Morgunblaðið - 03.07.2005, Qupperneq 26
26 SUNNUDAGUR 3. JÚLÍ 2005 MORGUNBLAÐIÐ
ferðir við að elda hefðbundna ís-
lenska rétti, t.d. sagði hann ekki orð
þegar ég tók mig til og steikti lifra-
pylsukepp til að hita hann upp í stað
þess að borða hann kaldan. Ég var
nefnilega ekki vön því að borða kjöt-
rétti kalda. Ég komst ekki að því
hvað fólki fannst um eldunaraðferð
mína fyrr en vinur okkar lýsti því
fyrir mér af tilviljun hvað steikt
lifrapylsa væri hræðilega vond.“
Eftir tveggja mánaða veru á Ís-
landi hélt Anh-Dao aftur til Banda-
ríkjanna til að ljúka BA-náminu.
„Fjarsamband á milli Bandaríkj-
anna og Íslands var mjög erfitt á
þessum tíma. Ekki var hægt að
senda tölvupóst og símasamband
var bæði flókið og dýrt. Ég man að
þegar ég var að vinna með 2,5 doll-
ara á tímann kostaði hver mínúta til
Íslands 5 dollara,“ segir Anh-Dao og
tekur fram að ekki hafi verið um
annað að ræða en að hún flytti til Ís-
lands til að láta reyna á sambandið
eftir að hún lauk námi. „Ég gat vel
hugsað mér að búa í öðru landi en
Bandaríkjunum. Eftir að ég flutti
frá Víetnam hafði ég hvort eð er
ekki á tilfinningunni að ég ætti raun-
verulega heima á einhverjum sér-
stökum stað. Við Jónas vorum líka
sammála um að betra væri að við
byggjum einhvers staðar þar sem
annað okkar ætti rætur heldur en
hvorugt. Ég var tilbúin til að láta
reyna á að búa á Íslandi, kynnast
bakgrunni Jónasar, tungumálinu og
menningunni.“
Íslendingar og Víetnamar líkir
– Hvernig var þér tekið á Íslandi?
„Mjög vel,“ svarar Anh-Dao að
bragði. „Fjölskylda Jónasar reynd-
ist mér sérstaklega vel. Ég fann
heldur ekki fyrir andúð eða for-
dómum úti í samfélaginu. Fyrst þeg-
ar ég kom til Íslands fyrir 25 árum
bjuggu fáir útlendingar á Íslandi.
Ég átti eina vinkonu frá Taílandi.
Henni fannst fólk glápa mikið á sig
þegar hún fór út með manninum sín-
um á kvöldin. Ég tók aldrei sér-
staklega eftir því hvort fólk væri að
glápa á mig og kunni strax vel við
Íslendinga. Satt að segja finnst mér
ýmislegt líkt með Íslendingum og
Víetnömum. Rétt eins og Íslend-
ingar eru Víetnamar að mörgu leyti
hjátrúarfullir, þeir eru líka vinnu-
samir og gera sér ekki óþarfa rellu
yfir smáatriðum. Víetnamar eru líka
fremur afslappaðir gagnvart trúar-
brögðum og láta sér yfirleitt í léttu
rúmi liggja þó börnin þeirra taki
þátt í kristindómsfræðslu og ýmsum
trúarlegum uppákomum í íslenskum
skólum,“ segir Anh-Dao og neitar
því ekki að aðlögunin að Íslandi hafi
líka átt erfiðar hliðar. „Ég hef alltaf
verið sjálfstæð og framkvæmt það
sem mér hefur dottið í hug. Fyrst
eftir að ég flutti hingað fannst mér
erfitt að þurfa alltaf að vera að bíða
eftir Jónasi til að geta framkvæmt
hugmyndir mínar. Eftir að hafa lok-
ið háskólanámi var líka mikið áfall
fyrir mig að átta mig á því hvað ég
var ósjálfbjarga án tungumálsins –
skyndilega var ég aftur orðin ólæs
og nánast ósjálfbjarga í samfélag-
inu.“
Innflytjendakonur öðlist rödd
Anh-Dao og Jónas héldu til frek-
ara náms í Bandaríkjunum eftir
stutta dvöl á Íslandi. Anh-Dao sneri
til baka með MA-gráðu í kennslu-
fræði heyrnleysingja og Jónas með
MA-gráðu í hagfræði árið 1984. Eft-
ir að hafa m.a. stundað nám í ís-
lensku og kennslu á grunn- og fram-
haldsskólastigi lá leið Anh-Dao aftur
til Bandaríkjanna árið 1999. „Jónas
fékk Fulbright-rannsóknarstyrk og
kaus að vinna rannsóknarverkefni
við Georg Washington University.
