Morgunblaðið - 20.03.2005, Síða 25
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 20. MARS 2005 25
leysi heimilisfeðra af erlendum uppruna í Málmey ýti undir
togstreitu og þar af leiðandi heimilisofbeldi í fjölskyldum
innflytjenda. „Konur frá fjarlægum heimshlutum segja oft
að ástæðnanna fyrir ofbeldinu sé að leita í trúnni og menn-
ingunni. Konur frá Suður-Ameríku segja að mennirnir
þeirra séu svo ástríðufullir að þeir hafi ekki stjórn á sér.
Konur í Svíþjóð og Finnlandi kenna drykkjuskap eða geð-
rænum vanda um ofbeldið. Við getum endalaust haldið áfram
að leita að afsökunum. Staðreyndin er að undirrót vandans
er valdbeiting karlsins innan fjölskyldunnar. Heimilisofbeldi
verður aldrei afsakað.“
Pia segir að Terrafem styðjist við ákveðna kenningu í
tengslum við þróun heimilisofbeldis. „Fyrsta stigið felst í því
að karlinn og konan eru jöfn,“ segir hún. „Annað stigið felst í
því að karlinn byrjar að takmarka frelsi konunnar, t.d. með
því að krefjast þess að hún gangi í ákveðnum fötum. Þriðja
stigið felst í því að karlinn heldur áfram að takmarka rými
konunnar, t.d. með því að álasa henni fyrir að búa ekki til
nógu góðan mat – henda matardisknum jafnvel í vegginn.
Konan kennir sjálfri sér um og er farin að halda að hún sé
algjörlega misheppnuð þegar kemur að næsta stigi – lík-
amlega ofbeldinu.
Fjórða stigið felst oft í því að karlinn slær til konunnar.
Hann heldur síðan áfram að takmarka rými konunnar þar til
ekkert er eftir lengur. Konurnar sjá ekki lengur tilgang með
lífi sínu – þær gera tilraun til að fremja sjálfsmorð og láta
oft lífið án þess að nokkurn tíma fréttist að ofbeldi hafi verið
beitt á heimilinu. Svo eru auðvitað dæmi um að konurnar
hafi drepið eiginmenn sína að lokum.
Best er að konur geri sér grein fyrir alvöru málsins á
fyrstu stigum ofbeldisins og alls ekki seinna en á fjórða stig-
inu. Ef karlmaður hefur einu sinni beitt konuna sína ofbeldi
eru yfirgnæfandi líkur á því að hann beiti því aftur og of-
beldið verði sífellt alvarlegra.“
Pia segir að konur af erlendum uppruna leiti sér yfirleitt
síðar aðstoðar en aðrar konur. „Venjulegar sænskar milli-
stéttarkonur eru yfirleitt opnari og líklegri til að ræða fyrr
um vandann við vini og nánustu aðstandendur. Aftur á móti
höfum við orðið varar við ákveðna tregðu hjá efristétt-
arkonum við að segja frá ofbeldinu. Konur í efstu stéttum
samfélagsins eru oft hræddar um að stefna félagslegri stöðu
sinni og starfsframa eiginmannsins í hættu með því að taka
af skarið þó ekki sé nema í nánasta vinahóp sínum. Þær hafa
áhyggjur af því hvað nágrannarnir segja og áfram væri hægt
að telja.“
Endurspeglar ólíka menningu
Pia neitar því að ofbeldi gegn konum af erlendum uppruna
tengist siðum eða menningu upprunalandsins. „Ofbeldi er
ekki upprunnið í menningunni. Á hinn bóginn kemur ofbeldi
gegn konum fram með ólíkum hætti í ólíkum menningar-
heimum,“ segir hún alvarleg á svip.
„Ég veit ekki hvort þú skilur hvað ég á við. Þótt birting-
armyndirnar geti verið ólíkar eru ræturnar þær sömu út um
allan heim. Konur verða fyrir ofbeldi af því að þær eru konur
og því minni máttar. Konur verða heldur ekki aðeins fyrir
beinu líkamlegu ofbeldi. Sums staðar er konum ráðstafað í
hjónaband á unga aldri án samþykkis þeirra sjálfra o.s.frv.“
Pia er fljót að játa því að algengt sé að feður ungra
stúlkna af erlendum uppruna vilji ekki leyfa þeim að aðlag-
ast sænskum siðum. „Já – kúgun af því tagi er vandamál,“
segir hún, „og tengist náttúrulega beint feðraveldinu – því
að vilja stjórna og halda í fortíðina. Feður ungra kvenna af
erlendum uppruna vilja stundum ráða því hverjum þær gift-
ast. Oft er ekki nóg að þær giftist einhverjum frá gamla
landinu. Feðurnir vilja að þær giftist inn í ákveðnar fjöl-
skyldur eða einhverjum fyrirfram ákveðnum mönnum. Verð-
andi brúðgumar geta jafnvel verið mörgum áratugum eldri
heldur en stúlkurnar. Við skulum ekki gleyma því að við
þurfum ekki að líta lengra aftur en um nema tvær kynslóðir í
Svíþjóð til að finna svipaðar tilhneigingar feðraveldisins til
að stýra örlögum ungra, ógiftra kvenna.“
Pia er spurð að því hvort einhver einn hópur erlendra
kvenna sé í meiri þörf fyrir aðstoð en annar. „Þær sem tala
minnstu sænskuna þurfa mest á hjálp að halda,“ segir Pia
hugsi. „Þó ekki sé hægt að segja að konur frá einu landi
þurfi meiri hjálp heldur en konur frá öðru er talsvert al-
gengt að konur frá Miðausturlöndum tali ekki sænsku og
þekki þar af leiðandi lítið inn á sænskt samfélag.
