Morgunblaðið - 17.03.2005, Page 39

Morgunblaðið - 17.03.2005, Page 39
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 17. MARS 2005 39 MINNINGAR lýst. Hann kunni að njóta lífsins. Ár hvert höfum við fagnað nýju ári saman. Það verða erfið áramót í ár, þegar hvorki afa né mömmu nýtur við, þau stuðboltafeðginin hafa alltaf haldið uppi fjörinu. Afi átti það til að hverfa inn í herbergi og koma út aftur með bleika hárkollu á höfðinu og tennur upp í sér, viðstöddum til ólýs- anlegrar kátínu. Sá gamli sat svo grafalvarlegur með þessa dýrð á sér, það sem eftir lifði kvölds. Ömmu fannst nú stundum kannski nóg um. Krakkarnir mínir höfðu á orði þegar afi Jói hafði kvatt, að nú væru hann og amma Dóra að fíflast í englunum. Ég kýs að trúa því. Að minnsta kosti mun engin lognmolla verða í himnaríki, nú þegar englar Guðs hafa fengið þau feðginin í sitt lið. Mér er þakklæti efst í huga. Þakklæti fyrir að hafa fengið að vera samferða afa hluta leiðarinn- ar. Ég kveð afa minn í Guðs friði og votta elsku ömmu, eftirlifandi börn- um og tengdabörnum mína dýpstu samúð. Kristín. Elsku afi minn. Það er óhætt að segja að mikill snillingur sé nú fallinn frá. Það var alltaf gaman að hitta þig. Þú varst ávallt kátur og skemmtileg- ur. Þú varst atorkusamur, umburð- arlyndur, hógvær og ósérhlífinn og það var aðeins hluti af þeim fjölda dygða sem prýddu þig. Það var ekki hægt annað en að dást að þér. Þú varst mér svo sannarlega góð fyrir- mynd og vinur og fyrir það er ég af- skaplega þakklátur. Þú kunnir svo sannarlega að segja sögur og skemmtileg þótti mér sagan um forfeður okkar Geiteyinganna sem smíðuðu sér vængi úr fjöðrum og notuðu til að fljúga á milli eyjanna í Breiðafirðinum. Mér þykir vænt um flugferðina sem við fórum í 25. júní árið 2000. Þú mættir með nákvæmt kort og við flugum yfir Breiðafjörðinn, fundum Geitareyjarnar og flugum svo yfir æskustöðvar þínar í Grundarfirðin- um. Mér þykir líka afskaplega vænt um daginn þegar ég heimsótti ykkur ömmu í fyrsta skipti í einkennisföt- unum og sá móttökurnar og ham- ingjusvipinn sem blasti við mér. Tak- markinu hafði verið náð. Elsku afi, það er erfitt að þurfa að kveðja þig og horfa á eftir þér í annan heim þrátt fyrir að þú hafir verið á 85. aldursári. Það eru svo margar góðar minningar tengdar þér. Flugelda- pakkarnir sem þú gafst okkur barna- börnunum á áramótunum, súkkulaðið á páskunum, kleinurnar sem þú steiktir fyrir ömmu og við borðuðum af bestu lyst, hafragrauturinn sem þú eldaðir fyrir okkur og margt fleira. Þegar ég varð eldri og keypti íbúð mættir þú að sjálfsögðu einna fyrstur manna á svæðið til að skipuleggja flísalögnina og flísalagðir heilmargt sjálfur þrátt fyrir að vera kominn á ní- ræðisaldur. Við Guðrún verðum þér ævinlega þakklát fyrir framtak þitt í þeim efnum. Það fór svo sannarlega gott orð af þér og með hlýju og skemmtilegu við- móti áttir þú svo sannarlega hug og hjörtu allra sem umgengust þig. Þess vegna finnst mér vel við hæfi að kveðja þig með þessum orðum úr Hávamálum: Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama. En orðstír deyr aldregi hveim er sér góðan getur. Þinn dóttursonur, Friðbjörn Oddsson. Nú þegar afi Jói er