Ég ákvað að fara með honum til
Bandaríkjanna og vann hjá eins
konar asísk-amerískum samtökum
„Asian American Leadership,
Empowerment and Development.“
Starf mitt, sem aðstoðarfram-
kvæmdastjóri samtakanna, gekk að-
allega út á að efla sjálfsmynd fá-
tækra mæðra og barna í þeim
tilgangi að ýta undir að börnin færu
í háskólanám.“
Eftir að Anh-Dao flutti aftur til
Íslands hafði hún áhuga á að nýta
reynslu sína frá því í Bandaríkj-
unum í samfélagi innflytjenda á Ís-
landi. „Engin hreyfing komst þó á
málið fyrr en mér og nokkrum öðr-
um konum af erlendum uppruna var
boðið á ráðstefnu um menntun, laga-
og vinnuumhverfi innflytjenda-
kvenna á Norðurlöndunum á vegum
Norðurlandaráðs í Ósló árið 2002. Á
þessari ráðstefnu rann upp fyrir
mér að í rauninni hefðu innflytj-
endakonur á Íslandi engan vettvang
til skoðanaskipta. Ég óskaði því eftir
því í niðurlagi ráðstefnunnar að fá
aðstoð Norðurlandaráðs við stofnun
Samtaka innflytjendakvenna á Ís-
landi. Málið fór svo á hreyfingu þeg-
ar boðað var til annarrar ráðstefnu
fyrir innflytjendakonur í Málmey
árið 2003. Ég miðlaði hugmyndinni
til íslensku þátttakendanna og í
framhaldi af því fengum við nokkrar
norsk-indversku baráttukonuna
Rachel Eapen Paul til að aðstoða
okkur við grunnvinnuna við stofnun
samtakanna. Samtök kvenna af er-
lendum uppruna voru svo stofnuð á
Íslandi í nóvember árið 2003.“
Anh-Dao var fyrsti formaður
Samtaka kvenna af erlendum upp-
runa. Hún segir að meginmarkmið
samtakanna sé að stuðla að því að
rödd innflytjendakvenna heyrist í
samfélaginu. „Ég eyddi miklum
tíma til að byrja með í að ná sam-
bandi við konur af ólíkum uppruna.
Ég komst fljótt að því að besta leiðin
til að ná sambandi við þær væri að
hringja til hverrar og einnar. Aðrar
leiðir báru yfirleitt lítinn árangur,“
segir Anh-Dao. „Innflytjendur á Ís-
landi eru yfirleitt mjög uppteknir –
ekki síst konurnar sem vinna oft
langan vinnudag og bera oftast
meginábyrgðina á börnunum og
heimilishaldinu.“
Heiðrún Giao-Thi, 14 ára dóttir
Anh-Dao og Jónasar, rekur inn nefið
í borðstofuna áður en hún er aftur
horfin á vit félaganna í rigningar-
suddanum fyrir utan. Eftir örstutt
hlé er Anh-Dao spurð að því hvort
eitthvað sérstakt brenni á konum af
erlendum uppruna á Íslandi sem
hópi. Á meðan hún hellir aftur í boll-
ana rifjar hún upp fund sinn með
nokkrum konum frá Filippseyjum.
