Morgunblaðið - 13.09.2003, Side 16

Morgunblaðið - 13.09.2003, Side 16
AUSTURRÍKI kemst líklega næst því að vera best geymda leyndarmál vínheimsins. Þótt vínpressan hafi ekki haldið vatni yfir gæðum austurrískra hvítvína síðustu árin hefur hinn almenni neytandi ekki tekið við sér. Þótt flestir viti að þar séu framleidd vín (líklega vegna þess að marga rámar í fréttir af “vínhneykslinu” mikla fyrir nokkrum áratugum) gera fæstir sér grein fyrir að austurrísku hvítvínin eru einhver allra, allra bestu hvítvín sem framleidd eru í veröldinni. Og ekki nóg með það. Sætvínin geta keppt við hvaða sætvín sem er. Smám saman gæti þetta þó verið að breytast og leyndarmálið farið að leka út. Breska víntímaritið Decanter birti í byrjun ársins niðurstöður umfangsmikillar smökkunar þar sem Austurríki valtaði yfir flest af þekktustu hvítvínum veraldar. Nú í sumar birti síðan New York Times grein byggða á smökkun sérfræðinga blaðsins þar sem því var lýst yfir að austurrísk hvítvín væru sumarvínið í ár. Leyndarmálið verður vart leyndarmál mikið lengur. Þeir sem bragðað hafa á nýbylgjunni í austurrískri rauðvínsgerð átta sig jafnframt á því að þar er ekki síður mikið að gerast og eflaust ekki langt í að þau verði jafnumtöluð og hvítvínin. Það felst ákveðin þversögn í því að þrátt fyrir að austurrísku vínin séu tiltölulega sjaldséð í verslunum og á vínlistum víða um heim þá á víngerð sér lengri sögu í Austurríki en í flestum öðrum ríkjum. Keltar og Rómverjar ræktuðu vín á þessum slóðum og á miðöldum nutu austurrísk vín mikillar virðingar í Evrópu. Víngerð í Austurríki varð hins vegar fyrir gífurlegu áfalli um miðjan níunda áratuginn. Nokkrir austurrískir vínframleiðendur voru staðnir að því árið 1985 að blanda efnum (sem meðal annars má finna í frostlegi) út í vínið til að gera það sætara. Þetta olli miklu uppnámi, austurrískum vínum var kippt úr hillum vínbúða um allan heim og neytendur fóru að sniðganga þau. Þótt einungis hafi verið um mjög einangruð tilvik að ræða var fjölmiðlaumfjöllun mikil og hefur austurrísk vínframleiðsla verið að jafna sig á þessu hneyksli allt fram til dagsins í dag. Smám saman hafa austurrísku vínin hins vegar verið að ná sér á strik, ekki síst vegna nýrrar kynslóðar víngerðarmanna sem eru að breyta landslagi austurrískrar vínframleiðslu. Flestir eru sammála um að ekkert skipti jafnmiklu máli í austurrískri vínframleiðslu og kynslóðabilið. Austurríki er nú orðið að einhverju mest spennandi víngerðarsvæði Evrópu. Hlutirnir gerast hratt, hugmyndauðgin er mikil og menn eru stöðugt að reyna eitthvað nýtt. Nýjar þrúgusamsetningar, ný svæði, nýjar víngerðaraðferðir. Austurríkismenn gera sér vel grein fyrir vanda sínum. Það er ekki nóg að framleiða góð vín lengur. Út um allan heim eru menn að framleiða stöðugt betri vín og oft fyrir sífellt lægra verð. Í Chile, Suður- Afríku, Ástralíu og Nýja-Sjálandi er þróunin ekki síður ör og evrópskir vínframleiðendur standa frammi fyrir því að þeir eiga erfitt með að keppa við framleiðendur frá þessum ríkjum varðandi verð, magn og jafnvel gæði. Leynivopn Evrópu gæti líklega helst falist í því að bjóða upp á vín sem eru frábrugðin því sem Nýji heimurinn dælir út. Það er enginn skortur á “alþjóðlegum” Chardonnay og Cabernet Sauvignon-vínum sem oftar en ekki virðast öll steypt í nokkurn veginn sama mótið. Vissulega tæknilega ágæt en voðalega einkennalaus. Hér stendur Austurríki sterkt að vígi, einstakar aðstæður og einstakar þrúgur. Hver sá sem bragðað hefur á góðu hvítvíni úr þrúgunni Grüner Veltliner getur borið þess vitni að þau eiga sér fáa líka í heiminum. Bestu Riesling-vín Austurríkis geta sömuleiðis keppt við hvaða Riesling-vín sem er í heiminum. Það er hins vegar einnig margt sem gerir Austurríki erfitt fyrir á mörkuðum. Flöskumerkingar eru oft flóknar, alla jafna á þýsku og gjarnan með gotnesku letri. Flokkun vína er ekki ósvipuð því sem gengur og gerist í Þýskalandi. Vínum er skipt upp í gæðaflokka (Landwein, Qualitätswein, Kabinett, Prädikat) og eru að auki flokkuð eftir sætleika (trocken, halbtrocken, liebliech). Prädikats-vínin eru þessu til viðbótar flokkuð eftir því á hvaða þroskastigi þrúgurnar voru tíndar: Spätlese, Auslese, – ekki lengur leyndarmál… au st ur rí ki ST E IN G R ÍM U R S IG U R G E IR SS O N m16

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.