnahefð í Svíþjóð en vanda-
málið var leyst með því að breyta
sænsku nafnareglunum, á nánast
einni nóttu. Nú er uppi svipað vanda-
mál í Danmörku. Ég hef því talað við
danska forsætisráðherrann um þetta
og hann hefur tjáð mér að þessi vandi
verði leystur í Danmörku, á sama hátt
og í Svíþjóð, á næsta ári.“
Poul Schlüter gerir grein fyrir verk-
efni um afnám landamærahindrana
Vonbrigði að vand-
inn leystist ekki„VIÐ hörmum það að Hrókurinnskuli grípa til þessara ráða að brjóta
gegn lögum keppninnar og ekki síð-
ur hörmum við gífuryrði Hróksins
um þetta mál og stjórn Skáksam-
bandsins,“ segir Stefán Baldursson,
forseti Skáksambands Íslands, um
ummæli Hrafns Jökulssonar, forseta
Skákfélagsins Hróksins, í Morgun-
blaðinu í gær.
Að sögn Stefáns tók Skáksam-
bandið ekki efnislega afstöðu til
kæru Hróksins á fundi sínum í gær-
kvöldi en samþykkti ályktun þar sem
stjórnin harmar að Hrókurinn skuli
hafa tekið þá ákvörðun að brjóta í
bága við lög sambandsins með því að
tefla fram ólöglegu liði í þremur af
fjórum umferðum í fyrri hluta Ís-
landsmóts skákfélaga, Flugfélags-
mótsins, um helgina.
Stjórnin fellst ekki
á ummæli Hróksins
Hrókurinn hefur deilt á lög um
leyfilegan fjölda útlendinga í keppn-
inni en í ályktuninni kemur fram að
lögin hafi verið samþykkt á löglegum
aðalfundi Skáksambandsins og fé-
lögum beri að fara eftir þeim. „For-
svarsmönnum Hróksins, sem og öðr-
um félögum, var fyllilega ljóst
mörgum vikum fyrir keppni á Ís-
landsmóti skákfélaga að eftir þess-
um lögum sambandsins yrði farið.
Stjórn SÍ fagnaði þeim tillögum
Hróksins, sem hún fékk í bréfi í byrj-
un september, um að taka til endur-
skoðunar keppnina í heild sinni. Til
að koma til móts við þær óskir setti
stjórnin á laggirnar vinnuhóp sem
ætlað er að vinna að endurmati á
keppninni fyrir næsta aðalfund. Það
var hins vegar ljóst að engar breyt-
ingar gætu orðið á keppninni á þessu
ári sem brytu í bága við samþykktir
síðasta aðalfundar sambandsins.
Þetta vissu forsvarsmenn Hróksins
og það kemur stjórn Skáksambands
Íslands í opna skjöldu að Hrókurinn
skuli nú ákveða að brjóta gegn lög-
um keppninnar. Stjórn sambandsins
harmar að forsvarsmenn Hróksins
skuli láta að því liggja í fjölmiðlum að
stjórn Skáksambandsins sé jafnvel
að brjóta gegn mannréttindum ein-
stakra keppenda með því að fram-
fylgja samþykktum aðalfundar. Slík-
ur málflutningur er engum til
framdráttar og stjórn Skáksam-
bands Íslands getur ekki fallist á slík
ummæli. Íslandsmót skákfélaga er
langstærsta hátíð íslensks skáklífs
þar sem áhugamenn og -konur alls
staðar að af landinu koma saman til
að tefla undir merkjum sinna félaga.
Þetta er áhugamannakeppni þar
sem fimm ára upp í níræðir áhuga-
menn um skák af öllu landinu eru að
tefla og skemmta sér við skákborðið.
Mótið hefur ávallt haft á sér sérstak-
an ljóma þar sem skákunnendur
landsins hittast í góðu andrúmslofti
til að tefla. Það er von stjórnar Skák-
sambands Íslands að svo megi áfram
vera, skáklífi á landinu öllu til góðs,“
segir m.a. í ályktuninni.
Í tilefni af athugasemdum Hrafns
Jökulssonar í Morgunblaðinu í gær
segir Stefán að málið snúist ekki um
það hvort sér hafi verið ljóst að um-
rædd lög Skáksambandsins gætu
stangast á við alþjóðasamninga. Þau
viðhorf hafi verið öllum ljós á aðal-
fundi Skáksambandins síðastliðið
vor þegar lögin hafi verið samþykkt.
„Málið er að allir þeir sem greiddu
atkvæði með tillögunni um takmörk-
un á fjölda erlendra keppenda í Ís-
landsmóti skákfélag gerðu það í
þeirri trú að frjáls félagasamtök,
eins og Skáksambandið er, gætu sett
sér sínar eigin leikreglur líkt og
Skáksambönd fjölmargra annarra
landa gera. Þess má jafnframt geta
að lög Skáksambandsins eru mun
rýmri að þessu leyti en lög annarra
skáksambanda á Norðurlöndunum
og flutningsmenn tillögunnar töldu
sig vera að leggja fram málamiðlun-
artillögu.“
Vegna kærunnar segir Stefán að
Bragi Kristjánsson hafi verið skip-
aður sem varamaður í mótsstjórnina
á síðasta fundi stjórnar Skáksam-
bandsins fyrir keppnina, en málið í
heild sinni fari nú til skoðunar hjá
dómstóli Skáksambandsins.
Skáksambandið harm-
ar framkomu Hróksins