Morgunblaðið - 13.09.2003, Blaðsíða 43

Morgunblaðið - 13.09.2003, Blaðsíða 43
m43 „Oft fer góður matur í hunds- kjaft," má segja um þá sem éta án þess að skeyta um gæðin. „Illa fór nú matur minn, ég át hann," getur sá sagt sem gefur sér ekki tíma til að njóta matarins sökum græðgi. „Matháknum nægir aldrei nóg," má segja um þá sem meta magnið meira en gæðin. Siðfræði matarlystar geymir ýmis gildi í pottum sínum. Virðing er þar á meðal og þakklæti. Asíubúar eru t.d. sérlega færir í að rækta þessar dyggðir gagnvart mat. Við borðhald ber ennfremur að sýna sjálfsstjórn og kurteisi. Að eta er raunar mörgum þjóðum í öllum heimsálfum einskonar athöfn, jafnvel dýrmætustu stundir dagsins. Hjá þessum þjóðum telst t.d. brútal að snæða samlokur og aðra skyndibita á gangi úti á götu eða í bílnum á leiðinni í vinnuna. Sinn er siður í landi hverju ... KOSTIR OG LESTIR ÍSLENDINGA Kynslóðir Íslendinga á 19. og 20. öld lögðu mikla áherslu á þakklæt- ið. Oftast var það táknað með því að fara með borðbæn og að þakka guði fyrir matinn. Þessar kynslóðir höfðu vitund um móðu- harðindin á 18. öld og gátu búist við erfiðum tímum, þess vegna vildu þær þakka. Sá sem víða ratar sér að helsti löstur Íslendinga við matarborðið er að snæða of hratt. Bragðgott kjöt á borðum og lystugt er meðlætið - en heimilismenn og gestir þeirra standa á blístrinu eft- ir tuttugu mínútna linnulausa átt- örn. Er það fallegt? Bandaríkjamenn standa líka oftar á blístri en t.d. Frakkar samkvæmt fréttum í Morgunblaðinu, þess vegna eru þeir feitari: „Frakkar búa til mat á borð við smjördeigs- horn, gómsætt súkkulaði, feita gæsalifrarkæfu og drekka mikið af víni - en eru samt grannir, öfugt við Bandaríkjamenn, og lifa ekkert skemur. Svarið er einfaldlega að Frakkar borða að jafnaði minna ... Frakkar gefa sér einnig meiri tíma til að borða sem oft veldur því að þeir verða saddir af minna magni en Bandaríkjamenn." (26.08.03.Mbl). PASSLEGA SKAMMTAÐ HALLDÓRA Hugtak eins og virðing fyrir mat er óháð einstökum siðum. Á Íslandi er t.d. ósiður að skilja mat eftir á disknum, a.m.k. fannst eldri kyn- slóðum á 20. öldinni það mikil óvirðing við guð og náttúru. Það var líkt og yfirlýsing um vanþakk- lætti gagnvart máttarvöldum og gestgjöfum. Í Mexíkó jaðrar það hinsvegar við dónaskap að klára af disknum, það er meiriháttar yfirlýsing. Standi gestur upp frá tómum diski merkir það að hann hafi ekki feng- ið nóg og fari ósaddur frá borð- um. Ánægður gestur skilur eftir á disknum til að sýna að hann standi fullnægður upp frá borðhaldi. Að vísu taldist einnig við hæfi hjá fína fólkinu á Íslandi um aldamótin þar síðustu að skilja eftir á disknum. Gamall húsgangur af Austurlandi er gott dæmi um þessi mál, en hann er um það að skammta pass- lega á diskinn. Halldóra giftist bónda nokkrum og tók við búsforráðum. Fyrsta kvöld- ið skammtaði Halldóra í askana, en að máltíð lokinni sagði bónd- inn: „Of mikið skammtað Hall- dóra, engir luku." Næsta kvöld skammtaði Halldóra í askana og að máltíð lokinni sagði bóndi: „Misjafnt skammtað Hall- dóra, fáir luku." Þriðja kvöldið skammtaði Halldóra og varð bóndi hennar ánægður og sagði: „Passlega skammtað Halldóra, allir luku." Bóndi kunni betur við að bruðla ekki með matinn heldur en að vera viss um að allir væru örugg- lega saddir. EVA VAR MATGEFIN Allrahelst þarf núlifandi kynslóð að temja sér sjálfsstjórn og sjálfsaga gagnvart mat. Markmiðið á að vera: „Að hafa stjórn á hungur- hvötinni og falla ekki fyrir freist- ingum." Sá sem getur tamið sér sjálfsaga gagnvart mat getur einnig unnið andlega sigra á öðrum viðfangs- efnum. Ástæðan er að hófsemi er hvorki fugl né fiskur án sjálfsaga og hugrekki dugar skammt án sjálfsaga. Lífið eftir fyrsta hálfa árið eru um það að hemja sig og temja þangað til sálin hefur taum- hald á líkamlegum fýsnum sínum. Matvísi (matgræðgi) er nafn á ein- um af höfuðlöstum heilbrigðra manna, því hún opinberar að sá sem er haldinn henni hefur ekki stjórn á áti sínu. Dyggðin sem get- ur borið sigurorð af þessum lesti er ein og aðeins ein: Sjálfsagi. (Ekki átt við þá sem eiga við sjúk- dóminn átröskun að stríða). Matarfýsn er áhrifaríkur þáttur í þróunarsögu mannsins því Eva var matgefin. Eplið var ómótstæðilegt á grænni grein og Eva teygði sig í það. Adam fékk bita