Morgunblaðið - 29.10.2003, Page 15
ERLENT
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 29. OKTÓBER 2003 15
MIKILL vandi blasir við Banda-
ríkjamönnum í Írak. Þeir stefna að
því að láta völdin í hendur lands-
mönnum sjálfum fyrir lok næsta
árs og verja miklu fé til uppbygg-
ingar í landinu en á sama tíma
eykst óöldin þar dag frá degi.
Bandaríkjamenn vilja sýna íbúum
Bagdadborgar, að þeir búi nú við
frelsi, en gera sér um leið grein
fyrir, að ætli þeir sér að girða fyrir
árásir og hryðjuverk verða þeir að
fjölga í herliðinu og stórherða tök-
in á borginni.
Nokkrum dögum fyrir hryðju-
verkahrinuna á mánudag voru
þessi mál til umræðu í Hvíta hús-
inu, í nefnd, sem Condoleezza Rice,
ráðgjafi Bandaríkjaforseta í örygg-
ismálum, skipaði til að fjalla um
aukinn stöðugleika í Írak. Haft er
eftir ónefndum háttsettum emb-
ættismanni, að frammi fyrir þess-
ari þversögn hafi lítið verið um
svör.
„Þótt við vildum getum við ekki
breytt Bagdad í einhvers konar
lögregluríki. Það myndi líka koma
fljótlega í bakið á okkur,“ sagði
embættismaðurinn.
Innantómar yfirlýsingar
Michele A. Flournoy, sem starf-
ar við rannsóknastofnun í herfræði
og alþjóðamálum (Center for
Strategic and International Stud-
ies) í Washington og var starfs-
maður varnarmálaráðuneytisins í
tíð Clintons, segir, að til að ná full-
um tökum á ástandinu í Bagdad
þurfi óhemju liðsafla og búnað,
miklu meira en Bandaríkjastjórn
sé tilbúin til að kosta til. Ef í það
yrði ráðist þrátt fyrir það myndi
það líklega „snúa íbúunum endan-
lega gegn okkur“.
George W. Bush, forseti Banda-
ríkjanna, brást við hryðjuverkun-
um á mánudag með því að halda
því fram, að þau væru til marks um
aukna velgengni Bandaríkjamanna
í Írak. Í örvæntingu sinni reyndu
hryðjuverkamennirnir að bregðast
við henni með fleiri árásum. Sagði
hann, að ástandið myndi batna
þegar Írakar sjálfir öxluðu meiri
ábyrgð á öryggismálunum.
Viðbrögð embættismanna í
Hvíta húsinu og í varnarmálaráðu-
neytinu eru þessu lík en undir fjög-
ur augu viðurkenna sumir, að það
sé komið tómahljóð í yfirlýsingar
af þessu tagi. Benda þeir á, að það
muni taka miklu lengri tíma en áð-
ur var áætlað að endurreisa íraska
herinn og það er einmitt tíminn,
sem er af skornum skammti.
Til að vinna Írakstillögu sinni
brautargengi í öryggisráði Samein-
uðu þjóðanna féllust Bandaríkja-
menn og Bretar á, að íraska stjórn-
arnefndin legði til fyrir 15.
desember næstkomandi hvenær
efnt yrði til kosninga og landinu
sett ný stjórnarskrá. Sir Jeremy
Greenstock, fulltrúi bresku stjórn-
arinnar í Bagdad, sagði svo nýlega,
að formleg valdaskipti ættu að
geta átt sér stað fyrir lok næsta
árs. Miðað við ástandið nú er ekki
líklegt, að af því geti orðið.
Vita lítið um óvininn
Svo virðist sem andstæðingar
Bandaríkjamanna geti farið sínu
fram í Bagdad og í „Baath-þrí-
hyrningnum“, sem svo er kallaður,
en á því svæði er stuðningurinn við
Saddam Hussein, fyrrverandi for-
seta, mestur. Þeir hafa augljóslega
aðgang að vopnum og sprengiefni
og lítill skortur virðist vera á
mönnum, sem eru reiðubúnir að
fórna sjálfum sér í sjálfsmorðs-
árásum.
Árásir á lögreglustöðvar koma
ekki á óvart. Til langs tíma litið er
íraska lögreglan helsti óvinur
hryðjuverkamannanna. Árásin á
Rauða krossinn á mánudag bendir
hins vegar til heilags stríðs músl-
íma, ekki endanlega gegn þeim,
sem taldir eru starfa með her-
námsliðinu, heldur gegn kristnum
samtökum. Þar gætu al-Qaeda-
hryðjuverkasamtökin verið að
verki.
Hugsanlega er um að ræða sam-
starf með stuðningsmönnum Sadd-
ams, baathistum, sem eru almennt
veraldlega sinnaðir, og bókstafs-
trúarmönnum en athygli vekur hve
Bandaríkjamenn virðast vita lítið
um þá, sem standa að baki árás-
unum. Stundum er stuðnings-
mönnum Saddams kennt um,
stundum útlendum liðsmönnum al-
Qaeda eða annarra hryðjuverka-
samtaka en samt er ekkert borð-
liggjandi í þeim efnum. Ljóst er, að
þessi skortur á haldgóðum upplýs-
ingum um óvininn gerir það enn
erfiðara en ella að berjast gegn
honum.