fallinn frá stöndum við ástvinir hans eftir með einkennileg hughrif gleði og sorgar. Glöð yfir minningunum en um leið sorgmædd að fá ekki að eignast fleiri slíkar. Afi Jói kenndi okkur svo margt í líf- inu. Það var ekki aðeins hið verklega, sem var hans sérsvið, því hann smeygði svo mörgu öðru með. Með bros í svipnum og gáska í röddinni lét hann margt fylgja. Eitt af því var að gleyma ekki að gleðjast og vera kátur. Þess vegna vildi hann ekki dvelja um of við sára þætti lífsins. Hans fas var létt, skemmtilegt og jákvætt. Hann lifði í anda orðanna sem segja: Gráti því hér enginn göfugan föður, harmi því hér enginn höfðingja liðinn; fagur var hans lífsdagur, en fegri er upp runninn dýrðardagur hans hjá Drottni lifanda. Þetta ljóð Jónasar Hallgrímssonar gerir mér kleift að minnast afa Jóa á innilegan, einlægan og skemmtilegan hátt. Afi var í senn mikill lærifaðir og höfðingi heim að sækja. Hann var mér ekki aðeins sem afi heldur líka strangur yfirmaður í múrverkinu. Þar þrælaði hann mér út heilu sumrin án þess að gefa tommu eftir. Það var erfitt þá en gott í dag. Afi Jói spurði ekki um aldur þegar hann setti mig undir stýri og kenndi mér kornungum að aka bíl. Ekki má gleyma stundunum við matarborðið á aðfangadagskvöldum sl. 25 ár á Vest- urvangnum. Þar héldu afi Jói og amma Steina uppi fjörinu og sköpuðu líflegar umræður, með hnyttnum setningum og lítillega ýktum sögum úr safni afa. Umfram allt var afi góður ráðgjafi og traustur vinur. Það var alltaf hægt að leita ráða hjá honum og aldrei kom ég að tómum kofunum. Hann var ætíð tilbúinn að veita aðstoð ef þurfti. Afi Jói hafði að geyma alla þá eiginleika sem einkenna góðan ráðgjafa. Hann var góður í samskiptum, skilningsrík- ur, þolinmóður og umburðarlyndur. Þegar litið er í sjóð minninganna, þá tala til mín atvik lífsins. Dýrmætar voru stundirnar frá æskuárum mín- um, sem ég átti með afa í eldhúsinu á Selvogsgötunni snemma á morgnana. Þar sátum við tveir og afi gaf mér allt í senn líkamlegt og andlegt fóður. Á þessum stundum finnst mér ég hafa fengið að kynnast afa Jóa eins og hann var í raun og veru. Hann deildi með mér reynslu lífsins og opnaði hug sinn og hjarta. Einnig bað hann mig að hugleiða og muna marga gagnlega þætti lífsins. Þannig var hann sér- staklega hlýr persónuleiki, heiðarleg- ur og stefnufastur. Framkoma hans var skemmtileg og hann var einstak- ur húmoristi. Afi Jói kunni þá lífsins kúnst að fá fólk til að brosa en um leið gat hann fengið það til að hugsa. Hvert sem hann fór og hvar sem hann kom var hann vel liðinn og eign- uðust hann og amma marga vini víðs- vegar um heiminn. Létt lundarfar, heiðarleiki, sterkur persónuleiki og umburðarlyndi er forsenda þess að geta byggt upp traust vinasamband við fólk í fjarlægum löndum. Þetta tókst afa á afskaplega farsælan hátt. Ég kveð afa með þakklæti í huga. Ríkur af öllu því góða sem hann kenndi mér og lagði áherslu á. Hann lifði fagra lífdaga en um leið er ég þess fullviss, að betri dagur er upp runninn, „dýrðardagur hans, hjá Drottni lifanda“. Megi minning hans vera Guði falin og styrkur hans og trú verða ömmu Steinu að leiðarljósi. Með kveðju frá litla lærlingnum hans, sem ætlar