Morgunblaðið - 13.09.2003, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - 13.09.2003, Blaðsíða 17
Trockenbeerenauslese og Ausbruch eru þar helstu flokkarnir auk Eiswein. Sem betur fer er nú verið að hverfa frá þessum skilgreiningum og taka upp svipað kerfi og franska AOC-kerfið. Var fyrsta skrefið tekið í Weinviertel í mars á þessu ári er byrjað var að flokka vín eftir DAC (Districtus Austria Controllatus) sem stefnt er að því að taka upp í öllum víngerðarhéruðum Austurríkis ef vel gengur. Þetta eru hins vegar einungis hinar opinberu skilgreiningar. Í nánast hverju einasta héraði er að finna einhvers konar samtök eða hópa framleiðanda sem hafa tekið sig saman um að búa til sínar eigin skilgreiningar þessu til viðbótar. Yfirleitt er þar um að ræða bestu framleiðendur héraðsins eða þá yngri framúrstefnuframleiðendur sem vilja skera sig úr fjöldanum. Má nefna “Rubin Carnuntum” í Carnuntum héraði sem dæmi. Auðvitað er þetta gert til að draga fram góð vín. Maður þarf hins vegar ekki að ferðast lengi um vínhéruð Austurríkis áður en maður fer að reyta hár sitt og stundum vill maður helst hrópa á menn að hætta þessu og reyna að sameinast um kerfi sem er nokkurn veginn skiljanlegt fyrir utanaðkomandi. Magn er síðan annað vandamál. Austurríki er fremur lítið víngerðarland og eru einungis 50 þúsund hektarar af landi undir vínvið. Heildarframleiðslan nemur um 250 milljónum lítra og þar af neyta Austurríkismenn 80% sjálfir. Rúmlega sjötíu prósent framleiðslunnar er hvítvín. Það er því ekki mikið magn sem fer í útflutning og því kannski ekki svo skrýtið að austurrísku vínin skuli vera jafnsjaldséð og raun ber vitni. Framleiðsla bestu framleiðandanna er að auki oft einstaklega lítil, ekki síst af eftirsóttustu vínunum. Vínin er sömuleiðis ekki ódýr. Austurríki skiptist upp í fjögur vínhéruð, Niederösterreich, Burgenland, Steiermark og Vín. Þessi fjögur héruð eru síðan flokkuð niður í alls sextán undirsvæði, átta í Niederösterreich, fjögur í Burgenland og þrjú í Steiermark. Höfuðborgin Vín er síðan óskipt vínframleiðslusvæði og raunar eina höfuðborg heims, sem getur státað af slíku. Það er ræktað margs konar vín í Vín en svæðið er lítið (620 hektarar) og fer því lítið fyrir því utan höfuðborgarinnar, enda neyta íbúar hennar þorra framleiðslunnar. Langmikilvægast er héraðið Niederösterreich í norðausturhorni landsins. Þar er ræktað vín á sextán þúsund hekturum og þar má finna frægustu víngerðarsvæðin jafnt sem þekktustu framleiðendur Austurríkis. Weinviertel er stærst í magni og þaðan kemur um helmingur heildarframleiðslu landsins. Þekktast er Weinviertel fyrir Grüner Veltliner hvítvín og Weissburgunder en ekki síst í suðurhluta svæðisins eru einnig framleidd góð rauðvín úr Zweigelt. Bestu vín Niederöstereich koma hins vegar frá litlum svæðum við bakka Dónár: Wachau, Kremstal og Kamptal. Að öllum öðrum svæðum ólöstuðum er Wachau hið þekktasta. Í stöllum á 33 km löngu svæði við hina bröttu árbakka Dónár eru ræktuð frægustu hvítvín Austurríkis af framleiðendum á borð við Knoll, Prager, FX Pichler og Hirtzberger úr þrúgunum Riesling og Grüner Veltliner. Samtökin Vinea Wachau Nobilis Districtus hafa búið til sérstaka gæðaflokkun fyrir héraðið er byggist á áfengismagni vínanna. Fyrsti flokkurinn er nefndur Steinfeder og er það vín fremur létt og einfalt. Næst kemur flokkurinn Federspiel, en þá er vínið orðið meira um sig og loks er áfengismesta vínið flokkað sem Smaragd. Þetta eru vín framleidd í litlu magni rétt eins og bestu vín Búrgundarhéraðsins í Frakklandi og þau kosta skildinginn. Þarna er hins vegar um að ræða einhver margslungnustu hvítvín veraldar. Ódýrari en oft litlu síðri eru vínin frá svæðunum Kremstal og Kamptal. Raunar má segja að höfuðþorp austurrískrar vínframleiðslu sé Langenlois í Kamptal þar sem þekktir framleiðendur á borð við Willy Bründlmayer, Jurtschitsch, Josef Hirsch, Schloss Gobelsburg og Rupert Summerer eru með framleiðslu. Bestu vínin eru yfirleitt úr þrúgunum Riesling og Grüner Veltliner. austurríki m17

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.