Þessar konur eru ekki aðeins líklegastar til að verða fyrir
félagslegri einangrun því að þær verða fyrir mestu fordóm-
unum úti í samfélaginu sem – innflytjendur – konur og músl-
imar. Enginn hópur útlendinga á jafn mikið undir högg að
sækja í sænsku samfélagi og þessi hópur.“
„Svona lætur maðurinn minn líka“
„Við reynum að hjálpa konunum að hjálpa sér sjálfar,“
svarar Pia því til hvað Terrafem geri til að hjálpa skjólstæð-
ingum sínum. „Við tökum ekki ráðin af þeim. „Ég veit ekki
hvað ég á að gera. Segðu mér hvað ég á að gera?“ segja sum-
ar þegar þær koma til okkar í íbúðina. Við reynum alltaf að
koma þeim í skilning um að þær verði sjálfar að taka ákvörð-
un um hvernig þær vilji bregðast við ofbeldinu. Við fylgjum
þeim á sjúkrahús í læknisskoðun, útvegum þeim athvarf,
stöppum í þær stálinu á erfiðum stundum og útvegum þeim
ráðgjafa eða lögfræðinga ef þær taka ákvörðun um að fara
frá ofbeldismönnunum.“ Pia fór sjálf að vinna fyrir Terrafem
í framhaldi af því að hún varð fyrir ofbeldi af hálfu fyrrver-
andi eiginmanns síns fyrir nokkrum árum. „Stundum segi ég
konunum frá minni eigin reynslu og þar með reynslu svo
margra annarra kvenna af heimilisofbeldi. Ég segi þeim frá
því hvernig fyrrverandi eiginmaður minn fór að stjórna því
hverja ég umgekkst af því að hann gat ekki umborið suma
vini mína, hvernig ég klæddist, hvenær ég kom heim o.s.frv.
„Guð minn góður,“ segja konurnar oft á meðan á frásögninni
stendur. „Svona lætur maðurinn minn líka.“ Ég veit vel að
þær segja satt því að mynstrið er alltaf mjög svipað. Eftir að
hafa farið í gegnum þessa umræðu fara konurnar að átta sig
á því að þær hafa ekkert gert af sér heldur eru fórnarlömb.
Eftir að hafa séð aðstæður sínar í nýju ljósi ákveða þær
oftast að fara frá eiginmönnum sínum. Ef þær átta sig ekki á
rótum vandans fara þær stundum aftur til baka til ofbeldis-
mannanna. Ég var sjálf búin að ganga um tíma til sálfræð-
ings í kjölfar tveggja sjálfsmorðstilrauna áður en ég áttaði
mig á því hvað væri raunverlega að slökkva hjá mér lífsvilj-
ann.“
Aftur í gin ljónsins
„Að fá vinnu, fara í skóla, kynnast Svíum og sænsku sam-
félagi,“ svarar Pia aðspurð um hvað skipti mestu máli í að-
lögun kvenna af erlendum uppruna að nýju samfélagi. „Við
hugum einmitt að þessum þáttum þegar við hjálpum konum
að koma undir sig fótunum í nýju samfélagi,“ bætir hún við.
Hún er spurð að því hvort Terrafem hafi komið konum úr
mansali til hjálpar. „Nei, því miður hafa konur úr mansali
ekki komið hingað,“ segir hún „Við vildum svo gjarnan rétta
þeim hjálparhönd. Sænska lögreglan frelsaði nýlega fjórar
fjórtán ára gamlar eistneskar stúlkur úr mansali í Málmey.
Ég myndi gjarnan vilja vita hvað varð um þær eftir að lög-
reglan tók þrælasalana til fanga. Ég býst við að þær hafi ein-
faldlega verið sendar beint aftur í gin ljónsins til Eistlands.“
Pia er spurð að því hvaða áhrif hún telji að nýleg sænsk
löggjöf um bann við kaupum á vændi hafi haft á sænskt sam-
félag. „Vændislögin eru að mínu mati mjög jákvæð. Lögin
senda vændiskaupendum skilaboð um að vændi sé aldrei
ásættanlegt. Að halda því fram að vændi snúist um að kaup á
ást eða félagsskap er fjarri sannleikanum. Vændiskaup eru
ekkert annað en valdníðsla eins einstaklings á öðrum.“
Pia rifjar upp að gagnrýnt hafi verið að lögin geri ekki ráð
fyrir að vændiskonum sé refsað fyrir sölu á vændi. „Ég
svara því til að vændiskonurnar eru fyrst og fremst fórn-
arlömb. Yfirgnæfandi meirihluti kvennanna hefur leiðst út í
vændi í framhaldi af kynferðislegri misnotkun eða mansali.
Vændiskonurnar þurfa því fremur á aðstoð en hegningu að
halda. Sænsk félagsþjónustulög gera ráð fyrir því að fórn-
arlömbum afbrota skuli veitt aðstoð. Eftir að vændislögin
gengu í gildi býðst vændiskonum því aðstoð við að hefja nýtt
líf án vændis. Án þeirrar aðstoðar lenda konurnar oft á göt-
unni aftur af þeirri einföldu ástæðu að aðstæður þeirra hafa
ekkert breyst.“
’Ofbeldi er ekki upprunnið ímenningunni. Á hinn bóginn kemur
ofbeldi gagnvart konum fram
með ólíkum hætti í ólíkum
menningarheimum.‘