áfram að muna góð ráð meistarans. Davíð Freyr Oddsson. Elsku afi minn. Ég á erfitt með að trúa að þú sért nú farinn en þó veit ég að þú ert með okkur í anda. Það hryggir mig að vita að ég muni aldrei aftur sjá þig bíðandi í bílnum í miðbænum eftir ömmu þegar þið amma voruð að stússast og að þú komir ekki framar í heimsókn að líta eftir okkur eins og þú varst vanur að gera. En þrátt fyrir það er ég óendanlega þakklát fyrir allar þær yndislegu minningar bæði með þér og um þig. Svo margt kemur mér til hugar þegar ég hugsa til þín, eins og hvað við spiluðum alltaf mikið og ég man að þér fannst alltaf svo gaman þegar ég vann og hvað þú varst í leiðinni stolt- ur, því það varst þú sem kenndir mér að spila. Og rúmið þitt sem við kölluðum alltaf „Holuna“ sem ég skreið upp í ennþá hlýja eftir að þú fórst framúr, og auðvitað þegar við fórum til Flór- ída og vorum í vatnsrennibrautar- garðinum og ég vildi endilega fara í eina stóra rennibraut en enginn nennti að labba upp allar tröppurnar með mér nema þú, og fórum við oftar en einu sinni. Ég gleymi heldur aldrei hvað þér fannst gott að sitja í sólinni tímunum saman. Þú varst alltaf svo ungur í anda og alltaf svo hress, þess vegna voru veik- indin þín mikil viðbrigði og það braut mann niður að sjá hversu þau heftu þig líkamlega undir lokin. En nú ertu frjáls og getur farið hvert sem er án nokkurra fyrirstaðna. Þó sorginni skjóti oft upp er gott að geta kveðið hana niður með öllum góðu minningunum. Ég veit að Guð tekur á vel á móti þér, afi minn, og ég bið hann að veita ömmu og öllum öðr- um syrgjendum styrk. Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm, er verður að hlíta þeim lögum að beygja sig undir þann allsherjadóm sem ævina telur í dögum. Við áttum hér saman svo indæla stund sem aldrei mér hverfur úr minni. Og nú ertu genginn á guðanna fund það geislar af minningu þinni (Friðrik Steingr.) Kæri afi, þú munt alltaf eiga þinn stað í hjarta mínu. Bið að heilsa Dóru frænku. Þín Alexandra Fanney Jóhannsdóttir. Elsku afi minn og vinur minn. Þá ertu farinn frá okkur, það er erfitt að hugsa til þess að geta ekki hringt til þín eða að eiga það fyrir víst að geta komið heim til þin í vínarbrauð og kaffi. Mikið er ég þakklátur fyrir að hafa kynnst þér eins vel og ég gerði. Það er ómetanleg lífsreynsla sem ég varð að- njótandi og upplifði með þér í gegnum vinskap, vinnu og hestamennsku. Elsku afi minn, ég lærði svo mikið af þér, það var alveg sama hvað þú gerðir, þú varst alltaf fyrirmynd mín í einu og öllu. Þú varst ekki bara afi minn heldur varstu minn besti vinur, það sem við áttum saman var alveg einstætt og mun ég geyma það með mér um aldur og ævi. Þú varst alltaf svo bjartsýnn, afi minn, og jákvæður. Ég mun aldrei gleyma þeim degi sem þú og amma komuð í afmælið til Hnotu litlu, alla leiðina til Flórída, þú hafðir svo gaman af því. Ég er svo þakklátur þér og ömmu fyrir að hafa komið þennan dag, það var alveg dæmigert fyrir þig að koma okkur svona á óvart. Afi minn, ég þakka þér fyrir allar okkar góðu stundir saman, þín er sárt saknað af öllum. Mikið er ég feginn að hafa getað komið með Hnotu litlu heim um dag- inn til að kveðja þig og þakka