Morgunblaðið - 03.07.2005, Blaðsíða 11
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 3. JÚLÍ 2005 11
um útlínur annarra húsa sem liggja undir hlíð-
inni, en ekki verður byrjað að moka frá öðrum
húsum fyrr en Suðurvegur 25 hefur litið dags-
ins ljós eftir 32 ár í sinni vikurgröf. Kristín
segir að hugsanlega verði þó byrjað að ryðjast
inn götuna í sumar, og hugsanlega byrjað á
næsta húsi, þótt það velti allt á því fjármagni
sem fæst. Í haust verði svo gengið frá öllu eins
og best er hægt, og áframhald verksins geymt
til vors.
Það liggur ekkert á að klára þetta verkefni,
og segir Kristín að gangi allt að óskum gæti
það staðið yfir næstu 8–10 sumur. Í raun sé
bara betra að taka því rólega, því það sé fyrir-
hugað að bjóða
ferðamönnum að
hjálpa til við
moksturinn, það
gæti verið ein-
stök upplifun að
prófa eitthvað
þessu líkt og um
að gera að bjóða
öllum sem vilja
taka til hendinni
að vera með.
Jarðvegur
bundinn til að
hindra fok
Mikið verk er
að binda jarðveg-
inn þannig að
vikur fjúki ekki
yfir nálæg hús,
og voru áhyggjur
nágranna af
raskinu ástæða
þess að byrjað
var á þessu til-
tekna húsi en
ekki einhverju
nær byggðinni,
segir Frosti
Gíslason, fram-
kvæmdastjóri
umhverfis- og
framkvæmda-
sviðs bæjarins.
Til þess að binda vikurinn er rutt upp garði í
útjaðri framkvæmdasvæðisins og hann þakinn
með grasþökum svo ekki fjúki.
Vikurinn sem hreinsaður er frá húsunum er
svo fluttur með vörubílum í gamla malarnámu
þar sem hann bíður þess að vera notaður sem
undirlag undir vegi eða hús. Frosti segir að á
næstunni verði sérstaklega hugað að öryggi í
kringum vinnustaðinn, og komið upp betri
merkingum ofan við svo að enginn fari sér að
voða með því að hrapa fram af grasbrúninni
ofan í gryfjuna.
að grafa upp hús
Bærinn leit talsvert öðruvísi út í júlí 1967 en hann gerir í dag. Húsin við Suðurveg eru neðst til
hægri á myndinni, og húsið númer 25, sem farið er að grilla í, er neðst í hægra horninu.
" %
!"#$
!
brjann@mbl.is
Morgunblaðið/Sigurgeir
VIKURFALLIÐ fyrstu daga gossins bjargaði
trúlega húsunum við Suðurveg sem grafa á
upp, en þau voru svo til komin í kaf þegar
fjallið fór allt af stað og rann yfir húsin. Ef
þau hefðu ekki verið grafin í vikur hefðu þau
trúlega gjöreyðilagst þegar tugir tonna af
vikri og grjóti runnu yfir svæðið.
Páll Zóphóníasson var bæjartæknifræð-
ingur þegar gosið varð árið 1973, og síðar
annar framkvæmdastjóra Viðlagasjóðs Ís-
lands, og hann man vel eftir aðdraganda eld-
gossins og afleiðingum. Hann segir þó að
það sé ekkert tilfinningamál fyrir sig tengt
því að grafa upp húsin, hann hafi ekki verið
úr þeim bæjarhluta og hafi því ekki þekkt
húsin sjálfur.
Það tók aðeins um viku fyrir húsin við
Suðurveg að hverfa undir ösku og vikur sem
rigndi yfir hverfið þegar vindáttin stóð yfir
bæinn. Þegar líða tók á gosið fór fjallið að
byggjast upp, og varð í raun hærra heldur
en undirstaða þess þoldi, og endaði með því
að neðsti hluti fjallsins tók að skríða fram,
rann í raun undan eigin þunga, og á einni
nóttu sléttist verulega úr fjallinu þegar það
flæddi yfir bæinn og nágrenni hans.
Gömul hugmynd
Hugmyndin um að grafa upp húsin var
sett inn í aðalskipulag fyrir árin 2002–2014,
en Páll var annar tveggja sem vann það
skipulag. Hann segir þó að hugmyndin sé
mun eldri, og hann ekki upphafsmaður henn-
ar.
„Það var alltaf talað um að gera þetta, en
aldrei vitað hvernig ætti að standa að því.