„Ein þeirra hafði unnið í sama fyr-
irtæki í 8 ár við góðan orðstír. Hún
hafði tekið eftir því að hópur ungs
íslensks fólks hafði verið ráðinn í
fyrirtækið og hafði áhyggjur af því
að ráðning þeirra ylli því að hún
missti vinnuna. Hún var svo langt
leidd af þessum áhyggjum sínum að
hún var farin að velta því fyrir sér að
leita að annarri vinnu til að koma í
veg fyrir að hún stæði skyndilega
uppi atvinnulaus. Slíkar áhyggjur af
vinnuöryggi og réttindastöðu í
tengslum við hjónabandið eru áber-
andi meðal innflytjendakvenna.
Þess vegna er einmitt svo mikilvægt
að þær hafi greiðan aðgang að lög-
fræðingi. Svo eru samtökin, eins og
félög kvenna frá ákveðnum upp-
runalöndum, líka mikilvægur
tengslavettvangur kvenna, m.a. með
tilliti til upplýsingamiðlunar og fé-
lagslegra tengsla.“
Námserfiðleikar og félagsleg
einangrun í framhaldsskólum
Eftir langan formála er loks kom-
ið að því að ræða síðustu verkefni
Anh-Dao er snúa að menntun ungra
innflytjenda af asískum uppruna á
Íslandi. „Fyrra verkefnið gengur
undir heitinu Rannsókn á þáttum
sem hafa áhrif á námsárangur
asískra nemenda 2002 til 2004,“ seg-
ir hún og tekur fram að mennta-
málaráðuneytið, Barnavinafélagið
Sumargjöf og Kennarasamband Ís-
lands standi að verkefninu. „Mark-
mið rannsóknarinnar er að skoða
námsárangur og félagslega aðlögun
ungmenna á aldrinum 14 til 20 af
japönskum, taílenskum, fil-
ippeyskum og víetnömskum upp-
runa á Íslandi. Ég er einmitt að taka
saman skýrslu með niðurstöðum úr
ítarlegum viðtölum mínum og með-
rannsakenda minna við foreldra,
skólastjórnendur og kennara um
efnið um þessar mundir. Vonandi
get ég greint frá niðurstöðunum í
haust.“
Seinna verkefnið ber heitið Fram-
tíð í nýju landi. „Eftir að ég kom frá
Bandaríkjunum fór ég að velta því
fyrir mér hvernig stæði á því að að-
eins örfá víetnömsk ungmenni hefðu
lokið framhaldsskólanámi á Íslandi,“
segir Anh-Dao. „Svo komu foreldrar
til mín og báðu mig um að veita sér
aðstoð vegna skólagöngu barna
þeirra. Endirinn varð sá að ég ákvað
að hella mér út í þetta verkefni árið
2002. Skemmst er frá því að segja að
verkefnið vatt upp á sig og varð að
lokum að samstarfsverkefni Rauða
kross Íslands, Velferðarsjóðs barna,
Reykjavíkurborgar, Alþjóðahúss,
félags- og menntamálaráðuneytisins
árið 2004. Alþjóðahús leggur til
vinnuaðstöðu og ráðgjöf vegna verk-
efnisins.“
Eins og áður segir nær rann-
sóknin til 60 víetnamskra ungmenna
á aldrinum 16 til 25 ára. Ungmennin
eru fædd í Víetnam og tilheyra því
fyrstu kynslóð innflytjenda á Ís-
landi. „Þegar grunnskólagöngunni
lýkur skila þessi ungmenni sér mun
verr í framhaldsskóla en jafnaldrar
þeirra af íslenskum uppruna. Aðal-
ástæðurnar virðast vera lítil þekk-
ing á valmöguleikum innan fram-
haldsskólakerfisins, brotakennd
íslenskukunnátta og þrýstingur á að
ungmennin afli tekna til eigin þarfa
og fjölskyldna sinna,“ segir Anh-
Dao og tekur fram að um einn fjórði
af hópnum stundi nám í framhalds-
skóla. „Öll tóku þau fram í samtali
við mig að námið reyndist þeim erf-
itt. Þau gætu illa haldið í við jafn-
aldra sína í bóknáminu og byggju
við félagslega einangrun í skól-
unum.“
Lausnin gagnleg fleirum
– Hvað er til ráða?