þér fyrir allt. Amma mín, pabbi og mamma, þið hafið staðið ykkur eins og hetjur í veikindunum hans afa. Guð geymi ykkur og þakka ykkur fyrir. Ég veit að nú hefur þú aftur end- urheimt bæði þrek og þrótt til að geta notið hestamennskunnar og ef ég þekki þig rétt þá ertu búin að fara á bak Kela og taka reiðtúr með Hann- esi á Nasa sínum. Ég kveð þig að sinni, elsku afi minn. Birgir. Ég er svo ótrúlega heppin að hafa átt þig fyrir afa. Þó að þú sért farinn frá okkur ertu svo sannarlega ennþá hér og lifir með okkur öllum. Þið amma Steina eigið þrettán barna- börn, tuttugu og tvö barnabarnabörn og eitt barnabarnabarnabarn, sann- arlega myndarlegur hópur afkom- enda, hópur, sem á því láni að fagna að vera heilbrigður og hraustur. Það eru forréttindi að hafa marg- sinnis fengið ykkur ömmu í heimsókn til okkar Ödda og barnanna í útland- inu. Minningarnar ylja mér svo sann- arlega um hjartarætur og ég er svo þakklát fyrir allar þær frábæru og góðu stundir sem við áttum saman. Elsku amma mín, ég veit að þetta hlýtur að vera erfitt fyrir þig. Hugg- aðu þig við það að nú hafa faðir og dóttir komið saman á ný og ég veit að mamma hefur hinkrað eftir afa til þess að þau gœtu gengið í gegnum hlið eilífðarinnar saman. Brynja Einarsdóttir. Mig langar að minnast afa míns í nokkrum orðum. Þú, afi minn, varst sá fyrsti sem sást mig og hélst á mér þar sem þú tókst á móti mér inn í þennan heim. Ég var nú aldrei mikil hestakona en mér þótti samt gaman að fara með þér í hesthúsið og í reiðtúra. Þú tókst Huldu mína með þér í hestamennsk- una og er hún þakklát fyrir það. Alltaf komst þú á morgnana til mín úr húsunum og fékkst þér kaffi og kökur hjá mér. Við gátum þá setið og spjallað um allt, og þú takandi í nefið. Oft var ég að hugsa um að sópa upp tóbakinu sem lenti á gólfinu og geyma ef þú yrðir einhvern tímann tóbaks- laus. Ingvari mínum fannst nú ekki heldur leiðinlegt að fá í nefið hjá þér og gekk með tóma tóbaksdós í vas- anum og þóttist taka í nefið aðeins tveggja ára. Þér fannst líka ómögu- legt að ég væri bíllaus og komst þá oft á föstudögum og lánaðir mér Porche- inn yfir helgina. Börnunum mínum fannst það nú heldur flott að fá að vera á Porche-inum (sem var Lada Samara). Elsku afi minn, ég þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og börnin mín og fyrir að vera til staðar fyrir okkur. Ég elska þig og sakna þín. Þín afastelpa, Bryndís Sigurðardóttir. Mig langar að minnast og kveðja langafa minn með fáeinum orðum. Ég er ein af þeim sem voru svo heppin að fá að kynnast manni eins og afa Jóa. Það eru ekki allir sem fá að upplifa það að eiga margar minningar með langafa sínum. Afi minn, þegar ég hugsa til þín þá kemur mynd upp í hugann af þér á hestbaki, svo reistur og flottur á Ind- jána-Skjóna. Þér fannst mest gaman að ríða geyst á góðu tölti og ekki þótti mér leiðinlegt að vera við hlið þér og hafa Bigga frænda líka. Þá sagðir þú að við værum eins og skytturnar þrjár. Ég hugsa mikið til þess tíma þegar ég, þú, Hannes heitinn, Björn, Biggi og pabbi Þröstur fórum á sumrin á Flúðir að ríða út og fara í hestaferðir. Mikið var gaman hjá okkur. Hannes heitinn gat sagt okkur sögur af stað- arheitum, og