og Paradís hvarf eins og dögg fyrir sólu. Það er því löng hefð fyrir því að falla fyrir matarfreistingum; bitum, molum. Enn er þessi fýsn til umræðu: „Hópur franskra meistarakokka, rithöfunda og fjölmiðlastjarna hyggst á næstunni senda Jóhann- esi Páli II páfa formlega bæn um að matgræðgi verði fjarlægð af listanum yfir dauðasyndirnar sjö, eftir því sem franska blaðið Le Jo- urnal du Dimanche greindi frá í gær," stóð í Morgunblaðinu 13. janúar 2003. GEGN AGALAUSU ÁTI Græðgin hefur hlutverk í siðfræði matarlystar. Auðvelt er að verða sólginn í matarkræsingar, enda er lyst náskyld losta. Lostætur matur er holdsins lystisemd. En gómsæt- an bita á aðeins sá skilið sem hef- ur náð fullri sjálfsstjórn og aga gagnvart bitanum. Aðeins slíkur maður ætti að teygja fram hend- ina til að fá að gæða sér á honum. Hann er ekki gráðugur heldur etur af list. Iðka ber siðfræði matarlystar til að berjast gegn agalausu áti og verða fágaður í framkomu. Þeir sem éta bara þegar þeim listir fara ekki eftir neinum reglum eða sið- um. Iðkendur skulu því setja sér fastar reglur og prófa aga sinn og styrkleika. Prófið felst einfaldlega í því að setja sér fastar matarreglur og fylgja þeim líkt og um náttúru- lögmál sé að ræða. Reglurnar byggjast á sjálfsþekk- ingu og áhuga sérhvers einstak- lings. Þær geta falist í því að ákveða að nærast aldrei milli mála heldur aðeins að morgni, í hádegi og að kvöldlagi. Þrisvar eða fjór- um sinnum á dag. Nart milli mála yrði syndin og brotið. Sjálfsaginn felst í því að brjóta ekki þessa meginreglu. ÞRJÁR MEGINREGLUR Hugmyndin er að temja líkamann undir reglur. Það er andinn sem setur reglurnar og hann gerir það til að verða sjálfur frjáls, því sífellt nart truflar huga og heila. Matar- stíll flokkast þó undir einkalíf því stíllinn snertir aðeins eigin velferð en ekki annarra. Truflaður matar- stíll kemur hinsvegar í veg fyrir andlega starfsemi mannsins. Sið- fræði matarlystar snýst því um að gera manninn andlega sterkan. Agi á líkamanum merkir meira svigrúm fyrir andann. Þessi sið- fræði er einföld og hvílir á þremur þáttum: 1. Snæða ævinlega á tilteknum tímum dagsins. Hversu oft það er fer eftir persónum og stíl. 2. Borða aldrei á milli mála. 3. Eta hæfilega í sérhvert sinn. Þetta eru aðeins þrjár reglur án allra öfga eða fyrirmæla. Siðfræð- in er ekki smámunasöm, hún setur aðeins almenna mælikvarða, og það er allt sem þarf. Gott er að hafa mikinn mat og marga helgidaga - en það verður sennilega leiðigjarnt til lengdar - nautnin fjarar út. Freistingarnar eru vissulega margar og það má upplifa ákveðna tegund af sælu þegar fallið er fyrir krás. En það er meiri sæla að standast freisting- una en að falla fyrir henni! Sjálfs- og mataragi er góður fyrir andlega heilsu og þroska manna. Andlegt afreksfólk býr iðulega yfir sterkum sjálfsaga sem inniheldur matarreglur. Enginn skyldi þó van- meta undantekningarnar: Fá- mennur hópur andans manna og kvenna er matgráðugur, meðal annarra er Davíd Hume (1711- 1776) heimspekingur, sagnfræð- ingur og mathákur. SJÁLFSAGINN ER NAUÐSYN Svar siðfræðinnnar við höfuðlest- inum matvísi er m.ö.o. sjálfsagi og regla. Birtingarformið er að gera góðar matarvenjur að lífsreglu sem ekki má brjóta. Fyrrverandi svelgur verður nefnilega á svip- stundu svelgur aftur ef hann fellur fyrir freistingum á röngum tíma. Þetta er hart og getur verið sárt, en svona er lífið. Það er heldur ekkert grín að vera átvagl. Málið er að njóta sjaldnar og betur á réttum tíma. Hafa ber í huga tíðni matartíma, magn matar og hraða áts. Sjálfráð hegðun er viðfangsefni siðfræðinnar og því fellur át undir siðferði, þótt það sé yfirleitt prívat reynsla. Sjálfsaginn er nauðsyn og þegar þeir sem eiga við sjúkdóma að stríða sökum matarlystarinnar læknast, verða einnig þeir að temja sér sjálfsaga í matarvenjum og siðum. SIÐFRÆÐI MATARLYSTAR er viðamikil fræðigrein þar sem ýmsar háttskrifaðar dyggðir koma við sögu, ásamt hættu- legum löstum fyrir sál og lík- ama. Siðfræði má nota til að öðlast sjálfsaga og til að temja holdlegar fýsnir. Hér er veitt agnarsmá innsýn í þessi þýð- ingarmiklu viðfangsefni. Siðfræðin er ekki smámunasöm en hún á mælikvarða til að herða sjálfsagann. Það vegur þungt að vera léttur.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.