„Þetta er stór spurning,“ svarar
Anh-Dao og getur ekki varist brosi.
„Flest þessara ungmenna dreymir
um að læra einhverja iðn. Íslenskan
er yfirleitt stærsti þröskuldurinn á
þeirri leið. Ég er þeirrar skoðunar
að fremur en að kenna almenna ís-
lensku í grunnnáminu eins og nú er
gert ætti að samþætta íslenskunám-
ið viðkomandi iðngrein, þ.e. þannig
að erlendu ungmennin væru ekki al-
veg út á þekju þegar kæmi að því að
nota fagorð greinarinnar. Aðrar
grunnnámsgreinar væri með sama
hætti hægt að flétta inn í námsefni
hverrar iðngreinar fyrir sig, t.d. get
ég ekki ímyndað mér annað en hægt
væri að flétta námsefni í eðlisfræði
saman við bifvélavirkjun, efnafræði
inn í hárgreiðslu og áfram mætti
telja.“
Anh-Dao nefnir aðra hindrun á
vegi ungmenna af erlendum upp-
runa. „Ef nemendur ætla í iðnnám
verða þeir að byrja á því að fá sér
vinnu innan greinarinnar til að eiga
þess kost að uppfylla skilyrði skól-
ans um meðmæli frá vinnuveitanda í
iðninni. Vandamál ungmenna af er-
lendum uppruna er oft að þau hafa
ekki sömu sambönd og ungmenni af
íslenskum uppruna til að fá slíka
vinnu og þar af leiðandi nauðsynleg
meðmæli,“ segir hún og bendir á að
rannsóknir sýni að einungis rúmlega
helmingur þeirra íslensku ung-
menna sem hefji framhalds-
skólanám ljúki því með stúdents-
prófi innan 25 ára aldurs. „Ég held
að ef hægt yrði að ná samvinnu á
milli framhaldsskóla, stofnana og
vinnuveitenda um einhvers konar
stuðningslíkan til hjálpar erlendu
ungmennunum myndi slíkt líkan án
efa einnig geta nýst ungmennum af
íslenskum uppruna.“
Anh-Dao leggur áherslu á að í
framhaldsskólanáminu felist ekki
aðeins ávinningur fyrir ungmennin
sjálf og samfélagið í heild sinni held-
ur einnig til framtíðar því mennt-
unin auðveldi ungmennunum að
styðja sín eigin börn til mennta.
„Ef þau fara bara á nokkur stutt
námskeið í íslensku er hætt við því
að þau hafi fá tækifæri til að tala ís-
lensku því að oft vinna innflytjendur
láglaunastörf í hópi annarra innflytj-
enda en ekki Íslendinga. Ef ekki er
hægt að hjálpa þessum ungmennum
í gegnum framhaldsskóla er hætt
við að menntaðir einstaklingar komi
ekki upp í fjölskyldunum fyrr en
einni kynslóð eða jafnvel tveimur
kynslóðum seinna en hægt hefði
verið að stuðla að með réttum stuðn-
ingi,“ segir hún með áherslu. „Við
verðum að finna leið til að mennta
innflytjendur og koma þannig í veg
fyrir að stór hluti þeirra verði „ann-
ars flokks“ íbúar í landinu.“
Skortur á karlkyns mentorum
Einn angi verkefnisins felst í svo-
kölluðum mentora-þætti. „Mentorar
eru fullorðnir sjálfboðaliðar á vegum
Rauða krossins sem hitta ungmenni
af erlendum uppruna einu sinni í
viku, tvo til þrjá klukkutíma í senn.