Síðustu daga hefur Donald
Rumsfeld, varnarmálaráðherra
Bandaríkjanna, verið á fundum
með háttsettum herforingjum og
Paul Bremer, ráðsmanni Banda-
ríkjastjórnar í Írak. Þar hafa verið
rædd hugsanleg viðbrögð við aukn-
um skæruhernaði í landinu en sagt
er, að enn sé ekki ljóst hver þau
verða. Samt liggur mikið á. Það er
mat bandarískra leyniþjónustu-
stofnana og háttsettra manna í
hernum, að takist ekki að brjóta á
bak aftur andstöðuna í Ítrak á
næstu þremur til sex mánuðum
muni almenningur í landinu ganga
til liðs við hana.
Heimildir: BBC, New York Times, AFP,
Washington Post.
Aukin harka eða aukin upplausn
Bandaríkjamenn standa frammi fyrir
ákveðinni þversögn í Írak. Þeir vilja sýna
landsmönnum fram á, að þeir búi nú í opnu
og frjálsu samfélagi, en um leið vita þeir,
að til að koma á stöðugleika og stemma
stigu við auknum árásum og hryðjuverk-
um verða þeir að beita meiri hörku.
AP
Íraskur drengur með brauðkörfu á höfði fyrir framan aðalstöðvar Rauða krossins í Bagdad þar sem sjúkrabíll,
fullur af sprengiefni, var sprengdur á mánudag. Enginn lést inni í byggingunni í árásinni en húsið er ónýtt.
’ Getum ekkibreytt Bagdad í ein-
hvers konar lög-
regluríki. ‘
SEX manns að minnsta kosti, þar á
meðal börn, týndu lífi þegar bíl-
sprengja sprakk í bænum Fallujah í
Írak í gær, aðeins degi eftir blóð-
ugustu hryðjuverk í Bagdad síðan
Bandaríkjamenn náðu borginni.
Sprengjan sprakk í um 150 metra
fjarlægð frá lögreglustöð í Fallujah,
sem er 50 km vestur af Bagdad. Er
litið á hryðjuverkið sem enn eina
viðvörun til írösku lögreglunnar um
að starfa ekki með Bandaríkja-
mönnum. Þeir, sem létu lífið, voru
allt óbreyttir borgarar en auk
þeirra slösuðust átta.
„Hryðjuverkamennirnir eru að
reyna að sá hámarksótta og skelf-
ingu meðal fólks,“ sagði ónafn-
greindur fulltrúi hernámsyfirvalda
eftir þetta nýjasta tilræði herskárra
andstæðinga hernámsins.
Bandaríska herstjórnin í Írak til-
kynnti í gær, að Faris Abdul Razz-
aq al-Assam, einn af aðstoðarborg-
arstjórum Bagdadborgar, hefði
verið skotinn til bana skammt frá
heimili sínu á sunnudag. Var hann
þá nýkominn heim af Madridarráð-
stefnunni um uppbygginguna í Írak.
Sprengingar í Basra
Sprengja sprakk í borginni Basra
í Suður-Írak í gær, sú þriðja á
þremur dögum, og særðust þá lít-
illega breskur hermaður og tveir
Írakar. Einn bandarískur hermaður
féll í árás í Bagdad í fyrradag en
ekki var skýrt frá því fyrr en í gær.
Hafa þá alls 114 bandarískir her-
menn fallið eftir 1. maí er lýst var
yfir að meginátökum í landinu væri
lokið.
Bílsprengja í Fall-
ujah banar sex
Aðstoðarborgar-
stjóri í Bagdad
skotinn til bana
Fallujah. AFP.
FREDRIK
Reinfeldt var
kjörinn nýr leið-
togi Hægri-
flokksins í Sví-
þjóð síðastliðinn
laugardag. Var
mikill einhugur
um hann en
hann tekur við
formannsstöð-
unni í flokknum af Bo Lundgren.
Ljóst hefur verið í nokkurn
tíma, að Reinfeldt myndi taka við
sem leiðtogi Hægriflokksins en
Lundgren tilkynnti í apríl í vor, að
hann ætlaði að draga sig í hlé. Var
ástæðan slæm útkoma flokksins í
kosningunum á síðasta ári en þá
fékk hann aðeins 15% atkvæða en
fékk 23% í kosningunum 1998.
Með Reinfeldt í forystunni nú eru
tvær konur, þær Gunilla Carlsson
og Kristina Axén Olin. Eru þær
annar og þriðji talsmaður flokks-
ins.
Reinfeldt hefur stundum verið
gagnrýndur fyrir að vilja færa
Hægriflokkinn nær miðju en hann
svarar því til, að stjórnmálin snúist
ekki bara um hægri og vinstri,
heldur ekki síður um raunsæi.
Ábyrgir stjórnmálamenn verði að
átta sig á hvað er raunhæft og for-
gangsraða málunum.
Reinfeldt er 38 ára að aldri, hag-
fræðingur að mennt, kvæntur og
þriggja barna faðir.
Nýr leiðtogi
Hægriflokksins
Fredrik Reinfeldt