Menn hafa alltaf öðru hvoru talað um hvern-
ig ætti að gera þetta, og það kom strax upp
andstaða þeirra sem voru fluttir í húsin í ná-
grenni við uppgraftarsvæðið, það varð að
gera þetta þannig að það væri í sátt og
samlyndi við alla,“ segir Páll.
Páll Zóphóníasson (t.h.) var bæjartæknifræðingur á meðan gosinu 1973 stóð og sýndi hann
m.a. Olof Palme, þáverandi forsætisráðherra Svíþjóðar (fyrir miðju), aðstæður í Vest-
mannaeyjum ásamt Sigurði Þórarinssyni jarðfræðiprófessor.
Vikurfallið bjargaði húsunum þegar fjallið hrundi
FJÖLSKYLDAN sem bjó í húsinu við
Suðurveg 19 er ósátt við áformin um að
grafa upp húsin sem grófust undir í
gosinu, og segir uppgröftinn vekja upp
erfiðar minningar, auk þess sem hann
þjóni engum tilgangi. „Þetta ýfir upp
gömul sár, það er nú bara það sem
þetta gerir,“ segir Gísli Eyjólfsson.
Hann og Hildur Káradóttir kona hans
komu sér fyrir í Kópavoginum haustið
eftir gosið, enda var ekki neitt fyrir þau
að gera í Eyjum, börnin þrjú komin í
skóla, Gísli kominn í vinnu og lífið farið
að ganga sinn vanagang. Engu að síður
er minningin um eldgosið á Heimaey
fersk í minni þeirra, og eru þau sam-
mála um að áformin um að grafa upp
húsin við Suðurveg ýfi upp gömul sár.
„Úr því þetta var ekki gert strax
finnst mér að þetta ætti bara að fá að
vera í friði. Ég get ekki séð að það sé
neitt gaman fyrir fólk að labba í gegn-
um rústir. Auk þess brann þakið af hús-
inu okkar í það minnsta,“ segir Gísli.
Misstu húsið, nágrannana og umhverfið
Hildur tekur í sama streng: „Það er
ólýsanlegt að missa allt svona, ganga
bara út frá öllu saman. Það er ekki bara
húsið, það eru líka nágrannarnir sem
maður var búinn að vera með, og um-
hverfið. Þetta er ansi mikið, og þetta
kemur aldrei aftur. Það fyrnist auðvitað yfir
þetta, en svo rifjast þetta upp núna.“
Hún segir að fjölskyldan öll sé á móti upp-
greftrinum, bæði þau hjónin og börnin þeirra
þrjú, sem voru 16, 14 og 5 ára gömul þegar
þau þurftu að flýja Vestmannaeyjar í gosinu.
„Við erum afar ósátt við þetta, öll fjölskyldan.
Af hverju má þetta ekki vera í friði úr því
þetta fór nú svona? Okkur langaði aldrei að
fara úr Eyjum en úr því svona var væri ósk-
andi að þetta fengi að vera í friði. Við byggð-
um þetta hús upp frá grunni, og unnum í því
eins og allt ungt fólk gerir, og það eru ýmsar
minningar sem er svolítið verið að róta í.“
Minningar fjölskyldunnar af gosinu eru
enda hrikalegar. Húsið var aðeins um einn
kílómetra frá sprungunni, og þau horfðu á
jörðina rifna í sundur út um gluggann, áður
en þau drifu krakkana í föt og flúðu úr hús-
inu. Miklu af innbúinu var bjargað síðar þegar
Gísli fór aftur til Eyja og var þar í tvær vikur
við björgunarstörf, þótt ýmislegt hafi orðið
eftir. Meðal þess sem þó var bjargað voru
myndir af veggjum og myndaalbúm, og segj-
ast þau hjón afar fegin því, enda í þeim fólgin
verðmæti sem aldrei verði bætt.
Gæti orðið slysagildra
Auk þess sem uppgröfturinn hefur ýft upp
gömul sár varar Hildur við því að svæðið geti
orðið slysagildra. Bæði verði hátt niður af
brúninni niður á botn gjótunnar sem verður
grafin upp, en auk þess verði alltaf hætt við
að skriða fari yfir þá sem eru að skoða rúst-
irnar, eða að veggur gefi sig og falli á fólk.
„Ég sé bara engan tilgang í því að ferðamenn
séu að þvælast þarna inn og út um þessar
rústir.“
Gísli Eyjólfsson og Hildur Káradóttir eru síður en
svo hrifin af því að grafa eigi upp húsin við Suður-
veg, enda segja þau uppgröftinn vekja upp á nýjan
leik erfiðar minningar úr gosinu.
Uppgröfturinn ýfir upp gömul sár