Meginmarkmiðið er að mentorinn
veiti innsýn í menningu, sé góð fyr-
irmynd, stuðli að eflingu sjálfs-
myndar, aðstoði við val á námi og við
markmiðssetningu einstaklingsins.
Ekki má heldur gleyma því að sam-
skiptin geta verið mjög gefandi fyrir
mentorinn. Með því að mynda fé-
lagasamband við ungmenni af er-
lendum uppruna gefst honum dýr-
mætt tækifæri til að kynnast
upprunalandi ungmennisins,“ segir
Anh-Dao og er spurð að því hvernig
gangi að finna mentora.
„Núna erum við komin með 5 góð-
ar konur í verkefnið. Engu að síður
vantar okkur fleiri konur og svo sár-
vantar okkur karla. Ungu karlarnir
eru ekki síður áhugasamir en kon-
urnar að fá mentor.“
Ekki er hægt að sleppa Anh-Dao
án þess að spyrja hana hvort hún
telji Íslendinga fordómafulla gagn-
vart innflytjendum.
„Rétt eins og í öðrum löndum er
ekki hægt að neita því að fordómar
fyrirfinnast gagnvart innflytjendum
á Íslandi og bitna mest á fólki með
framandi útlit. Þó ég hafi sjálf ekki
orðið fyrir áberandi fordómum hafa
asískar konur til að mynda sagt mér
frá því að á vinnustöðum leyfist
þeim síður að spjalla saman heldur
en konum af íslenskum uppruna. Ég
hef líka tekið eftir því að margir Ís-
lendingar halda því fram að útlend-
ingar vilji ekki læra íslensku. Ég
held að fólk velti því sjaldnast fyrir
sér hvort og/eða hvernig komið sé til
móts við innflytjendur varðandi ís-
lenskunám.
Innflytjendur koma frá ólíkum
löndum með ólík tungumál og
menntunargrunn að baki. Sumir eru
ekki einu sinni læsir þegar þeir
koma hingað. Samfélagið verður að
gera mun betur til að koma til móts
við hvern hóp fyrir sig og alls staðar
á landinu því að þó að innflytjendur
séu skyldaðir til að læra íslensku eru
íslenskunámskeið alls ekki alls stað-
ar í boði. Mér finnst líka að gæta
verði að því að kenna lifandi tungu-
mál. Tungumál sem gagnast við
störf og daglegt líf,“ segir Anh-Dao.
„Síðast en ekki síst er mikilvægt að
veita innflytjendum tækifæri til að
nýta menntun sína og reynslu frá
því í gamla landinu, t.d. með því að
starfa í sama fagi og þeir störfuðu
við áður. Með því móti nýtast hæfi-
leikar þeirra betur og þeir eiga auð-
veldara með að styðja við bakið á
börnum sínum.“
Fyrst eftir komuna til Bandaríkjanna var Anh-Dao au-pair-stúlka hjá bandarískri
fjölskyldu. Hér er hún ásamt móðurinni Sandy og börnunum Jamie og Jeff.
Anh-Dao, 5 ára, með uppáhaldsbrúðuna sína í fanginu. Brúðan var meðal þess
sem hún varð að skilja eftir á þyrlupallinum í Víetnam. Hjá henni stendur besta
vinkona hennar og jafnaldra, Lan Huong. Hún er búsett í París.
’Ef ekki er hægt að hjálpa þessum ungmennum ígegnum framhaldsskóla er hætt við að menntaðir ein-
staklingar komi ekki upp í fjölskyldunum fyrr en einni
kynslóð eða jafnvel tveimur kynslóðum seinna en
hægt hefði verið að stuðla að með réttum stuðningi.‘
ago@mbl.is