þú gast nú kryddað þær sögur, Biggi frændi í vandræðum með Stjarna og við hin skellihlæjandi. Ég er mjög þakklát fyrir allar stundirnar okkar saman. Kannski, afi minn, er það þér að þakka að ég bý með hestamanni og fæ að upplifa bernskudrauminn að fá að lifa með hestum. Mér þykir vænt um það að á síðasta ári komstu austur til okkar og tókst auka skó með, því þig langaði að kíkja í hesthúsið. Ég veit að þú átt eftir að fylgjast með okkur og líður mér vel að hugsa til þess. Elsku afi, ég veit að amma saknar þín mikið og ég veit líka að þú átt eftir að vaka yfir henni og vernda. Haustið sem við kvensurnar fórum til Danmerkur sá ég hvað amma er skotin í þér. Við sátum saman að syngja og hlæja þegar ég sé að amma tekur upp veskið sitt og fer að skoða passamynd af þér. Hún saknaði þín. Amma mín, guð geymi þig og styrki. Afi minn, takk fyrir allt. Þitt langafabarn Hulda Dóra. Allir hafa sinn tíma. Látinn er Jó- hann Lárusson, múrarameistari. Honum kynntist ég fyrst árið 1954 í gegnum ættartengsl konu minnar Sólveigar og konu hans Steinþóru en ömmur þeirra voru systur. Er við Sólveig hófum byggingu húss okkar hér í Hafnarfirði var leitað til Jóhanns sem ráðgjafa og múrara- meistara. Það var okkar lán. Hann, með sinni bjartsýni og ljúfmennsku, leiddi það verk farsællega. Aldrei kom reikningur frá honum fyrir unn- in verk en vinnubýtti voru þá viðhöfð sem dugðu, alla vega okkar í milli, sem ég nú þakka. Er kom að múrverki kenndi Jó- hann mér handtök sem dugðu mér til þess að pússa húsið að mestu utan sem innan. Ég man að hann sagði: „Þú ert bara góður leikari,“ og átti þá við múrverkið. Jóhann var oft spaug- samur. Sagði vel frá mönnum og mál- efnum. Hann gat þó verið fastur fyrir og stundum nokkuð þver, hafði rök fyrir því. Hestamanninum Jóhanni kynntist ég ekki en heyrði hann oft tala um hestamennsku. Að leiðarlokum þökkum við Sólveig samfylgdina á liðinni vegferð. Við vottum Steinu og fjölskyldu samúð okkar. Góður maður er genginn. Ekkert líf er án dauða og enginn dauði án lífs. Sólveig og Jóhannes Páll. Eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir og afi, MAGNÚS PÁLSSON, Syðri-Steinsmýri, verður jarðsunginn frá Langholtskirkju, Meðal- landi, laugardaginn 19. mars kl. 14.00. Magnea Þórarinsdóttir, dætur, tengdasynir og barnabörn. Hjartans þakkir til ykkar allra sem veittuð okkur ómetanlega hjálp og stuðning og sýndu okkur samúð og vináttu vegna andláts og útfarar ást- kærs eiginmanns, föður, tengdaföður, sonar, tengdasonar, afa, bróður og mágs, GESTS ÞÓRARINSSONAR, Urðarbraut 4, Blönduósi. Sérstakar þakkir til læknanna Bjarna og Þorsteins og annars starfsfólks á gjörgæsludeild Landspítala Hringbraut. Ragnhildur Helgadóttir, Helgi Sigurður Gestsson, Kristjana Björk Gestsdóttir, Steingrímur Kristinsson, Þórarinn Almar Gestsson, Helga Kristín Gestsdóttir, Hlynur Guðmundsson, Þórarinn Þorleifsson, Helga Sigríður Lárusdóttir, afabörn, systkini og mágfólk hins látna.  Fleiri minningargreinar um Jóhann Lárusson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. Höfundar eru: Guðlaugur Adolfs- son og Halldóra, Sigurður og fjöl- skylda.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.